Puttar í eyrum og dramatík á Drekasvæði

Það sem helst situr eftir frá uppgjöri stjórnmálaleiðtoganna í sjónvarpssal í gærkvöld er myndin af fulltrúa Borgarahreyfingarinnar með putta í eyrum til að verja hljóðhimnurnar fyrir áreitni þegar Bjarni Ben og Jóhanna Sig görguðust á um eitthvað sem ég man ekki hvað var. Umræðan var annars eftir bókinni og fyrirsjáanleg, enda efnistök spyrlanna fyrirsjáanleg. Það var bara farið í „málin “ eitt af öðru og engin einasta spurning kom gestum í opna skjöldu. Þeir gátu sagt sér sjálfir hverju mætti eiga von á. Það hlýtur nú að vera hægt að finna svo sem eina spurningu á mann sem kemur viðmælandanum á óvart og kryddar tilveruna fyrir þá sem heima sitja.


Sigmundur framsóknarformaður má hins vegar eiga það að koma Steingrími J. á óvart í upphafi þáttar og þjarma að honum út af einhverju undarlegu leyniskýrslumáli varðandi bankahrunið og þau ósköp öll. Steingrímur lenti þar í vörn og náði sér ekki á strik eftir það. Þetta var ekki kvöldið hans. Þetta var heldur ekki kvöldið hennar Jóhönnu en samt átti hún spretti, til dæmis þegar henni tókst að koma Bjarna Ben í vörn um stund í síðari hálfleik. Það var ekki nógu létt yfir ríkisstjórnarparinu, þau gátu alveg leyft sér að vera ögn glaðbeittari.


Bjarni komst í stórum dráttum vel frá þættinum og var einmitt dálítið glaðbeittur. Guðjón Arnar átti ágætan dag og einfalda þulan hans um ríkisfjármálin er reyndar það sem situr eftir í hausnum á mér eftir tveggja klukkutíma mal leiðtoganna. Sigmundur gerði sig betur þarna en í fyrri þáttum í kosningabaráttunni og mátti nú ekki seinna vera. Ef frammistaða stjórnmálaforingja í svona þætti skiptir á annað borð einhverju máli fyrir sveimhuga og óákveðna kjósendur ættu Frjálslyndir og Framsókn að hagnast eitthvað á leiðtogauppgjörinu og ekki er fráleitt að hugsa að einhverjir sjálfstæðismenn, sem hugðust sitja heima eða skila auðu, hafi ákveðið að lufsast á kjörstað og kjósa flokkinn sinn eftir allt saman upp á gamlan vana.


Hver hefði annars trúað því í janúar og febrúar í vetur að kosningabaráttan í heild yrði svo venjuleg og jafnvel syfjuleg á köflum sem raun ber vitni um? Fjandakornið að að hægt sé að merkja einhvern mun. Flokkarnir í sömu gömlu hjólförunum, fjölmiðlarnir líka.  Það er eins og gerst hafi í gær. Meira að segja Borgarahreyfingin – sem engin merki eru reyndar um að sé raunveruleg hreyfing – er ekki fersk á neinn hátt heldur gengur inn í settið sem „gömlu flokkarnir“ hafa smíðað og tekur á sig þreytulegt yfirbragð dægurstjórnmálanna fyrir aldur fram. Undarlegt að upplifa þetta eftir allt sem á undan er gengið í vetur!


Ímynd og yfirbragð kosningabaráttunnar birtist ekki síst í auglýsingum. Þar þykir mér Framsóknarflokkurinn og auglýsingastofa hans verið með forvitnilegasta innleggið, litaglatt og ferskt. Auglýsingaherferð vinstri-grænna er líka býsna frískleg, ég er alltaf hrifinn af því þegar andlitsmyndir af fólki eru skornar þröngt og karakter fyrirsætanna dreginn þannig sterkt fram. Auglýsingar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar kunnuglegar. Þær koma fyrir sem endurtekið efni og skortir frumleika og hugmyndaflug sem merki eru vissulega um hjá hjá Framsókn og vinstri-grænum. Auglýsingar Frjálslynda flokksins eru hallærislegar og ekki orðum á þær eyðandi. 


Skýr teikn eru á lofti um að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi einn flokka að taka á sig skell af efnahagshruninu með fylgishruni. Það er nokkuð sem flokksforystan virðist bara hafa sætt sig við orðinn hlut og reynir í besta falli að takmarka tjónið. Haarde og Davíð er kennt um allt saman. Samfylkingin var líka í ríkisstjórn í hruninu með bankamálaráðherrann og Fjármálaeftirlitið undir sinni stjórn en sleppur samt, þökk sé Jóhönnu.


Framsóknarflokkurinn nær engu flugi og ef niðurstaðan verður sú að hann er hjakkar í svipuðu fari nú og í kosningunum 2007 er það auðvitað kjaftshögg og ávísun á enn ein formannsskiptin þar á bæ. Framsókn hefur verið utan ríkisstjórnar frá 2007 og hefði átt að fiska eitthvað út á það en gerir ekki.


Frjálslyndi flokkurinn er á útleið, hvort sem hann nær inn manni nú eður ei. Tími hans er liðinn. Borgarahreyfingin er skyndibiti og á útleið líka hvort sem hún fær mann eða menn kjörna nú eður ei. Hún á ekki langlífi fyrir höndum.


Vinstri-grænir munu bæta stórlega við sig frá síðustu kosningum og voru reyndar á slíku flugi í síðustu viku að stefndi í enn meira og jafnvel að þeir sigldu upp fyrir Samfylkinguna. Svo fór greinilega að hægast um í byrjun vikunnar og að kvöldi vetrardags stoppaði Kolbrún umhverfisráðherra fylgisstrauminn með nokkrum velvöldum setningum á Stöð tvö og gerði reyndar gott betur. Hún sá til þess að einhver og einhverjir sem ella hefðu sest á Alþingi fyrir flokkinn verða áfram þar sem þeir eru. Umhverfisráðherrann lýsti því sem sagt yfir að flokkurinn væri á móti olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Sú yfirlýsing jafngilti sprengju sem varpað var inn í kjörvígi Steingríms formanns á norðausturhorni landsins og víbrarnir fundust  greinilega víðar um land, líka í höfuðborginni. Það var ótrúlega áþreifanlegt hve snögg og ákveðin áhrif ummælin höfðu gagnvart vinstri-grænum. Flokksforystunni tókst ekki að bæta skaðann þrátt fyrir að hún sendi út yfirlýsingu klukkustundu síðar þar sem ummælum umhverfisráðherrans var afneitað. Þar með fauk ráðherrastóllinn Kolbrúnar.


Drekasvæðið varð svo sjálfum flokksformanninum, Steingrími J., fótakefli og tungubrjótur tveimur kvöldum síðar og örlagavaldurinn var sem fyrr hinn dugmikli og klóki fréttamaður Stöðvar tvö, Kristján Már Unnarsson. Hann neyddist til að spyrja Steingrím sjö sinnum hvort vinstri-grænir styddu olíuvinnslu á Drekasvæðinu og fékk á endanum svar sem efnislega var á þá leið að flokkurinn styddi rannsóknir en nógur tími væri til þess síðar að ræða um sjálfa vinnsluna. Kvöldið eftir birtist yfirmaður á Orkustofnun á skjá Stöðvar tvö og sagði flokksformanninn ekki skilja málið því leyfi til rannsókna væru jafnframt vinnsluleyfi á Drekanum. Enn supu menn hveljur á norðausturhorninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband