Sunnudagur, 21. desember 2008
Ólíkt höfumst vér að
Horfði á ítarlega og afar fróðlega fréttaskýringu á CNN í morgun um þetta stórfurðulega mál sem kom upp í ríkinu Illinois í Bandaríkjunum á dögunum. Barack Obama, verðandi forseti, sat á þingi fyrir þetta ríki og nú þegar sæti hans er autt er á valdi ríkisstjóra Illinois að fylla í skarðið, þ.e. að velja nýjan mann til að setjast á Bandaríkjaþing. Engar kosningar, engin fegurðarsamkeppni heldur alræði eins ríkisstjóra! Þessi tiltekni ríkisstjóri ákvað að hafa eitthvað upp úr krafsinu og selja þingmannssætið, því þar eins og víðar ganga margir með þingmann í kviðnum og eru reiðubúnir að borga vel fyrir sæti á löggjafarsamkomu. Þegar hins vegar lögregla og saksóknarar í Illinois fréttu af fégráðuga ríkisstjóranum var hann einfaldlega handtekinn og leiddur í járnum í gæsluvarðhald en látinn síðan laus gegn tryggingu. Fréttaskýringin fjallaði annars vegar um málstað og málflutning ríkisstjórans, Rod Blagojevich, og hins vegar um heitstengingar ákæruvaldsins að koma þessum gjörspillta þrjóti frá og í fangelsi til frambúðar.
Þarna er ekkert gefið eftir og fram kom að hann stæði fram fyrir því að vera samvinnuþýður og gera sér þá vonir um að sitja inni í bara fimm ár eða halda áfram siðspillingarrugli sínu og geta þá búist við að sitja handan við rimla í fjórðung aldar. Og afskipti eiginkonu ríkisstjórans af málinu geta orðið til þess að hún fái fangelsisdóm líka og sömuleiðis starfsmannastjóri ríkisstjórans.
Svona tekur réttarkerfið í Illinois á sjálfum ríkisstjóranum og þeir sem sjá til þess að lögum sé framfylgt þar í ríkinu ætla ekki að hvílast ærlega fyrr en hvítflibbaglæponinn fer að rotna í svartholi og fær þar með makleg málagjöld. Fréttaskýringin var allrar athygli verð út af fyrir sig en aðallega leitaði hugurinn af sjónvarpsskjánum til hins íslenska valdasamfélags. Nógu slæmt er að reyna að setja eitt þingsæti á uppboðsmarkað og ætla sér að græða á sölunni. Öllu verra er trúlega að veðsetja heila þjóð og keyra í gjaldþrot með stæl og dýfu. Hersingin öll sem að því stóð og vitorðsmenn hennar ganga lausir og munu ganga lausir. Það er 120% öruggt að enginn finnst sem óhætt þykir að draga til ábyrgðar, einfaldlega af því íslenska valdakerfið lifir ekki af aðra niðurstöðu en þá að sópa öllu undir teppið og smæla svo framan í heiminn.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 210540
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar