Miðvikudagur, 24. maí 2006
Pólitískar taugar bresta
Ég fékk upphringingu í morgun frá forystumanni í knattspyrnudeild Víkings sem bar mér þau skilaboð frá enn hærra settum forystumanni Víkings að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefði slegið á frest áformum um langþráðan gervigrasvöll á svæði félagsins í Fossvogsdal. Því væri rétt láta þau boð út ganga að Víkingar kysu Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn. Þessu var sem sagt komið á framfæri við mig sem formann í 5. flokki drengja í knattspyrnudeild Víkings og ég gat ekki skilið erindið öðru vísi en keflið væri komið til mín í þessu atkvæðaboðhlaupi Víkings fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Það hefur lengi staðið í stappi að fá gervigrasvöll í Víkina og ljótt væri nú ef satt væri að meirihluti borgarstjórnar væri hlaupinn frá þeirri ákvörðun að setja málið á dagskrá seinna á þessu ári og á því næsta. Hins vegar vissi ég það að framgangur málsins tafðist óvænt þegar íbúar í nokkrum húsum næst Víkingssvæðinu mótmæltu gervigrasvelli þar sem þeir óttast aukið ónæði og áreiti sem fylgir flóðlýsingu og sparki fram á kvöld. Þess vegna þarf aukin kynning til að koma gagnvart íbúunum og jafnvel athugun á því hvort færa megi gervigrasvöllinn lengra frá næstliggjandi húsum. Þetta er reyndar heimavinna sem borgin og Víkingsforystan hefði getað sinnt og unnið betur til að komast hjá þessum töfum eða klúðri, allt eftir því hvaða nöfn menn vilja gefa þessu. Það er hins vegar ansi bratt, svo ekki sé nú meira sagt, að forystumenn í Víkingi hlaupi til sjö mínútum fyrir kosningar og reyni í nafni félagsins að hagræða sannleikanum, í gervigrasmálinu á þann veg sem gert var í símtalinu í morgun, til að snapa atkvæði í kosningunum um helgina! Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér í dag að í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninganna datt inn í forstofuna hjá okkur bleðill frá stuðningsmönnum Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa, og þar voru á blaði nöfn manna úr forystusveit Víkings. Í ljósi þess sem gerðist í morgun virðist þessi stuðningsvíxill hafa fallið núna í kosningavikunni og aðinnheimtumennirnir séu komnir á kreik. Það er ljótt að skrökva og það er ljótt að misnota íþróttafélög. Og ef það skyldi nú reynast rétt - sem ég reyndar ætla ekki að trúa fyrr en ég sé það gerast - að Víkingur bjóði bæjarstjóranum í Kópavogi að vera heiðursgestur í Víkinni á morgun, þegar Víkingar mæta Breiðabliki í úrvalsdeildinni, ja þá yrði það nú bíta höfuðið af skömminni. Gamli yfirmaður minn á fréttastofu Útvarps, Margrét Indriðadóttir, kenndi okkur fótgönguliðunum að draga andann djúpt einu sinni og aftur til öryggis í vikunni fyrir kosningar til að halda kúrs í moldviðri stjórnmálaflokkanna sem einskis svífast þegar þeir fara á taugum á síðustu metrunum. Forystumönnum í mínu ágæta félagi í Fossvoginum veitti ekki af að draga andann djúpt minnst fimm sinnum og helst einu sinni enn.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.