Að stjórna með boxhönskum

IMG_9287_webFjörlegt var og líflegt um að litast í Víkinni, félagssvæði Víkinga,  á sunnudaginn var:  iðandi mannlíf og athafnasemi jafnt innan dyra sem utan og hefðbundið sprikl að auki í sjálfum íþróttasalnum. Í svokallaðri tengibyggingu var opinn markaður á vegum skíðadeildar félagsins og þangað streymdi fólk allan daginn til að kaupa og selja notaðar skíðagræjur, fá fagmenn í að skerpa stálkanta eða IMG_9313_webbreyta stillingum á bindingum eða bara  sýna sig og sjá aðra. Á bílastæðinu var heil hersing krakka að flokka og telja alls 39.000 dósir og flöskur sem safnað var í húsum í hverfinu! Þannig söfnuðu Víkingskrakkar til styrktar barna- og unglingastarfi handknattleiks- og knattspyrnudeilda félagsins og stuðluðu í leiðinni að tiltekt í geymslum og bílskúrum í hverfinu þar sem safnast höfðu fyrir drykkjarvöruumbúðir eftir veisluhöld hátíðanna.

Þetta var félagsstarf í hnotskurn eins og best gerist og uppskeran eftir því. Iðkendur og aðstandendur þeirra eru hjartað sem slær í svona félagsskap og mynda, ásamt velunnurum Víkings að fornu og nýju,  forystumönnum og starfsliði, gangverk starfseminnar og sjálfa félagssálina. Ég hef sjálfur dúllað dálítið í kringum yngri flokkana í fótboltanum, þar sem synirnir tveir koma við sögu, og haft ómælda ánægju af í blíðu og stríðu. Jafnframt hefi ég kynnst fjöldamörgum Víkingum á öllum aldri, ótal vinnuhestum í þágu félagsins fyrr og síðar, þjálfurum og síðast en ekki síst starfsmönnum í Víkinni. Nú síðast kynntist ég framkvæmdastjóranum sem þáverandi aðalstjórn Víkings réði til starfa frá og með 1. maí 2008 eftir að hafa auglýst starfið og valið viðkomandi úr hópi umsækjenda. Þá mat stjórnin  umsóknirnar, ræddi við „heitustu kandídatana“ og valdi svo; viðhafði með öðrum orðum opið, gegnsætt og eðlilegt ferli og traustvekjandi starfsmannapólítík. Þáverandi aðalstjórn kaus síðan í starfið mann sem reyndist vera áhugasamur og drífandi, léttur í lundu með góða nærveru, hugmyndaríkur og vinsæll í hópi gesta og gangandi í Víkinni. 

Fáeinum vikum síðar var ný aðalstjórn kjörin í Víkingi og með nýjum herrum komu nýir siðir eins og gjarnan gerist. Æskilegt er þá að hinir nýju siðir rúmist jafnan innan þeirra  marka sem viðtekin háttvísi og venjur í mannlegum samskiptum setja í starfsemi af þessu tagi. Þarna skipuðust mál hins vegar með nokkuð öðrum hætti.  Í byrjun nóvember sagði aðalstjórnin  bókara félagsins upp störfum eftir farsæla þjónstu um árabil. Í fyrirtækjum og félögum heyrir starfsmannahald yfirleitt undir framkvæmdastjóra og þannig var það líka hjá Víkingi að því er best var vitað. Aðalstjórnin rak hins vegar bókarann milliliðalaust.  

Um miðjan nóvember rak aðalstjórn svo nýlega ráðinn framkvæmdastjóra Víkings, sem út af fyrir sig voru tíðindi. Enn meiri tíðindum sætti þó að  hálfum öðrum sólarhring síðar var nýr framkvæmdastjóri kominn til starfa í Víkinni. Sá hafði því augljóslega verið ráðinn áður en fyrirrennaranum var sparkað. Gengið var því á svig við þá eðlilegu og sjálfsögðu stjórnsýsluhætti að auglýsa viðkomandi starf, fjalla um umsóknir og ráða síðan í það á tilteknum forsendum.

Vinnulagið við við framkvæmdastjóraskiptin er sennilega löglegt í bak og fyrir eða það skyldi maður  ætla og vona. Hins vegar er framgangsmátinn siðlaus og ekki boðlegur. Enga þekkingu í  lögspeki þarf til að fullyrða slíkt. Nýja framkvæmdastjórann þekki ég ekki neitt, hvorki í sjón né raun, en Víkings vegna  er hann vonandi hinn mætasti maður, drengur góður og hæfur vel til starfs síns. Athugasemd mín snýr enda ekki að honum heldur að aðalstjórninni sem  kallar yfir sig  innanfélagspískur um einkavinavæðingu og spillingu í kjölfar  ósæmilegrar framkomu gagnvart starfsmönnum félagsins. Með ólíkindum er að  fíflast svona á foraðið með opin augu á tímum þegar þjóðfélagið allt logar stafna á milli í kröfum um skítmokstur í spillingargrenjum, siðvæðingu og opið samfélag. 

Það er reyndar eftirtektarvert nú,  þegar heilir tveir mánuðir eru liðnir frá því framkvæmdastjóranum var sparkað og nýr maður kom í hans stað, að enn hefur ekki verið birtur stafkrókur um mannaskipti í sjálfum framkvæmdastjórastóli Víkings í fréttum á heimasíðu félagsins! Hins vegar var strax greint frá því hve margar dósir söfnuðust þegar kulnað hafði í þrettándabrennum og sömuleiðis var birt forsíðufrétt um hvernig 5. flokki í fótbolta hefði gengið að búa til snjókarla og -kerlingar eftir hret sem gekk yfir Fossvogsdal á dögunum, sem er bara fínt mál. Svo öllu sé til skila haldið  er nýr framkvæmdastjóri skráður á lista yfir starfsfólk Víkings á heimasíðunni en hvergi vakin athygli í fréttum á þessum óvæntu hræringum á félagskontórnum. Svo tóku glöggir Víkingar líka eftir því að það fækkaði um einn í aðalstjórn á lista yfir stjórnarmenn á heimasíðunni strax eftir brottrekstur framkvæmdastjórans. Engin  frétt hefur heldur verið skrifuð um hverju sætti að stjórnarmaðurinn gufaði upp rétt si-svona. 

Aðalstjórn Víkings ræður auðvitað sínum næturstað og hverja hún vill hafa í vinnu og hverja ekki. Hún skaðar hins vegar ímynd og orðspor félagsins með fautalegri framkomu gagnvart starfsmönnum sem þjónað hafa félaginu af trúmennsku og dugnaði. Mörg dæmi eru um einkafélög af ýmsu tagi þar sem eigendur og stjórnendur haga sér eins og fílahjörð í kristalsfabrikku og nota boxhanska í samskiptum við starfsmenn sína. Víkingur er hvorki einkafyrirtæki, kristalsfabrikka né boxhringur heldur heilbrigt og skemmtlegt íþróttafélag, meira að segja með bevís frá Íþróttasambandi Íslands upp á að vera fyrirmyndarfélag. Hvorki meira né minna.

Íþróttafélög gera, eðli máls samkvæmt,  ríkar kröfur til samfélagsins og fá mikla opinbera fjármuni til ráðstöfunar auk fjárstyrkja og annars konars stuðnings  frá fyrirtækjum og einstaklingum.  Það er beinlínis forsenda fyrir því að standa undir nafnbótinni fyrirmyndarfélag ÍSÍ að viðkomandi félagsskapur standist sjálfsagðar gæðakröfur í starfsemi sinni, ekki síst í æðstu stjórnsýslu. Fyrirmyndarfélag í orði verður líka að vera fyrirmyndarfélag á borði. Starfsmannapólitíkin sem æðsta forysta Víkings hefur tileinkað sér er víðsfjærri því að teljast boðleg í yfirlýstu fyrirmyndarfélagi. 

Óskrifuð siðaregla í vefheimum er sú að blogga hvorki reiður né fullur. Til þess eru vítin að varast og koma upp í hugann dæmisögur af þingmönnum tveimur sem sendu forðum frá sér svo svæsin skeyti á bloggsíðum sínum að næturþeli að augljóst mátti telja að þeir væru í það minnsta með skerta dómgreind sakir illsku og jafnvel slompaðir í ofanálag. Í næstu kosningum datt annar út af þingi en hinn datt að vísu upp í ráðherrastól þrátt fyrir að hafa skandalíserað á blogginu. Álykti svo hver fyrir sig.

Ég hélt mig meðvitað langt frá bloggskrifum á meðan reiðin sauð og kraumaði vegna atburðanna í Víkinni, annars hefði þessi pistill verið í það minnsta jafn svæsinn og froðufellandi skeytasendingar þingmannanna forðum. Nú er ég ekki reiður og því síður fullur, reyndar alveg pollrólegur en áfram leiður og svekktur. Sjálfsagt er ég að skipta mér af einhverju sem mér kemur ekki við en það verður þá svo að vera. Þetta er þá bara svanasöngurinn minn í Víkinni og farið hefur fé betra. Sumt getur nefnilega ekki legið í þagnargildi og má ekki liggja í þagnargildi.  Allra síst í svokölluðum fyrirmyndarfélögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband