Búsáhöldin kvödd

Framboðsþáttur RÚV á Ísafirði í gærkvöld var ekki jafn yfirþyrmandi leiðinlegt sjónvarpsefni og leiðtogafundurinn á föstudagskvöldið. Ég hélt reyndar út til allt til loka á föstudaginn en með herkjum. Hef heyrt í mörgum á förnum vegi sem byrjuðu að horfa en gáfust upp. Sumir reyndar strax í þessari óralöngu og óskiljanlegu samantekt á klippimyndum úr gömlum fréttum sem virtist aðallega ætlað að minna áheyrendur og áhorfendur á að kreppa hefði skollið á í haust og eitt og annað gengið á eftir það. Eins og það hefði nú farið fram hjá þeim sem heima sátu. Þátturinn í gærkvöld var mun bærilegri á að horfa og hlýða.

 

Sjálft formið sem Ísafjarðarþátturinn byggist á er ávísun á að umræða skapast tæplega eða alls ekki. Svona uppstilling hefur sárasjaldan virkað í sjónvarpi, oftar hins vegar í útvarpi þegar menn hafa ekki á sér kastljós og myndavélar úr öllum áttum. Þátttakendur verða stífir i fljóðljósunum og þetta verður oftar en ekki stirður spurningaleikur en ekki umræða af nokkru tagi. Allt annar bragur var til dæmis stjórnmálaspjalli í Bylgjuþættinum Sprengisandi á sunnudaginn var þegar þrír frambjóðendur glímdu og létu gamminn geysa:  Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Gunnlaugsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Þar gafst rúm til að ræða afmörkuð mál og takast á. Engin spenna skapaðist í salnum á Ísafirði og upp úr stóð reyndar í lokin stór spurning: Hvað gekk þessum jaðarframboðum, sem kenna sig við lýðræði og borgara á hreyfingu, til að bjóða yfirleitt fram? Fulltrúar þeirra skiluðu auðu frá upphafi til enda og sátu þarna í fullkomnu tilgangsleysi. Meira að segja kjafthákurinn sem  var fundarstjóri á Háskólabíósfundum búsáhaldabyltingarinnar sálugu, og sló ótt og títt um sig á kostnað valdakerfisins í landinu, hafði nákvæmlega ekkert að fram að færa. Ekki baun. Þarna kom í ljós að tunnan sem buldi í forðum var galgóm. Búsáhöldin kvödd. Byltingin át barnið sitt og fylgjuna með. Þetta er alveg sérlega eftirtektarvert búast hefði mátt við að tíðarandinn og atburðir vetrarins kölluðu fram nýja strauma í pólítík. Ný framboð geystust fersk fram á völlinn og hefðu eitthvað að segja sem menn væru ekki vanir að heyra á framboðsfundum. Nei, vissulega eru ný framboð en þau fæddust með hrukkur og lognast sjálfkrafa út vegna skorts á súrefni frá kjósendum. Enn eitt  nýtt framboðið var á meðgöngutíma á dögunum og kenndi sig við fullveldi en aðstandendur þess eyddu fóstrinu af ástæðum sem þeim tókst aldrei að útskýra þannig að skildist. Ómar Ragnarsson laumaði Íslandshreyfingunni upp í hillu hjá Samfylkingunni, svo lítið bar á, til að komast hjá því að leggja hana í dóm kjósenda með fyrirsjáanlegum  afleiðingum. Þar fór hún. Frjálslyndir eiga aðeins eftir dagana fram að kostningum og þá heyra þeir líka sögunni til.

 

Hinn mektugi fjórflokkur blívur sem fyrr og þarf ekkert fyrir lífinu að hafa. Mætir til leiks með kunnugar klisjur og almenna frasa eins og ekkert hafi gerst frá því í gær. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur í tilvistarkreppu og finna ekki fjölina sína, Samfylking og Vinstri grænir hins vegar í unaðssemdum landstjórnarvaldsins og ráða sér tæpast. Það mega ríkisstjórnarflokkarnir reyndar eiga að þeir lýsa umbúðalaust yfir aftur og aftur að þeir hyggist starfa áfram, fái þeir umboð til þess. Þeir ætla þessutan að punda skattahækkunum á fyrirtæki og heimili og hjóla í sjávarútvegsfyrirtækin með fyrningarleið aflaheimilda að vopni.

 

 Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og allir flokkar, bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar + Framsókn, virðast sum sé í reynd sammála um að farsælast sé að hér hrynji allt sem hrunið getur og það sem fyrst, áður en eitthvað sé hægt að gera af viti. Þess vegna er rétt að halda sig fjarri kjörklefanum. Sjórnmálakerfið sjálft á ekki skilið að fá atkvæði þegar það sjálft skilar auðu gagnvart almenningi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 210256

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband