Lagt á djúpið

Þá er komið að því. Kjósendur flykkjast í klefana sína og fjölmiðlarnir verða brátt eðlilegir á nýjan leik. Mikil blessun verður að losna við alla froðuna af síðum blaða og dagskrá ljósvakamiðla. Ég lét mig samt hafa það að horfa á lokasennu foringjanna í Sjónvarpi í gærkvöld. Það er svona álíka hefðbundin athöfn og ávarp forsætisráðherrans á gamlárskvöld eða forsetans á nýársdag. Mér sýndist fleiri búnir að fá en ég því mannskapurinn sem sat fyrir svörum var áberandi þreytulegur.

Geir Haarde kom best frá þættinum í heildina og Ingibjörg Sólrún átti þokkalegt kvöld. Hún var samt hvergi nærri eins vígreif og í leiðtogaslúttinu á Stöð tvö fyrr í vikunni. Jón Sigurðsson fór (loksins!) að bíta frá sér og skerpa tóninn. Þetta var besta framganga hans sem ég hef séð á sjónvarpsskjánum í kosningabaráttunni en birtist trúlega of seint, Framsóknarflokksins vegna. Steingrímur J. er sjóaður vel og klikkar yfirleitt ekki í návígi af þessu tagi. Mér þótti hins vegar óþarfi fyrir hann og Jón Sig að barma sér yfir auglýsingum og barmmerkjum sem hvor um sig taldi andstæðinginn beina gegn sér og fara yfir strikið. Það sem ég hef séð af auglýsingum og barmmerkjum er í fínu lagi og víðáttufjarri einhverjum skítabissness sem stundaður er í bandarískri kosningabaráttu. Það get ég fullyrt því svo vill til að ég bjó í Colorado í kosningum í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og stúderaði sérstaklega baráttuaðferðir frambjóðenda og flokka í bænum ,,mínum”, Boulder, sem er á stærð við Reykjavík. Fullyrðingar, sem stundum er slegið hér fram, að Íslendingar séu komnir inn á amerískar brautir í kosningabaráttu, eru einfaldlega út í bláinn.

Guðjón Arnar hélt sig talsvert til hlés í þættinum en hvessti sig í skattaumræðunni og talaði þar mannamál. Komst fyrir vikið býsna vel frá þættinum. Ómar Ragnarsson var einhvern veginn eins og hann væri ekki klár á hvort hann væri að koma eða fara. Hann var margfalt öflugri í foringjaþættinum á Stöð tvö en úti að aka í gærkvöld.

Þórhallur Gunnarsson spyrill fær prik fyrir sína frammistöðu. Hann gerði nokkuð sem hefur verið alltof alltof sjaldgæft að sjá og heyra stjórnendur ljósvakaþátta gera í kosningabaráttunni: að vera ekki fyrirsjáanlegur í spurningum og vera svo fylginn sér í að knýja menn til svara. Elín Hirst átti hins vegar ekki góða kvöldstund. Hún virkaði bæði óörugg og hikandi. Það er draumur stjórnmálamanna að mæta spyrli í óstuði í svona þætti.

Svo skal það endurtekið í lokin að auglýsingaherferð sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni hefur verið betur heppnuð á margan hátt en hliðstæðar herferðir annarra flokka. Þar hefur verið verið lagt upp úr einföldu, skýru myndmáli en knöppum texta. Íslandshreyfingin hefur líka látið myndir tala í hluta sinnar herferðar. Í heildina tekið nota flokkarnir yfirþyrmandi textaflóð í auglýsingum og sumar heilsíðurnar frá frjálslyndum minna helst á stafla af gangstéttarhellum, svo pakkaður er boðskapurinn í texta. Þetta er missir marks og gagnast mest fjölmiðlunum sem fá aura fyrir birtinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband