Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Um forseta, kryddsíld, siðleysi og óætt laufabrauð
Forsetinn lagði allt nýársávarpið sitt undir efnahagskreppuna og tengd mál og fór vel á því. Það var ekki hægt að skilja orð hans á annan veg en sem stuðningsyfirlýsingu við málstað Austurvallarhreyfingarinnar sem maður ársins á Rás tvö, Hörður Torfason söngvaskáld, hratt af stað í haust. Forseti bar fram sjálfsgagnrýni í maóískum anda vegna afskipta sinna af útrásarvíkingum en tók fram að embættið myndi áfram styðja við sókn íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi. Hann kallaði eftir víðtæku uppgjöri og einhvers konar skilmála í því sambandi. Tæpast hefur þessi ræða þjóðhöfðingjans fallið í sérlega frjóa jörð í Stjórnarráði Íslands enda slíkt uppgjör ekki á dagskrá þar á bæ svo vitað sé.
Ég lagði á mig að hlusta á nýársávörp Danmerkurdrottningar og Noregskóngs í sjónvarpi á gamlárskvöld. Umgjörð ávarpanna voru í báðum tilvikum mun lakari en gerðist með ávarp forseta Íslands í dag og ljóst að Ríkisútvarpið getur kennt ríkissjónvarpsstöðvunum í Danmörku og Noregi talsvert í þeim efnum. Ólafur Ragnar gæti svo tekið Margréti Þórhildi og Harald í kennslustund í að nota textavélar við flutning nýársboðskaparins og tala í stað þess að lesa upp. Bæði stautuðu þau af blöðum, mismæltu sig og voru ekki sérlega áheyrileg. Drottningin sat við borð en kóngur las standand upp á endann, sem var satt að segja ótrúlega hallærisleg umgjörð ávarpsins. Eftir ræðu drottningar mundi ég ekki eftir neinu sem hún sagði í innihaldslausu snakki sínu. Kóngur átti hins vegar ágætis sprett um innflytjendamál í sinni ræðu og lýsti áhyggjum af fordómum í þeirra garð í Noregi, fyrst og fremst meðal eldri kynslóðanna. Álitsgjafi í danska sjónvarpinu sagði reyndar fyrir ávarpið að drottning segði aldrei neitt við svona tækifæri sem skiptar skoðanir gætu verið um og við það stóð hún svo sannarlega. Sama á sjálfsagt við um norska kónginn en hins vegar vefst ekkert fyrir forseta Íslands að segja og aðhafast eitthvað sem kallar á umræður og deilur, eins og dæmin sanna. Foringjar ríkisstjórnarinnar hafa ekki og munu ekki tala við þjóðina á svipuðum nótum og forsetinn gerði í dag - hafi ég skilið nýársboðskapinn frá Bessastöðum eins og hann var hugsaður.
---ooo---
Áramótaskaupið Sjónvarpsins var fínt að þessu sinni, meira að segja mjög gott. Það fór vel í bæði börn og fullorðna á heimilinu. Menn héldu til dæmis að Spaugstofan hefði kreist úr kreppunni mest af því sem hægt væri að spauga með úr þeirri áttinni en aðstandendur Skaupsins höfðu hugmyndaflug og færni til að finna nýjar spaughliðar og gerðu það vel.
---ooo---
Kryddsíld Stöðvar tvö endaði með skelfingu í gær þegar óður skríll reyndi að ráðast inn á Hótel Borg þar sem stjórnmálaforingjar að forsætisráðherra undanskildum reyndu að ræða málin en öskrin af Austurvelli bergmáluðu gegnum veggi og út um land og mið í útsendingunni. Lögreglan réði augljóslega ekki skrílinn sem náði meira að segja að valda tjóni á græjum Stöðvar tvö og slasa einn starfsmann hennar. Það er með ólíkindum að lögreglan hafi ekki getað tryggt betur öryggi stjórnmálaforingjanna og aðstandenda Kryddsíldarþáttarins þegar fyrir lá sólarhring áður að efna ætti til mótmælaaðgerða við Hótel Borg í tilefni útsendingarinnar. Reyndar er það jafnframt óskiljanlegt að Stöð tvö hafi ekki ákveðið strax 30. desember að flytja útsendinguna af Hótel Borg til að tryggja betur öryggi þeirra sem þarna áttu að koma fram.
---ooo---
Var það ekki dæmigert fyrir árið 2008 að tveir ráðherrar skyldu fá á baukinn á síðustu sólarhringum þess fyrir að hafa gengið á svig við lög og reglur við mannaráðningar í opinberri stjórnsýslu? Fullyrða má að í öllum ríkjum, sem Íslendingar vilja helst líkja sér við, hefði fjármálaráðherra sagt af sér samdægurs og dómsmálaráðherra jafnvel þuft að taka pokann sinn líka vegna eðli málsins sem þeim tengist. Á Íslandi er slíkt bara ekki inni í myndinni. Gamall bekkjarbróðir minn úr blaðamannaskólanum í Osló er núna pólitískur fréttaskýrandi í norska ríkisútvarpinu og hringdir stundum þegar mikið liggur við til að fá skýringar á ýmsu sem hann ekki skilur, enda eru íslensk stjórnmál sér á báti og ýmislegt sem hér viðgengst að sjálfsögðu enn óskiljanlegra útlendingum en innfæddum. Daginn sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ákvað að veita íslenskum stjórnvöldum lánið mikla hringdi fréttaskýrandinn frá Osló. Erindið var eftirfarandi: Fréttamenn norska ríkisútvarpsins höfðu farið yfir lista allra hliðstæðra neyðarlána Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá stofnun hans og komist að þeirri niðurstöðu að í hverju einasta tilviki hafði ástandið í viðkomandi ríki orðið til þess að einstakir ráðherrar höfðu hrakist frá völdum eða ríkisstjórn í heild sinni, bankastjórar eða bankastjórnir, lykilembættismenn osfrv. Þar til kom að Íslandi árið 2008. Þar fór heilt viðskiptabankakerfi á hausinn og eftirlitsapparatið kom af fjöllum en allir sitja á sínum póstum eins og ekkert hafi í skorist. Allir. Norðmaðurinn spurði: Hvernigt í veröldinni stendur á því að menn komast upp með að skandalísera og setja heila þjóð á hausinn án þess að taka á því nokkra ábyrgð? Svarið fékk hann ekki hjá mér, ég viðurkenndi að standa þarna á gati eins og obbinn af hinni gjaldþrota íslensku þjóð.
---ooo---
Steikarfeiti frá Kristjánsbakaríi hjó skarð í jólagleðina á þessu heimili og fleirum. Þegar við sunnanangi Jarðbrúarfjölskyldunnar kom saman til laufabrauðsgerðar undir lok nóvember var notuð feiti frá þessu annars ágæta bakaríi á Akureyri til steikingar. Feitin hegðaði sér undarlega og freyddi heil ósköp. Í ljós kom að þetta hafði gerst víðar við svipuð tækifæri og Kristjánsbakarí innkallaði feitina. Nú hefur komið á daginn að sjálft laufabrauðið sem steikt var úr gölluðu feitinni er tæpast ætt. Það er fitustorkið og bragðið af brauðinu, eða öllu heldur af feitinni í því, er ekki geðslegt. Laufabrauðið vantaði því á veisluborðið í ár. Það þætti nú afleitur búskapur í Svarfaðardal að fagna jólum og áramótum laufabrauðslaust.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 210540
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar