Eyþór Ingi á beinni braut

Dalvíkingurinn Eyþór Ingi fór í gegnum Bandið hans Bubba á Stöð tvö í kvöld eins og að drekka vatn. Spáin við eldhúsborðið í Álftalandi er að hann mæti Thelmu í úrslitum. Hún var drulluflott og söng gamla Flowers-slagarann Slappaðu af mikilli innlifun og öryggi.

Ég sá Flowers einu sinni á sviði í gamla daga og fannst bandið rífandi gott. Það spilaði á bakka Laugardalslaugar 17. júní og hvorki fyrr né síðar hefi ég komið í áhorfendastúku sundlaugarinnar í Laugardal. Þangað kemur reyndar yfirleitt ekki nokkur kjaftur -  nema japanskir túristar að rýna niður í heita potta og feimnar stelpur, sem hlaupa þangað upp þá sjaldan sólarglenna er, til að baka sig að ofan. Greyskinnin þora ekki að týna af sér brjóstpoka í almenningnum.

Það rifjaðist upp að kerlingar af báðum kynjum æstu sig yfir söngvara Flowers fyrir sviðsframkomuna forðum , einkum og sér í lagi þegar hann söng Slappaðu af. Þá dillaði hann bossanum úr hófi og kerlingar skrifuðu Velvakanda í sálarangist sinni. Svo hætti Jónas R. að syngja og gerðist hrossasendiherra fyrir Guðna Ágústsson síðar á lífsleiðinni. Það varð ekki sérlega farsælt dæmi, hvorki fyrir Guðna né Jónas. Helst að hrossin hafi haft ástæðu til að fagna, það er að segja þau sem frekar vildu vera í heimahögum en taka þátt í útrás landbúnaðarráðherrans og fyrrum blómabónda, Jónasar söngvara í Flowers.

Þetta var langur útúrdúr, eins og Össur lendir stundum í þegar hann skrifar á nóttunni. Sá er hins vegar munurinn að hér verður engum slátrað og engin blóðslóð rakin. Svarfdælskur friður og norðlensk ánægja. MA í úrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna í gær, Eyþór Ingi áfram í Bubbaþættinum í kvöld. Lagið sem hann söng, úr smiðju Jet Black Joe, var ekki sérlega merkilegt og drengur náði sér ekki almennilega á flug, í það minnsta ekki í líkingu við það sem gerðist á sama vettvangi fyrir viku. En hann er í úrvalsdeildinni í þættinum og fer langt, mjög langt, og helst í úrslit. Yngsti keppandinn en sá sem virðist sviðsvanastur, öruggastur og flottastur!

Sammála dómurum sem sögðu í kvöld að nú væri komið að því að drengur spreytti sig á rólegum nótum og léti reyna á breiddina sem hann býr að. Hann rokkaði feitt og ræður vel við þannig tjútt. Engin spurning. Nú er að gíra sig niður og koma óvart á lágri tíðni næst.

Unaður einn að sitja við eldhúsborðið, hlýða á þetta þroskaða ungstirni frá Dalvík + aðra í þessum þætti og lepja á meðan úr flösku af páskaöli frá Kalda á Ársskógsströnd. Þetta var sum sé kvöld þessa þá líka fína Dalvíkurbyggðarkokkteils: Eyþór Inga og páska-Kalda af stút. Burt séð frá bandinu hans Bubba: prófið Kalda! Þetta er unaðslegur drykkur. Bloggið samt ekki eftir fleiri en tvo páska-Ströndunga. Þá gæti blóð farið að fljóta, eins og dæmin sanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband