Sunnudagur, 20. apríl 2008
Svarfdælskar konur með sviðið andlit
Fimm svarfdælskar konur bönkuðu upp á hér í Álftalandi um helgina til að flytja tíðindi úr sveitinni og afla annarra í staðinn til að flytja norður að heimsókn lokinni. Þetta voru Bakkasysturnar Didda og Halldóra ásamt mágkonum sínum þremur: Boggu, Hönnu og Lillu. Viðræður voru fróðlegar og fóru um víðan völl en verða ekki ræddar frekar enda hvílir á þeim bæði fjölskyldutrúnaður og bankaleynd.
Gestirnir komu færandi hendi og gáfu húsfrúnni villiplöntu í potti en húsbóndanum sviðakjamma með slettum af kartöflustöppu og rófustöppu á bakka. Þetta vinarbragð og breytti laugardagshádeginu úr smálegu hvunndagssnarli í sviðaveislu.
Landsmenn eru ef til vill ekki sérlega mikið inni í innbyrðis samskiptamálum Svarfdælinga en þá fá þeir að vita hér og nú að sviðin sauðaandlit eru býsna algengar tækifærisgjafir þar í sveit, með eða án stöppu. Einkum er þetta þekkt á austurkjálkanum. Mikil stemming getur skapast á heimilum þar sem margir koma saman með kjamma á hverjum diski. Menn stúdera mörkin og glöggir fjármenn reyna að lesa ættartengsl við þekkta hrúta úr andlitsdráttum fjárins. Slíkt er ekki á hvers manns færi þegar skepnan hefur gengið í gegnum dauðastjarfa eftir slátrun og síðan svíðingsframkomu við opinn eld.
Menn finna stundum fyrir frumstæðri spennu þegar páskaegg er opnað og upp úr því dorgaður málsháttur sem þykir misjafnlega gáfulegur og eiga mismikið við á hverjum tíma. Spennan sem fylgir því að ráða í eyrnamark á sviðakjamma er mun meiri og þjóðlegri og hámarki nær samkvæmið ef tekst að lesa saman tvo kjamma þannig að unnt sé að mynda á ný heilan haus úr réttum helmingum - mínus auðvitað heilann. Markaleikurinn er hins vegar óframkvæmanlegur í sviðapartíium hér fyrir sunnan af því eyru eru sneidd af við hlust í kjötiðjuverum sunnanlands áður en varan er sett á neytendamarkað. Til dæmis var gjafakjammi Bakkaviðhengjanna eyrnalaus og því var ég bæði rændur þeirri ánægju að rýna í markið og éta eyrað. Það eru nefnilega þrír hápunktar í hverri sviðaveislu. það er að segja þegar étin eru augu, eyru og tungur. Í þessari röð.
Ekki veit ég gjörla hvort sviðamenningunni fylgir sú staðreynd að sögnin að kjamsa hefur aðra og yfirfærða merkingu í Svarfaðardal en annars staðar á landinu. Þannig var það að minnsta kosti í mínu ungdæmi. Orðabókin segir að kjamsa merki að smjatta á einhverju og þannig nota landsmenn þessa sögn yfirleitt. Meðal ungmenna í Svarfaðardal merkti kjamsa hins vegar nokkurn veginn að kyssa og þeir drengir sem gátu stært sig af kjamsi í Húsabakkaskóla eða undir Þinghúsvegg á Slægjuballinu voru komnir nokkuð langt á þroskabrautinni.
Enn aðrir vilja mein að það að kjamsa merki að borða eða naga. Þegar ég lagðist í rannsóknir á málinu sá ég til dæmis að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur dæmdi atvinnulausan drykkjumann í skilorðsbundið fangelsi í desember 2006 fyrir að stela mat í kjörbúð. Í dómnum segir að hann (altsvo fyllibyttan en ekki dómarinn) hafi verið staðinn að því að ,,kjamsa á kjúklingi" á búðargólfinu. Af textanum má ráða að maðurinn hafi hvorki verið að kyssa fuglinn né smjatta á honum heldur verið að úða kjúllanum í sig þegar að var komið.
Ómar Ragnarsson er hins vegar nær svarfælskum skilningi að hluta í ljóðinu góðkunna, Sveitaballi. Þar segir í einu erindinu:
Sveitaball, öll kvennagullin elska sveitaball.
Því næði gefst þeim til að gramsa þar
og kjamsa þar - á kjömmunum, jafnvel á ömmunum.
Og öll þau ó-
hljóð úti á hlaði mynda hrærigrautarglaum
er breimkattarbrölt blandast við vélarskrölt,
rokklög og stapp og kjaftakraum.
Ég skil það svo að maðurinn gefi sögninni að kjamsa þarna þrefalda merkingu, að smjatta, að éta og svo kyssa. Alla vega látum við nú duga að kyssa ömmur í minni sveit en étum hins vegar sauðaandlitin.
Og segir nú ekki fleira af kjamsi og kjömmum.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar