Símanúmer Styrmis undir ráðherrasíma

Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 23. apríl 1995. Þann dag tók ég viðtal við hann fyrir Útvarpið skömmu eftir að hann hafði fengið lyklavöldin í ráðuneytinu. Það var ekki pappírssnifsi á borðum og bekkjum og bókahillur biðu galtómar eftir að nýr húsbóndi raðaði þar í skruddum og gögnum sem hann vildi hafa nálægt sér í vinnunni. Þegar viðtalinu var lokið og ég á leið út úr skrifstofunni kallaði ráðherrann í mig og sagði mér að kíkja að gamni undir símtækið sem stóð við hlið tölvunnar á vinnuborðinu hans. Það var sími með beinni fastlínu út úr húsinu. Mér þótti ósk ráðherrans undarleg en gekk að símtækinu og lyfti því upp. Undir símanum blasti við lítill miði, límdur fastur á borðið. Á honum stóð: Styrmir - bein lína og símanúmer skráð þar hjá. ,,Ræstingaliðið hefur auðvitað haldið að beina línan til Styrmis tilheyrði ráðherraembættinu en ekki Jóni Baldvin og ekki þorað að hrófla við miðanum þegar skrifstofan var þrifin í tilefni stjórnarskipta!" sagði utanríkisráðherrann. 

Þessi litla saga rifjaðist upp þegar ég gluggaði í dagbækur Matthíasar Johannessens Morgunblaðsritstjóra á Vefnum í dag. Þar er margt fróðlegt að finna um samskipti þáverandi ritstjóra og stjórnmálaforingja og óspart vitnað í nokkurra ára gömul trúnaðarsamtöl og alls kyns palladóma viðmælenda ritstjóranna um samherja og andstæðinga í pólitík. Flestir viðmælendanna hefðu nú annað hvort látið vera að hitta ritstjórana yfir hádegissúpu eða þá þegið súpuna og bitið í tunguna á sér oft og lengi yfir diskunum hefðu þeir haft hugarflug til að ætla að í samtölin yrði vitnað á opinberum vettvangi 2008.

Ég held að vísu að Davíð Oddssyni sé nokk sama þó Matthías vitni í bréf frá DO til Morgunblaðsritstjórans frá í mars 1995 (í aðdraganda þingkosninga) þar sem segir m.a.:

Það verður ekki við því gert, Matthías minn, þótt ég og fjöldi annarra manna og kvenna í þessu landi hafi þá skoðun að misnotkun Morgunblaðsins í þágu kratanna sé auðmýkingarefni fyrir blaðið og kannski ekki síst fyrst að blaðið hefur ekki einu sinni burði til að kannast við það sem allir sjá.

Hins vegar er ég ekki alveg sannfærður um að Svavar Gestsson hafi haft opinbera dagbók í huga þegar hann ræddi við Matthías 2. apríl 1965:

Þegar Svavar talaði um að hann væri undrandi á því hvað fjölmiðlar hefðu þyrmt Ólafi Ragnari þótt þeir hafi vitað undan og ofan af þessu ósiðlega fjármálabraski hans sagði ég við hann að ég hefði ekki fyrr heyrt orð af því sem hann hefði sagt.

Á þessum trúnaðarfundum var greinilega oft rætt um fjármál Alþýðubandalagsins, um fjármál Ólafs Ragnars Grímssonar og fleiri manna. Þar var farið í frumheimildir, beint úr Landsbankanum:

Styrmir er kominn heim frá Ameríku. Setti hann inn í öll mál í morgun. Sverrir Hermannsson kom rétt fyrir hádegi og sagði að hann væri með skjöl úr Landsbankanum sem ákveðnir menn vildu ná af honum upp á líf og dauða. Við hlustuðum. Hann tók upp skjöl úr pússi sínu, yfirlit um fyrirgreiðslu bankans við pólitíkusa og skuldir stjórnmálaflokka við bankann. Þetta var allt með ólíkindum.

Um sama leyti voru forsetahjónin í ,,opinberri heimsókn" á Seltjarnesi, í sveitarfélaginu þar sem þau  höfðu búið um árabil. Þessa heimsókn bar á góma á trúnaðarfundinum með Sverri Hermannssyni, sem og það að hús Ólafs Ragnars og Guðrúnar Katrínar væri veðsett vegna áhvílandi skulda við Landsbankann. Matthías hefur eftir Sverri í dagbókinni:

Við hefðum átt að halda uppboð á húsinu hans á Nesinu í tilefni dagsins. Það hefði kórónað þessa opinberu heimsókn!

Það gerist margt - eða gerist ekki - yfir glasi. Enn og aftur er það staðfest í dagbók Morgunblaðsritstjórans fyrrverandi. Þeir Steingrímur Hermannsson hittust á Þingvöllum vorið 1987 og Matthías hefur meðal annnars eftir viðmælandanum:

Flestir teldu að hann ætti að hafa stjórnarforystu á hendi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna, það og útvíkkun með þriðja flokki væri að hans mati niðurstaða kosninganna. Saknaði þess að geta ekki talað við Þorstein eins og hann kysi, hann gæti fengið sér í staupinu með Svavari Gestssyni og líkaði það vel, en ekki Þorsteini! Hann hringdi varla nokkurn tíma af fyrra bragði. Það væri þá frekar að aðrir sjálfstæðismenn hringdu til að ræða málin.

Staup og stjórnmál koma líka við sögu í dagbókarfærslu 17. október 1998:

Styrmir sagði mér eftir Jóni Baldvini sem drakk kahlúa-líkjör með Halldóri Ásgrímssyni í Washington um daginn (hann getur víst drukkið ótæpilega af honum), að Halldór ætli sér forsætisráðherraembættið, þótt hann láti líta svo út sem hann hafi ekki áhuga á því. Davíð telur víst að Halldór hafi ekki þennan metnað,  en hann þarf kannski að horfast í augu við hann, ef Framsókn fær oddastöðu eftir næstu kosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 210194

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband