Sunnudagur, 22. október 2006
Hallærisuppsláttur
Morgunblaðið hrekkur í dag nokkra áratugi aftur í tímann í blaðamennsku og er satt að segja svo hallærislegt á svipinn að ekki er einu sinni hægt að hafa gaman af því. Menn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins eru greinilega á því að Björn Bjarnason standi veikt í prófkjörinu í Reykjavík. Settur var af því tilefni upp einhvers konar vinafundur í Valhöll í gær og Morgunblaðið fylgdi eftir í dag með styrjaldarfrétt yfir þvera forsíðu um meinta aðför að Birni - meira að segja ,,ógeðfellda aðför". Með fylgdu myndir af brosmildum og blíðum Birni og Geir Haarde. Sjálfsagt hefur farið fyrir fleirum Morgunblaðskaupendum eins og mér þegar sunnudagsblaðið var tekið upp af forstofugólfinu: Manni bara krossbrá. Það hlaut eitthvað skelfilegt að hafa gerst með dómsmálaráðherrann en við nánari athugun reyndist tilefni uppsláttarins ekki vera annað en venjulegt dægurþras í Jóni Baldvin og Össuri! Þetta er því einfaldlega fornleg og vandræðaleg flokksblaðamennska sem snýst svo upp í andhverfu sína. Morgunblaðið gerir Birni nefnilega óleik með því að auglýsa svona hressilega að hann eigi í vök að verjast í prófkjörinu. Tæplega hefur það samt verið tilgangurinn heldur þvert á móti að slá pólitíska skjaldborg um frambjóðandann. Þá vandast nú málið því skoðanamótandi áhrif Moggans eru afskaplega rýr nú orðið miðað við það sem áður gerðist. Og svo stuðlar uppslátturinn í dag að trúnaðarbresti Morgunblaðsins við fjölda kaupenda/lesenda blaðsins því hér blasir ekki við sýnishorn af nútíma blaðamennsku heldur sérlega kauðskt, pólitískt trúboð af gamla skólanum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. október 2006
Fátt er svo með öllu illt
Ég sá að hvalskurðinum var slegið upp í fréttatímum sjónvarpsstöðva í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og reikna með að þessa miklu víðar. Myndirnar fara nú um heimsbyggðina og í kjölfarið má búast þeim viðbrögðum sem á annað borð koma. Þau hafa hingað til verið eftir bókinni en samt öllu minni en ætla mætti. Greinileg samúð var með íslenskum hvalföngurum í norsku fréttunum en ekki í fréttatímum dönsku og sænsku ríkissjónvarpsstöðvanna. Þetta mál er engan veginn útrætt hér á heimavelli og fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum erlendis næstu sólarhringana. Úr því sem komið er verður bara að vona stjórnvöld hafi velt fyrir sér möglegum afleiðingum ákvörðunar sinnar og eigi uppi í erminni einhverja mótleiki ef til slíks þarf að grípa. Einhver viðmælandi í útlandinu sagði í útvarpsviðtali að ein afleiðing hvalveiðanna kynni að verða sú að Ísland tapaði í slagnum um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef rétt reynist hefur hvalurinn í dag ekki tapað lífstórunni til einskis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. október 2006
Er það nú allt og sumt?!
Fáeinir tölvupóstar eru fjarri því að vera innistæða fyrirsagnar: ,,Breskur almenningur mótmælir hvalveiðum Íslendinga". Hvað svo sem mönnum finnst um þetta hvalveiðiævintýri allt saman. Er það yfirleitt einhver frétt að fáeinir Bretar hafi sest við tölvu og sent sendiráðum póst? Í milljónasamfélögum hlýtur að þurfa öllu meira til en svona smáræði svo hægt sé að ýja að því að hvalveiðarnar hafi vakið upp fjöldamótmæli. Kannski almenningur í Bretlandi hafa bara áhuga á allt öðru, jafnvel kanarnir líka. Ríkisstjórnir þeirra halda jú úti mannskap hér og þar til að drepa fólk í guðs nafni og missa þó nokkra fallna í leiðinni. Mögulegt er að einhverjir þarna úti hafi meiri áhyggjur af þessu en fáeinum dánum hvölum við Ísland. En maður skyldi nú aldrei segja aldrei...
![]() |
Breskur almenningur mótmælir hvalveiðum Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 23.10.2006 kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 5. október 2006
Opinberir starfsmenn skulu það vera
Jarðeðlisfræðiprófessorinn Magnús Tumi Guðmundsson fer mikinn á opinberum vettvangi þessa dagana með að leiðarljósi að sannfæra landsmenn um að ekki hafi verið staðið nægilega vel að jarðfræðilegum undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar. Helst er á honum að skilja í Morgunblaðsviðtalinu að vantað hafi fleiri opinbera starfsmenn að verkinu, samanber eftirfarandi ummæli:
- Helsta breytingin sem orðið hefur í tengslum við vatnsaflsvirkjanir og rannsóknir vegna þeirra eru að þær eru ekki lengur unnar af teymi sérfræðinga á Orkustofnun. Jarðfræðingar sem vinna á verkfræðistofum og litlum verkfræðistofum hafa tekið við.
- Landsvirkjun sniðgekk Orkustofnun og Ísor við undirbúning að þessu stærsta mannvirki Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun.
Það virðist sem sagt vera höfuðsynd að tiltekin þjónusta skyldi keypt af einkafyrirtækjum frekar en ríkinu, skilji maður prófessorinn rétt. Svona músik hefur svo sem verið spiluð áður í þágu frumstæðrar hagsmunagæslu. Oftlega er því til dæmis haldið fram, líkt og náttúrulögmáli, að ríkisstarfsmenn séu betur skapaðir til að selja brennivín, stunda fjölmiðlun og sinna heilbrigðisþjónustu en starfsfólk einkafyrirtækja. Og hvers vegna skyldi þá ekki allt eins heyrast rödd í sama kór sem segir að ríkisreknir jarðvísindamenn séu betur fallnir til að skoða jörð á Austurlandi en þeir einkareknu?
Ummæli prófessorsins minntu hins vegar enn einu sinni á hve margt er líkt með þjóðmálaumræðunni í aðdraganda Hvalfjarðarganga og umræðunni nú í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Ekki vantaði nú fræðingana forðum, og gráðum prýdda spekinga af ýmsu tagi, sem spáðu Hvalfjarðargöngum öllu hinu versta sem hugsast gat. Framkvæmdin var sögð faglegt glapræði og fjárhagslega glórulaus. Og vel að merkja, reynt var meðal annars að tortryggja áformin á þeirri forsendu að einkafélag færi með forræði gangagerðarinnar!
Þegar jarðfræðirannsóknir hófust í Hvalfirði voru sumir ríkissérfræðingar heldur óhressir með að starfsmenn á litlum jarðfræðistofum kæmu við sögu og enn óhressari með ef slík þjónusta kæmist erlendis frá. Þannig var búið að semja við norskt fyrirtæki, Geoteam A/S, um tilteknar rannsóknir sumarið 1993 og það tekið fram fyrir Orkustofnun. Orkustofnunarmenn sættu sig ekki við það og klöguðu í ríkisstjórnina. Að kvöldi 14. júlí 1993 var hringt úr samgönguráðuneytinu í stjórnarmann Spalar með skýr skilaboð: Lán, sem Speli hefur verið lofað úr ríkissjóði, verður ekki greitt út vegna þess að útlent fyrirtæki hefur verið ráðið til rannsóknarstarfa!
Sögulokin eiga ekki að koma á óvart. Orkustofnun var komin að borðinu í þessu tiltekna verkefni strax daginn eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. október 2006
Fjölmiðlarnir kolféllu á prófinu
Mikil tíðindi urðu á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á dögunum þegar tveir sóttust eftir formannsembættinu í fyrsta sinn í sögu þess. Áður hefur formannskandídatinn verið sjálfkjörinn. Í loftinu lá að Austfjarðagoðinn Smári Geirsson yrði formaður en gegn honum bauð sig fram Vestfjarðagoðinn Halldór Halldórsson og sigraði naumlega. Síðan þetta gerðist hefur ríkt alveg dæmalaus friður um þessa merku kosningu á fréttadeildum alls fjölmiðlakerfisins. Einungis Fréttablaðið hafði rænu á að grípa síma og skrifa frétt um að Halldór bæjarstjóri á Ísafirði hefði verið kjörinn með bandalagi þingfulltrúa úr Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum. Það hefur síðan verið staðfest í skeytum sem gengið hafa á milli borgarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna á síðum Morgunblaðsins. Það er sum sé allt upp í loft milli þessara flokka í borgarstjórn en ástir samlyndra hjóna á Alþingi. Auðvitað er alveg bráðfyndið að Vinstri grænir hafi gert Smára að fyrsta stóriðjupíslarvotti Íslandssögunnar og það hefur nú skilað sér alveg bærilega til landslýðs. Hins vegar hlýtur maður að spyrja: Hvernig í dauðanum stendur ekki á að fjölmiðlar fara ekki að skýra og greina hvað gerðist baksviðs á þingi sveitarstjórnarmanna? Þarna liggja fréttir undir skemmdum. Það er nú ekki eins og þurfi einhverja rannsóknarblaðamenn til að kryfja málið. Hið eina sem til verksins þarf er þokkalegt fréttanef, sími, símaskrá og tölva. Líklega er skýringin á þessum aumingjaskap fjölmiðlanna einfaldlega sú að fréttanefið skortir. Fréttirnar skortir ekki. Það liggur nefnilega fyrir að áhrifamiklir foringjar í Sjálfstæðisflokknum hafi staðið að samkomulagi sem gerði ráð fyrir að Smári yrði formaður (t.d. borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri). Svo þreifuðu Vinsti gænir fyrir sér varðandi hugsanlegt formannsframboð Árna Þórs Sigurðssonar borgarfulltrúa en fengu ekki hljómgrunn. Hvað gerðist svo??
Dægurmál | Breytt 5.10.2006 kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. október 2006
Af heimspeki og leikaraskap
Mikið gladdi það hjarta gamals MA-ings að lesa boðskap læri- og skólameistarans, Tryggva Gíslasonar, í laugardagsblaði Mogga. Hann óskaði meira að segja að Austfirðingum til hamingju með virkjun og álver, sem er meira en pólitískusar þora að gera nú um stundir þ.e.a.s. þeir sem stóðu að því að samþykkja á sínum tíma stóriðju og tilheyrandi virkjun þar eystra. Látum vera þó forysta Samfylkingarinnar hafi söðlað um og telji sér best borgið í kosningabaráttunni framundan sem einhvers konar vinstri grænt afrit í umhverfispólitík. Skrýtnara er að sjá að stjórnarflokkarnir halda málinu heldur ekki á lofti eins og þeir auðvitað eiga að gera. Eðalkratinn Birgir Dýrfjörð, úr forystusveit Samfylkingarinnar, tekur foringja sína til bæna í laugardags-Morgunblaði í tilefni af sinnaskiptum þeirra og segir að rekja megi þetta til manns sem þingflokkurinn réði til að skrifa stefnu flokksins um náttúruvernd: ,,Hann er að sögn hinn mætasti maður, lærður leikari með svo einbeittan vilja til náttúruverndar, að það jafnast á við að flokkurinn fengi Gunnar í Krossinum til að skrifa fyrir sig stefnu um fóstureyðingar og málefni samkynhneigðra. Amen. Svo vill til að einmitt nefndur leikari leggur undir sig miðopnu lesbókar Morgunblaðsins einmitt núna um helgina en lesbókin er fyrir löngu orðið einn helsti vettvangur skírlífis- og ofsatrúarmanna í umhverfismálum. Þarna er líka birtur pistill í sama dúr frá lektor í heimspeki og stjórnarmanni Náttúruverndarsamtaka Íslands. Í þessum skrifum kennir ýmissa grasa sem vert væri að nefna. Látum eftirfarandi duga:
- Fullyrt er að borun ganga Kárahnjúkavirkjunar sé ,,langt á eftir áætlun.
- Svar: Eigi veit ég gjörla hvað telst stutt og hvað langt í tímans ranni í heimspeki en gert var ráð fyrir að lokið yrði við að bora aðrennslisgöngin í september 2006. Nú blasir við að þetta gerist í nóvember 2006. Með öðrum orðum tveggja mánaða seinkum sem reynt verður að vinna upp í vetur. Þetta er nú öll seinkunin sem klifað er á!
- Fullyrt er að framkvæmdakostnaður hafi farið ,,marga milljarða fram úr áætlun.
- Svar á skýrri íslensku: silkitær lygi. Fjárhagsáætlun verkefnisins hefur staðist og það þó að búið sé að semja um viðbótargreiðslur til verktaka fyrir vegna meiri bergþéttingar undir stíflum, tafir boranna í lausu bergi osfrv. Það er nefnilega svo að margir verkþættir eru á undan áætlun og kosta minna en ætlað var, nokkrir eru hins vegar eitthvað á eftir áætlun eða kosta meira en áætlað var. Í heildina tekið hefur kostnaður við virkjunina hins vegar ekki farið fram úr áætlun en vera má að virkjunin verði ræst allt að tveimur mánuðum síðar en ætlað var ef ekki tekst að vinna upp tafir í vetur. Þannig er þetta nú bara hvað sem menn bulla og rugla um milljarða framúrkeyrslu. Lygi verður ekki að sannindum bara við það að endurtaka hana nógu oft.
- Fullyrt er að Kárahnjúkavirkjunarmálið hafi verið ,,keyrt í gegnum þingið á ofurhraða af óbilgirni, stjórnvöld hafi þaggað niður í vísindamönnum og beitt Alþingi ,,vísvitandi blekkingum og hylmingum til að koma í veg fyrir upplýsta umræðu.
- Svar: Vonandi á leikarinn, sem skrifaði Samfylkinguna til vinstri á grænu í umhverfispólitík, einhverja innistæðu fyrir svo svakalegu fullyrðingum. Sjálfur fylgdist ég með störfum Alþingis í hátt í tvo áratugi sem þingfréttaritari þriggja fjölmiðla og get ómögulega séð annað en virkjunarmálið hafi farið á ósköp hefðbundnu róli um löggjafarsamkunduna. Ætli kjarninn sé ekki bara þessi gamli og góði að andstæðingar virkjunarmálsins vildu bara alls enga afgreiðslu þess á þingi og finna síðan málsmeðferðinni allt til foráttu frekar en láta kyrrt liggja. Greinargerð Gríms á Orkustofnun var á ferðinni víða á sínum tíma, innan þings og utan. Upplýst var meira að segja á dögunum að um hana hafi verið þvargað á þingfundi. Leyndin var nú ekki meiri en svo, þrátt fyrir að hún hafi verið stimpluð sem trúnaðarmál í kerfinu. Engin ástæða var til slíks. Best hefði verið að birta hana strax í heild á forsíðu Moggans eða þess vegna í lesbókinni. Grímur hafði meðal annars efasemdir um að bortæknin hentaði við íslenskar aðstæður. Staðreyndin er samt sú að gengið hefur ljómandi vel að bora víðast hvar en einn borinn lenti hins vegar í erfiðu misgengi og var stopp mánuðum saman á meðan bergið umhverfis var þétt. Þarna fékkst reynsla sem nýttist í misgengjum sem á eftir komu. Staðreyndin er hins vegar sú að tafir við borun stafa bara að hluta af misgengjum. Þær stafa ekki síður af þrálátum vandræðum með færibönd boranna, einkum samt við bor 1. Slíkar tafir skrifast fjandakornið ekki á íslenskt berg heldur á ranga hönnun þessa búnaðar sem fylgdi bor 1. Svo er klifað áfram á að þaggað hafi verið niður í einhverjum vísindamönnum. Samt hafa vísindamenn, fræðingar og spekingar af öllu mögulegu tagi tjáð sig stöðugt um virkjunarmálið alla tíð og gera enn. Það er vel. Gat ekki títtnefndur Grímur til dæmis skrifað blaðagrein á sínum tíma og þess vegna líka bæði fyrr og síðar? Og svo í bláendann fáein orð um meintan blekkinga- og feluleik gagnvart Alþingi sem enn er klifað á, til dæmis í grein leikarans í lesbókinni. Þannig hefur verið fullyrt aftur og aftur að þingmenn hafi verið leyndir því að á stíflustæðum Hálslón væru sprungur í jörðu. Nú vill svo til að ég varð nokkrum sinnum vitni að því að fastanefndir Alþingis kynntu sér virkjunarmál á vettvangi eystra, bæði áður en ákveðið var að virkja og eftir að framkvæmdir hófust. Iðnaðarnefndin hefur til dæmis farið nokkrum sinnum þarna um og einu sinni var sérstaklega stoppað við sprungur, sem búið var að hreinsa jarðveg ofan af undir öðrum enda Desjarárstíflu, til að þingmennirnir gætu gert sér grein fyrir hvernig sprungið bergið liti út og hvernig staðið væri að því að fylla og þétta. Ég tók meira að segja myndir af Alþingi að stúdera sprungurnar og læt eina fylgja með að gamni. Hún sýnir tvo Samfylkingarþingmenn í hópnum bókstaflega ofan í stærstu sprungunni á svæðinu. Þannig var nú farið að því að leyna þá upplýsingum um sprungna jörð við Kárahnjúka!
Dægurmál | Breytt 2.10.2006 kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. september 2006
Stífla?Já, takk!
Viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins getur ekki orða bundist í dag og segir það ábyrgðarlausa afstöðu að hætta við að renna vatni í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar nú á síðustu stundu framkvæmdanna, hvaða skoðun sem fólk kunni að hafa á þessari stærstu framkvæmd Íslandssögunnar:
,,Nýjar hugmyndir um að vatni verði ekki hleypt á Kárahnjúka er fyrst og fremst áróðursbragð. Það hljómar þokkalega í munni heittrúaðra náttúruverndarsinna en stutt er í óbragð þegar stjórnmálamenn, sem ætlast til að tekið sé mark á þeim í almennri umræðu, taka undir slík sjónarmið."
Eitt er að vera bara á móti þessari virkjun og forsendum hennar að hluta eða öllu leyti. Það er einfaldlega gjaldgeng afstaða og efni til að rökræða. Annað er svo þetta dæmalausa rugl sem nú er skyndilega orðið mál málanna og ættað er frá Ómari Ragnarssyni, uppáskrifað af öllum helstu samtökum og forkólfum náttúruverndarsinna í landinu að því er virðist! Það á að frysta tilveruna eystra á staðnum og stundinni, hætta við lónið, selja hlutabréf í stíflunni og borga starfsmönnum álversins fyrir að gera ekki neitt næstu árin, þar til rafmagn finnst einhvers staðar annars staðar - hugsanlega og einhvern tíma. Jú, og svo á reyndar að sletta einhverjum skaðabótum í Alcoa og setja svo allt virkjunarklabbið á náttúruminjaskrá. Undir þessum merkjum gengu þúsundir manna í miðbæ Reykjavíkur. Hvort þeir voru sjö þúsund, fimmtán þúsund eða hundrað þúsund breytir engu um að fleiri en viðskiptaritstjórinn fyrrnefndi hljóta þessa dagana að klóra sér aðeins í kollinum í spurn og forundran.
Hér um árið kjaftaði fjöldi manna sig upp í mikinn æsing út af sölu Símans í ljósvakaþáttum og blaðagreinum og þóttist ætla að kaupa fyrirtækið. Þegar ró færðist yfir þynntist hópurinn og nú muna fáir eftir að hafa nokkurn tíma haft minnsta áhuga á Símanum. Sagan endurtekur sig. Brátt munu ekki margir kannast við að hafa gengið um götur Reykjavíkur með kröfur á lofti um að kaupa Kárahnjúkastíflu og borga nokkur hundruð álversmönnum kaup fyrir að gera ekki neitt svo árum skiptir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 210865
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar