Fimmtudagur, 10. maí 2007
8,6% eða 14,6%?
Framsóknarmenn kættust óskaplega í dag (mikðvikudag) þegar Capasent Gallup skenkti þeim fylgi upp á 14,6% í könnun RÚV og Morgunblaðsins en sigu svo aftur niður í sætin í kvöld þegar Félagsvísindastofnun mældi þeim aðeins 8,6% fylgi á vegum Stöðvar 2. Látum oss nú sjá hvað upp úr pokunum kemur hjá skoðanakönnuðum á morgun og svo að sjálfsögðu upp úr sjálfum kjörkössunum um helgina. Ef eitthvað er að marka niðustöður fyrri kannana varðandi Framsókn hefur eitthvað dramatískt gerst á tiltölulega fáum sólarhringum, jafnvel klukkutímum, sé flokkurinn allt í einu kominn upp í 14% fylgi og gott betur. Ekkert skal nú útilokað í þeim efnum en víst er að þarna er verið að tala um svo mikla sveiflu að hægt væri að skynja hana í umhverfinu. Rétt eins og fylgissveifla til Framsóknar í kosningavikunni fyrir fjórum árum var svo greinileg að nánast var hægt að merkja hana í loftinu líkt og snögg veðrabrigði. Enn verður ekki vart við svona sveiflu á götuhornum en vel má vera að fylgi færi að strauma um götur og torg strax á morgun. Ýmsir sjálfstæðismenn á förnum vegi eru til að mynda býsna stressaðir yfir stöðunni. Þeir segjast hafa fengið óþægilega góðar niðurstöður í skoðanakönnunum undanfarna daga og að ákveðin hætta sé á að kjósendur úr sínum röðum ,,láni Framsókn atkvæðin sín á laugardaginn. Hliðstætt gerðist nefnilega fyrir fjórum árum og menn eru ekki alveg búnir að gleyma því í Valhöll.
Hræringarnar eru samt vissulega greinanlegar í umhverfinu nú um stundir en tengjast ekki Framsókn. Samfylkingin er að sækja í sig veðrið en vinstri-grænir gefa eftir. Þetta bara berst með golunni! Hvað er þá í gangi? Hér er ein kenning, ekki vitlausari en hver önnur:
Niðurstöður atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði um stækkun álversins mörkuðu ákveðin kaflaskil í kosningabaráttunni. Ætli megi ekki rekja fylgisfærslur nú að miklu leyti til þeirra? Hafnfirðingar kusu nefnilega umhverfis- og stóriðjumál að miklu leyti út úr umræðunni um leið og þeir settu Alcan stólinn fyrir dyrnar að stækka hjá sér. Innri ró færðist yfir Samfylkinguna í kjölfarið og flokkurinn fór smám saman að sjá týnda syni og dætur koma heim á hlað, fólk sem hafði farið að heiman í fússi af því því þótti flokkurinn ýmist ekki nægilega afdráttarlaus gegn stóriðjunni eða vildu yfirlýstan stuðning flokksins við stækkun í Straumsvík í stað að segja pass eða nei.
Ef Hafnfirðingar hefðu á hinn bóginn samþykkt stækkun á dögunum væri landslagið líkast til annað en það er. Vinstri-grænir væru stærri en Samfylkingin og umræðan snerist að mestu um umhverfismál og stóriðju. Íslandshreyfingin hefði úr meiru að moða og eygði jafnvel þingsæti í stað þess að vera orðin álíka vonlaust dæmi og Sylvía Nótt.
Aðeins eru tveir sólarhringar til kosninga og vel má vera að Framsókn fái einhverja sveiflu til sín í bláendann. Framsóknarmenn minna annars oft á Fram í úrvalsdeildinni í fótbolta síðustu árin. Framarar börðust í botnslag ár eftir ár en redduðu sér aftur og aftur á lokasprettinum, stundum á allt að því yfirnáttúrulegan hátt. Þeir voru farnir að trúa því að forlögin hefðu verið skrifuð svona fyrir þá í handritið hjá Guði. Svo reyndist ekki vera og fagran haustdag féll bara Fram niður úr deildinni. Örlög Fram ættu að vera Framsókn umhugsunarefni, það er heldur tæpt af framsóknarmönnum að treysta því að gæfuhjólið snúist þeim alltaf í hag rétt áður en kosningar bresta á.
Talandi um sveiflu á lokaspretti. Hreint ekki myndi ég hreint útiloka að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fylgisgusu til sín í blálokin. Ef auglýsingaherferð skiptir á annað borð einhverju máli, til að afla fylgis, er næsta víst að auglýsingar sjálfstæðismanna skila þeim atkvæðum. Boðskapurinn er skýr og aðgengilegur. Formannaparið er alls staðar í forgrunni og mest lagt upp úr að koma því til skila að þú veist hvað þú hefur en ekki hvað þú færð. Endurnýjun í flokksforystunni var vel heppnuð hjá sjálfstæðismönnum. Geir og Þorgerður Katrín þola það vel að vera keyrð upp eins og rokkstjörnur á strætóskýlum um borg og bý og á heilum og hálfum síðum dagblaða. Af þessu fólki myndi maður kaupa notaðan bíl ef svo bæri undir og enn frekar að treysta því fyrir atkvæði sínu.
Vilmundur Gylfason spáði á sínum tíma mikið í þann stóra hóp kjósenda sem læsi ekki stefnuskrár flokka, sæti ekki yfir kosningaþáttum í sjónvarpi og sækti ekki pólitíska fundi en kysi samt - eftir tilfinningu hverju sinni. Til einföldunar kallaði hann þennan hóp ,,stelpurnar á kössunum í Hagkaupum og sagði að sá stjórnmálaflokkur gerði það gott í kosningum sem næði augu og eyrum krakkanna í Hagkaupsbúðunum, með öðrum orðum til þess hluta yngstu kynslóða kjósenda sem ekki væri fyrirfram ,,pólitískt meðvitaður í eina eða aðra átt. Ég hallast að því að Sjálfstæðisflokkurinn geti náð árangri á þessum atkvæðamiðum nú og muni, ef rétt reynist, þakka það skýrum og einföldum skilaboðum í auglýsingunum sínum.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar