Miðvikudagur, 22. apríl 2009
Hvað eru þrenn Hvalfjarðargöng á milli vina?
Mér brá eins og fleirum þegar Stöð tvö flutti þær fréttir í gærkvöld að einn af stærstu lífeyrissjóðunum í landinu hefði tapað 60 milljörðum króna á síðasta ári. Það voru að sönnu ekki ný tíðindi að lífeyrissjóður hefði tapað miklum fjármunum í efnahagshruninu en þessi tala var himinhátt fyrir ofan allt sem áður hafði heyrst í þeim efnum frá einum sjóði á árinu 2008.
Þegar að var gáð kom í ljós að hér var ekki allt sem sýndist. Í nýjum ársreikningi Gildis kemur nefnilega skýrt fram að hrein eign sjóðsins hafi rýrnað um ríflega 29,3 milljarða króna árið 2008 og að tap af fjárfestingum hafi verið 34, 2 milljarðar króna. Þetta var með öðrum orðum tapið á Gildi, 34,2 milljarðar króna, og býsna sennilegt að öllum sem málið varðar þar á bæ þyki afkoman nógu slæm í veruleikanum þó ekki sé nú bætt við heilum 26 milljörðum króna til að koma tölunni alla leið upp í 60 milljarða króna! Þarna er með öðrum orðum skrökvað tapi upp á Gildi sem svarar til meira en þriggja Hvalfjarðarganga á núvirði og munar um minna jafnvel nú á síðustu og verstu Icesave-tímum.
Nú veit ég ekki hvernig þessi 60 milljarða króna taptala er tilkomin í fréttinni umræddu en leyfi mér að giska á að svar við þeirri spurningu sé að finna á blaðsíðu 19 í ársreikningi Gildis. Þar er birt tryggingafræðileg úttekt á Gildi og heildarstaða sjóðsins er þar metin neikvæð um 59,6 milljarða króna. Líkast til eru þarna komnir 60 milljarðirnir sem var efni í fréttauppsláttinn um aðalfundinn. Tryggingafræðileg staða er hins vegar allt önnur Ella en rekstrartap.
Þarna er með öðrum orðum verið að meta núverandi stöðu sjóðsins til framtíðar miðað við að honum hefði verið lokað um síðustu áramót og engir nýir sjóðfélgar teknir inn eftir það. Þeir sem í sjóðnum væru greiddu hins vegar áfram iðgjöld sín og raunávöxtun fjármunanna væri að meðaltali 3,5% á ári, eins og lög kveða á um. Sjóðurinn myndi síðan standa undir því sem honum er ætlað að standa gagnvart sjóðfélögum þar til yfir lyki.
Þetta er þannig reiknuð framtíðarþróun eftir formúlu tryggingarstærðfræðinnar og aldeilis fráleitt að slá heildarskuldbindingu upp í frétt sem rekstrarniðurstöðu á síðasta ári! Hins vegar hefði Stöð tvö getað notað 60 milljarðana í mínus til að skýra ástæðuna fyrir því að þessi tiltekni lífeyrissjóður ætlar að skerða lífeyrisréttindi um 10% vegna þess að eignir hans hafa rýrnað. Staða sjóðsins er þannig sú að 13% vantar upp á að eignirnar standi undir heildarskuldbindingum og samþykktir sjóðsins og landslög mæla fyrir um að ef 10% vanti þar upp á verði að bregðast við. Þau vikmörk voru að vísu hækkuð til bráðabirgða upp í 15% vegna ársins 2009 en stjórn Gildis taldi hins vegar eðlilegt að lækka réttindin strax frekar en að bíða með það fram á næsta ár. Fleiri sjóðsstjórnir eru sama sinnis.
Vel má vera að viðmælandi Stöðvar 2, sjóðfélagi á ársfundinum, hafi misskilið ársreikninginn sinn svona svakalega og vitleysan ratað áfram út á öldur ljósvakans. Ágæt vinnuregla í fréttamennsku er hins vegar að tékka sig af og sannreyna í sjálfum aðalfundargögnunum að rétt sé farið með grundvallaratriði af þessu tagi. Nóg er nú af erfiðleikum og fári í umhverfinu og í fréttum þótt tap á ágætum lífeyrissjóði sé ekki aukið út í loftið um 75%!
Ég hugsa að Ari Edwald, forstjóri 365, myndi ekki þakka fréttastofunni sinni fyrir að nota sömu formúlu til að segja þjóðinni frá afkomu hins geðþekka fjölmiðlafyrirtækis sem rekur Stöð 2. Meira segja þar á bæ hlýtur að muna um keppi upp á meira en hálfan þriðja tug milljarða króna í sláturtíðinni.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar