Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Sagan af eina húsi heimsins sem farið hefur fyrir Múlann
Árni Helgason, framkvæmdaskáld og verktaki, var höfðingi heim að sækja þegar hann bauð skólafélögum úr árgangi 1953 í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar heim til sín á Kleifum við Ólafsfjörð á laugardaginn var. Hann sýndi okkur hús sem hann á ásamt Ólínu systur sinni og hefur verið að gera upp undanfarin ár. Húsið á merkilega sögu og hefur meira að segja víða farið um dagana! Á daginn kom svo að það tengdist beinlínis familíunni á Jarðbrú.
Árni vildi gjarnan fá línu um málið að sunnan og fær hana hér með í opnu bréfi.
Timburhúsið umrædda var í upphafi reist á Árskógsströnd um aldamótin 1900, suður og upp af Litla-Árskógi. Þetta var nýbýli í landi Brattavalla, nefnt Brattahlíð.
Húsbyggjandinn var Stefán Hallgrímsson frá Stóru-Hámundarstöðum, bróðir Jóns Hallgrímsonar síðar bónda á Jarðbrú. Sonur Jóns var Jónsi á Jarðbrú, Jón Jónsson, og hann eignaðist synina Halldór bónda á Jarðbrú og Þóri, skólastjóra á Húsabakka og síðar kennara á Ólafsfirði.
Kristmunur Bjarnason greinir frá því í Sögu Dalvíkur að sökum fjárhagsörðugleika, sem stöfuðu af veikindum, hafi heimilið í Brattahlíð verið leyst upp og húsið selt árið 1908. Nýir eigendur voru góðir og mikilvirkir smiðir á Dalvík: Jóhann Jóhannsson frá Háagerði og Elías Halldórsson. Þeir rifu húsið, fluttu til Dalvíkur, endurreistu það í sameiningu í landi Brimness árið 1909, gáfu því nafnið Jaðar og bjuggu þar með fjölskyldum sínum og fleirum.
Í sögu Dalvíkur er Jaðri lýst þannig að húsið hafi verið talið ,,15 x 10 álnir að flatarmáli, járnvarið með kjallara undir. Næstu áratugina tók það miklum stakkaskiptum, hið innra sem ytra, byggt var við og húsinu breytt á ýmsa lund svo lítið var eftir af upprunalegri gerð þess.
Segir nú ekki af Jaðri fyrr en bæjaryfirvöld á Dalvík ákváðu að selja húsið til niðurrifs árið 1996 til að auka athafnarými Sæplasts við Brimnesána. Árni Helgason á Ólafsfirði bauð í húsið og eignaðist það. Hann ætlaði í fyrstu að rífa eign sína niður í sprek á eldinn, eins og efni þóttu standa til, og ónefndir svarfdælskir bændur buðust til að flýta fyrir honum með því að hirða járnplöturnar utan af húsinu. Svo snerist Árna hugur og hann ákvað að láta duga að rífa viðbyggingu Jaðars en flytja sjálft húsið út á Kleifar og gera að frambúðarþaki yfir höfuð sér. Dalvíkurbæ lá hins vegar á að losna við húsið í hvelli svo Árni brá á það ráð að kippa því af grunninum og finna því áningarstað í sex vikur á landi Þorleifs bónda á Hóli út. Reyndar gekk mun betur en á horfðist að hífa Jaðarshúsið af aldargömlum dvalarstað sínum á Dalvík því í ljós kom að það sat laust á grunni sínum, án nokkurra festinga!
Á meðan Jaðar staldraði við á Hóli steypti Árni grunn á Kleifum og tók nokkur kvöld í að hreinsa grjót af Múlavegi. Þegar stundin rann upp hífði hann Jaðar upp á vagn og lagði af stað frá Hóli um áttaleytið að kvöldi. Húsið þokaðist á vagni fyrir Múlann í svartri þoku áleiðis til Ólafsfjarðar og út á Kleifar, þar sem hann lyfti því upp á nýsteyptan kjallara. Jaðar komst á leiðarenda um miðnættið eftir fjögurra tímaferðalag, án teljandi erfiðleika. Þar lágu leiðir mínar og Jaðars sem sagt saman núna í ágúst.
Eigendur hússins eru að taka það í gegn og hafa heldur betur tekið til hendinni. Glæsilegar eru vistarverurnar orðnar á hæð og í risi. Mörg handtök eru samt eftir í kjallara og utan dyra en ef fram fer sem horfir verður framkvæmdin sjálfkjörið forsíðuefni fyrir Hús og híbýli eftir fáein ár. Meira að segja er kominn heitur pottur við Jaðar og vatnið í hann er tekið úr borholu þar á hlaðinu! Árni fékk nefnilega þá flugu í höfuð að bora sjálfur eftir heitu vatni og hætti ekki fyrr en upp kom meira en þurfti til að hita upp öll hús á Kleifum.
Andrúmsloft lista og skáldskapar fylgdi Jaðri á Dalvík og örugglega er sá andi enn í húsinu á nýjum stað. Brimar Sigurjónsson málari var jafnan kenndur við heimili sitt, Jaðar. Málverk eftir hann eru á veggjum Dalvíkinga og og annarra en líklega náði hann til flestra með myndlist sinni í gegnum starf með Leikfélagi Dalvíkur. Brimar málaði leiktjöld á Dalvík áratugum saman og gerði þau svo áhrifamikil að sum þeirra eru jafnsterk í minningunni og sjálf leikritin á fjölunum hverju sinni. Skrifari man til dæmis eftir leiktjöldum í Skugga-Sveini frá því í æsku eins glöggt og sýningin hefði verið í síðustu viku. Svo stór þáttur voru þau í dramatíkinni þegar farið var að þjarma að Sveini og Katli skræk.
Síðast en ekki síst skal nefndur til sögunnar landskunnur hagyrðingur sem kenndi sig við Jaðar, Haraldur Zóhóníasson. Kveðskapur hans lifir góðu lífi enn þann dag í dag, enda sígildur. Eftirfarandi vísa átti til dæmis sæmilega við síðastliðinn laugardag, þegar Árni, framkvæmdaskáld á Jaðri á Kleifum, bar óspart lífsins vatn í gesti sína:
Þegar glóir glösum á
guðaveiga fengur,
meðalhóf að hitta þá
heldur illa gengur.
Þekktasti texti Halla á Jaðri er sjálfsagt Síldarvalsinn við lag Steingríms Sigfússonar. Síldarvalsinn er löngu orðinn klassískt sjómannalag og alþýðusöngur. Það sést best á því að hann er að finna á þeim geisladiski sem seldist mest á Íslandi sumarið 2007: Langferðalögum með KK og Magga Eiríks. Þeir félagar fara afskaplega vel með lag og texta ,,því nóg er um hýreyg og heillandi sprund á Dalvík og Dagverðareyri .
Vel má vera að skáldgyðjan hafi byrjað að sá fræjum á Jaðri á Dalvík fyrir daga Haraldar Zóphóníassonar, jafnvel í fyrsta lífi hússins þegar það hét Brattahlíð og var á Árskógsströnd. Jafnvel er ekki útilokað að einhver skáldagen hafi borist þar í Jónsa á Jarðbrú strax við fæðingu í Brattahlíð því hagmæltur var hann ágætlega og sumar vísur hans lifa, til dæmis sú sem hann orti um fyrsta afabarnið sitt á Jarðbrú:
Sullukollur Atli er,
ekki er gott að sjá við því.
Um gólfið oft hann gengur ber,
gott er að skella rassinn í.
Þar með lýkur pistli til heiðurs Jaðarshúsinu, sem Árni og Ólína ættu reyndar að íhuga alvarlega að nefna Brattahlíð! Þar með væri húsið komið til uppruna síns og Brattahlíðarnafnið á þar að auki ljómandi vel við á Kleifum. Þetta er fyrsta og síðasta húsið sem fer fyrir Múlann enda gamli Múlavegurinn fyrir löngu orðinn ófær vegna skriðufalla og á köflum reyndar hreinlega horfinn!
Það þótti óðs manns æði að ætla að flytja þennan farm fyrir Múlann og jafnvel enn vitlausara að fara að bora eftir heitu vatni við húshornið. Ólafsfirðingar segja hins vegar að ef Árni Helgason geti ekki framkvæmt hlutina séu þeir óframkvæmanlegir. Þess vegna komst Jaðar á áfangastað og hóf þar sitt þriðja líf. Og þess vegna bunar heitt vatn bunar frá Jaðri í hvern krana og hvern ofn á Kleifum.
- Myndir af fermingarbarnamótinu 2007 (þær sem talið er óhætt að birta)
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 6.9.2007 kl. 22:35 | Facebook
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alltaf gaman að heyra góðar ferðasögur húsa, ekki síst þegar þau komast á góðan stað og fá meðferð við hæfi, eins og mér sýnist með húsið á Kleifunum. Ég heyrði nýlega sögu af nokkuð stóru húsi sem dregið var þvert yfir Þingvallavatn á ís að vetrarlagi og hefur síðan staðið um árabil sem veglegt sumarhús í Grafningi. Mér skildist að sá flutningur hafi reyndar ekki gengið alveg áfallalaust, td. mun ísinn hafa brotnað undan þunganum þegar að landi var komið.
Einhver andlit þekki ég í hópnum, þó með erfiðismunum í sumum tilfellum, enda fólkið komið yfir fimmtugt og farið að bera þess merki (!), eitthvað annað en við sem erum bara að nálgast fimmtugt!! En hvað varst þú annars að þvælast fyrir fermingarbörnum í Ólafsfirði, hélt alltaf að þú hefðir fermst hjá séra Stefáni á Völlum í Svarfaðardal.
Helgi Már Halldórsson (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 13:53
Þarna hafa fráleitt allir verið edrú sýnist nokkuð ljóst af myndunum af dæma..
Óskar Þór Halldórsson (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 14:05
Atli minn,
skelfing var gaman aðð lesa þennan pistil.
Þannig vað að einu sinni sem oftar var rimman tekin við eldhúsborðið í Lundi. Þetta sinnið voru húsamál á Dalvík til umfjöllunar. Ég var alveg brjáluð yfir því hvernig Dalvíkingar hafa farið með gömlu húsin sín og "nú síðast senda þeir Jaðar útí ÓLAFSFJÖRÐ!!!" Pabbi reynid eitthvað að malda í móinn þar til ég lamdi hnefanum í borðið og sagð rétt si svona - JÁ, ÉG SEGI MIG TIL ÓLAFSFJARÐAR ÞEGAR MENN HAGA SÉR SVONA Á VÍKINNI".
Pabbi varð alveg kjaftstopp en maðurinn minn - Ólafsfirðingurinn - hefur aldrei gleymt þessu og ef ég er eitthvað að rífa mig þá segir hann bara salla rólegur "en þú ert nú Ólafsfirðingur líka".
Arna A. Antonsdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 14:58
Ég þakka innlit og (að mestu) vinsamlegar kveðjur:
Atli Rúnar Halldórsson, 22.8.2007 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.