Kosningavaðallinn kvaddur - með litlum söknuði

Morgunblaðið gerði okkur, dyggum lesendum og velunnurum, þann greiða undanfarnar vikur að birta greinaflóð frambjóðenda og atkvæðasmala með lúsarletri sem aðrir frambjóðendur og aðrir kosningasmalar reyndu að stauta sig fram úr gegnum stækkunargler til að geta svo sest niður og svarað með greinum sem Mogginn birti líka með lúsarletri. Þannig sparaði blað flestra landsmanna helling af pappír og flýtti fyrir þeim lesendum á morgnana sem vildu gjóa augum yfir annað aðsent efni en kjörprumpið. Og nú lýkur þessari smáleturstíð Morgunblaðsins á morgun og hörðustu áhugamenn um stjórnmál stinga stækkunarglerjunum upp í eldhússkáp og geyma þar til hallar að þingkosningum vorið 2007. Þá fer að blómstra á nýjan leik lýðræðisleg umræða með letri í lúsarstærð á síðum Morgunblaðsins. Þetta var settleg og pen kosningabarátta, fjandakornið að bærðist hár á höfði nokkurs staðar. Enda eru allir svo sammála inn við beinið um allt og alla að enginn útilokar samstarf við neinn annan að kosningum loknum frekar en í landsstjórninni og vesalings liðið sem kýs flokkinn sinn hefur ekki glóru um upp á hverju flokksforystan tekur þegar rennur af henni (móðurinn) á sunnudagsmorguninn. Þetta er eina landið í veröldinni þar sem kjósendur eru hafðir að fíflum alltaf og endalaust. Flokkarnir eru bara stoltir af því að vera innilega sammála um að gera það sem þeim sýnist að kosningum loknum! Það eru til dæmis afskaplega miklar líkur á að mynduð verði samsteypustjórn í höfuðborginni í næstu viku. Kjósendur hafa hins vegar ekki græna glóru um það hvaða flokkar koma þar við sögu og hvaða hnoðmör verður á borð borinn sem stefnuyfirlýsing nýs meirihluta í borgarstjórn - ekki frekar en þegar ríkisstjórnir eru myndaðar. Enda botnar ekki nokkur erlendur fréttaskýrandi eða pólitískur áhugamaður í útlöndum í íslenskri pólitík. Ekki nokkur maður ef marka má það sem ég hef séð og heyrt í dagana í erlendum fjölmiðlum um íslensk stjórnmál. Kjósendur í öðrum löndum vita yfirleitt nokkurn veginn hvers má vænta að kosningum lokum, hverjir starfa saman og hverjir ekki. Á Íslandi er hins vegar kjósendum boðið upp á svipuð býti og ef Þjóðleikhúsið færi einfaldlega að auglýsa: sýning í kvöld! Aðgangseyrir væri hirtur af áhorfendum og svo létu þeir sig hafa það þolinmóðir að bíða þar til dregið væri frá. Þá fyrst kæmi í ljós hvort á sviðinu væri að hefjast Íslandsklukkan, Skuggasveinn, Dýrin í Hálsaskógi eða Hryllingsbúðin. Ætli Hart í bak verði á fjölunum þegar dregið verður frá í Ráðhúsinu við Tjörnina í næstu viku?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reynist það rétt sem lesa má í nafnlausum pistli á dagur.net daginn eftir kjördag eru vinstri grænir sýnu grænni í Dalvíkurbyggð en annars staðar og þetta á líka einkar vel við Dalvíkurbyggðarleikhúsið: „Aðgangseyrir væri hirtur af áhorfendum og svo létu þeir sig hafa það þolinmóðir að bíða þar til dregið væri frá. Þá fyrst kæmi í ljós hvort á sviðinu væri að hefjast Íslandsklukkan, Skuggasveinn, Dýrin í Hálsaskógi eða Hryllingsbúðin“.

Þórir Jónsson (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband