Gef oss í dag vor gömlu stef

Fréttastjóri Útvarpsins taldi brýna þörf á að yngja upp fréttastef Útvarpsins og gera nútímalegra. Yfir því var víst legið tímunum saman í Efstaleitinu að færa koma fréttunum inn í nútímann með nýju stefi. Sjálfsagt eru þeir hlustendur til sem þykir breytingin til bóta og ég bíð spenntur eftir að hitta á svo sem einn slíkan. Enginn hefur enn lýst ánægju sinni í mín eyru en margir eru hins vegar fúlir, sumir hundfúlir, af ýmsum ástæðum. Látum nú vera að stefið sé bæði ófrumlegt og karakterslaust. Verst er að það kallar ekki á hlustandann og biður hann að sperra eyrun. Stefið er nefnilega svo lágt að menn taka ekki eftir að fréttir séu að hefjast þegar Útvarpið er murrandi sem bakhljóð á vinnustað í erli dagsins. Má ég biðja um gömlu fréttastefin aftur. Ef nýja stefið hefur eitthvað með nútímann að gera kýs ég frekar að vera uppi á steinöld í þessum efnum.


Skrípaleikur frjálslyndra

Flokksþing frjálslyndra keppir við Spaugstofuna um verðlaunasæti í keppni um skrípamynd helgarinnar af samfélaginu. Ég er ekki frá því að hinir fyrrnefndu standi betur og eiga möguleika á að tryggja sigurinn með því að klofna alveg með stæl áður en þessi sólarhringur rennur á enda. Vér bíðum og sjáum. Andstæðingar frjálslyndra í pólitík hafa sérstaka ástæðu til að fagna úrslitum varaformannskjörsins, hvað sem öðru líður. Það boðar flokknum pólitíska feigð að hafna geðslegri konu í þetta forystusæti en veðja með atkvæðasmölun á karl sem sneyddur er af kjörþokka og best þekktur af skapbrestum sínum sem birst hafa í ýmsum myndum á opinberum vettvangi.

Leikreglur breytt eftir á

Framsóknarmenn á Suðurlandi fylltu skarð framboðslista síns eftir Hjálmar Árnason með konu sem tók ekki þátt í prófkjöri þeirra á dögunum! Það er auðvitað þeirra vandamál að breyta leikreglum eftir á en ekki er nú sérlega mikill glæsibragur á slíkri framkomu gagnvart þeim sem vörðu tíma og fjármunum í að taka þátt í leiknum. Auðvitað lá beint við að færa bara listann upp. Háttvirtir kjósendur höfðu talað og það lá beint fyrir að virða niðurstöðuna. Kontóristi flokksins á enga innistæðu fyrir þessu sæti sínu og kjósendur á Suðurnesjum geta bara sjálfum sér um kennt að ná ekki lengra eftir settum reglum.  Á sama hátt hefði það verið fráleitt hjá sjálfstæðismönnum í sama kjördæmi að hrófla við Árna Johnsen á framboðslista sínum. Leikreglur voru settar og eftir þeim farið, hvað svo menn segja og hugsa um stöðu Sjálfstæðisflokksins með Johnsen á ný í forystunni. Það er nú bara allt önnur Ella.

 


Sérframboð landeigenda?

 Stofnfundur Landssamtaka landeigenda var mögnuð samkoma og kann að vera upphafið að því að upp úr sjóði svo um munar í þessu ótrúlega þjóðlendumáli. Ríkisstjórn sem brýtur mannréttindi á fólki, með því að ætla að sölsa undir sig eignarland þess frá fjöru til fjalla, hefur tapað bæði áttum og skynsemi í tilverunni. Stjórnarandstaða sem lætur þjóðlendumálið afskiptalaust, en er hins vegar sannfærð um að skipulagsbreyting Ríkisútvarpsins sé mál sem standi undir Íslandsmeti í málþófi á Alþingi, hefur ekki jarðsambandið í lagi.  Þjóðlendukröfur ríkisins eru svo yfirgengilegar og út úr korti að engu tali tekur. Alþingi setti lögin sem ríkisvaldið notar sem skálkaskjól þegar erindrekar þess böðlast um landið og þinglýsir kröfum um þjóðnýtingu allt að 90% þinglýstra landareigna fólks! Ríkisstjórnin ber auðvitað pólitíska ábyrgð á þessum hamförum en Alþingi, þar með stjórnarandstaðan, ber líka sína ábyrgð. Þögnin um þjóðlendumálið á löggjafarsamkomunni er æpandi og skerandi.  Landeigendur eru saltvondir og skyldi nú engan undra. Þeir lásu stjórnmálamönnum pistilinn á stofnfundinum í gær. Einn ræðumaður kynnti sig sem fyrrverandi framsóknarmann og sagði að þjóðlendukröfur ríkisins hefðu fyllt mælinn sinn. Annan fundarmann hitti ég í fundarlok. Sá sagðist í óspurðum fréttum hafa gengið úr Sjálfstæðisflokknum vegna þjóðlendumálsins og væri nú í sambandi við fólk sem vildi kanna möguleika á framboði landeigenda til Alþingis í vor. Þessi fyrrum sjálfstæðismaður býr í Þingeyjarsýslu en sagði að umræða um sérframboð landeigenda grasseraði víða um land og hefði fengið byr undir vængi þegar fréttir bárust um væntanlegt sérframboð eldri borgara. „Ef eldri borgarar telja sig landlausa í pólitík, þá á það nú aldeilis við um landeigendur líka,“ sagði þessi viðmælandi minn. Margt athyglisvert var sagt og gert á stofnfundi landssamtakanna í gær en líklega hefur dr. Guðrún Gauksdóttir, dósent í lögum við Háskólann í Reykjavík, látið fundarmenn hafa með sér verðmætasta nestið til heimferðar. Hún færði afar skýr og trúverðug rök fyrir því að kröfur ríkisins gengju á svig við eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Ragnar Aðalsteinsson hrl er sammála þessu og bætir því reyndar við að aðgerðir ríkisins í þjóðlendumálinu kunni að varða við 257. grein almennra hegningarlaga!

Skipstjóranum förlast

 Innbyrðis átök í stjórnmálaflokkum eru oft á tíðum ágætis afþreyingarefni fyrir okkur sem heima situm og fylgjumst með úr fjarlægð. Frjálslyndir eiga senuna um þessar mundir og standa sig vel í að fremja á sér pólitíska kviðristu fyrir opnum tjöldum. Engu máli skiptir hvernig kjör varaformanns fer á landsfundinum um helgina, flokkurinn er nú þegar klofinn niður í rót og bara spurning um hvar brotin lenda eftir sprenginguna. Guðjón Arnar hefur alltaf haft yfir sér sérstaka áru í pólitík og kemst langt á henni. Hann er á svipaðri bylgjulengd og fólk flest, nær eyrum manna, talar umbúðalaust eins og sjóaarar gjarnan gera, einlægur og býsna sannfærandi. Honum förlast hins vegar skynsemin nú um stundir, sem kann að reynast afdrifaríkt. Það eru mikil mistök hjá formanninum að standa ekki við hliðarlínuna og láta flokksmenn eina um að velja flokknum varaformann. Vel að merkja, mistök ef hann hefur áhuga á að halda flokknum saman áfram. Ef hann er hins vegar á því að flokkurinn sé hvort eð er dottinn í parta, eða hann vill hreinlega losna við Margréti Sverrisdóttur og hennar lið, ja þá er hann vissulega á réttri braut. Engum blöðum er um það að fletta að Frjálslyndi flokkurinn hefði aðra og geðsþekkari ásjónu með Margréti í æðstu forystu en Magnús Þór Hafsteinsson. Sá hinn síðarnefndi er dæmi um stjórnmálamann sem hefur neikvæðan kjörþokka, eins og það myndi sjálfsagt heita á tungumáli verðbréfafólks í fjármálaheimum. Guðjóni Arnari þykir hann hins vegar fjandi glúrinn stýrimaður en nú er að sjá hvort sjálf útgerð skipsins er sammála, þ.e. landsfundurinn. Og svo eru það háttvirtir neytendur, háttvirtir kjósendur. Það þarf hvorki skoðanakönnun né kosningar til að segja fyrir um stöðu og álit varaformannsefnanna tveggja í röðum almennings. En skipstjóranum er skítsama um það og stýrimaðurinn rífur kjaft. Stríðið blívur, skítt með kjósendur og flokkinn.  Þetta verður yndisleg helgi á hliðarlínunni.ga!

Fjárdráttur í drottins nafni

Fréttastofa Stöðvar tvö og umsjónarmenn Kompáss eiga þakkir skildar fyrir að fletta ofan af liðinu sem rakaði að sér opinberum fjármunum í nafni Byrgisins og lifði í lúxus á rándýrum jeppum í nafni  drottins hins almáttuga og hjarðar hans. Alveg er stórmerkilegt að Alþingi og framkvæmdavald skuli ausa opinberu fé í þessa þjófahít árum saman án þess að ganga eftir einu né neinu frá Byrginu um hvernig peningarnir séu notaðir. Það hljóta einhverjir að taka pokann sinn í framhaldinu, því einhver hlýtur að bera ábyrgð á sukkinu eða hvað? Aðstandendur Byrgisins virðast vera einhver trúarofstækisklíka, sem ekki gerir málið betra fyrir þá sem ábyrgð hljóta að sæta. Og nú verða skjólstæðingarnir fluttir til annars trúarofstækishóps, að því er helst mátti skilja í dag. Ríkið borgar og allir eru glaðir hjá guði. Það er ekki einu sinni hægt að brosa að þessum ósköpum.


Þrugl á þingi

Mér skilst að búið sé að ráðstafa heilli vinnuviku Alþingis í þrugl um Ríkisútvarpið, enn og aftur. Ég hitti varla mann sem botnar í því um hvað málið snýst og engan sem lætur sér það varða. Hið eina sem máli skiptir er hvort ríkið eigi yfirleitt að reka fjölmiðil og tíminn vinnur augljóslega gegn ríkisvaldinu í þeim efnum. Um það má hins vegar ekki ræða af því Ríkisútvarpið er heilög kýr í fjósum allra flokka og þar má helst ekki hrófla við nokkrum hlut. Ef stjórnmálamenn telja tíma sínum og löggjafarsamkundunnar vel varið þessa dagana, þá segir það meira um þá sjálfa en flest annað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband