Menningarstemning í Dalvíkurkirkju

Mikil stund var það og eftirminnileg þegar fulltrúar Dalvíkurbyggðar og Sparisjóðs Svarfdæla skrifuðu formlega undir samkomulag þess efnis að bæjarfélagið tæki við fullbúnu menningarhúsi á Dalvík að gjöf frá Sparisjóðnum á næsta ári. Þetta gerðist núna á föstudagskvöldið í Dalvíkurkirkju, strax að loknum aðalfundi Sparisjóðs Svarfdæla í safnaðarheimilinu þar við hliðina. Ég brá mér norður til að upplifa sögulegt augnablik og sé hreint ekki eftir því! Meira að segja tók ég myndir frá aðalfundinum og menningarsamkomunni og þær getið þið séð hér í myndaalbúmi heimilisins.

Það var réttilega mælt hjá bæjarstjóranum, Svanfríði Jónasdóttur, að Sparisjóður Svarfdæla hefur ekki aðeins skrifað sögu byggðarlagsins síns heldur landsins alls með þeirri fordæmalausu ákvörðun að færa íbúunum heilt menningarhús að gjöf. Og stjórnendur og eigendur Sparisjóðsins gerðu betur en að gefa hús á föstudagskvöldið. Menningarsjóður Sparisjóðs Svarfdæla afhenti styrki til ýmissa héraðsþrifamála, alls 5 milljónir króna sem fóru til yfir 20 verkefna. Þar við bættust svo gjafir Sparisjóðsins til Urðakirkju, 3 milljónir króna, og til hákarlasafnsins í Hrísey, 7 milljónir króna. Þeir fjármunir duga til að ljúka framkvæmdum við kirkjuna og safnahúsið.

Við sem erum viðskiptavinir Sparisjóðs Svarfdæla göngum afskaplega uppréttir og ánægðir með okkur þessa dagana. Og gleðilegt var að heyra í máli Friðriks Friðrikssonar sparisjóðsstjóra á aðalfundinum á föstudagskvöld að viðskiptavinum Sparisjóðs Svarfdæla hefur fjölgað í kjölfar frétta af menningarhússgjöfinni. Einstaklingar og fyrirtæki líka hafa þannig sagt bönkunum sínum upp og fært viðskiptin sín til Dalvíkur í þakklætis- og virðingarskyni. Það hefði ég sjálfur líka gert, svo sannarlega, en hafði bara ekki tök á að sýna hug í verki á þennan veg, einfaldlega af því ég er nógu viti borinn til að hafa verið viðskiptavinur Sparisjóðs Svarfdæla alla tíð..... 

Sparisjóðurinn hefur sýnt það í verki um árabil að hann hugsar vel um héraðið sitt og íbúa þess. Fróðlegt væri til dæmis að sjá lista yfir þau verkefni sem hann hefur komið nálægt undanfarna tvo áratugi eða svo. Ég er viss um að fæstir gera sér grein fyrir hve oft og víða Sparisjóður Svarfdæla hefur kemur við sögu og styrkir málefni af ýmsu tagi, ekki síst á sviði menningarmála, íþrótta og lista. Slíkan bakhjarl ætti byggðarlagið ekki ef þar væri útibú einhvers stóru bankanna en enginn sparisjóður. Um það þarf ekki einu sinni að ræða.

Sparisjóður Svarfdæla er vel rekinn, fjárfestir af góðu viti og skilar góðri afkomu. Það er að sjálfsögðu forsenda þess að geta sáldrað gjöfum allt um kring á hátíðarstundum og styrkt alls kyns verkefni og viðburði þar fyrir utan. Auðvitað þarf svo framsýna og færa stjórnendur til að allt gangi upp. Ekki er á neinn hallað að nefna Friðrik sparisjóðsstjóra sérstaklega til sögunnar. Það var mikið gæfuspor fyrir Sparisjóð Svarfdæla þegar Frissi var ráðinn æðsti stjórnandi þar á bæ forðum daga. Ég voga mér að fullyrða að án hans hefðu ekki skapast þau verðmæti sem gera Sparisjóðnum nú fært að vera svo rausnarlegur í gjöfum sínum að þjóðin stendur gapandi af undrun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Þessi broskall segir allt sem segja þarf, mögnuð kvöldstund

Júlíus Garðar Júlíusson, 18.3.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 210540

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband