Djúpa lægðin gengin yfir í Framsókn

Eftir allan vandræðaganginn og vitleysuna undangengna sólarhringa verður að segjast að forystu Framsóknarflokksins tókst býsna vel upp með andlitslyftinguna á ríkisstjórninni. Það var skynsamlegt að stokka spilin meira en beinlínis var nauðsynlegt og Jón Sigurðsson er öflugur náungi - auk þess sem hann vinnur sér prik í flokknum með því að ganga úr rúmi í Seðlabankanum fyrir Halldór. Dagurinn varð því öllu tíðindameiri en gærdagurinn, þegar framsóknarmenn gengu til miðstjórnarfundar og ljósvakamiðlar hömuðust við að senda út ræðu forsætisráðherrans fráfarandi þar sem ekkert bitastætt kom fram. Ekki nokkur skapaður hlutur. Morgunblaðið hafði að morgni dags tekið að sér að kæla nokkuð glóandi hraunstrauma í flokksforystunni með því að birta forsíðumynd af Halldóri og Guðna í vinaleik. Strákarnir mínir taka stundum þátt í hliðstæðum gjörningi í Fossvogsskóla. Þá er búnir til svokallaðir vinahópar í bekkjum og markvisst reynt að skipta upp raunverulegum vinahópum til að skapa ný tengsl. Svo hittast skipulögðu hóparnir hingað og þangað um hverfið, leika sér saman, borða kannski saman líka og foreldrarnir mynda þá fyrir fjölskyldualbúmin sín. Svo skilja leiðir og krakkarnir flýta sér að hafa upp á vinunum sem þeir sjálfir velja og vilja eiga.  Hugsanlega rista vinaleikirnir í Framsókn dýpra. Kannski eru Halldór og Valgerður eru orðin umskiptingar í skoðunum á einum sólarhring og telja að Guðni verði sameiningartákn flokksins í haust? Blaða- og fréttamennirnir hafa ekkert spurt um það. Þeir spurðu reyndar Halldór ekki einu sinni að því í dag hvort hann væri á leið í Seðlabankann! Svona eru menn nú orðnir miklir vinir. Lægðin gekk yfir í Framsókn og brostið er á logn. Jamm og jæja, hefði Jónsi afi á Jarðbrú sagt af þessu tilefni.

Nú verður Geir H. Haarde forsætisráðherra. Það mun ekki laga ástandið fyrir Framsókn og stjórnarandstöðuna, nema síður sé. Haarde er mildur og viðfelldinn leiðtogi sem dregið hefur íhaldið inn að miðju stjórnmálanna á þeim skamma tíma sem hann hefur verið í forystunni eftir að Davíð fór í Seðlabankann. Sjálfstæðisflokkurinn uppskar enda afar vel viðunandi úrslit í sveitarstjórnarkosningunum, sem skrifast fyrst og fremst á mjög svo geðslega uppstokkun í forystusveitinni. Stóru pólitísku tíðindin nú um stundir eru raunar þau að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að festa sig í sessi nær miðju stjórnmálanna undir forystu Geirs og Þorgerðar Katrínar. Á miðjunni eru fyrir Framsókn, Samfylkingin og frjálslyndir. Þar er því að verða þröng á þingi og mér segir svo hugur um að sjálfstæðismenn muni uppskera þar drjúgt í þingkosningunum að ári - á kostnað annarra miðjuflokkanna. 

Svo ber auðvitað að taka fram að vegamót eru hjá tveimur pólitíkusum úr Jarðbrúarfamilíunni þessa dagana. Sigríður Anna, frænka frá Siglufirði, hverfur úr umhverfisráðuneytinu. Þar hefur hún staðið sig vel, bara afskaplega vel. Svo er það frænkan úr hinni ættinni, Steinunn Valdís. Hún er að hætta sem borgarstjóri og betur hefði nú Samfylkingin teflt henni fram sem oddvita sínum í kosningunum á dögunum. Hún Steinunn, með ættarsvipinn sterka frá Göngustöðum, hefur nefnilega vaxið hratt og örugglega sem stjórnmálamaður. Mér sagði sjálfstæðismaður úr borgarstjórnarflokknum að þar á bæ hefðu menn óttast mest Dag B. sem oddvita Samfylkingarinnar þegar kom að prófkjöri þess flokks forðum en eftir á að hyggja hefði Steinunn Valdís geta orðið sjálfstæðismönnum mun erfiðari í kosningabaráttunni. Þetta vissi auðvitað Göngustaðaættin allan tímann en Samfylkingin hefur ekki pólitískt nef á við hana. Langt frá því.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 210540

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband