Fótboltatörn í nafni olíufélaga

Shellmótið í Eyjum er þreytt og þátttakendur þar voru augljóslega færri nú en undanfarin ár. ESSOmótið á Akureyri er mun fjölmennari samkoma og spræk sem slík. Skrifari var að ljúka fjórða mótinu í Eyjum og öðru mótinu á Akureyri. Það væri illbærileg hugsun að eiga eftir að fara einu sinni enn á Shellmót en tilhlökkunarefni er að fara oftar norður.

Óánægja kraumar með ýmislegt hjá Eyjamönnum en þeir kjósa að leiða það hjá sér og halda sitt strik. Það er sjónarmið út af fyrir sig en kostar það að Haukar úr Hafnarfirði létu ekki sjá sig í ár og Skagamenn ekki heldur. Ekki kæmi á óvart að þátttökufélögum á Shellmóti fækkaði enn frekar á næsta ári.  Á fararstjórafundum sem ég sat þar forðum í Eyjum hóf forkólfur Shellmótsins mál sitt með því að segja að menn gætu svo sem haft skoðanir á hinu og þessu í mótshaldinu en engu yrði breytt. Á fararstjórafundum á Akureyri er beinlínis kallað eftir athugasemdum og mótshaldarar reyna ljúfmannlega að sníða af þá agnúa sem gestir þeirra telja sig geta bent á. Í Eyjum hanga menn eins og hundar á roði á að ljúka mótinu ekki fyrr en á sunnudagskvöld en á Akureyri er punktur settur aftan við  að kvöldi laugardags. Á því er mikill munur fyrir þá sem eru langt að komnir. Akureyringar láta spila fótbolta fram á kvöld og teygja ekki lopann lengur en ástæða er til. Eyjamenn gera í því að halda fólkinu í Eyjum eins lengi og kostur er, sjálfsagt til að ná sem mestum peningum af því fyrir gistingu og þjónustu – sem er út af fyrir sig göfug hugsun frá þeirra bæjardyrum séð! Á knattspyrnuvöllunum í Eyjum var ekkert að gerast í 100 mínútur á hverjum degi á meðan mótið stóð yfir, þ.e. HLÉ frá kl. 12 á hádegi til kl. 1:40!  Ef Eyjamenn hefðu áhuga á að ljúka mótinu á laugardegi gætu þeir til dæmis skipulagt leiki í hádegishléinu. Ef það dugar ekki mætti fella líka niður innanhúsmótið, sem fáir myndu syrgja, og klára með glans á laugardegi. En slík hugsun er bara nokkuð sem hvergi örlar á hjá mótshöldurum. Fram á sunnudagskvöld skal þetta standa hvað sem tautar og raular. Skipulagið sem slíkt er ágætt í Eyjum og tvennt má nefna sem norðanmenn gætu velt fyrir sér að taka upp hjá sér til að gera gott betra. Eyjamenn gefa út mótsblað á hverju kvöldi með úrslitum dagsins og öðrum upplýsingum. Það er til fyrirmyndar. Eyjamenn útkljá færri leiki með vítaspyrnukeppni en Akureyringar, sem er líka til fyrirmyndar. Eðli máls samkvæmt dreifist ábyrgð af sigri og tapi á tvo menn í vítaspyrnukeppni en ekki liðið í heild. Slíkt getur beinlínis verið mannskemmandi. Það er sanngjörn lausn Eyjamanna að útkljá jafna leiki með því að láta tímann ráða hvenær mörk eru skoruð í leik. Vítaspyrnukeppni er því aðeins notuð að markalaust sé í venjulegum leiktíma. Eyjamenn ættu svo að tileinka sér viðmót og viðhorf norðanmanna til gesta sinna á mótinu. Þar er munur á, Eyjamönnum í óhag. En vísast er þeim skítsama um það og þeir halda sitt strik að ári, jafnvel þó fækki enn þátttakendum af fastalandinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband