Terroristi svarar skreytinni sjónvarpsstjörnu

Sölvi nokkur Tryggvason, fastráðinn morgunfréttaskýrandi Rásar tvö og fyrrum fréttamaður Stöðvar tvö, greindi þjóðinni í morgun frá skelfilegum hremmingum sem hann lenti í fyrir jólin í kjölfar viðtals sem hann átti við Geir H. Haarde forsætisráðherra og sent var út á Stöð tvö. Nærstatt fólk í hljóðstofu saup hveljur enda þykir nú flestum nægur skammtur að frá yfir sig heimskreppu, Icesave-súpuna og hríðfallandi krónugrey á einum og sama ársfjórðungnum þótt ekki bætist nú við hörmungar á borð við hótanir óvandaðra manna í garð vammlausrar fjölmiðlastjörnu. Stjarnan sú fékk sum sé tölvupósta litlu fyrir jólahátíðina og síðar upphringingu frá ónafngreindum mönnum úr „valdaklíku“ sem vildu víst hóta henni, stoppa hana og afvegaleiða i störfum sínum og þar fram eftir götum.

Ég sperrti eyru og hallaðist að því að taka til mín hluta morgunkveðju fréttaskýrandans, enda mundi ég eftir tölvupóstsendingum til nefnds Sölva í tilefni spurningar sem hann lagði fyrir Haarde og varðaði lífeyrissjóði og mútumál. Mig rámaði hins vegar í að þessi tölvupótssamskipti hefðu verið á heldur vinsamlegum og eðlilegum nótum en það gat auðvitað gerst hjá vönduðum mönnum að fjarlægðin gerði fjöllin blá og sveitamenn að terroristum.

Vissulega vinn ég af og til fyrir Landssamtök lífeyrissjóða og sperrti því eyrum þegar mútur voru nefndar í sömu andrá og lífeyrissjóðirnir en í öðru lagi var ég bara forvitinn: Hafði ég misst af einhverju í fréttum?? Ég fór á mbl.is og visir.is, leitaði í gagnasöfnum og gúgglaði í djöfulmóð. Allt kom fyrir ekki. Ákvað að senda spyrlinum Sölva einfaldlega tölvupóst og spyrja. Hann svaraði og ég kvittaði fyrir svarið. Málið dautt og ég beið átekta eftir að mútumenn yrðu afhjúpaðir og bíð enn.

Nú á tímum alþjóðlegrar baráttu gegn hryðjuverkum er rétt að leggja spilin á borðið og birta bara tölvupóstana umræddu svo öllu sé nú til haga haldið. Hér er því sagan öll: fyrst er blogg sjónvarpsstjörnunnar sem hún lagði með sér á borð í morgunfréttaskýringum Rásar tvö, svo fyrra bréf terrorista, síðan svar stjörnunnar og loks seinna terroristabréf.

Eitt blasir við eymingjanum mér eftir að hafa hlýtt á morgunstjörnu Rásar tvö og það er auðvitað að ég hefi verið í meiri hryðjuverkahasar en ég gerði mér grein fyrir í öll þessi hartnær tuttugu ár sem ég starfaði sem blaða- og fréttamaður og þurfti að svara sífellt fyrir verk mín, inn á við og út á við. Með útvarpsráð á bakinu, stjórnmálamenn, embættismenn, hagsmunasamtakafólk og ég veit ekki hvað. Meira að segja lífeyrissjóðakóngar og -drottningar hringdu stundum með ábendingar, athugasemdir, spurningarog jafnvel skammir. Ég gæti skrifað heila bók eða bækur um alla þessa skelfilegu hryðjuverkastarfsemi en áttaði mig ekki á efninu sem ég á í þann texta - fyrr en bersöglismál skreytinnar sjónvarpsstjörnu opnuðu mér nýja sýn. Henni sé lof og prís.


Mán 30. mars 2009

Hótanir lífeyrissjóðsmanna

í kjölfar frétta Morgunblaðsins af sukkinu sem virðist hafa viðgengist hjá yfirmönnum lífeyrissjóðanna er líklega rétt af mér að upplýsa núna um samskipti mín við þessa valdaklíku.Í viðtali við Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra í Íslandi í dag 22. desember spurði ég hann hvort hann vissi til þess að lífeyrissjóðsmönnum hefði verið mútað. Sjá hér: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=0d9951ac-6680-451a-8b3b-9e0e8a6d5d77.Eftir þetta viðtal fóru alls konar varðhundar af stað. Ég fékk fleiri en einn tölvupóst frá almannatengslaskrifstofu, þar sem reynt var að ,,terrorisera" mig og fá mig til að hætta að fjalla um þessi mál. Daginn eftir viðtalið fékk ég símtal frá ónefndum yfirmanni í lífeyrissjóði sem spurði mig orðrétt: ,,hvernig ætlar þú að koma þér út úr þessu?". Ég svaraði því til að ég þyrfti ekki að koma mér út úr neinu, enda væri það mitt hlutverk að spyrja spurninga. Eftir smástund var samtal mitt við þennan mann farið að snúast um skilgreiningu á mútum. Í hans huga var það í góðu lagi að þiggja utanlandsferðir, hótelgistingar á lúxushótelum, laxveiðiferðir og annað í þeim dúr. Þetta eru mennirnir sem sáu um að geyma lífeyri landsins.Því miður náði ég ekki að fylgja þessu máli eftir, enda var ég rekinn af Stöð2 rúmri viku síðar.

 -----Original Message-----
From: Atli Rúnar Halldórsson - Athygli [mailto:atli@athygli.is]
Sent: Mon 12/22/2008 8:37 PM
To: Sölvi Tryggvason
Subject: um mútuþægni og lífeyrissjóði

Blessaður og sæll:

Ég var að hlusta á ljómandi gott viðtal þitt við forsætisráðherra þar sem
m.a. kom fram að hann ætlaði ekki að stokka upp ráðherraliðinu - sem er þá
skúbb og til hamingju með það! Ekki minni tíðindi komu fram í spurningu frá
þér um að einhverjir lífeyrissjóðamenn hefðu þegið mútur og það væri meira
að segja altalað. Kann vel að vera að þetta sé altalað en ég hef ekki heyrt
þetta fyrr og finn í fljótu bragði ekki umfjöllun þar að lútandi í
fjölmiðlum. Er þetta ákveðið mál og hefur verið fjallað um það einhvers
staðar?? Ég hef aðeins komið nálægt verkum fyrir Landssamtök lífeyrissjóða
frá því í sumar og kíkt undanfarið inn á kynningarfundi einstakra sjóða
vegna tjóns þeirra í bankahruninu. Hvergi hefur þetta mútumál borið á góma
og því varð mér einfaldlega á að hugsa í kvöld: Hef ég misst af einhverju í
umræðunni undanfarið og hvar er þann þráð að finna? Ekki trúi ég að þú berir
spurningu af þessu tagi fram án þess að hafa býsna skotheldar heimildir
fyrir því sem er ,,altalað" eða hvað?
 Með kveðju,
-arh
  

Sæll og bless

Spurningin var mjög klaufalega orðuð og ég var ósáttur við hana...
Ég hef mjög öruggar heimildir fyrir þessu. Hins vegar hefur ekki verið gerð
frétt um þetta og þess vegna átti ég alls ekki að segja það altalað. Spurningin
var þar af leiðandi klúðursleg, en eftir stendur að ég hef fleiri en einn og fleiri en
tvo mjög góða heimildamenn fyrir þessu, sem gengdu þannig störfum að ég verð
að hlusta á þá, auk þess sem allt sem komið hefur úr einni af þessum áttum til mín
um bankahrunið hefur reynst rétt. Semsagt heimildirnar eru mjög góðar, en spurngin
var mjög léleg.


með bestu kveðju
Sölvi
 

Sæll aftur og takk: 

Þá veit ég það! Nú bíð ég bara í vaxandi spennu eftir að viðkomandi verði leiddir fram á völlinn og ef mútuþægni sannastá einhverja í slíkum trúnaðarstörfum eiga þeir auðvitað að fá málagjöld í samræmi við  eins og aðrir sem brjóta af sér. Það er ekki flókið. Ég tók eftir því að í spurningu til Geirs H. kom fram að lífeyrissjóðaforingjar hefðu sloppið of billega við gagnrýni og skammir eftir bankahrunið. Það kann að virðast svo en þá er við fjölmiðlafólk að sakast en ekki lífeyrissjóðamenn!  Fulltrúar þeirra sátu til dæmis fyrir svörum á baráttufundi í Háskólabíói á dögunum og áttu orðaskipti við fundarmenn sem skiluðu sér lítið sem ekki neitt til almennings. Svo hafa flestir ef ekki allir stóru lífeyrissjóðirnir efnt til kynningarfundar undanfarnar vikur og þar hefur á sumum verið afar heitt í kolum. Ég veit að Mogginn var á fundi fyrsta sjóðsins sem var með svona kynningu en fjölmiðlarnir hafa annars af einhverjum stórdularfullum ástæðum látið þessar samkomur fram hjá sér fara. Þarna vantar ekki fréttirnar heldur fólk til að flytja þær! -arh

 Líffræðilegur og orðfræðilegur eftirmáli:

Sveitungi minn hafði samband og rifjaði upp að í Svarfaðardal hafi skrökgjarnir menn um aldir verið flokkaðir í lygna og hraðlygna. Lygnir væru þeir sem skrökvuðu meðvitað en hraðlygnir þeir sem skrökvuðu án þess að vita af því sjálfir og kynnu engin skil á því hvenær þeir segðu satt og hvenær ekki. Sveitunginn bætti því við að jafnan væri mest mark takandi á þeim hraðlygnu á morgnana en þegar liði á daginn færu þeir að skreyta frásagnir sínar æ meira og við náttmál drægist tæpast upp úr þeim satt orð. Hann velti fyrir sér af því tilefni hvernig þeir, sem hraðljúga fyrir klukkan átta að morgni og það í sjálfu útvarpi allra landsmanna, verða þegar komið er fram yfir hádegi, hvað þá fram á kvöld. Ekki fær hann svar við spurningunni hjá mér en vissulega gæti verið áhugavert fyrir Kára hjá Íslenskri erfðagreiningu að fara í málið og kortleggja skrökgenaflóruna á landi hér. Lygarannsóknir eru ekki vitlausari hugmynd en ýmislegt sem brallað er í heimi vísindanna. Þær gætu meira að segja beintengst rannsóknum á bankahruninu og tilheyrandi skandölum. Þar hljóta nefnilega margir að koma við sögu sem hraðljúga eða kríta liðugt líkt og morgunstjarnan okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 210257

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband