Tjaldstæðin við Mývatn sleppa - naumlega

Alveg verður maður kjaftstopp við að lesa og heyra um þessar svokölluðu þjóðlendukröfur sem ríkisvaldið er að gera, nú síðast á austanverðu Norðurlandi. Morgunblaðið hefur í gær og birt fréttir og kort sem sýna hversu geggjaðar ríkiskröfurnar eru. Ríkið krefst til dæmis 90% af landi jarðarinnar Reykjahlíðar og ætlar sölsa undir sig gríðarflæmi lands frá miðjum Vatnajökli til sjávar. Tjaldstæðin við Mývatn sluppu naumlega undan ríkishramminum. Eða eins og Mogginn segir í fyrirsögn fréttar í dag: ,,Nánast ekkert eignarland eftir í sýslunni"! Nú er það svo að ríkið sjálft hefur umgengist landeigendur þarna alla tíð eins og landeigendur og meira að segja samið við þá um hitt og þetta, til dæmis um Kröflu árið 1971. Ekki  múkk þá eða síðar um að einhver vafi léki á eignarhaldi Reykjahlíðar - sem reyndar byggist víst á 500 ára gömlum dómi. þetta mál er alveg ótrúlegt og það sem er alveg stóreinkennilegt: Árið er 2006 og pólitískir handhafar ríkisvaldsins eru þeir stjórnmálaflokkar sem helst hafa kennt sig við einkavæðingu og allt það. Skyldu alþingismenn hafa séð fyrir þessi ósköp þegar þeir samþykktu forðum lögin sem ríkið hefur að forsendu fyrir þessum lygilegu þjóðlendukröfum sínum?


Beturvitar blása

Einhver drengur (náði ekki nafninu) fór mikinn á Rás tvö síðdegis og viðhafði þvílíkan munnsöfnuð um Jón Magnússon lögmann að Sigrún Stefánsdóttir Rásarstjóri hlýtur að hafa fálmað eftir rauða spjaldinu þegar í stað. Alla vega rak hún á dögunum dagskrárgerðarmann á Rásinni fyrir ummæli um Gus Gus sem voru fyrst og fremst kjánaleg en eins og morgunbæn biskups í samanburði við fúkyrðaflauminn sem á lögmanninum dundi á sama vettvangi í dag. Margir hafa verið stóryrtir um frjálslynda og innflytjendaummæli varaformanns þeirra og hliðstæð viðbrögð besservissera af ýmsu tagi áttu drjúgan þátt í að gera Framfaraflokkinn stærsta stjórnmálaflokk Noregs. Ef íslenskir beturvitar vilja endilega blása lífi í Frjálslynda flokkinn og gera hann stóran og sterkan, ja þá halda þeir bara áfram á svipaðri braut og kjafthákurinn á Rás tvö í dag.

Auðvitað ætti að vera hægt að ræða innflytjendamál eins og annað án þess að menn æpi og góli á torgum: rasisti, rasisti, fuss og svei! Svona umræða, eins og frjálslyndir eru að brydda upp á nú, er vissulega þekkt í öllum nágrannalöndum og það hlaut að gerast að bergmál hennar bærist hingað líka. Sumir brugðust býsna drýgindalega við á opinberum vettvangi í dag og sögðu að yfirlýsingar frjálslyndra væru til marks um að flokkur þeirra væri málþrota og leitaði að pólitísku hálmstrái til að fara með í kosningabaráttu. Og hvað með það? Ég get ekki betur séð en Frjálslyndi flokkurinn hafi ráðið allri þjóðmálaumræðu í landinu frá því Silfri Egils lauk í gær og hafi meira að segja tekist að koma því til skila að honum sé alvara með útspilinu. Þetta er því greinilega hálmstrá sem virkar, í bili að minnsta kosti!

 Svo er að sjá hvernig innflytjendamálið dugar frjálslyndum í næstu skoðanakönnunum og auðvitað enn frekar í ,,stóru könnuninni" í vor: sjálfum þingkosningunum. Foringjar frjálslyndra, Samfylkingar og vinstri-grænna boða ríkisstjórnarsamstarf ef þeir fá þingstyrk til slíks. Fróðlegt verður rað sjá hvernig þeim gengur að sjóða saman kaflann um innflytjendamál í málefnasamningnum.... En að slíku gríni slepptu verður fróðlegast að sjá hvort viðbrögð annarra flokka við yfirlýsingum frjálslyndra verða áfram í anda þess sem heyrðist úr mörgum pólitískum hornum undanfarinn sólarhring. Ef ,,hinir flokkarnir" hafa ekkert lært af umræðunni í grannlöndunum veita þeir frjálslyndum svigrúm til að fitna á fjósbitanum. Rétt eins og Carl I. Hagen stjórnaði innflytjendaumræðunni í Noregi á forsendum Framfaraflokksins árum saman og tætti fylgi af flokkum til hægri og vinstri í kosningum eftir kosningar.


Prófkjörsskrípaleikur

Spaugarar gripu það á lofti hér um kosningaárið þegar í ljós kom að kjósendur í prófkjörum þriggja flokka á Siglufirði voru hátt í þrefalt fleiri en fólk á kjörskrá þar í bæ. Siglfirðinga hafði með öðrum orðum ekki munað um að flakka á milli flokka um hríð til að styðja sveitunga sína á hverjum stað. Skítt með stefnuskrár og svoleiðis vesen. Núna um helgina skilst mér að pólitískir straumar á Sigló hafi legið til Samfylkingarinnar til stuðnings Kristjáni Möller. Svo kemur prófkjör hjá einhverjum öðrum og þá streyma kjósendur þangað, það er að segja ef leggja þarf heimamanni lið. Siglfirðingar eru sjálfsagt hvorki betri né verri í þessum efnum og allt er þetta nú víst í samræmi við reglur um prófkjör. Þeir eru bara nefndir til sögunnar núna af því hallærislegasta dæmið um skrípaleik prófkjaranna, sem ég man eftir í svipinn, er einmitt frá Siglufirði. Það gerist með öðrum orðum hvað eftir annað í prófkjörum að fólk, sem aldrei mun svo kjósa viðkomandi flokka, hefur úrslitaáhrif á hvernig skipast á viðkomandi framboðslista! Ég hef sjálfur fengið tilboð, frekar tvö en eitt, að ganga í stjórnmálaflokka til að taka þátt í prófkjöri. Í bæði skiptin var tekið fram að ég gæti ,,að sjálfsögðu!" gengið úr flokkunum aftur um leið og ég hefði skilað því sem til væri ætlast af mér. Í öðru tilvikinu tók sá fram sem hafði samband, erindreki tiltekins frambjóðanda, að hann gæti séð um að strika mig út af flokkskránni eftir prófkjör til að spara mér fyrirhöfnina. Auðvitað afþakkaði ég pent að taka þátt í svona þvælu. Sjálfsagt er engin leið gallalaus við að skipa sæti á framboðslista en mér fannst athyglisvert að heyra í fréttum hvernig framsóknarmenn völdu á framboðslista í einu kjördæmanna núna um helgina. Það var gert í atkvæðagreiðslu á kjördæmisþingi þar fulltrúar voru tvöfalt fleiri en ella, hafi ég skilið rétt. Þarna var því ekki kjörnefnd eða einhvers konar annað valdaapparat flokksins að raða mönnum í sæti og þarna var heldur ekki hópur utanflokksmanna að hafa áhrif (geng í það minnsta út frá að hverfandi líkur séu á að aðrir en innvígðir framsóknarmenn hafi náð þeim frama að komast á kjördæmisþing!). Í fljótu bragði virðist þessi aðferðafræði ekki svo galin, en líkast til á hún ekki hljómgrunn á Sigló. Sjálfum er mér þar að auki sléttsama hvernig stjórnmálaflokkar velja frambjóðendur. Það er þeirra hausverkur, ekki minn.


Írafár út af engu

Merkilegt er að upplifa það að ífjölmiðlar vorir skuli vera nánast á öðrum endanum út af einhverjum skrifum í Ekstrablaðinu í Danmörku um umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis. Þetta danska blað er mesti skítapappír á Norðurlöndum og áreiðanlegt eftir því. Danir eru aldir upp við að taka ekkert mark á Ekstrablaðinu en nú bregður svo við að íslenskir fjölmiðlar vísa í skrif þess fram og til baka eins og þar fari sjálfur Stórisannleikur! Eini Íslendingurinn sem hingað til er vitað er með vissu að hafi trúað og treyst Ekstrablaðinu er Eiríkur Jónsson, augasteinn Jónasar Kristjánssonar í blaðamennsku. Hann var um skeið fréttaritari Útvarpsins í Kaupmannahöfn og studdist helst við Ekstrablaðið við störf sín. Stjórnendur fréttastofunnar lærðu fljótt af biturri reynslu að skima vel fróðleikinn sem barst frá Danmörku áður en landslýður fékk að njóta hans. Það sem fyllti svo mælinn var fregnin um Margréti Þórhildi drottningu sem fréttaritarinn sagði að væri um borð í snekkju við Grænland með fríðu föruneyti og snekkjan föst í hafís. Þetta var í sjálfu sér umtalsverð dramatík en gengi fréttarinnar hrapaði umtalsvert þegar hringt var frá Bessastöðum á meðan fréttalestur stóð yfir til að láta vita af því að Danadrottning væri væntanlegt til Íslands með flugi daginn eftir áleiðis til Grænlands. Ekstrablaðið hafði heyrt á skotspónum að drottningarsnekkjan hefði siglt fram hjá nokkrum ísjökum og skáldað fína sögu, sem fréttaritari Útvarps svo lapti upp úr því og notaði til fóðurs handa íslenskri þjóð. Það rifjast svo upp að fyrir margt löngu fór ég til Kaupmannahafnar í hópi blaðmennskunema í Osló til í einskonar kynnisferð á fjölmiðla í Danaveldi. Við kíktum meðal annars inn á ritstjórnir Politiken og Ekstrablaðsins. Einna minnisstæðast úr kynnisferðinni var að sjá hve drukknir blaðamenn Ekstrablaðsins voru í vinnunni. Við héldum að einhver ætti afmæli eða hefði unnið milljón í happdrætti en svo reyndist nú ekki vera. Þarna var bara glaseyg ritstjórn eins útbreiddasta dagblaðs Norðurlanda að loka síðustu síðunum á venjulegu kvöldi og búa undir prentun. Okkur var reyndar sagt að drykkjuskapurinn á Ekstrablaðinu væri langt ofan við danskt meðaltal á fjölmiðlum enda þætti það bara kostur að menn vissu hvorki í þennan heim né annan þegar þeir skálduðu í eyður. Ef marka má það sem messað hefur verið upp úr Ekstrablaðinu undanfarna daga stendur partíið enn þar á ritstjórninni, réttum 25 árum eftir heimsóknina frá Osló. Danir taka ekkert meira mark á þessum miðli en áður en gengi hans hefur af óskiljanlegum ástæðum snarhækkað í íslenskum fjölmiðlaranni.

PS. Hafi svo einhver efast um að íslenskan krónan væri ekki merkilegur gjaldmiðill hlýtur sá hinn sami að hafa séð ljósið þegar fregnir bárust úr fjármálaheiminum um að gengi krónunnar hefði lækkað vegna yfirvofandi skrifa í danska Ekstrablaðinu um íslensku útrásina! Gjaldmiðill sem ekki þolir slíkt er miklu meira en handónýtur.


Framboðsraunir I

Gömlu kjördæmin lifa góðu lífi í þeim nýju. Það sést vel á úrslitunum í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sem reyndar er alvitlausasta niðurstaða kjördæmabreytingarinnar. Samfylkingarfólk á Vesturlandi og Vestfjörðum horfði ekki út fyrir túngarðinn sinn og valdi karla sem næst því stóðu frekar en þingmann úr Skagafirði. Og reyndar var eins og fréttamenn Ríkisútvarpsins gerði sér enga grein fyrir hvað var að gerast í gærkvöldi eða í morgun  því hvergi heyrði ég orðað að þingmanni hefði verið ýtt til hliðar í prófkjörinu. Og það meira að segja konu á þingi. Sumir vinnufélagar mínir játuðu í morgun að þeir hefðu ekki vitað að þessi þingmaður væri yfirleitt til. Hugsanlegt er að hvorki Samfylkingarfólk á Vesturlandi né fréttahaukar ríkisins hafi vitað það heldur.

Í Reykjavík spila forystumenn í Sjálfstæðisflokknum plötuna um að prófkjörið hafi verið ein dúndrandi sigurveisla fyrir allt og alla. Birni er hins vegar ekki skemmt. Hann á ástæðu til að opinbera það - eftir að úrslit voru ráðin! - að hann hefði ,,stofnað til fundar" með Guðlaugi Þór til að reyna að koma í veg fyrir framboð hins síðarnefnda í 2. sætið. Það bar ekki árangur. Davíð er horfinn úr Stjórnarráðinu, Kjartan er horfinn úr Valhöll og Björn er á förum. Geir og félagar hafa undirtökin í Flokknum og meira að segja SUS sendi dómsmálaráðherranum hvöss skeyti á ögurstundu prófkjörsbaráttunnar. En skilji maður skrif og ummæli dómsmálaráðherrans og annarra foringja í Flokknum rétt, þá eru innanflokksátökin ekki það sem þetta snýst allt saman um heldur afskiptasemi vondra manna úti bæ af innri málefum Flokksins. Til dæmis skrifaði Jón Baldvin vonda grein í fram í ræðu og riti og reytti um leið eitthvað fylgi af dómsmálaráðherranum. Þessu heldur að minnsta kosti ráðherrann fram í ræðu og riti. Fyrst hélt ég að maðurinn væri að fara með brandara í sjónvarpsfréttum í gær en svo sá ég að þetta er endurtekið á heimasíðunni hans líka. Og þá skynjaði ég strax að meintur brandari er bláköld alvara.


Hallærisuppsláttur

Morgunblaðið hrekkur í dag nokkra áratugi aftur í tímann í blaðamennsku og er satt að segja svo hallærislegt á svipinn að ekki er einu sinni hægt að hafa gaman af því. Menn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins eru greinilega á því að Björn Bjarnason standi veikt í prófkjörinu í Reykjavík. Settur var af því tilefni upp einhvers konar vinafundur í Valhöll í gær og Morgunblaðið fylgdi eftir í dag með styrjaldarfrétt yfir þvera forsíðu um meinta aðför að Birni - meira að segja ,,ógeðfellda aðför".  Með fylgdu myndir af brosmildum og blíðum Birni og Geir Haarde. Sjálfsagt hefur farið fyrir fleirum Morgunblaðskaupendum eins og mér þegar sunnudagsblaðið var tekið upp af forstofugólfinu: Manni bara krossbrá. Það hlaut eitthvað skelfilegt að hafa gerst með dómsmálaráðherrann en við nánari athugun reyndist tilefni uppsláttarins ekki vera annað en venjulegt dægurþras í Jóni Baldvin og Össuri! Þetta er því einfaldlega fornleg og vandræðaleg flokksblaðamennska sem snýst svo upp í andhverfu sína. Morgunblaðið gerir Birni nefnilega óleik með því að auglýsa svona hressilega að hann eigi í vök að verjast í prófkjörinu. Tæplega hefur það samt verið tilgangurinn heldur þvert á móti að slá pólitíska skjaldborg um frambjóðandann. Þá vandast nú málið því skoðanamótandi áhrif Moggans eru afskaplega rýr nú orðið miðað við það sem áður gerðist. Og svo stuðlar uppslátturinn í dag að trúnaðarbresti Morgunblaðsins við fjölda kaupenda/lesenda blaðsins því hér blasir ekki við sýnishorn af nútíma blaðamennsku heldur sérlega kauðskt, pólitískt trúboð af gamla skólanum.


Fátt er svo með öllu illt

Ég sá að hvalskurðinum var slegið upp í fréttatímum sjónvarpsstöðva í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og reikna með að þessa miklu víðar. Myndirnar fara nú um heimsbyggðina og í kjölfarið má búast þeim viðbrögðum sem á annað borð koma. Þau hafa hingað til verið eftir bókinni en samt öllu minni en ætla mætti.  Greinileg samúð var með íslenskum hvalföngurum í norsku fréttunum en ekki í fréttatímum dönsku og sænsku ríkissjónvarpsstöðvanna. Þetta mál er engan veginn útrætt hér á heimavelli og fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum erlendis næstu sólarhringana. Úr því sem komið er verður bara að vona stjórnvöld hafi velt fyrir sér möglegum afleiðingum ákvörðunar sinnar og eigi uppi í erminni einhverja mótleiki ef til slíks þarf að grípa. Einhver viðmælandi í útlandinu sagði í útvarpsviðtali að ein afleiðing hvalveiðanna kynni að verða sú að Ísland tapaði í slagnum um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef rétt reynist hefur hvalurinn í dag ekki tapað lífstórunni til einskis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband