Kúnstin að halda kjafti þegar sjón er sögu ríkari

Fyrir margt löngu bjó ég í Noregi og fékk þá það verkefni að skrifa, og lesa inn á band, texta með fréttaauka um orkumál fyrir sjónvarpið okkar íslenska. Þetta hafði ég aldrei gert áður og var ekki beint upplitsdjarfur þegar ég mætti með handritið til að taka upp í stúdíói hjá norska sjónvarpinu. Náunginn sem upptökunni stjórnaði sá strax að hér var kominn viðvaningur í fræðunum en sagðist geta gert úr mér brúkhæfan sjónvarpsmann á tiltölulega skömmum tíma ef ég tileinkaði mér strax hið eina sem máli skipti í sjónvarpi og það væri að halda sem mest kjafti. Svo sagði hann mér að skera textann minn niður um tvo þriðju hluta hið minnsta og leyfa myndmálinu að koma boðskapnum til skila.

Upptökumeistarinn sagði að kúnstin væri með öðrum orðum sú að muna alltaf að þessi ágæti miðill væri SJÓNvarp. Helsti löstur á sjónvarpsmönnum, bæði nýliðum og gamalgrónum, væri sá að þeir kjöftuðu allt of mikið og leyfðu áhorfandanum helst aldrei að fá horfa í friði. Það væri blaðrað út í eitt. Verstir væru samt íþróttafréttamenn í sjónvarpi því þeir létu ekki duga að lýsa þindarlaust því sem áhorfandinn væri hvort eð er að horfa á heldur væru þeir stöðugt að troða eigin skoðunum upp á þá sem heima sætu og það svo mjög að áhorfendur/áheyrendur stæðu upp dasaðir eftir hverja messu.

Ég fór að ráðum þessa ágæta norska upptökustjóra, skar textann niður við trog og hélt kjafti stóran hluta orkumálamyndarinnar. Þar með var ég ekkert að trufla væntanlega áhorfendur heima á Íslandi með blaðri, sem auðvitað var ofaukið þegar að var gáð. Myndmálið varð aðalatriðið og boðskapurinn komst betur til skila fyrir vikið.

Oft verður mér hugsað til Norðmannsins, sem kenndi mér að halda kjafti, þegar ég sit við sjónvarpið heima í stofu. Greinilegt er að sjónvarpsmenn yfirleitt fá ekki tilsögn í að þegja og veitir nú sumum ekki af.

Ég gæti til dæmis hugsað mér suma íþróttafréttamenn RÚV og Stöðvar 2/Sýndar á skólabekk til að læra að tala einungis í tíma en ekki ótíma. Læra með öðrum orðum að halda kjafti. Sá sem lýsti leiknum með Barcelona á SÝN núna á laugardagskvöldið, og leik KR og Skagamanna á SÝN í gærkvöld, þarf til dæmis mjög á því að halda að læra að þegja. Og þegja ítarlega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband