Af slompuðum þingmönnum

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, sendi mér línu í tölvupósti í framhaldi af viðtali sem ég var í á Rás tvö í gær. Þar er svo að skilja að ég hafi troðið mér í þetta viðtal við að verja Sigmund Erni þegar hann deleraði í þingsal á dögunum og jafnvel réttlæta framgöngu þingmannsins! Nú er það svo að á Sigmund Erni var ekki minnst í þessu viðtali heldur var erindi Rásar tvö að kanna hvort ég myndi eftir góðglöðum mönnum í þingsal á þeim tíma sem ég starfaði á Alþingi sem þingfréttaritari. Flest af því sem ég man og rifjaði upp gerðist áður en Sturla var kjörinn á þing árið 1991. Fyrstu þingfréttirnar mínar eru frá vetrinum 1976-’77. Þá var Sturla sveitarstjóri í Stykkishólmi, jafnvel bæjarstjóri. Það kann því að vera allt að því eðlilegt að hann muni ekki nákvæmlega hvað gerðist á Alþingi 1976-1991 en ég man hins vegar eitt og annað, enda var ég þá löngum við Austurvöll en hann í Stykkishólmi. Viðtalið í gær, og bréf Sturlu í kjölfarið, hafa hins vegar orðið til þess að eitt og annað rifjast upp sem ég hafði gleymt. Þetta með virðingu Alþingis og allt það. Kannski fjalla ég um það frekar við tækifæri. Það er nefnilega svo að virðing Alþingis verður hvorki meiri né minni en þingið sjálft ákveður með framgöngu sinni. Sumarþingið 2009 er sjálfu sér verst og slompaður þingmaður í ræðustóli var nú bara einn bömmerinn enn.

Hér er úr bréfinu frá Sturlu og svo svarið mitt, sem var í tvennu lagi af ástæðum sem skýra sig sjálfar.

Ég hlustaði á þig í síðdegisútvarpinu í dag og varð mjög undrandi á því sem þú hafðir að segja um drykkjuskap þingmanna. Mér fannst erindi þitt í útvarpið vera það að réttlæta framgöngu hins gamla fjölmiðlamanns Sigmundar Rúnars sem varð  sér til skammar á Alþingi þegar hann tók drukkinn  þátt í umræðum um eitt flóknasta og erfiðasta mál sem þingmenn hafa fengist við. Ég vona að það sé misskilningur hjá mér að erindi þitt í útvarpið hafi verið það að verja þennan sjálfsumglaða  þingmann og fyrrum fréttahauk, en það voru fleiri en ég sem hlustuðu og höfðu sömu sögu að segja. Vafalaust hafa þingmenn verið kenndir í þingsalnum á undangengnum árum. En eitt er að koma hreyfur úr móttökum í þinghúsið en annað er að taka þátt í umræðum með þeim slætti sem var á Sigmundi þetta kvöld þar sem hann sendi spjótin í allar áttir fullur vandlætingar í garð samferðarmanna sinna.  Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að slíkri framgöngu við umræður um stórmál og mátti sjá hjá Sigmundi.

 

 Svar ARH I

Mig varðar ekkert um Sigmund Erni og framgöngu hans, hvort sem hann er fullur eða edrú. Hef ekki séð neitt úr þessari uppákomu hans fyrr en nokkrar sekúndur í sjónvarpsfréttum í gærkvöld. Þegar hins vegar var hringt í mig í gær og spurt hvort ég myndi eftir að hafa séð eða heyrt menn mjúka í þingsal svaraði ég því og laug engu. Sleppti hins vegar því grófasta því mér þykja efni standa til að halda virðingu Alþingis talsvert á lofti. Alþingismenn hafa hins vegar sjálfir verið býsna drjúgir á stundum í að
draga hana niður fyrir leyfilega flughæð, bæði fyrr og síðar. Það Alþingi sem nú situr er hins vegar botninn á tilveru þessarar samkomu frá því ég fór að fylgjast með og reyndar svo að ég get ekki ímyndað mér að gasprarar, sem detta þar óvart inn fyrir þröskuld, geti versnað við að fara fullir í ræðustól. Alþingi sem nú situr á þjóðin ekki skilið. Og hana nú.

 Svar ARH II

Ég var ekki búinn að sjá Morgunblað dagsins þegar ég svaraði þér áðan. Ég vona að þú gleymir ekki að hnýta í Kristinn H. líka, mér sýnist hann vera að vísa í sama og ég, sama tímabil á þingi. Það er aukaatriði hvaða mál er á dagskrá þegar fullir þingmenn tjá sig í ræðustóli Alþingis. Ég tjáði mig ekki orð um mál SER og mun ekki gera, enda víðsfjarri vettvangi og finn ekki nokkra þörf hjá mér til að verja manninn. Kemur hins vegar ekki á óvart að einhverjir kjósi að túlka það sem svo að með því að rifja upp kenderí í þingsalnum í gamla daga sé verið að réttlæta að Sigmundur hafi verið fullur
á þingfundi! Ég er orðinn vanur að umgangast fólk með pólítíska leppa fyrir augum og kippi mér ekkert upp við þetta. Hins vegar kann að vera að ég verði að segja söguna alla við tækifæri. Þú hefur bókstaflega kallað eftir því!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 210160

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband