Mega framkvæmdastjórar flokka semja um samráð í Öskjuhlíð en ekki grænmetissalar?

Til eru lög um samkeppni á markaði í landi hér og komin er dómahefð fyrir því hvað má og ekki má í þeim efnum. Fyrirtæki eru dæmd og sektuð um svimandi upphæðir fyrir ólöglegt samráð og forstjórar þeirra helst líka, ef nokkur tök eru á. Svo koma birtast framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna skyndilega kjaftagleiðir á opinberum vettvangi og tilkynna að þeir hafi komist að samkomulagi um að hver flokkur megi auglýsa í fjölmiðlum fyrir 28 milljónir króna fyrir kosningarnar í vor! Þeir hafa meira að segja ráðið fyrirtæki úti í bæ til að fylgjast með að þetta samráð þeirra skili tilætluðum árangri! Ég hélt að kominn væri 1. apríl þegar ég las þessa frétt í Mogganum í gær en það var ekki svo. Og það er heldur ekki kominn 1. apríl í dag og þá les ég hamingjuþrungna forystugrein í sama blaði þar sem þar sem þetta furðulega samráð stjórnmálaflokkanna er lofað og prísað og tekið fram að vonandi sé þetta ,,fyrsta skrefið af mörgum sem flokkarnir eiga eftir að taka til þess að koma á heilbrigðari starfsháttum á vettvangi stjórnmálanna"! Fögnuður Moggans á rætur að rekja til laga um að breyta stjórnmálaflokkunum í ríkisútgerð og samráð framkvæmdastjóra flokkanna nú - sem forystumenn í fyrirtækjum hefðu réttilega verið settir í svartholið fyrir - er víst bara heilbrigt framhald af ríkisvæðingunni.

 Fyrir það fyrsta: samráð stjórnmálaflokka um að takmarka auglýsingar er út í hött sem slíkt. Þeir sem ráða ríkjum á þessum bæjum hljóta að hafa dómgreind til að meta sjálfir hve mikla peninga þeir nota í auglýsingar hverju sinni, rétt eins og allir aðrir sem auglýsa. Í öðru lagi væri nú fróðlegt að vita hvernig flokksrekendur duttu niður á þessa mögnuðu tölu: 28 milljónir. Af hverju ekki 18 eða 38? Kom þá ekki líka til greina að vera alheilbrigður og halda alveg kjafti í auglýsingum fram yfir kosningar? Og svo í þriðja lagi, fróðlegt væri að vita hvaða viðmiðunarreglur auglýsingalögga stjórnmálaflokkanna hefur sett sér um eftirlitið. Er miðað við listaverð? Verða flokksrekendur að fara í hóp inn á auglýsingadeild Morgunblaðsins og RÚV til innkaupa svo löggan geti fylgst með að allir fái sama dílinn? Augljóst er nefnilega að sumir ná betri auglýsingasamningum en aðrir, meðal annars í gegnum persónuleg sambönd og slíkt. Svoleiðis nokkuð skapar eðlilega stórhættu á að viðkomandi nái sér í fleiri dálksentimetra og útsendingarmínútur fyrir sama prís. Taki þá auglýsingalöggan umsvifalaust í tauma.....

Kjarni málsins er auðvitað sá að þetta mál allt saman er bull og þvæla. Ef stjórnmálaflokkur vill ganga fram af sjálfum sér og landslýð í auglýsingagleði, þá það. Slíkt á að varða starfsöryggi viðkomandi framkvæmdastjóra/kosningastjóra og vera á kostnað flokkanna sjálfra en ekki ríkissjóðs. Rekstrarsamráð stjórnmálaflokka til kosninga er ekkert grín og því síður tilefni fagnaðarláta í forystugreinum dagblaða. Kannski mannvitsbrekkum í pólitík detti næst í hug að forstjórar fyrirtækjanna eigi líka að taka sig saman um hámarksútgjöld til auglýsinga til að ,,stuðla að heilbrigðara samfélagi" eins og Mogginn segir að löggjöf um ríkisútgerð stjórnmálaflokka geri. Þá geta menn rölt um Öskjuhlíð í hádeginu, sammælst um að losna við að minnsta kosti einn lið þessarar fjandans samkeppni, liðkað skrokkinn í leiðinni og snúið glaðir til vinnu á ný. Hallelúja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband