Mánudagur, 5. janúar 2009
Ískuldi í garð ESB á Valhallarfundi
Andstaðan við Evrópusambandið hefur gert Styrmi Gunnarsson og Kristján Ragnarsson að fóstbræðrum á ný eftir harkaleg átök þeirra um sjávarútvegsmál á opinberum vettvangi um áratugaskeið. Þeir sneru bökum saman í dag á opnum fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, Morgunblaðsritstjórinn fyrrverandi sem átti manna mestan þátt í því að festa hugtakið sægreifa við útgerðarmenn landsins og svo fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna - sjálf ímynd sægreifans á síðum Morgunblaðsins.
Í ESB-umræðunni myndast þannig ný bandalög og þau sem fyrir eru kunna á hinn bóginn að gisna eða riðlast, um sinn að minnsta kosti. Þannig sagði Styrmir að nú væri hann í fyrsta sinn ekki hjartanlega sammála fulltrúum Engeyjarættarinnar í pólitík allt frá því hann kynntist Halldóri Blöndal í september 1949. Styrmir og Bjarni Benediktsson, alþingismaður af Engeyjarætt, voru nefnilega frummælendur á Valhallarfundinum og gagnstæðrar skoðunar. Það sem gerir ESB-umræðuna sérlega spennandi og áhugaverða er ekki síst það að fylkingar munu riðlast þvert á flokksbönd, ættarbönd og allar aðrar línur, bæði hefðbundnar og genetískar. ESB-málið skapar á vissað hátt svipað ástand og prestskosningar hér á árum áður, það geta allir verið með öllum eða á móti öllum. Þá loguðu kirkjusóknir í deilum og fjölskylduboð leystust upp í karpi um klerka. Gaman, gaman.
Afstaðan til Evrópusambandsins verður aðalmál landsfundar Sjálfstæðisflokksins núna í lok janúar og lífleg umræða er á vettvangi flokksins um málið, meðal annars á sérstakri og mjög svo líflegri heimasíðu og á opnum fundum um helstu málaflokka. Og áhuga skortir ekki því Valhallarsalurinn var stappfullur í dag og augljóst að fundarsókn var tvöfalt meiri en fundarboðendur höfðu áætlað. Allt í góðu með setinn Svarfaðardal á fundum en þá verður hátalakerfið líka að vera í góðu lag til að allir geti fylgst þokkalega með því sem fram fer. Þarna var talkerfið hins vegar í lamasessi allan tímann, sem auðvitað er ekki boðlegt á svona samkomum.
Andrúmsloftið í Valhöll var á þann veg að eindregið benti til þess að Evrópusambandið ætti sér þar formælendur fáa. Þá er tekið mið af fyrirspurnum, athugasemdum, klappi og líkamstjáningu gesta á vissum augnablikum. Einn fundarmaður sýndi meira að segja í verki hug sinn til framsöguræðu Bjarna Benediktssonar með því að rífa af sér spariskó og veifa yfir höfði sér. Hann lét hins vegar duga að sýna skóinn sinn og kalla upp að þingmaðurinn væri að ,,slíta úr sér hjartað" með ummælum um Evrópusambandið. Skókast er annars orðið alþjóðlegt mótmælatiltæki eftir að fréttamaður í Írak hugðist þrusa skóm sínum í haus Bush Bandaríkjaforseta á blaðamannafundi í Bagdad á dögunum en hitti ekki, illu heilli.
Málflutningur Styrmis átti sem sagt áberandi betri hljómgrunn meðal fundarmanna en sjónarmið Bjarna, hvort sem það nú er fyrirboði niðurstöðu sjálfs landsfundarins eður ei. Þingmaðurinn stóð samt ekki einn, langt í frá, en færri höfðu sig í frammi máli hans til framdráttar og voru orðvarari en sumir af hinum vængnum.
Bjarni talaði skýrar um Evrópusambandsmál og gekk lengra en ég hef heyrt mann úr forystukjarna sjálfstæðismanna gera áður, að varaformanni flokksins meðtöldum. Hann kallaði eftir að forysta Sjálfstæðisflokksins fengi opið umboð landsfundar til að fjalla um næstu skref gagnvart Evrópusambandinu í ljósi gjörbreyttra aðstæðna og þá ætti fyrst að láta reyna á samstöðu með öðrum stjórnmálaflokkum. Hann tvítók það sem afstöðu sína að ,,kalt hagsmunamat" ætti að ráða för þegar málið yrði gert upp, ekki væri lengur samstaða um að ,,aðhafast ekkert" í þessum efnum.
Styrmir vísaði á bug öllum hugmyndum um að nálgast Evrópusambandið með aðild í huga því þar með væru Íslendingar að afsala sér yfirráðum auðlinda sinna til lands og sjávar. Hann varpaði fram þeirri hugmynd að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal 40-45.000 flokksbundinna sjálfstæðismanna um land allt og fá þannig bindandi afstöðu fyrir flokksforystuna til hugsanlegra aðildarviðræðna en kvaðst reyndar ekki kvíða niðurstöðu landsfundarins í málinu. Hann lýsti sig ósammála áramótavangaveltu Geirs H. Haarde forsætisráðherra um tvöfalda allsherjaratkvæðagreiðslu um ESB og kvað hugmynd Ingibjargar Sólrúnar Samfylkingarformanns um þingkosningar og ESB-atkvæðagreiðslu ,,alveg fráleita".
Morgunblaðsritstjórinn fyrrverandi lét það verða eitt sitt síðasta verk á Valhallarfundinum, í svari við fyrirspurn úr sal, að taka Alþýðusambandsforystuna til bæna. Ákafinn var engu minni en þegar hann lamdi forðum daga á sægreifunum sælu í forystugreinum og Reykjavíkurbréfum Moggans. Styrmir sagði það ,,gjörsamlega óskiljanlegt" að Alþýðusambandið hefði samþykkt stefnuyfirlýsingu um að Ísland skyldi sækja um ESB-aðild og bætti við: ,,Þetta þýðir í raun að ASÍ krefst aukins atvinnuleysis á Íslandi!"
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar