Mánudagur, 6. ágúst 2007
Stuðmenn bestir svo lengi sem Stones eru ekki í boði
Stuðmenn fóru á kostum í Laugardal í gærkvöld og viðhengin þeirra voru til að auka enn frekar á dýrðina: Shady Owens, Birgitta Haukdal og Laddi. Já, og Valgeir Guðjónsson. Hann er víst ekki eiginlegur Stuðmaður, svona tæknilega, en staðfest var enn einu sinni þarna á vettvangi að Stuðmenn standa ekki undir nafni nema Valli sé með. Smellirnir hans virkuðu best á mannskapinn, þar á meðal Popplag í G-dúr sem flokkseigendafélaginu í hljómsveitinni fannst reyndar svo lítið til um koma á sínum tíma að ekki væri samboðið Stuðmönnum að gefa út í nafni þeirra.
Shady Owens er auðheyrilega ekki í mikilli söngþjálfun en fékk góðan hljómgrunn sinnar kynslóðar í áheyrendaskaranum frá árum Óðmanna, Hljóma, Trúbrots og Náttúru. Hún náði sér á strik þegar á leið í flutningi á Trúbrotsgullmolunum sínum en best var hún samt í lagi úr smiðju Janis Joplin eftir uppklapp. Þar var ,,gamla" Shady örugglega komin.
Samkoman í Fjöldýra- og hússkyldugarðinum (nafngift Leifs óheppna sem var kynnir í boði Ladda) var sú fjölmennasta á landinu um verslunarmannahelgina og trúlegasta líka ein sú mannvænasta og menningarlegasta. Þarna var fjölskyldufólk á öllum aldri í dæmafáu blíðviðri, á annan tug þúsunda manna. Engir brennivínsberserkir eða aðrir rugludallar að ríða röftum, engir snuðrandi fíkniefnahundar og engir útsendarar bæjaryfirvalda að grisja hópinn af 18-23 ára fólki til að varpa á dyr. Engin sýnileg löggæsla nema nokkrar löggur á mótorhjólum að stjórna umferð að hljómleikum loknum. Þetta fór svo makalaust vel fram að á samkomuna var ekki minnst einu orði í ljósvakafréttum í morgun. Það þarf nefnilega að minnsta kosti nokkra vel skakka vímuhausa, og helst að einhver sé skorinn á háls, til að gera samkomu fréttnæma um verslunarmannahelgina.
Tónleikarnir í Fjöldýragarðinum voru magnaðir en auðvitað hefði verið enn magnaðra að vera í Köben í gærkvöld og hlýða á gömlu brýnin í Rolling Stones þenja sig á sviði. Danir voru fremur kvíðnir fyrir þessa tónleika og höfðu ástæðu til því Stónsarar voru í Helsinki á miðvikudagskvöldið og fengu slæma dóma. Þeir þóttu einfaldlega drullulélegir. Vont átti eftir að versna. Á föstudagskvöldið voru þeir í Gautaborg og fengu þvílíka útreið hjá gagnrýnendum fyrir frammistöðuna það að flokkast undir hreina slátrun. Helst er nefnt til sögu að Keith Richards var svo drukkinn að hann gat ekki staðið í lappir á sviðinu og því síður spilað eða sungið. Annað eftir því. Það hafði hins vegar runnið af kappanum þegar komið var til Köben og gagnrýnendur dönsku blaðanna halda ekki vatni yfir konsertinum í gærkvöld. Tvö blaðanna gefa sex stjörnur af sex mögulegum og eitt fimm af sex mögulegum (síðastnefnda blaðinu þykir undirtektir áheyrenda ekki hafa verið nægilega kröftugar og gefur því ekki fullt hús!). Nú liggur leið Stones til Oslóar og Norðmenn naga neglur upp í kviku í kvíðakasti: Verður Keith útúrfullur eins og í Svíþjóð eða bara slompaður eins og í Köben. Edrú er hann aldrei í vinnunni og hefur víst ekki verið frá því í kringum 1960.
Rolling Stones er sem sagt á yfirreið um Norðurlönd og fer borg úr borg. Til Reykjavíkur kemur bandið hins vegar ekki frekar en fyrri daginn og á meðan slíkt hörmungarástand varir er gott að eiga Stuðmenn að. Og Stuðmenn klikka bara aldrei, það er greinilega meira en hægt er að segja um sjálfa Stones.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Menning og listir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:54 | Facebook
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 210540
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar