Þriðjudagur, 21. nóvember 2006
Þingflokkur útskúfaðra
Fallistar í prófkjörum flokkanna kyrja á köflum undarlegan söng þegar þeir sleikja sár sín eftir að hafa verið hafnað af háttvirtum kjósendum. Samfylkingarþingmaðurinn Guðrún Ögmundsdóttir er undantekning. Hún segir einfaldlega að líf sé eftir pólitíkina, tekur ekki sæti á framboðslista og snýr sér að öðru þegar kjörtímabilinu lýkur. Það er svo sem eftir öðru að henni sé rutt úr vegi en ýmsir ónefndir hælbítar og kjaftaskar fái (áfram) umboð til þingsetu fyrir flokkinn. Verði Samfylkingunni að góðu. Í ljós hefur svo komið að einhver Valdimar situr á þingi fyrir þennan flokk og er sárlega móðgaður yfir að hafa húrrað niður eftir öllum lista í prófkjörinu. Hann sagði sig síðan úr Samfylkingunni í Silfri Egils á sunnudaginn var en ætlar að hirða áfram þingfararkaup svo lengi sem slíkt er í boði. Löglegt er það sjálfsagt en ekki sérlega siðlegt. Greinilegt var að ekki einu sinni Samfylkingarfólk vissi hvorki að Valdimar þessi væri yfirleitt til, hvað þá að hann sæti á þess vegum á Alþingi. Nú er maðurinn hins vegar skyndilega orðinn þjóðkunnur, eftir að hafa gefið út pólitískt dánarvottorð handa sjálfum sér í sjónvarpsþætti. Segjum svo að hann hafi barist til einskis. Þá er það Kristinn H. sem kom því til leiðar að framsóknarmenn fengju að greiða atkvæði um kandídata á framboðslistann sinn í Norðvesturkjördæmi. Eftir að fyrir lá að meirihluti flokksmanna í kjördæminu væri á annarri skoðun en Kristinn H. um skipan framboðsmála lét hann dynja á þeim og öðrum landsmönnum yfirlýsingar um að flokksforystan hafi bundist samtökum um að ýta sér til hliðar! Berin eru súr á stundum. Fallnir þingmenn í prófkjörum eru orðnir svo margir nú þegar að þeir geta hæglega myndað þingflokk. Og hver veit nema framboð útskúfaðra næði mönnum inn á Alþingi ef menn stigju skrefið til fulls. Einu vandræðin eru hvernig ætti að standa að framboðsmálum útskúfaðra. Það má ekki stilla upp lista og heldur ekki bjóða kjósendum að velja frambjóðendur. Kannski er eina færa leiðin sú að fá lánaða kúluvél Lottósins og draga um röð frambjóðenda í viðurvist sýslumanns. Stjórnmálamenn kom a þar með óorði á hugtakið happadrátt eins og þeim hefur tekist að koma óorði á svo margt annað. Þannig er nú lífið.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar