Hvar er skandallinn?

Enn bíð ég eftir að Kastljós Sjónvarpsins sýni mér fram á meintan skandal umhverfisráðherrans vegna ríkisborgaramálsins sem vakið var þar upp fyrir helgina. Ég hélt að menn þar á bæ hefðu eitthvað meira uppi í erminni til að spila út þegar hitna færi í kolum en tíminn líður og nú er ekki hægt að draga aðrar ályktanir en þær að það hafi ekki verið nein háspil á hendi og ermin tóm. Það vantar nefnilega sjálfan kjarnann í málið: sannanir fyrir því að ráðherrann hafi beitt sér á einhvern hátt til að flýta fyrir ríkisborgararéttinum til handa kærustu sonar síns. Alla vega var ekki hægt að skilja málið öðru vísi í upphafi en því hafi verið ýtt úr vör til að koma spillingarstimpli á ráðherrann. Gott og vel, þá verður líka að fá botn í málið með því að leggja gögn um spillinguna á borðið. Ef það er ekki gert hlýtur þetta að flokkast sem skítabomba. Af slíkum bombum er alltaf mikið framboð gagnvart fjölmiðlum og fjölmiðlafólki og þá er rétt að draga andann djúpt áður en lengra er haldið, einkum og sér í lagi í aðdraganda kosninga. Það þekki ég vel sjálfur frá fyrri tíð.

Eitt slíkt mál er mér sérlega ofarlega í huga. Forystumaður úr Alþýðuflokknum hafði samband við mig að morgni dags og bauð upp á gögn til að sanna að Stefán Benediksson hefði óhreint mjöl í pokahorni. Stefán var vel að merkja genginn til liðs við Alþýðuflokkinn, hafði áður verið í forystusveit Bandalagi jafnaðarmanna frá stofnun. Hann virtist hins vegar ógna pólitískri tilveru manna úr flokkseigendafélaginu á nýja tilverusviðinu og mér var sum sé boðið upp á að ,,skúbba” með skítabombunni. Heimildarmaðurinn úr Alþýðuflokksforystunni var með pappíra og bauðst meira að segja til að hjálpa mér að matreiða fréttina svo hún yrði flugskeyti sem eftir yrði tekið. Það var deginum ljósara að þarna átti að nota mig og áhrifamátt Útvarpsfréttanna til að koma Stefáni á kaldan klaka. Óþarft var að velta vöngum lengi til að hafna kostaboðinu. Næsti kostur var þá greinilega Stöð 2 og viðfangsefni hennar í fyrstu frétt um kvöldið var Stefán Benediktsson – eftir umtalsverða heimildarvinnu að því er mátti skilja. Þá hló ég hátt heima í stofu. Kokkteillinn var bæði blandaður og hristur utan fréttastofu Stöðvar 2. Ég hafði hlustað á uppskriftina orðrétta í síma að morgni sama dags. Upphafsmaðurinn – sá sem skaut á Stefán úr launsátri – gat unað glaður við sitt. Hann náði sínu fram. Ég gat líka unað glaður við mitt, með bærilega góða samvisku en um leið með staðfestingu á hvaða karakterar eru til í pólitík og hvernig þeir vinna, fái þeir fjölmiðlaaðstoð til slíks.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband