Mánudagur, 7. maí 2007
Bessastaðavaktin
Einn af mörgum kostum Ólafs Ragnars sem forseta er að stjórnmálaforingjarnir munu mynda ríkisstjórn strax eftir kosningar, hvernig svo sem hún verður í laginu. Fæstir þeirra mega til þess hugsa að hleypa Bessastaðabóndanum nokkurs staðar að stjórnarmynduninni. Það er jafngildir því afkastahvetjandi kerfi fyrir flokksformenn að vita af forsetanum á vaktinni á Álftanesi. Þetta hefur svo keðjuverkandi áhrif alveg inn á gafl okkar sem heima sitjum. Nú þurfum við bara að þreyja þorrann örfáa sólarhringa í viðbót þar til fjölmiðlarnir verða aftur eins og þeir eiga að vera. Og ef ný ríkisstjórn verður til í grænum hvelli brestur á eðlilegt ástand enn fyrr en ella, þökk sé óbærilegri hugsun á ýmsum bæjum um að forseti vor fari að ráðskast eitthvað með umboð með stjórnarmyndunar. Þegar öllu er á botninn hvolft verður það því ÓRG að þakka að dagblöðin verða lesandi á nýjan leik fljótlega eftir helgi.
Mánudagur, 7. maí 2007
Diplómatískt spurningamerki
Ég spjallaði dálítið við sendiherra Austur-Evrópurríkis á dögunum. Sá hefur aðsetur annars staðar á Norðurlöndum og hafði kynnt sér eftir mætti helstu strauma í íslensku þjóðlífi í aðdraganda þingkosninga til þess síðan að skrifa um greinargerð fyrir utanríkisráðuneytið sitt heima. Eðli máls samkvæmt nafngreini ég hvorki manninn né heimalandið hans, enda aukaatriði í sjálfu sér. Ýmislegt af því sem hann hafði séð og heyrt á Íslandi kom honum mikið á óvart, sumt reyndar svo mjög að hann var ekki viss um að embættismenn í utanríkisráðuneytinu sínu treystu sér til að trúa öllu sem hann myndi greina frá í skýrslunni sinni! Hann var til að mynda alveg undrandi á því að kjósendur á Íslandi létu það yfir sig ganga að allir stjórnmálaflokkarnir gætu starfað með öllum að kosningum loknum. Með öðrum orðum, að kjósendur hefðu enga skýra ríkisstjórnarkosti til að kjósa um og hefðu aldrei haft.
Svona nokkuð hafði sendiherrann aldrei heyrt um í víðri veröld og taldi Íslendinga eiga góða möguleika á komast í heimsmetabókina fyrir vikið. Reyndar taldi hann að íslensk þjóð gæti lent á spjöldum heimsmetabókarinnar fyrir fleiri pólitísk undur og stórmerki en þau að láta það yfir sig ganga að kjósa flokka sem gera svo það sem þeim sýnist í framhaldinu. Þar vísaði hann til þess að Hafnfirðingar hefðu afgreitt stækkun álversins út af borðinu og allt eins væri líklegt að hér yrði brátt kominn meirihluti á Alþingi sem fjandskapaðist við orkufrekan iðnað yfirleitt. Ja, það telst nú til tíðinda að til sé þjóð sem er svo vel sett og stöndug að hún geti leyft sér að urra framan í erlenda fjárfesta og helst moka þeim úr landi, sagði viðmælandi minn varð enn einu sinni diplómatrískt spurningamerki á svipinn. Við þeirri athugasemd var ekkert betra svar til en að vitna beint í Jón Ársæl: Svona er Ísland í dag.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Hvar er skandallinn?
Enn bíð ég eftir að Kastljós Sjónvarpsins sýni mér fram á meintan skandal umhverfisráðherrans vegna ríkisborgaramálsins sem vakið var þar upp fyrir helgina. Ég hélt að menn þar á bæ hefðu eitthvað meira uppi í erminni til að spila út þegar hitna færi í kolum en tíminn líður og nú er ekki hægt að draga aðrar ályktanir en þær að það hafi ekki verið nein háspil á hendi og ermin tóm. Það vantar nefnilega sjálfan kjarnann í málið: sannanir fyrir því að ráðherrann hafi beitt sér á einhvern hátt til að flýta fyrir ríkisborgararéttinum til handa kærustu sonar síns. Alla vega var ekki hægt að skilja málið öðru vísi í upphafi en því hafi verið ýtt úr vör til að koma spillingarstimpli á ráðherrann. Gott og vel, þá verður líka að fá botn í málið með því að leggja gögn um spillinguna á borðið. Ef það er ekki gert hlýtur þetta að flokkast sem skítabomba. Af slíkum bombum er alltaf mikið framboð gagnvart fjölmiðlum og fjölmiðlafólki og þá er rétt að draga andann djúpt áður en lengra er haldið, einkum og sér í lagi í aðdraganda kosninga. Það þekki ég vel sjálfur frá fyrri tíð.
Eitt slíkt mál er mér sérlega ofarlega í huga. Forystumaður úr Alþýðuflokknum hafði samband við mig að morgni dags og bauð upp á gögn til að sanna að Stefán Benediksson hefði óhreint mjöl í pokahorni. Stefán var vel að merkja genginn til liðs við Alþýðuflokkinn, hafði áður verið í forystusveit Bandalagi jafnaðarmanna frá stofnun. Hann virtist hins vegar ógna pólitískri tilveru manna úr flokkseigendafélaginu á nýja tilverusviðinu og mér var sum sé boðið upp á að ,,skúbba með skítabombunni. Heimildarmaðurinn úr Alþýðuflokksforystunni var með pappíra og bauðst meira að segja til að hjálpa mér að matreiða fréttina svo hún yrði flugskeyti sem eftir yrði tekið. Það var deginum ljósara að þarna átti að nota mig og áhrifamátt Útvarpsfréttanna til að koma Stefáni á kaldan klaka. Óþarft var að velta vöngum lengi til að hafna kostaboðinu. Næsti kostur var þá greinilega Stöð 2 og viðfangsefni hennar í fyrstu frétt um kvöldið var Stefán Benediktsson eftir umtalsverða heimildarvinnu að því er mátti skilja. Þá hló ég hátt heima í stofu. Kokkteillinn var bæði blandaður og hristur utan fréttastofu Stöðvar 2. Ég hafði hlustað á uppskriftina orðrétta í síma að morgni sama dags. Upphafsmaðurinn sá sem skaut á Stefán úr launsátri gat unað glaður við sitt. Hann náði sínu fram. Ég gat líka unað glaður við mitt, með bærilega góða samvisku en um leið með staðfestingu á hvaða karakterar eru til í pólitík og hvernig þeir vinna, fái þeir fjölmiðlaaðstoð til slíks.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Djöfuls kvótakerfið
Fyrirtæki á Vestfjörðum lenti í rekstrarerfiðleikum og málefni þess bárust inn í sali Alþingis. Þar er meira mannvit en víðast annars staðar undir einu þaki eins og allir ættu að vita. Einn ræðumaður á löggjafarsamkomunni var ekki í vafa um hvað væri að gerast fyrir vestan. Auðvitað hafði Kárahnjúkavirkjun leikið vestfirskt atvinnulíf svona grátt, ruðningsáhrifin alræmdu. Sjálfsagt hafa margir fulltrúar mannvitsins í salnum kinkað kolli. Þetta kom upp í hugann þegar greint var frá því um helgina að rækjuvinnsla í Bolungarvík hefði sagt upp starfsfólki. Bæjarstjórinn kvað þetta vekja upp spurningar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Verkalýðsforinginn á staðnum var ekki neinum í vafa. Þetta er auðvitað stjórnvöldum og kvótakerfinu að kenna. Áleitin spurning í framhaldinu: Gleymdist virkjunin fyrir austan á þessu blórabögglauppboði? Það hlýtur að vera augnabliksyfirsjón að varpa ekki að minnsta kosti hluta af ábyrgðinni á Kárahnjúkavirkjun. Hvar er nú mannvitið? Hvar er Andri Snær?
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Menntamál, notaðir bílar og áhyggjur af stöðumælasekt
Varaformenn Sjálfstæðisflokks og vinstri-grænna áttu sviðið í menntamálaþætti kosningabaráttu Sjónvarpsins í gærkvöld og spiluðu af álíka sjálfsöryggi og Manchester United í seinni hálfleik gegn AC Milan í Evrópuleiknum. Þorgerður Katrín og Katrín koma þannig til dyra, einkum í umræðum þar sem þær eru greinilega á heimavelli, að þær séu trausts verðar og óhætt sé að kaupa af þeim notaða bíla. Svoleiðis týpur er líka óhætt að kjósa og kannski blasti við á sjónvarpsskjánum ein af skýringunum á því að flokkarnir þeirra stefna í að verða sigurvegarar kosninganna 12. maí? Aðrir þátttakendur í umræðunum gerðu sig reyndar yfirleitt bærilega en samt verður að segjast að formaður Framsóknarflokksins var einhvern veginn ekki með hugann við þáttinn. Þegar hann lenti inni í mynd, á meðan aðrir voru að tala, hvimaði hann í kringum sig líkt og fólk sem áttar sig skyndilega á að það hefur rambað inn í ranga fermingarveislu eða ökumaður sem gleymdi að borga í stöðumælinn og sér fyrir sér sektarmiðahrúgu undir þurrkublaðinu. Kannski varð ráðherrann bara að hugsa um stjórnarkjör í Landsvirkjun eða eitthvað allt annað. Hvað veit ég. Alla vega var þetta ekki hans dagur á skjánum. Umræðan fór um víðan völl eins og gengur en var yfirleitt áheyrileg. Það fór hins vegar fyrir mér eins og stjórnandanum, eftir að hafa hlýtt á mál manna um styttingu náms að þráðurinn féll fljótlega niður og nú er mér hulinn ráðgáta um hvað þetta snerist í raun, hver vildi hvað og hvernig í þessum efnum.
Áður en skólamálaumræðan brast á í Sjónvarpssal var þar sendur út hliðstæður þáttur um félagsmál. Skemmst er frá að segja að hann var óskaplega lítið áhugaverður og reyndar svo mjög að jaðraði við leiðindi á köflum. Mörgum þátttakendum leiddist sýnilega þarna og þá var ekki við að búast að glatt yrði á hjalla hjá okkur sem heima sátum. Ég lét mig samt hafa það að fylgjast með þættinum öllum í endursýningu eftir miðnættið, beinlínis af því menntamálaþátturinn kom í kjölfarið og hann vildi ég sjá. Fyrr um kvöldið valdi ég United og AC Milan í Evrópufótbolta á Sýn margfalt frekar en félags- og menntamál í Sjónvarpinu. Þar skorti nú ekkert upp á leikgleðina og hefði nú svo sem eins og brotabrot af henni að ósekju mátt færast inn í félagsmálaumræðuna. Það getur bara ekki verið að þessi málaflokkur sé svona drungalegur eins og skein af skjánum í gærkvöld.
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Áheyrilegir framboðsþættir
Framboðsþættir Útvarpsins í Suðurkjördæmi og útsending Sjónvarpsins frá Ísafirði í gærkvöld voru ljómandi vel heppnaðir og áheyrilegir. Nú er staðfest að þetta skipulag Útvarpsins, það er að segja að útvarpa úr sama kjördæmi að morgni dags og aftur síðdegis, gengur ágætlega upp. Það kemur nefnilega á daginn að þessi síðdegistími er mjög ákjósanlegur til að hlusta á framboðsfund í útvarpi. Ísafjarðarþáttur Sjónvarpsins var mun betur heppnaður en hliðstæð útsending frá Selfossi á dögunum. Stjórnendurnir höfðu stjórn á umræðunum og þátttakendum í þeim og fulltrúar flokkanna voru líflegir flestir líflegir líka. Að vísu var undarleg ráðstöfun hjá vinstri-grænum að senda óvana menn gegn atvinnukjaftöskunum í þungaviktarumræður um samgöngur og sjávarútvegsmál en þeir um það. Samgönguráðherrann mætti vel stemmdur til leiks og var fastari fyrir í sókn og vörn en menn hafa vanist af honum svona að jafnaði. Það kom ágætlega út en virtist slá suma aðra í hópnum út af laginu á köflum. Í sjávarútvegsumræðunni situr hins vegar helst eftir að Össur var ljúfur eins og lamb, sáttfús og blíður. Sú sjávarútvegspólitík sem hann boðaði þarna var önnur og friðsamlegri en Samfylkingin var með í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum, reyndar svo mjög að sjávarútvegsráðherrann varð hvumsa við í þættinum. Kapphlaup samfylkingarmanna og vinstri-grænna um að komast í ríkisstjórn (með sjálfstæðismönnum) tekur þannig á sig ýmsar myndir. Allt er nú boðið á góðum afsláttarkjörum, meira að segja taldi varaformaður vinstri-grænna í útvarpsviðtali hér á dögunum að einkavæðing orkufyrirtækjanna væri ekkert úrslitaatriði í stjórnarmyndunarviðræðum. ,,Það gerist svo margt í beinni útsendingu," segir Hemmi Gunn gjarnan þegar hann þarf að afsaka eitthvað sem aflaga fer í þáttum hjá honum. Sama trix er auðvitað hægt að nota í stjórnarmyndun, skítt með kjósendur og kosningavíxla.
Útvarpið var svo í morgun með Jón Sigurðsson í fyrstu foringjayfirheyrslunni fyrir kosningar. Það var ekki áhugahvert prógramm og alveg einstaklega fyrirsjáanlegt. Það gengur ekki að kalla formann í stjórnmálaflokki í 20 mínútna spurningaleik og nánast allar spurningar og öll svör eru margþvældar þulur og fyrirsjáanlegar í alla staði. Þarna vantaði meiri og betri heimavinnu spyrlanna. Markmiðið á að sjálfsögðu að vera að nálgast viðmælandann úr óvæntum áttum, í og með að minnsta kosti! Ef að stjórnmálamennirnir brúka sömu svörin við fleiri spurningum, eins og gerðist í þessum þætti í morgun, þá er eitthvað að spurningunum og stjórn yfirheyrslunnar!
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Af fyrirtækjaheitum
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar