Mánudagur, 26. janúar 2009
Davíð dýrkeypti
Geir H. Haarde valdi of ódýra leið í skýringum falli ríkisstjórnarinnar á fréttamannafundi í Alþingishúsinu áðan. Vissulega má til sanns vegar færa að Samfylkingin hafi verið í tætlum, eins og forsætisráðherra orðaði það, og vísaði til uppreisnar innanbúðar í samstarfsflokknum í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar í síðustu viku. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort forysta sjálfstæðismanna hefði ekki staðið í öðrum sporum nú ef hún hefði lesið betur í stöðu og strauma í október og nóvember. Fyrir lá nefnilega strax í október að enginn friður yrði í landinu fyrr en að minnsta kosti lykilráðherrar segðu af sér og hreinsað yrði til í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Mótmælin á Austurvelli frá því Alþingi kom saman úr jólapásunni og óróinn í Samfylkingunni urðu til að hraða óumflýjanlegri atburðarás. Foringjar sjálfstæðismanna vildu upp til hópa horfa fram hjá því að drastískar aðgerðir þyrftu til að koma, ekki síst að Davíð og Seðlabankaforystan yrði að fjúka til að róa liðið. Kannski lögðu þeir einfaldlega ekki í að hrófla við foringja sínum fyrrverandi á Seðlabankakontórnum. Davíð varð flokknum sínum dýrkeyptur.
Hvað tekur nú við? Samfylkingin virðist hafa sett sjálfstæðismönnum kosti sem fyrir fram var vitað að þeir myndu ekki ganga að. Samfylkingin vildi því komast úr þessu pólitíska hjónabandi. Trúlegt er að hún og vinstri-grænir komi sér saman um minnihlutaríkisstjórn fram að kosningum og Framsókn verji hana vantrausti.
Fráleitt er að stjórn allra flokka, svokölluð þjóðstjórn, sé nærtæk hugmynd nú og reyndar ætti kalt vatn að renna á milli skinns og hörund landsmanna þegar stjórnmálamenn tala um eitthvað sem þeir ætli sér að gera í nafni allrar þjóðarinnar. Sama hvaða stjórnarandstaða er máttlaus og lánlaus þá er mun geðslegri hugsun að hafa þó einhverja stjórnarandstöðu en alls enga á Alþingi, hvort heldur væri til skemmri eða lengri tíma. Minnihlutastjórn er miklu álitlegri kostur og raunar hefðu íslenskir stjórnmálamenn afar gott af því að búa við minnihlutastjórnarfar næstu árin þar sem ríkisstjórn semdi til hægri og vinstri um framgang stefnumála sinna. Sterk minnihlutastjórn er mun ákjósanlegri kostur en veik meirihlutastjórn. Fráfarandi ríkisstjórn skorti ekki meirihluta á Alþingi en samt kom á daginn að hún var máttfarin og veikburða þegar á reyndi til að fást við risavaxið verkefni: þjóðargjaldþrot í kjölfar bankahruns - hvorki meira né minna.
Utanþingsstjórn er fráleitasta og vitlausasta hugmyndin af öllum sem heyrst hafa undanfarna daga en meira að segja sprenglærðir spekingar í stjórnmálafræði ræða samt fjálglega, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að nærtækt sé ífyrir forseta Íslands að setja Alþingi í raun af með því að lyfta einhverjum embættisjálkum upp í ráðsterrastóla. Utanþingsstjórn er nokkuð sem tala um ef allt stjórnmálakerfi landsins er í klessu og Alþingi reynist með öllu ófært um að koma saman ríkisstjórn af einhverju tagi. Stjórnmálafræðispekingarnir voru hins vegar byrjaðir að tala um slíkt embættismannaveldi í Stjórnarráðinu löngu áður en ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá í dag og töluðu af furðumikilli léttúð um þennan möguleika. Ætli sé nú ekki best að láta reyna fyrst á þá kosti sem í stöðunni eru áður en þingræðisstjórnarfyrirkomulaginu verður varpað fyrir borð?
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar