Laugardagur, 4. apríl 2009
Hvað er einn Landspítali milli vina?
Egill Helgason er áhrifamikill fréttaskýrandi og álitsgjafi á framfæri skattgreiða, á margföldum mánaðarlaunum ráðherra með frían bíl, frítt bensín, dekk til aksturs sumar og vetur og keðjur í skottinu til brúks í sköflum á Holtavörðuheiði. Á hann er lagt að stýra bókmenntaþætti í sjónvarpi í hverri viku, fjalla um fréttir vikunnar á hverjum föstudagsmorgni á Rás tvö af meiri yfirsýn en nokkrum öðrum manni er fært (sbr. umsögn umsjónarmanns morgunútvarps í tvígang), blogga heil ósksköp og síðast en ekki síst stýra Silfri Egils - sem kannski væri réttara að kenna frekar við gull og demanta en silfur í ljósi starfskjaranna. Meira um þau mál síðar, fyrir þá sem nenna að lesa áfram.
Ég er ekki fréttaskýrandi sjálfur en mér skilst að í þeim fræðum sé talið frekar til bóta að halda sig einhvers staðar í grennd við staðreyndir og veruleika, eftir því sem unnt er. Æskilegt er, í nafni upplýstrar þjóðmálaumræðu að frumkvæði atvinnumanna í álitsgjöf, að fótur sé fyrir fullyrðingum sem slegið er fram áður en farið er að leggja út af þeim á alla kanta. Látum nú vera með allt sem sagt er um blessaða lífeyrissjóðina nú um stundir. Þar reyna álitsgjafar að toppa hvern annan í dramatískum gífuryrða- og fullyrðingaflaumi af öllu tagi. Á þessum vettvangi hefur fyrr í vikunni verið vikið nokkuð að Sölva þætti Tryggvasonar hins sannsögula sem vaknaði upp við það nú í aðdraganda páskahátíðar að ég hefði gengið skrokk á sér sem andlegur terroristi fyrrí vetur og sömuleiðis Arnar Sigurmundsson, annálað ljúfmenni úr Eyjum sem ég efast um að hafi drepið flugu um dagana. Arnar er hins vegar formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og átti sjálfgefið erindi við Sölva í tilefni ummæla í sjónvarpsþætti en uppsker nú að vera kominn í flokk talíbana á listann sem Sölvi, Bush og Brown halda yfir hryðjuverkamenn. Ég hef að vísu ekki enn heyrt Egil Helgason jafna því við terrorisma að koma nálægt lífeyrissjóðum á Íslandi en sjálfsagt er ekki spurning um hvort heldur hvenær það gerist til að hann sé með á nótum. Egill sagði hins vegart hiklaust á Rás tvö á dögunum að lífeyrissjóðirnir fölsuðu bókhaldið sitt. Ég endurtek: fölsuðu bókhald. Ekkert minna, takk fyrir. Spyrillinn hló við létt og góðlátlega og spurði ekki frekar. Ég beið spenntur eftir næsta fréttatíma og næsta Silfri Egils, fylgdist grannt með heimasíðum Fjármálaeftirlitsins, embættis ríkissaksóknara og fleiri apparata sem eðlilegt væri að hefðu nú eitthvað um að tala þegar heilt lífeyriskerfi er rekið á fölsuðu bókhaldi! En það hefur bara ekkert meira um málið heyrst og ég bíð áfram. Skrítið. Og þó. Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin, áður var það ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn. Núna lífeyrissjóðirnir. Álitsgjafarnir keppa í yfirboðum á lýsingarorðamarkaðinum og sú keppni hefur út af fyrir sig ákveðið gildi til afþreyingar svona rétt eins og pissukeppni strákpjakka í grunnskólaporti. Það er ákveðið innlegg í karlmennskuna að eiga met í að míga lengst upp á skólavegginn.
Eiginlega var allt hér að framan útúrdúr. Tilefni skrifanna er fullyrðing Egils á bloggi sínu fyrir helgi um að íslenskur sjávarútvegur skuldi 500-800 milljarða króna. Hvorki meira né minna. Engin rök, engar sannanir, engar tilvísanir í heimildir af nokkru tagi. Ekkert nema fullyrðingin ein. Nú taldi Seðlabankinn okkar að vísu að sjávarútvegurinn hefði bara skuldað um 500 milljarða króna um síðustu áramót. Egill Helgason veit sum sé betur og bætir við allt að 300 milljörðum. Hvaðan kemur honum vitneskja um alla þá viðbótarskuldasúpu? Kannski afhjúpar hann falsað bókhald sjálfs Seðlabankans í Silfrinu á morgun? Þá stæði nú þátturinn fyrst undir nafni.
Nei, auðvitað er þessi fullyrðing um skuldirnar bull og blaður, kjaftæði og þvaður. Vita skulum við samt að fjöldi fólks treystir Agli betur en Seðlabankanum og talar nú fullum fetum um að sjávarútvegurinn skuldi 800 milljarða króna. Jafnvel meira því það klingir auðvitað betur.
Nú er það meira að svo að Sigurgeir B. Kristgeirsson í Eyjum, Binni í Vinnslustöðinni, hefur rök fyrir því að sjávarútvegurinn skuldi minna en Seðlabankinn gefur upp. Skuldirnar hafi frekar verið nær 400 milljörðum í lok síðasta árs. Binni sökkti sér niður í ársreikninga allra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna hér á landi og er orðin gangandi þjóðhagsstofnun í þeim fræðum. Ég bað kappann um að útskýra fyrir mér í hverju það lægi að hann teldi sjávarútveginn skulda minna en tölur Seðlabankans benda til. Það gerði Binni og nú trúi ég honum frekar en Seðlabankanum. Binni nefndi reyndar við mig í framhjáhlaupi að hann hefði boðið Agli Helgasyni upp á korters námskeið í afkomu sjávarútvegsins í tilefni af blogginu um skuldir upp á 500-800 milljarða en álitsgjafinn sýndi viðbrögð við góðu boði. Enda lá fyrir að Binni bauð upp einungis á rök fyrir því að skuldirnar væru tugum milljarða króna minni en Seðlabankinn reiknaði út í lok árs 2008 en það hentar víst betur í Silfri Egils hafa skuldirnar mun meiri en þær raunverulega eru. Umræðurnar þar verða vissulega meira krassandi fyrir vikið.
Meðal annarra orða: þeir 300 milljarðar króna sem Egill skrökvar upp á sjávarútveginn að greinin skuldi svara til 35 Hvalfjarðarganga á núvirði eða þriggja nýrra Landspítala, miðað við tölur Seðlabankans. Og ef við nú gefum okkur að skuldir sjávarútvegsins séu nálægt því sem Binni í Vinnslustöðinni færir rök fyrir þá munar fjórum nýjum Landspítölum og nær fimmtíu Hvalfjarðargöngum á skuldatölu Binna og ítrustu skuldatölu álitsgjafans í Silfrinu. Það er nú upplýst þjóðmálaumræða í lagi sem sækir undirstöður sínar í svona nokkuð eða hitt þá heldur.
Eftirmáli:
Þeir sem nenntu ekki að lesa alla leið hingað fara nú í fermingarveislur um páskana og hafa mig fyrir því að Egill Helgason sé á margföldum mánaðarlaunum ráðherra hjá RÚV og keyri um á bíl í boði ríkisins. Það er í góðu lagi og telst nú ekki mikið skot yfir markið í samanburði við fullyrðingar Egils sjálfs um að lífeyrissjóðir falsi bókhald og Seðlabankinn vanreikni skuldir sjávarútvegsins um jafnvirði margra nýrra Landspítala. Ég veit ekkert um launamál Egils og hef engan áhuga á þeim yfirleitt. Hins vegar hefi ég nokkurn áhuga á þjóðmálaumræðunni og þykir verra þegar álitsgjafar leiða hana út í þvælu með blaðri og fullyrðingum sem eiga sér ekki nokkra stoð í veruleikanum.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar