Endurtekið efni hjá Páli?

Snemma árs 1995 sendi Páll Halldórsson, þáverandi formaður Bandalags háskólamanna, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis bréf með umsögn BHM um stjórnarfrumvarp til breytinga á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Lagabreytingunni var ætlað að heimila sjóðsstjórninni að kaupa skuldabréf í Speli til að fjármagna gerð Hvalfjarðarganga. Frumvarpið varð að lögum og flestir aðrir lífeyrissjóðir breyttu í kjölfarið starfsreglum sínum efnislega á sama hátt til að geta keypt skuldabréf af Speli. BHM lagðist gegn lagabreytingunni og Páll kallaði þessi fjárfestingaráform lífeyrissjóðanna ,,hreina glópsku" í bréfinu til Alþingi, dagsettu 23. janúar 1995.

Dómur reynslunnar í málinu er fyrir löngu fallinn og ástæða er til þess að halda honum til haga. Lífeyrissjóðirnir, sem gerðu sig seka um ,,hreina glópsku", fengu meiri arð af fjárfestingunni í Hvalfjarðargöngum en dæmi eru líklega um í fjárfestingarverkefnum þeirra hérlendis fyrr og síðar.

Það er nú hreint ekki útilokað að lífeyrissjóðirnir hafi líka ágæta ávöxtun og umtalsverðan sóma af því að fjárfesta í Landspítalabyggingu. Tæplega er að minnsta kosti hægt að fullyrða neitt um ávöxtunina þegar skýrt kemur fram í viljayfirlýsingunni um spítalamálið að næst á dagskrá sé einmitt að semja um kjör á lánum og fleira því tengt.


mbl.is Studdi ekki yfirlýsingu um nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ted yngri ræðumaður dagsins

Minningarávarpið sem Ted Kennedy yngri flutti yfir kistu föðurs síns í dag var hápunktur athafnarinnar í Boston. Það var afar vel uppbyggt, efnisríkt, persónulegt og pólítískt í senn og flutt á áhrifaríkan hátt. Þetta er ein besta ræða sem ég hefi heyrt, ef ekki sú besta. Obama forseti, sem er ræðuskörungur mikill, ávarpaði líka samkomuna og gerði vel en ég giska á að kirkjugestir og þeir, sem fylgdust með í sjónvarpi um víða veröld, muni lengur eftir ávörpum Teds yngri og Patricks, bróður hans. Athyglisvert var til dæmis að heyra synina lýsa sambandi Edwards Kennedys við pólítíska andstæðinga sína í Repúblikanaflokknum. Hann átti fjölda vina meðal repúblikana,  bauð þeim í mat heim til sín og talaði hlýlega um þá innan fjölskyldunnar. Það var því engin tilviljun að þekkt andlit úr Repúblikanaflokknum sáust framarlega í kirkjunni í dag, þar á meðal Bush yngri á næstfremsta bekk.


mbl.is Obama kvaddi vin og læriföður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða erindi á þingmaður á bankagolfmót?

Sigmundur Ernir baðst sá ástæðu til að fara í ræðustól á Alþingi í dag og biðjast velvirðingar á ,,mistökum" sem hann gerði á sama vettvangi á dögunum. Þar vísaði hann væntanlega til þess að hafa tekið til máls eigi allsgáður. Þar með er það mál væntanlega út úr heimi. Hins vegar baðst þingmaðurinn ekki afsökunar á að hafa tekið þátt í golfmóti tiltekins banka, fengið sér þar að drekka og farið svo til þings. Hvurn fjandann á það að þýða að alþingismaður sé að dandalast á golfmóti banka með tilheyrandi gleðskap á eftir? Ég sem hélt að hann hefði bara skroppið inn á krá og fengið sér einn gráan en les svo í Fréttablaðinu í dag um aðdragandann að því sem síðar gerðist í þingsalnum.

Mér finnst það mun verra að alþingismaður láti hanka sig á því að þiggja svona nokkuð af fyrirtæki en að hann fari skjóðrakur í ræðustól þingsins. Fjölmiðlafólk er hins vegar upp til hópa upptekið af rauðvínsglösunum en þykir golfmótið hins vegar eðlilegt! Alla vega hefi ég ekkert heyrt um það mál talað í fréttatímum og Fréttablaðið bætir golfinu við sem sjálfsögðum hlut í aukasetningu svona rétt eins og maðurinn hefði brugðið sér út að glugga að gá til veðurs!

Ragnheiður Ríkharðsdótir hefur hugsanlega ætlað að taka þessa hlið máls upp í forsætisnefnd Alþingis en hætt við á síðustu stundu? Nei, örugglega ekki! Sturla Böðvarsson minntist heldur ekki einu orði á þessa hlið málsins í tölvupósti til mín í morgun. Tilviljun? Nei, örugglega ekki. Það þykir nefnilega sjálfsagður hlutur að þingmenn séu á golfmóti banka eða hvað? Hvers vegna var Sigmundur Ernir þarna? Voru þingmenn úr fleiri flokkum á þessu bankamóti? Mig rámar í að Jóhanna Sigurðardóttir hafi mikið spurt um laxveiðiferðir á þingi hér á árum áður. Nú mætti spyrja um golf.

 


Af slompuðum þingmönnum

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, sendi mér línu í tölvupósti í framhaldi af viðtali sem ég var í á Rás tvö í gær. Þar er svo að skilja að ég hafi troðið mér í þetta viðtal við að verja Sigmund Erni þegar hann deleraði í þingsal á dögunum og jafnvel réttlæta framgöngu þingmannsins! Nú er það svo að á Sigmund Erni var ekki minnst í þessu viðtali heldur var erindi Rásar tvö að kanna hvort ég myndi eftir góðglöðum mönnum í þingsal á þeim tíma sem ég starfaði á Alþingi sem þingfréttaritari. Flest af því sem ég man og rifjaði upp gerðist áður en Sturla var kjörinn á þing árið 1991. Fyrstu þingfréttirnar mínar eru frá vetrinum 1976-’77. Þá var Sturla sveitarstjóri í Stykkishólmi, jafnvel bæjarstjóri. Það kann því að vera allt að því eðlilegt að hann muni ekki nákvæmlega hvað gerðist á Alþingi 1976-1991 en ég man hins vegar eitt og annað, enda var ég þá löngum við Austurvöll en hann í Stykkishólmi. Viðtalið í gær, og bréf Sturlu í kjölfarið, hafa hins vegar orðið til þess að eitt og annað rifjast upp sem ég hafði gleymt. Þetta með virðingu Alþingis og allt það. Kannski fjalla ég um það frekar við tækifæri. Það er nefnilega svo að virðing Alþingis verður hvorki meiri né minni en þingið sjálft ákveður með framgöngu sinni. Sumarþingið 2009 er sjálfu sér verst og slompaður þingmaður í ræðustóli var nú bara einn bömmerinn enn.

Hér er úr bréfinu frá Sturlu og svo svarið mitt, sem var í tvennu lagi af ástæðum sem skýra sig sjálfar.

Ég hlustaði á þig í síðdegisútvarpinu í dag og varð mjög undrandi á því sem þú hafðir að segja um drykkjuskap þingmanna. Mér fannst erindi þitt í útvarpið vera það að réttlæta framgöngu hins gamla fjölmiðlamanns Sigmundar Rúnars sem varð  sér til skammar á Alþingi þegar hann tók drukkinn  þátt í umræðum um eitt flóknasta og erfiðasta mál sem þingmenn hafa fengist við. Ég vona að það sé misskilningur hjá mér að erindi þitt í útvarpið hafi verið það að verja þennan sjálfsumglaða  þingmann og fyrrum fréttahauk, en það voru fleiri en ég sem hlustuðu og höfðu sömu sögu að segja. Vafalaust hafa þingmenn verið kenndir í þingsalnum á undangengnum árum. En eitt er að koma hreyfur úr móttökum í þinghúsið en annað er að taka þátt í umræðum með þeim slætti sem var á Sigmundi þetta kvöld þar sem hann sendi spjótin í allar áttir fullur vandlætingar í garð samferðarmanna sinna.  Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að slíkri framgöngu við umræður um stórmál og mátti sjá hjá Sigmundi.

 

 Svar ARH I

Mig varðar ekkert um Sigmund Erni og framgöngu hans, hvort sem hann er fullur eða edrú. Hef ekki séð neitt úr þessari uppákomu hans fyrr en nokkrar sekúndur í sjónvarpsfréttum í gærkvöld. Þegar hins vegar var hringt í mig í gær og spurt hvort ég myndi eftir að hafa séð eða heyrt menn mjúka í þingsal svaraði ég því og laug engu. Sleppti hins vegar því grófasta því mér þykja efni standa til að halda virðingu Alþingis talsvert á lofti. Alþingismenn hafa hins vegar sjálfir verið býsna drjúgir á stundum í að
draga hana niður fyrir leyfilega flughæð, bæði fyrr og síðar. Það Alþingi sem nú situr er hins vegar botninn á tilveru þessarar samkomu frá því ég fór að fylgjast með og reyndar svo að ég get ekki ímyndað mér að gasprarar, sem detta þar óvart inn fyrir þröskuld, geti versnað við að fara fullir í ræðustól. Alþingi sem nú situr á þjóðin ekki skilið. Og hana nú.

 Svar ARH II

Ég var ekki búinn að sjá Morgunblað dagsins þegar ég svaraði þér áðan. Ég vona að þú gleymir ekki að hnýta í Kristinn H. líka, mér sýnist hann vera að vísa í sama og ég, sama tímabil á þingi. Það er aukaatriði hvaða mál er á dagskrá þegar fullir þingmenn tjá sig í ræðustóli Alþingis. Ég tjáði mig ekki orð um mál SER og mun ekki gera, enda víðsfjarri vettvangi og finn ekki nokkra þörf hjá mér til að verja manninn. Kemur hins vegar ekki á óvart að einhverjir kjósi að túlka það sem svo að með því að rifja upp kenderí í þingsalnum í gamla daga sé verið að réttlæta að Sigmundur hafi verið fullur
á þingfundi! Ég er orðinn vanur að umgangast fólk með pólítíska leppa fyrir augum og kippi mér ekkert upp við þetta. Hins vegar kann að vera að ég verði að segja söguna alla við tækifæri. Þú hefur bókstaflega kallað eftir því!


Stjörnuhrap í álfheimum

Gott, hugsaði ég í gærkvöld þegar Kastljósið kynnti viðtal við nýráðinn forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarson, og ákvað að slaufa eldri hálfleiknum í viðureign eldri sonarins og annarra Víkinga við Fjölni á heimavelli í Víkinni. Vildi gjarnan kynnast nýja forstjóranum ögn betur enda þekki ég lítið til hans þrátt fyrir að hann hafi verið í úrvalsdeildinni í fyrirtækjarekstri hérlendis undanfarin ár með því að stýra  Marel heima og heiman. Eftir á að hyggja hefði tímanum verið betur varið við hliðarlínuna í Víkinni. Hörður skilaði sínu en það reyndi ekkert á hann. Spyrill Kastljóssins mætti óundirbúinn til leiks og hafði í mesta lagi prentað út nokkrar greinar úr gagnasafni Morgunblaðsins sér til halds og trausts. Það hafði blaðamaður Moggans líka gert á dögunum í tilefni af ráðningu Harðar og Kastljós bætti engu við það sem Mogginn hafði sagt frá, til dæmis um fortíð verðandi Landsvirkjunarforstjóra í félagsskapnum Framtíðarlandinu. Allar spurningar fyrirséðar og sumar jafnvel barnalegar. Herði var farið að líða býsna vel í settinu og lauk þættinum með ágætri einræðu um Sjóvá eftir að spyrillinn hafði þurrausið gagnasafn Moggans og svissaði yfir í galopnari spurningu en nokkur álfur úr hól hefði valið í stöðunni um tryggingafélag í ólgusjó með frjálst val svarandans um viðbrögð. Síðan takk og bless.

Vonandi skýrist betur fyrir hvað nýr forstjóri Landsvirkjunar stendur þegar/ef hann fær spyril gegnt sér sem stendur undir nafni. Ég hafði nefnilega sterklega á tilfinningunni að hann hefði sitthvað að segja en það reyndi bara ekki á neitt slíkt. Nú er að bíða og sjá hvort aðrir ljósvakamiðlar taki ekki upp þráðinn og geri betur. 


Fiskidagsörsögur I: Afturgenginn David Brown og list í Bergi

david-brown.jpgÞað var ekki leiðinlegt að grípa í glansandi fínan David Brown á Dalvíkurgötum um helgina, nýuppgerða dráttarvél sem Halldór bóndi keypti í Globus 1963 til bústarfa á Jarðbrú. Rabbi – Rafn Arnbjörnsson – eignaðist Bráninn í nöturlegu ástandi hér um árið og hefur lagt ómældan tíma + helling af peningum í að endurnýja djásnið í dráttarvélaflota Jarðbúra svo glæsilega að með ólíkindum er. Búið er að taka allt í sundur sem hægt er að taka í sundur, að olíuverkinu einu undanskildu (og nú stendur til að plokka það í sundur líka!), flytja inn varahluti frá Bretlandi, smíða annað hér heima og síðast en ekki síst sprautulakka gripinn. Vélin er svo flott að hvaða útrásarvíkingur sem er hefði boðið þyrluna sína í skiptum fyrir hana ef hún hefði verið komin á götuna velsældarárið 2007 en Rabbi hefði samt ekki fallið fyrir slíkum gylliboðum. Það er praktískara að eiga dráttarvél en þyrlu í Svarfaðardal, einkum og sér í lagi í heyskap. Ólafur Ragnar hefði átt að hafa með sér orðu norður til að festa á jakkaboðung velgjörðarmanns David Brown. Það flokkast undir menningarafrek að gera gefa svona góðu vinnutæki nýtt líf, einu dráttarvél sinnar tegundar sem til hefur verið í Svarfaðardal.


kristjana-og-orn.jpgMenningarhúsið nýja á Dalvík, Berg, er sérlega glæsilegt og mikil bæjarprýði. Innan dyra blasir svo við bjart og aðlaðandi rými og á veggjum í salnum hanga listaverk í eigu Ólafsfirðinga og Siglfirðinga eftir helstu nöfn í sögu olíumálverksins á 20. öld. Og tvær myndir eftir Salvador Dalí til viðbótar, takk fyrir og góðan daginn. Það er svo mikil upplifun að ganga um þetta hús og sýninguna að stendur fyllilega eftir ferð norður.  Sigríður Gunnarsdóttir listfræðingur gerði heimsókn í menningarhúsið enn magnaðri en ella með skemmtilegri kynningu á sýningunni þar sem hún tók fyrir hverja mynd og hvern listamann og setti allt í heildarsamhengi.

Svo má ekki gleyma allri hunangstónlistinni sem flutt var þarna frá hádegi til kvölds. Ótal kórar, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar. Til dæmis hlýddum við á Kristjönu á Tjörn og Örn son hennar (sjá mynd) á hádegistónleikum sem tókust eins og best varð á kosið. Áheyrendur vel yfir 200 talsins! Svona byggðarlag gæti verið fullsæmt af Kristjönu einni saman en á heilt dúsín af listamönnum og súperfólki í lista- og menningarlífi til viðbótar!

 

 


Fiskidagsörsögur II: Fiskstykki í álbrynju og trjúttandi karlar

holmavikurfolk-1.jpgVið feðgar í Álftalandi prófuðum að pakka bleikju og þorski í stykkjatali inn í álpappír á Dalvík fyrir Fiskidagshelgina. Lágmark er nú að hjálpa eitthvað til og reyna að gera gagn. Þetta var reyndar svo gaman að við munum örugglega banka upp á dyr fiskvinnsluhússins Suðurstrandar að ári og biðja um að fá að pakka. Þarna voru  heimamenn auðvitað í miklum meirihluta í sjálfboðavinnu en líka hressir karlar frá Hólmavík sem komið hafa til Dalvíkur um þetta leyti svo árum skiptir til að pakka inn Fiskidagsfiski. Þeir höfðu hitt Steina Alla, forstjóra Norðurstrandar og stjórnarformann Fiskidagsins mikla, á Kanaríeyjum þegar í uppsiglingu var fiskidagur nr. 2. Steini bauð upp á glas með því skilyrði að Hólmvíkingar kæmu til Dalvíkur að pakka. Hann veitti svo vel að félagarnir hafa komið árlega síðan þá og sögðust koma líka 2010. Það getur ekki hafa verið neitt smáræði sem Norðurstrandarhöfðinginn blæddi á þá á Kanarí forðum.


jonmundiur.jpgÁ Fiskidaginn mikla 2007 var ég á rölti með myndavél á hafnarsvæðinu og skaut meðal annars á tvo káta karla. Þessi mynd var valin Fiskidagsmynd ársins og þegar hún var orðin svo söguleg þótti mér betra að vita hverjir hefðu setið fyrir á henni án þess að vita af því . Mér gekk vel að hafa upp á þeim sem vinstra megin stóð. Sá reyndist vera Tómas Óskar Malmberg, gullsmiður og tónlistarmaður í Reykjavík. Hann vissi hins vegar ekki baun um hinn fuglinn á myndinni og hafði hvorki heyrt þann né séð fyrr eða síðar. Það var sem sagt hrein tilviljun að þeir tjúttuðu saman á samkomusvæðinu við Dalvíkurhöfn þegar Rúnar heitinn Júl spilaði og söng. Báðir fíluðu greinilega konung rokksins úr Keflavík. Daginn sem menningarhúsið Berg var opnað á Dalvík á dögunum gekk ég svo allt í einu í fangið á hinni fyrirsætunni frá 2007 þar sem hann var á skrafi við hana Sillu safnvörð. Ég sveif auðvitað á kappann. Sá heitir Jónmundur Friðrik og býr á Skagaströnd. Hann vissi vel af verðlaunamyndinni og gekk meira að segja með hana í seðlaveskinu sínu. Svo fékk ég meira að heyra af högum Jónmundar, til dæmis að hann væri að koma á Fiskidaginn mikla í þriðja sinn. Fjórum sinnum hefur hann svo verið á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þess vegna fílaði hann auðvitað Rúnar Júl eins og dæmin sanna. Og svo fékk ég að vita að Jónmundur héti í höfuð Friðriks huldulæknis. Sá hafði annast móðurina á meðgöngunni og sinnti henni svo vel að ekki kom annað til greina en skíra sveininn Friðrik og hengja aftan í Jónmundarnafnið sem að hálfu var úr ættinni en að hálfu út í lofti.

fiskidagur_2007.jpg


Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband