Föstudagur, 16. febrúar 2007
Krónikan og ,,þessi maður"
Starfsmaður á Stöð 2 hringdi í mig eftir hádegi í gær og spurði hvort ég hefði tök á, og kærði mig um, að segja álit á Krónikunni, nýja fréttatímaritinu sem var að koma á markað. Ég gat út af fyrir sig hugsað mér það og útvegaði mér blaðið. Skemmst er frá að segja að fyrstu kynnin voru ekki sérlega heillandi, einkum og sér í lagi vegna þess að ritstjórnin hafði leyft sér þann munað að sleppa prófarkalestri. Svo var orðum skipt eftir hentugleikum en ekki reglum um íslenska tungu. Ég er nefnilega þannig gerður að gera þær kröfur til fjölmiðla að þeir umgangist íslenskuna af lágmarks virðingu. Það hefði verið sama hve efnið í þessu tilekna blaði, Króniku hefði verið spennandi. Blaðið hefði fallið á prófinu hjá mér fyrir subbulegan frágang. Það er þekkt í íslensku skólakerfi og er ekki bara mín sérviska.
Í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld var ritstjóri Krónikunnar mættur og bar sig aumlega. Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn mega nefnilega gagnrýna allt og alla en ef orði er hallað á þá sjálfa er byrjað að væla og snökta. Ég var að vísu ekki nafngreindur heldur titlaður ,,þessi maður" sem tjáði sig á Stöð 2 í gærkvöld og ég er sagður hafa haft í frammi ,,einhliða málflutning".
Þetta er nú heldur þreytt lumma en látum það vera. Tilefnið hlýtur að ráða upplifun manna hverju sini og um leið hvort sú upplifun verður einhliða, tvíhliða eða fjölhliða. Ef ritstjóra fjölmiðils gengur illa að skilja þetta er hann ekki á réttri hillu í lífinu. Fyrsta tölublað Krónikunnar var slappt en ég afskrifa ekki blaðið, síður en svo, og óska því alls velfarnaðar. Útgáfustjórnin hlýtur að taka sig á og umbrotsmennirnir að læra á forritin sín, hafi þeir á annað borð haft forrit til að skipta orðum rétt í textanum. Ritstjórinn viðurkenndi reyndar í Kastljósinu í kvöld að orðaskiptingargagnrýni ,,þessa manns" hefði verið réttmæt en að skýringin væri sú að tilheyrandi forrit hefði hrunið nóttina fyrir prentun blaðsins (!). Ég hefði nú kosið að ritstjórinn hefði bara sagt satt. Rit á borð við Krónikuna tekur marga daga í umbroti og allir góðir umbrotsmenn byrja á að renna textanum í gegnum skiptingarforrit, áður en umbrot hefst. Það er með öðrum orðum fyrsta verkið en ekki það síðasta að skipta orðum. Það kann vel að vera að forrtitið hafi hrunið nóttina fyrir prentun en á öllum venjulegum heimilum í prent- og útgáfubransanum hefði slíkt ekki haft minnstu áhrif því löngu átti að vera búið að sinna þessum hluta heimilishaldsins. Ritstjórinn kaus því að skrökva í Kastljósinu og veðja á að fólk sé fífl. Í minni sveit hefði það nú þótt heldur ljótt að reyna að ljúga sig út úr vandræðunum. Væri nú ekki nær fyrir ritstjórann að kyngja kökknum og búa í staðinn til spennandi blað í næstu viku, orðaskipt og sómasamlega prófarkalesið?
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 210540
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vegna þess að ég er hér að ofan sökuð um lygi kýs ég að svara fyrir mig.
Skiptiforritið okkar datt út kvöldið fyrir prentun af ástæðum sem ég tel óþarft að lýsa hér. Þeir sem vilja nánari lýsingu á því sem gerðist geta sent mér tölvupóst á sigridur@kronikan.is
Þetta er ástæðan fyrir því að einungis hluti af blaðinu er með línuskiptingavillum - eins og Atli hlýtur að hafa tekið eftir.
Þessu hefur nú verið kippt í liðinn og vona ég að þar með hafi tekist að útrýma línuskiptingavillum - sem og stafsetningarvillum, því ekki vannst tími fyrir síðasta lestur á þeim hluta blaðsins þar sem við vorum í sýsífusarbaráttu við skiptingarvillur.
Þar sem Steingrímur Sævarr býður ekki upp á athugasemdir við skrif hans á síðunni sinni hef ég þetta um P.S.-ið hans að segja:
Það er rétt að blaðamaður á Fréttablaðinu tók stutt viðtal við mig um útgáfu Krónikunnar á föstudaginn, daginn eftir útgáfu blaðsins, og kvöldið eftir að við hjónin ræddum við vini okkar innan 365 um þöggunina.
Þó svo að fréttin hafi verið skrifuð, vorum við samt sem áður sannfærð um að hún fengist ekki birt - sem var raunin.
Sigríður Dögg
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, 18.2.2007 kl. 13:37
P.S. Skiptiforritið er ekki tengt við Word eins og gert var í gamla daga. Það er nú tengt við InDesign forritið sjálft.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, 18.2.2007 kl. 14:30
Þessi hugmynd um skiptuna er löngu úreld, í dag er leitast við að efni og útlit hangi ekki saman, og þannig væri slæmt að setja inn skiptingamerki inn í textann sem unnið er með, sérstaklega ef pælingin er að nota hráefnið í öðrum miðlum, t.d. á netinu.
Þessvegna eru skipturnar í dag plug-in í indesign, og þau skipta textanum dýnamískt, - þannig getur það vel verið að draslið hrynji rétt áður en þarf að exporta í PDFa, og af þeim sökum verðurð blaðið ekki með réttum skiptingum. - annars er þetta fáránlegt tuð yfir tæknilegu vandamáli sem ansi margir miðlar hafa glímt við.
Annars væri svo gaman að frétta hvað lausn Krónikan notar við skiptingar, síðan indesign varð ráðandi hafa skiptingamál ekki verið auðveld, aðalega vegna þess að þetta plug-in var ekki til, og engar skiptinga reglur fyrir íslensku. - Fréttablaðið lét sérsmíða svona græju fyrir rúmu ári, en ég veit ekki hvað hinir miðlarnir gera.
Völundur Jónsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 15:12
Ég ætla ekki að lengja fróðlega orðræðu um fráganginn á 1. tölublaði Krónikunnar. Vonandi hafa allir lært sitthvað á mistökunum, það kemur í ljós í 2. tölublaði og þeim sem á eftir koma. Þetta þöggunarkjaftæði er mér hins vegar óviðkomandi og það verður Krónikuliðið að eiga beint við fjölmiðlungana á 365.
Tvennt vildi ég bara nefna í lokin til að menn gleymi því nú ekki að aðfinnslur mínar varða ekki bara forrit sem var eða var ekki, hrundi eða hrundi ekki. Aðfinnslurnar varða í hnotskurn viðhorf til prentfrágangs:
Atli Rúnar Halldórsson, 18.2.2007 kl. 15:36
Þetta svar er til Völundar:
Sæll Völundur, þetta er alveg rétt hjá þér með skiptiforritið. Við vorum einmitt svo heppin að góðir vinir okkar hjá 365 bentu okkur á þetta sérsmíðaða hollenska skiptiforrit (Woodwing) sem virkar með InDesign (NB aðeins á PC, ekki Apple). Við keyptum það og munum nota (bara af því að þú spurðir:) Það má vel vera að auglýsingastofur og hönnuðir sem lenda í vandræðum vegna þessa, geti nýtt sér þetta forrit líka, fyrst búið er að smíða það á annað borð.
Bestu kveðjur frá fyrrum kollega,
Sigríður Dögg
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, 18.2.2007 kl. 15:49
Hvernig væri að Atli Rúnar skoðaði nýjasta tímaritið Sagan öll með sömu gagnrýnisaugunum. Þar er allt morandi í skiptingarvillum, stafsetningarvillum og rangfærslum. Það er alveg sama hvar litið er, á forsíðu og í innblaði. Sem dæmi má nefna að alls staðar þar sem skrifað er um Egypta stendur Egifta, jafnt á forsíðu, inni í blaðinu og í auglýsingum til kynningar á blaðinu. Hvar er metnaðurinn á þeim bæ? Hvað segir Illugi og félagar?
Áhugamaður um blaðamennsku og útgáfu!
Jóhann (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 13:00
„Áhugamaður um blaðamennsku og útgáfu“ er einmitt það, áhugamaður. Fagmaður hefði ekki gert sig svona rækilega að fífli. Og þó .... Það er rétt sem Atli Rúnar segir. Til valda eru komnar kynslóðir sem bera lítið skynbragð á eigin tungu og er í þokkabót fjandans sama. Spekingarnir í spurningakeppni framhaldsskólanna horfðu t.d. tómum augum hver á annan þegar spyrillinn spurði hvað væri athugavert við málfar í spurningu sem fól í sér öskrandi þágufallssýki.
Þór Jónsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.