Klassekampen og Selvstendighetspartiet

Dagblaðið Klassekampen í Noregi sló upp í dag ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að leið Íslendinga lægi til Brussel, inn í Evrópusambandið. Blaðið átti altsvo tal við ráðherrann og hafði þetta upp úr krafsinu. Þar með hefur ritstjórn málgagns norskra maóista trúlega talið sig hafa fengið staðfest að leiðir heyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í ESB-málum lægju ekki lengur saman. Það er af sem áður var.

Síðla árs 1994 komst Árni M. Mathiesen, þá óbreyttur þingmaður, á forsíðu Klassekampen í risauppslætti gegn ESB, með mikilli velþóknun maóistanna. Hann var á Norðurlandsráðsþingi í Tromsö þegar örfáir dagar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi um Evrópusambandsaðild og afar heitt í kolum í þjóðmálaumræðunni í landinu. Blaðamenn frá Klassekampen voru á ferli á fundarstað að krækja í norræna viðmælendur sem vildu ekkert með Evrópusambandið hafa og féllu því vel í kram lesendanna. Ég benti þeim umsvifalaust á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á svæðinu, þar væru sannfærðustu samherjar Arbeidernes kommunistparti marxistene-leninistene í ESB-málum á Íslandi, hægrimenn, langstærsti flokkurinn og forystuafl í ríkisstjórninni. Þetta þótti útsendara Klassekampen undarlegt og býsna lygilegt en hætti sér samt í að svífa á Árna Matthiesen sem kom þar aðvífandi. Svo kom blaðamaðurinn ljómandi af ánægju með afraksturinn og þakkaði mér fyrir ábendinguna. Árni fékk daginn eftir einn mesta uppslátt sinn í fjölmiðli fyrr og síðar og allir undu glaðir við sinn hlut, aðstandendur Klassekampen, lesendur blaðsins og Árni.

Undir kvöld missti málgagn norskra maóista - og yfirleitt allir fjölmiðlar sem höfðu útsendara á Norðurlandaráðsþinginu - af einstæðu myndefni í andófinu gegn Evrópusambandsaðild í Noregi. Nei-hreyfingin gegn ESB efndi til fjöldagöngu um götur Tromsö og leiðin lá meðal annars fram hjá hótelinu þar sem forsætisráðherra Íslands bjó. Þarna gengu menn í þúsundavís undir rauðum fánum og fjandsamlegum slagorðum gegn ESB, syngjandi og gólandi baráttusöngva.

Svo vildi til að Davíð Oddsson kom út af hótelinu á leið til kvöldverðar fyrirmenna einmitt þegar baráttugangan fór þar hjá. Hann hreifst með á augabragði, snaraðist út á götuna og gekk undir rauðum fánum og ydduðum slagorðum þónokkra metra, áður en ringlaðir öryggisverðir í fylgdarliðinu náðu áttum og vísuðu forsætisráðherranum veginn af byltingarvettvangi götunnar til veislusala fyrirfólksins.

Daginn eftir rakst ég á blaðamann Klassekampen í þinghúsinu og sagði frá því að leiðtogi Sjálfstæðisflokksins af Íslandi hefði toppað óbreyttan liðsmann sinn, Árna Matt, með því að sogast með velþóknun inn í Nei-gönguna og berast áfram með straumnum nokkur augnablik áður en norska leyniþjónustan tók í taumana. ,,Fjandinn sjálfur," svaraði Klassekampen að bragði. ,,Nú verðum við að setja vakt á þennan Sjálfstæðisflokk. Við hefðum lagt alla forsíðuna undir Oddsson og miðopnuna líka ef við hefðum staðið hann að verki. Við hefðum meira að segja átt góðan séns í fréttamynd ársins!"

Þar með kvaddi Klassekampen og gekk hryggur á braut. Enn raunamæddara er maóistablaðið væntanlega nú þegar það hefur sannreynt að staðfesta forystu sjálfstæðismanna af Íslandi í ESB-málum sé óðum að rakna upp. Klassekampen getur þá huggað sig við að í Seðlabankanum eigi Nei-hreyfingin í Norge ennþá staðfastan bandamann frá því í göngunni miklu í Tromsö 1994. Það er huggun harmi gegn á örlagatímum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband