Lagt á djúpið

Þá er komið að því. Kjósendur flykkjast í klefana sína og fjölmiðlarnir verða brátt eðlilegir á nýjan leik. Mikil blessun verður að losna við alla froðuna af síðum blaða og dagskrá ljósvakamiðla. Ég lét mig samt hafa það að horfa á lokasennu foringjanna í Sjónvarpi í gærkvöld. Það er svona álíka hefðbundin athöfn og ávarp forsætisráðherrans á gamlárskvöld eða forsetans á nýársdag. Mér sýndist fleiri búnir að fá en ég því mannskapurinn sem sat fyrir svörum var áberandi þreytulegur.

Geir Haarde kom best frá þættinum í heildina og Ingibjörg Sólrún átti þokkalegt kvöld. Hún var samt hvergi nærri eins vígreif og í leiðtogaslúttinu á Stöð tvö fyrr í vikunni. Jón Sigurðsson fór (loksins!) að bíta frá sér og skerpa tóninn. Þetta var besta framganga hans sem ég hef séð á sjónvarpsskjánum í kosningabaráttunni en birtist trúlega of seint, Framsóknarflokksins vegna. Steingrímur J. er sjóaður vel og klikkar yfirleitt ekki í návígi af þessu tagi. Mér þótti hins vegar óþarfi fyrir hann og Jón Sig að barma sér yfir auglýsingum og barmmerkjum sem hvor um sig taldi andstæðinginn beina gegn sér og fara yfir strikið. Það sem ég hef séð af auglýsingum og barmmerkjum er í fínu lagi og víðáttufjarri einhverjum skítabissness sem stundaður er í bandarískri kosningabaráttu. Það get ég fullyrt því svo vill til að ég bjó í Colorado í kosningum í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og stúderaði sérstaklega baráttuaðferðir frambjóðenda og flokka í bænum ,,mínum”, Boulder, sem er á stærð við Reykjavík. Fullyrðingar, sem stundum er slegið hér fram, að Íslendingar séu komnir inn á amerískar brautir í kosningabaráttu, eru einfaldlega út í bláinn.

Guðjón Arnar hélt sig talsvert til hlés í þættinum en hvessti sig í skattaumræðunni og talaði þar mannamál. Komst fyrir vikið býsna vel frá þættinum. Ómar Ragnarsson var einhvern veginn eins og hann væri ekki klár á hvort hann væri að koma eða fara. Hann var margfalt öflugri í foringjaþættinum á Stöð tvö en úti að aka í gærkvöld.

Þórhallur Gunnarsson spyrill fær prik fyrir sína frammistöðu. Hann gerði nokkuð sem hefur verið alltof alltof sjaldgæft að sjá og heyra stjórnendur ljósvakaþátta gera í kosningabaráttunni: að vera ekki fyrirsjáanlegur í spurningum og vera svo fylginn sér í að knýja menn til svara. Elín Hirst átti hins vegar ekki góða kvöldstund. Hún virkaði bæði óörugg og hikandi. Það er draumur stjórnmálamanna að mæta spyrli í óstuði í svona þætti.

Svo skal það endurtekið í lokin að auglýsingaherferð sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni hefur verið betur heppnuð á margan hátt en hliðstæðar herferðir annarra flokka. Þar hefur verið verið lagt upp úr einföldu, skýru myndmáli en knöppum texta. Íslandshreyfingin hefur líka látið myndir tala í hluta sinnar herferðar. Í heildina tekið nota flokkarnir yfirþyrmandi textaflóð í auglýsingum og sumar heilsíðurnar frá frjálslyndum minna helst á stafla af gangstéttarhellum, svo pakkaður er boðskapurinn í texta. Þetta er missir marks og gagnast mest fjölmiðlunum sem fá aura fyrir birtinguna.


Varsjárbandalagið reis upp frá dauðum í Helsinki

Mikið er vælt um að þjóðir Austur-Evrópu hafi kosið taktískt í Evrópusöngvakeppninni í gærkvöld og haldið afgangi álfunnar og Ísraelsmönnum að auki úti í kuldanum. Þetta er áberandi tónn í norrænum netmiðlum annars staðar á Norðurlöndum og bergmálar hér heima líka. Svona nokkuð kemur úr hörðustu átt! Norðurlandaþjóðirnar hafa nefnilega frá upphafi vega þessarar keppni greitt atkvæði nákvæmlega svona! Norrænir fulltrúar hafa alltaf fengið hlutfallslega flest atkvæði frá frændþjóðum sínum á Norðurlöndum en annars staðar frá. Þannig er það nú bara. Og þegar Austur-Evrópuþjóðirnar eru komnar með í leikinn - og hafa greinilega miklu meiri áhuga á keppninni en gengur og gerist í álfunni (að Norðurlöndum ef til vill undanskildum), þá gerist bara það sem gerðist í gær. Vissulega er þetta nýja Varsjárbandalag skondin uppákoma en upprisa þess gengur ekki gegn neinum reglum. Og þetta bandalag getur vissulega verið bæði til ills og góðs fyrir oss. Núna var fúlt að missa Eika út, þann fína og kröftuga rokkdreng. En í fyrra varpaði íslensk þjóð öndinni hins vegar léttar þegar fyrirbærið Sylvía Nótt var send á öskuhauga sögunnar í forkeppninni og hefur síðan blessunarlega ekki tæpast sést nema á einhverjum diskum sem seljast ekki í Hagkaupum.


Athyglisvert að morgni föstudags

Margt er nú kyndugt að sjá og heyra að morgni föstudags, sólarhring áður en kjörstaðir eru opnaðir:

  1.  Jóhannes í Bónus leggur undir sig heilsíðu í öllum dagblöðunum og hvetur væntanlega kjósendur í Reykjavík suður til að strika yfir Björn Bjarnason. Þegar upp er staðið gagnast þetta útspil líklega betur Birni en Jóhannesi....
  2. Magnús Þór Hafsteinsson segist í Blaðinu ætla að láta verða sitt fyrsta verk á Alþingi að leggja til að skoðanakannanir verði bannaðar af því ,,þær eru svo misvísandi og maður veit ekki sitt rjúkandi ráð lengur." Það kemur nú víst ekki til þess að þessi fráfarandi þingskörungur fái tækifæri til þess að láta verkin tala gegn skoðanakönnuðum og fjölmiðlum því kjósendur hafa engan áhuga á að endurnýja við hann samning um þingsetu. En þá getur hann bara flutt til Frakklands. Þar eru skoðanakannanir bannaðar síðustu dagana fyrir kosningar og þar eru líka lög sem banna fjölmiðlum að fjalla um einkalíf stjórnmálamanna. Semsagt gósenland fyrir þá sem eru þenkjandi í boðum og bönnum.
  3. Jón Baldvin Hannibalsson skrifar grein í Moggann og hvetur til að Ómar Ragnarsson verði kjörinn til þingsetu. Greinarhöfundur var á Akureyri í fyrrakvöld og lýsti sér þar opinberlega yfir sem ráðherraefni Samfylkingarinnar! Nú fer að verða erfitt að skilja hvað snýr upp og hvað snýr niður í tilverunni. Hvar er Spaugstofan? Það vantar fréttaskýringu frá Ragnari Reykás.
  4. ,,Ríkisstjórnin í járnum" blasir við yfir þvera forsíðu Blaðsins. Maður missir nú tebollann í gólfið af minna tilefni af því þegar svona tíðindi eru borin inn á morgunverðarborðið. En þegar betur er að málið ekki eins dramatískt og fyrirsögnin gefur fyrirheit um. Ráðherrarnir ganga sem sagt lausir áfram en starfsmenn Blaðsins eru staðnir að því að vera ekki sterkir á íslenskusvellinu. Fyrirsögnin er hreint rugl meiningarlega, ef ég þá reyni að lesa í hvað reynt e rað segja lesandanum. Ég skil það svo að fylgi ríkisstjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu standi í járnum. Það er allt önnur Ella en að ríkisstjórnin sé í járnum!
  5. Fylgið hrynur af vinstri-grænum í kjördæmi formanns flokksins, segir Morgunblaðið á forsíðu og brýtur könnun Capasent Gallup niður í kjördæmaöreindir. Þar kemur í ljós að VG er með næstminnsta fylgi á landinu í Norðausturkjördæmi og minnkandi. Þarna virðist Samfylking og Framsókn sækja að Steingrími J. félögum með ágætum árangri með marka má Moggann og Gallup. 
  6. Merkilegur og sláandi munur er á fylgi Framsóknar í kjördæmum landsins samkvæmt sömu samantekt Moggans. Í landsbyggðarkjördæmunum þremur er fylgi flokksins 19-24% en einungis 4-8% í Reykjavík og Kraganum. .
  7. Guðjón Arnar virðist sækja í sig veðrið fyrir frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi.
  8. Sjálfstæðisflokkurinn er með hátt í helming fylgist í Kraganum. Það ríkir ekki beinlínis ónægja með ríkisstjórnarforystuna í því kjördæmi....

 


Skorað á 89. mínútu?

Það skyldi nú ekki vera að Framsókn væri að bjarga sér í kosningavikunni - en gang til! Alla vega færir Capacent Gallup framsóknarmönnum vonir um bjartari tíma með því að staðfesta í dag mikla fylgissveiflu í könnun gærdagsins. Ég segir nú bara enn og aftur: það hlýtur mikið að ganga á í öðrum kjördæmum en í höfuðborginni því ekki er nú hægt að merkja svona sveiflu hér - nema reyndar á vaxandi steitu sjálfstæðismanna yfir því að slatti af vonarpeningi Sjálfstæðisflokksins hyggist kjósa taktískt og krossa við B. Geir Haarde talaði skýrt yfir hausamótum þeirra sem slíkt hugsa á Stöð tvö í gærkvöld og nú sjáum vér hvað setur.

Ég hef fengið orð í eyra í morgun fyrir að vera vondur strákur og þar er vísað til ummæla í kosningaþætti Stöðvar tvö um Jón Sigurðsson. Framsóknarmenn sem voru afskaplega ánægðir með skrif mín um meintan Jónínuskandal á dögunum eru afskaplega óhressir með mig í dag. Svona er nú lífið og svo er nú það. Ég var á þeirri skoðun í gærkvöld, og er það að sjálfsögðu enn, að formaður Framsóknarflokksins hefði átt að mæta í þátt á ögurstundu augnabliki fyrir kosningar í sóknarhug og ydda málflutninginn verulega. Nú segja framsóknarmenn glaðhlakkalegir á móti: Ha ha ha, er það ekki einmitt þessi strategía sem er að gera það að verkum að fylgið rýkur upp?

Má vera en þá ætla ég að leyfa mér að spyrja á móti: Er ekki allt eins hugsanlegt að það sé Valgerður Sverrisdóttur sem hali eitthvað inn fyrir flokkinn sinn núna á síðustu metrunum með tveimur yfirlýsingum sínum sem greinilegt er að hafa komist inn í umræðuna? Í fyrsta lagi sagði hún umbúðalaust að Framsókn færi ekki í ríkisstjórn með svo rýrt fylgi sem flokknum var spáð - allt þar til í könnun Capacent Gallup í gær. Í öðru lagi lýsti hún andstöðu við framkvæmd þjóðlendumálsins af hálfu stjórnvalda (og þar með eigin ríkisstjórnar!) á kosningafundi sem sjónvarpað var fyrr í þessari viku. 

Auðvitað má velta fyrir sér af hverju Framsóknarmenn hafi þá látið þetta þjóðlendumál yfir sig ganga í ríkisstjórninni á kjörtímabilinu og grípi fyrst nú til andstöðu við það, líkt og hálmstrás tæpri viku fyrir kosningar? Það verða þeir sjálfir að skýra en staðreyndin er að andstaða við framkvæmd þjóðlendulaganna er afar illa þokkuð og varðar fjölda fólks um allt land. Framkvæmdin varðar brot á mannréttindum, hvorki meira né minna. Samt hefur ríkt mikil, óskiljanlegt og ítarleg þögn um málið í kosningabaráttunni.

Ég varpa því sem sagt fram hér og nú hvort ekki geti verið að Framsókn græði á því í nýjustu könnunum að Valgerður setti ríkisstjórnaraðild á dagskrá á þann hátt sem hún gerði og við það að hún markaði línu í þjóðlendumálinu gagnvart Sjálfstæðisflokknum, þó seint sé.

En svo má líka velta fyrir sér líka: Er þjóðlenduyfirlýsingin bara prívatskoðun utanríkisráðherrans?? Góð spurning sem ekki fást svör við, einfaldlega af því að fjölmiðlaliðið gerir ekki nokkurn skapaðan hlut til að kalla eftir þeim. Yfirlýsingu ráðherrans var ekki fylgt eftir á nokkurn hátt, svo ég viti. Ekki heldur í kosningaþættinum á Stöð tvö í gærkvöld.


8,6% eða 14,6%?

Framsóknarmenn kættust óskaplega í dag (mikðvikudag) þegar Capasent Gallup skenkti þeim fylgi upp á 14,6% í könnun RÚV og Morgunblaðsins en sigu svo aftur niður í sætin í kvöld þegar Félagsvísindastofnun mældi þeim aðeins 8,6% fylgi á vegum Stöðvar 2. Látum oss nú sjá hvað upp úr pokunum kemur hjá skoðanakönnuðum á morgun og svo að sjálfsögðu upp úr sjálfum kjörkössunum um helgina. Ef eitthvað er að marka niðustöður fyrri kannana varðandi Framsókn hefur eitthvað dramatískt gerst á  tiltölulega fáum sólarhringum, jafnvel klukkutímum, sé flokkurinn allt í einu kominn upp í 14% fylgi og gott betur. Ekkert skal nú útilokað í þeim efnum en víst er að þarna er verið að tala um svo mikla sveiflu að hægt væri að skynja hana í umhverfinu. Rétt eins og fylgissveifla til Framsóknar í kosningavikunni fyrir fjórum árum var svo greinileg að nánast var hægt að merkja hana í loftinu líkt og snögg veðrabrigði. Enn verður ekki vart við svona sveiflu á götuhornum en vel má vera að fylgi færi að strauma um götur og torg strax á morgun.  Ýmsir sjálfstæðismenn á förnum vegi eru til að mynda býsna stressaðir yfir stöðunni. Þeir segjast hafa fengið óþægilega góðar niðurstöður í skoðanakönnunum undanfarna daga og að ákveðin hætta sé á að kjósendur úr sínum röðum ,,láni” Framsókn atkvæðin sín á laugardaginn. Hliðstætt gerðist nefnilega fyrir fjórum árum og menn eru ekki alveg búnir að gleyma því í Valhöll.

Hræringarnar eru samt vissulega greinanlegar í umhverfinu nú um stundir en tengjast ekki Framsókn. Samfylkingin er að sækja í sig veðrið en vinstri-grænir gefa eftir. Þetta bara berst með golunni! Hvað er þá í gangi? Hér er ein kenning, ekki vitlausari en hver önnur:

Niðurstöður atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði um stækkun álversins mörkuðu ákveðin kaflaskil í kosningabaráttunni. Ætli megi ekki rekja fylgisfærslur nú að miklu leyti til þeirra? Hafnfirðingar kusu nefnilega umhverfis- og stóriðjumál að miklu leyti út úr umræðunni um leið og þeir settu Alcan stólinn fyrir dyrnar að stækka hjá sér. Innri ró færðist yfir Samfylkinguna í kjölfarið og flokkurinn fór smám saman að sjá týnda syni og dætur koma heim á hlað, fólk sem hafði farið að heiman í fússi af því því þótti flokkurinn ýmist ekki nægilega afdráttarlaus gegn stóriðjunni eða vildu yfirlýstan stuðning flokksins við stækkun í Straumsvík í stað að segja pass eða nei.

Ef Hafnfirðingar hefðu á hinn bóginn samþykkt stækkun á dögunum væri landslagið líkast til annað en það er. Vinstri-grænir væru stærri en Samfylkingin og umræðan snerist að mestu um umhverfismál og stóriðju. Íslandshreyfingin hefði úr meiru að moða og eygði jafnvel þingsæti í stað þess að vera orðin álíka vonlaust dæmi og Sylvía Nótt.

Aðeins eru tveir sólarhringar til kosninga og vel má vera að Framsókn fái einhverja sveiflu til sín í bláendann. Framsóknarmenn minna annars oft á Fram í úrvalsdeildinni í fótbolta síðustu árin. Framarar börðust í botnslag ár eftir ár en redduðu sér aftur og aftur á lokasprettinum, stundum á allt að því yfirnáttúrulegan hátt. Þeir voru farnir að trúa því að forlögin hefðu verið skrifuð svona fyrir þá í handritið hjá Guði. Svo reyndist ekki vera og fagran haustdag féll bara Fram niður úr deildinni. Örlög Fram ættu að vera Framsókn umhugsunarefni, það er heldur tæpt af framsóknarmönnum að treysta því að gæfuhjólið snúist þeim alltaf í hag rétt áður en kosningar bresta á.

Talandi um sveiflu á lokaspretti. Hreint ekki myndi ég hreint útiloka að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fylgisgusu til sín í blálokin. Ef auglýsingaherferð skiptir á annað borð einhverju máli, til að afla fylgis, er næsta víst að auglýsingar sjálfstæðismanna skila þeim atkvæðum. Boðskapurinn er skýr og aðgengilegur. Formannaparið er alls staðar í forgrunni og mest lagt upp úr að koma því til skila að „þú veist hvað þú hefur en ekki hvað þú færð“. Endurnýjun í flokksforystunni var vel heppnuð hjá sjálfstæðismönnum. Geir og Þorgerður Katrín þola það vel að vera keyrð upp eins og rokkstjörnur á strætóskýlum um borg og bý og á heilum og hálfum síðum dagblaða. Af þessu fólki myndi maður kaupa notaðan bíl ef svo bæri undir og enn frekar að treysta því fyrir atkvæði sínu.

Vilmundur Gylfason spáði á sínum tíma mikið í þann stóra hóp kjósenda sem læsi ekki stefnuskrár flokka, sæti ekki yfir kosningaþáttum í sjónvarpi og sækti ekki pólitíska fundi en kysi samt  - eftir tilfinningu hverju sinni. Til einföldunar kallaði hann þennan hóp ,,stelpurnar á kössunum í Hagkaupum” og sagði að sá stjórnmálaflokkur gerði það gott í kosningum sem næði augu og eyrum krakkanna í Hagkaupsbúðunum, með öðrum orðum til þess hluta yngstu kynslóða kjósenda sem ekki væri fyrirfram ,,pólitískt meðvitaður” í eina eða aðra átt. Ég hallast að því að Sjálfstæðisflokkurinn geti náð árangri á þessum atkvæðamiðum nú og muni, ef rétt reynist, þakka það skýrum og einföldum skilaboðum í auglýsingunum sínum.


Garðsláttur og þjóðlendur

Heyskapur er hafinn í Álftalandi 5. Grasspretta í meðallagi en fóðurgildið takmarkað, alla vega í mosanum sem reyttur var upp með dýrindis græju sem leigð var í BYKO. Þetta var sum sé öðrum þræði vorverkasláttur og óvinveitt yfirtaka á mosanum sem alltaf reynir að tryggja sér undirtök í glímu við grasið á skikanum okkar. Svo hagar til að Reykjavíkurborg á grasræmu niður við götu og trjábeð á móti okkur við lóðarmörkin. Borgin hirðir ekkert um þessar eigur sínar og við heimafólk höfum því slegið reglulega niður að götu og hirt trjáreit borgarsjóðs til að bjarga mannorðinu.


Engin sýnileg mörk eru á milli okkar lóðar og borgarlandsins. Ef við létum eignir borgarinnar í friði, myndu grannar og vegfarendur umsvifalaust skrifa vanhirðuna og illgresið á okkur, enda engin sýnileg lóðarmörk til á þessum slóðum. Af tvennu illu viljum við frekar slá og hirða borgarlandið í sjálfboðavinnu en sitja uppi með ósómann fyrir augunum.

Að vísu höfum við hringt nokkrum sinnum í borgina og bent mönnum þar á bæ á slóðaskapinn en það er nú eins og tala við skýin. Ég reyndi meira að segja að beita óbeinum ættar- og klíkuþrýstingi einu sinni með því að benda embættisjálknum sem var til svara að hún Steinunn Valdís borgarstjóri væri ættuð frá Göngustöðum, rétt eins og ég. Ef ekki starfsmenn borgarstarfsmenn kæmu ekki strax á vettvang með arfaklórur, sláttuvélar og garðklippur til að standa sína plikt, myndi klaga í frænku og hún taka til sinna ráða í embættiskerfinu. Embættismaðurinn sneri hins vegar upp á sig og sagði að sig varðaði ekkert um frændsemi mína og borgarstjórans. Göngustaðir? sagði svo viðmælandinn. Er það kofi í Þórsmörk? Þá ákvað ég að láta kyrrt liggja og halda áfram garðyrkjustörfum fyrir borgina.

Svo tók Villi við ráðhúsinu en við sama sat áfram hér við bæjarþilið. Áfram slógum við grasræmuna niður við götu, reyttum arfa í borgarbeðinu og klipptum borgartrén á lóðarmörkunum. Þannig verður ástandið líklega um fyrirsjáanlega framtíð. Ekki dettur mér að minnsta kosti í hug að fara í landamerkjapex við borgarstjórann á sama tíma og flokksbróðir hans fjármálaráðherrann fer eins og eldibrandur um Ísland með herskara lögfræðinga í eftirdragi til að ríkisvæða landareignir manna í nafni svokallaðra þjóðlendulaga frá Alþingi. Ættarlaukar frá Göngustöðum í Svarfaðardal rugga engum bátum að óþörfu.


Prófraun fyrir pólitísk viðrini

Ég fékk staðfesta þá skoðun mína að ég ætti ekkert erindi á kjörstað á laugardaginn þegar ég gekkst undir próf frá háskólanum að Bifröst. Þar geta pólitísk viðrini svarað nokkrum lykilspurningum og fengið svar við eigin spurningu: hvað á ég að kjósa? Þegar útkoman er sem hér segir er best að viðurkenna á sig viðrinisháttinn og sitja heima....

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 43.75%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 0%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 29%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 30%

Hér getur þú prófað sjálf(ur), viðrinið þitt: http://xhvad.bifrost.is/

PS. Þegar svo er komið að sjálft Ríkisútvarpið lætur ær fæða í fréttatíma sínum, eins og gerðist í gær, er rétt að láta fylgja með hvað hugtakið viðrini þýðir á mæltu máli. En meðal annarra orða: skyldi móðir fréttamannsins hjá RÚV hafa kastað honum forðum? Maður skyldi aldrei segja aldrei....

Viðrini:

a. tvíkynja skepna

b. lítilfjörleg persóna eða skepna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband