Þriðjudagur, 12. september 2006
Sauðfé, Tilraun, fleygar og fólk
Álftlendingar stúderuðu félagsfræði sauðfjárrétta við Eyjafjörð á dögunum. Það er ung vísindagrein og vandmeðfarin. Á laugardegi lá leiðin í Gljúfurárréttir í Höfðahverfi/Grýtubakkahreppi en daginn eftir í Tungurétt í Svarfaðardal. Í fyrrnefndu réttinni var hellingur sauðfjár, líklega á sjötta þúsund. Í þeirri síðarnefndu var allt fjársafnið í réttinni á við heimarekstur meðalheimilis í Höfðahverfi. Í Gljúfurárrétt taka menn hlutverk sín alvarlega. Gangnamenn komu af fjalli þreyttir og sveittir eins og hlauparar á marklínu Reykjavíkurmaraþonsins, fengu kaffi og samlokur til hressingar og fóru svo að draga fé í dilka eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Vín sást á einum einasta manni í Gljúfurárrétt og sá hafði sig ekki mikið í frammi til að skaða ekki ímynd byggðarlagsins á meðal ljósmyndari Morgunblaðsins staldraði við. Það telst nefnilega til haustverka Moggans að mynda fjárdrátt í Gljúfurárrétt til birtingar. Moggamaðurinn passaði sig á að láta hvergi sjást í bjórkassann við Lómatjarnardilkinn þegar hann mundaði tól sín. Lómtirningar svöluðu nefnilega þorsta sínum í réttinni með Víkingsöli en létu þar við sitja. Á Tungurétt brá bjór hins vegar einungis fyrir á árum áður, þegar hann var bannaður með lögum á Íslandi. Eftir að bjórinn var leyfður hefur sá drykkur nánast verið óskrifuð bannvara í réttinni og sveitarsamstaða um að hafa frekar sterkt á fleygum. Gangnamenn í Svarfaðardal vilja hvorki sjá né heyra sauðfé þegar á réttina er komið. Þeir bara syngja, tralla og skiptast á pelum líkt og krakkar á fótboltamyndum. Börn og eldri borgarar eru aðallega í því að draga fé í dilka ásamt þeim sem hvorki hafa tök á né nennu til að detta íða upp úr hádegi á sunnudegi.
- Myndir frá Tungurétt
- Myndir af hressum gangnamönnum í Svarfaðardal
- Myndir frá Gljúfurárrétt í Höfðahverfi
Fjárbændur í Höfðahverfi og viðhengi þeirra voru að í réttinni fram undir kvöldmat og síðasti rekstur kom í heimahagana þar um níuleytið, þegar myrkur var skollið á. Þá voru margir klukkutímar liðnir frá því hefðbundnum réttarstörfum lauk á Tungurétt og bændur byrjaðir að lauga sig til undirbúnings réttarballinu. Það gerist nú sífellt útbreiddara í Svarfaðardal að menn fjárfesti í heitum pottum og gangi til laugar á kvöldin, rétt eins og Snorri gerði í Reykholti jafnan eða allt þar til hann var drepinn. Eftir það þvoði hann sér víst sjaldnar, af skiljanlegum ástæðum.
Enginn kaffiskúr er við Gljúfurárrétt og ekkert kvenfélag sjáanlegt. Þar hafði hins vegar verið bakkað Landflutningabíl að vegkanti og uppi á honum voru Lionskarlar í samfestingum að velta Goðapylsum á grasgrillum og selja. Ekki stafaði nú mikill kynþokki af þeirri starfsemi. Í Svarfaðardal ganga Lionskarlar í hús og selja ljósaperur fyrir jólin en láta sér ekki detta í hug að blanda sér í veitingarekstur á Tungurétt. Þar er kvenfélaginu Tilraun að mæta og segir reyndar sína sögu um hófstillingu, hæversku og fullkomnunaráráttu svarfsdælskra kvenna að þær skuli hafa ákveðið að nefna félagsskapinn sinn Tilraun þegar til hans var stofnað fyrir hartnær öld eða guð má vita hvað.Höfðhverfingar taka hlutverk sitt og sauðfjárins alvarlega í réttum. Gljúfurárrétt er virðuleg og vinnusöm samkoma þar sem engin sýnileg lausatök eru á neinum hlut. Svarfdælskar konur ættu næsta haust að bjóðast til að mæta með hóp góðglaðra gangnamanna til að syngja þar í réttinni, hafa líka rjómapönnukökur á diskum og blöndu í pela. Svo myndu gestir og heimamenn ganga til laugar um kvöldið og allir skilja glaðir. Þetta gæti verið undir merkjum menningarsamskipta á vegum Kvenfélagasambandsins og væri meira en Tilraunar virði.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:51 | Facebook
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.