Bull í Ésú nafni

Skrifari forystugreinar Morgunblaðsins kemur í dag kemur með eftirfarandi ábendingu:

,,Í þjóðfélagsumræðum hér er farið mjög frjálslega með staðreyndir. Þeir sem það gera skaða þær opnu umræður, sem fram fara í samfélagi okkar. Það er tímabært að gera meiri kröfur og a.m.k. draga fram í dagsljósið þær vitleysur, sem á borð eru bornar í almennum umræðum."

Sóknarpresturinn í Laugarneskirkju, Hildur Eir Bolladóttir, hefði betur tekið mark á þessum orðum áður en hún fór í stólinn með skrifaða ræðu sína í messu sem útvarpað var yfir landslýð í dag. Prestur fór mikinn gegn Kárahnjúkavirkjun og þeim er að þeirri framkvæmd standa. Ekki ætla ég að blanda mér í það hvaða baráttumál Þjóðkirkjan velur sér og sínum en afskaplega væri nú æskilegt að þjónar hennar færu þokkalega rétt með staðreyndir mála sem þeir fjalla um. Það gerði Laugarnesklerkur ekki í dag. Hann blessaði til dæmis minningu Hafrahvammagljúfra og boðaði þar með augljóslega að saga þeirra endaði um leið að Hálslón yrði til. Þetta er hrein og klár þvæla. Efsti hluti gljúfranna  fer undir vatn og stíflu en stærsti hlutinn - og jafnfamt sá hrikalegasti - stendur óhaggaður og flest árin rennur meira að segja um gljúfrin vatn frá síðsumri fram í september. Vissulega hefur presti þótt mun áhrifaríkara fyrir söfnuðinn og landsmenn alla að sökkva bara gljúfrunum öllum í stólræðunni sinni en bull er bull, þó í Ésú nafni sé.


Ekki-frétt á fréttamannafundi

Ómar Ragnarsson greindi frá því dag að hann taka eindregna afstöðu gegn Kárahnjúkavirkjun og hætta þar með að fjalla um umhverfismál í sjónvarpsfréttum. Tæpast var það nú tilefni blaðamannafundar því það hefur ekki farið fram hjá neinu mannsbarni, sem fylgist á annað borð með, hvaða skoðun hann hefur á virkjuninni eystra.  Þetta var því að minnsta kosti fimm ára gömul frétt. Hitt er ferskara að hann ætli sér nú að stofna stjórnmálaflokk, systurflokk vinstri-grænna! Það fer nú að minna á gamla góða daga þegar hér voru til stjórnmálasamtök í fleirtölu með ákveðnum greini. Þau unguðu út öðrum samtökum sem auðkenndu sig með því að setja byltinguna í sviga. Móðurfélagið hét sem sagt KSML (Kommúnistasamtökin Marxistarnir-Lenínistarnir) en afleggjarinn þeirra kallaði sig KSML(B): Kommúnistasamtökin Marxistarnir-Lenínistarnir (byltingarsinnarnir). Er þá nokkuð fráleitt að Ómar og Bubbi  Morthens stofni vinstri-græna (b) og leggi út á hið pólitíska úthaf?


Efst á Baugi

Róbert Marshall, forstöðumaður fréttastöðvarinnar NFS, kom ágætlega fyrir í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld og komst í sjálfu sér vel frá því að útskýra hvað fyrir honum hafi vakað með því að senda Jóni Ásgeiri, Baugsforingja og aðaleigenda NFS, eitt opið lettersbréf í dagblöðunum í morgun: Kæri Jón....! En mikið óskaplega er langt frá því að hægt sé að sjá og skilja að hvernig svona uppátæki á að gagnast málstað Róberts, NFS og starfsmanna stöðvarinnar.  Í raun og veru tók Marshall að sér að kasta rekunum og taka þar með hið formlega ómak af framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Eða halda menn nú að auglýsendur, sem komust ekki hjá því að lesa opinberan innanhússpóst 365 miðla í morgun, hafi látið hvarfla að sér að kaupa sýningartíma hjá sjónvarpsstöð sem orðin var þannig stödd að forstöðumaðurinn varð að biðja Moggann, af öllum miðlum, um aðstoð við að ná augum og eyrum yfirhluthafans í fyrirtækinu!?  Ekki einu sinni Spaugstofan hefði haft hugarflug til að sviðsetja farsa af þessu tagi.


Fadderí og faddera

Samfylkingin kom út úr skápnum í dag og lýsti því yfir í raun að vænlegast væri til vinnings í pólitík að spila vinstri-græna stóriðjuplötu fram yfir fengitíð og sauðburð. Þess má þá trúlega vænta líka að flokksforingjarnir fari að strunsa á dyr og skella hurðum á nefndarfundum Alþingis líkt og hann Ögmundur. Þingmaðurinn Þórunn Sveinbjarnardóttir var að vonum glaðhlakkaleg í fréttatímum í kvöld með gang mála en félagi hennar Kristján Möller var hins vegar vandræðalegur. Hann hreyfði samt varirnar í takt, svona rétt eins og áhorfendur á Laugardalsvelli gera þegar þjóðsöngur Íslands er á dagskrá fyrir landsleiki. Öll stúkan lætur eins og hún syngi hástöfum með en umlar bara undir. Samfylkingin hefur átt í basli með að staðsetja sig í pólitík og ekki virðist sjá fyrir enda á því. Nú hafa menn tekið mið af góðu gengi vinstri-grænna í skoðanakönnunum og ákveðið að taka slaginn um kjósendur þeim megin á vellinum. Það hlýtur þá í leiðinni að kalla á ákveðið uppgjör við fortíð Samfylkingarinnar í stóriðjumálum á landsvísu og á vettvangi Reykjavíkurborgar.  Vér bíðum spennt.....

 


Nóttin ljósa og myndlist

Margt var um manninn á Hársnyrtistofu Harðar í Keflavík hér um kveldið þegar Halla frænka Harðar opnaði þar myndlistarsýningu í tilefni Ljósanætur. Allir vissu að hún væri fjandi lipur með klippigræjur þegar hún kæmist í úfna hausa en að hún væri svona lipur með pensilinn líka, ja það var ákveðinn upplifun fyrir suma sem mættu við opnunina. Sjáið myndir Jóns Baldvins frá samkomunni!

Sauðfé, Tilraun, fleygar og fólk

Álftlendingar stúderuðu félagsfræði sauðfjárrétta við Eyjafjörð á dögunum. Það er ung vísindagrein og vandmeðfarin. Á laugardegi lá leiðin í Gljúfurárréttir í Höfðahverfi/Grýtubakkahreppi en daginn eftir í Tungurétt í Svarfaðardal. Í fyrrnefndu réttinni var hellingur sauðfjár, líklega á sjötta þúsund. Í þeirri síðarnefndu var allt fjársafnið í réttinni á við heimarekstur meðalheimilis í Höfðahverfi. Í Gljúfurárrétt taka menn hlutverk sín alvarlega. Gangnamenn komu af fjalli þreyttir og sveittir eins og hlauparar á marklínu Reykjavíkurmaraþonsins, fengu kaffi og samlokur til hressingar og fóru svo að draga fé í dilka eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Vín sást á einum einasta manni í Gljúfurárrétt og sá hafði sig ekki mikið í frammi til að skaða ekki ímynd byggðarlagsins á meðal ljósmyndari Morgunblaðsins staldraði við. Það telst nefnilega til haustverka Moggans að mynda fjárdrátt í Gljúfurárrétt til birtingar. Moggamaðurinn passaði sig á að láta hvergi sjást í bjórkassann við Lómatjarnardilkinn þegar hann mundaði tól sín. Lómtirningar svöluðu nefnilega þorsta sínum í réttinni með Víkingsöli en létu þar við sitja. Á Tungurétt brá bjór hins vegar einungis fyrir á árum áður, þegar hann var bannaður með lögum á Íslandi. Eftir að bjórinn var leyfður hefur sá drykkur nánast verið óskrifuð bannvara í réttinni og sveitarsamstaða um að hafa frekar sterkt á fleygum. Gangnamenn í Svarfaðardal vilja hvorki sjá né heyra sauðfé þegar á réttina er komið. Þeir bara syngja, tralla og skiptast á pelum líkt og krakkar á fótboltamyndum. Börn og eldri borgarar eru aðallega í því að draga fé í dilka ásamt þeim sem hvorki hafa tök á né nennu til að detta í’ða upp úr hádegi á sunnudegi.

Fjárbændur í Höfðahverfi og viðhengi þeirra voru að í réttinni fram undir kvöldmat og síðasti rekstur kom í heimahagana þar um níuleytið, þegar myrkur var skollið á. Þá voru margir klukkutímar liðnir frá því hefðbundnum réttarstörfum lauk á Tungurétt og bændur byrjaðir að lauga sig til undirbúnings réttarballinu. Það gerist nú sífellt útbreiddara í Svarfaðardal að menn fjárfesti í heitum pottum og gangi til laugar á kvöldin, rétt eins og Snorri gerði í Reykholti jafnan eða allt þar til hann var drepinn. Eftir það þvoði hann sér víst sjaldnar, af skiljanlegum ástæðum.

 Enginn kaffiskúr er við Gljúfurárrétt og ekkert kvenfélag sjáanlegt. Þar hafði hins vegar verið bakkað Landflutningabíl að vegkanti og uppi á honum voru Lionskarlar í samfestingum að velta Goðapylsum á grasgrillum og selja. Ekki stafaði nú mikill kynþokki af þeirri starfsemi. Í Svarfaðardal ganga Lionskarlar í hús og selja ljósaperur fyrir jólin en láta sér ekki detta í hug að blanda sér í veitingarekstur á Tungurétt. Þar er kvenfélaginu Tilraun að mæta og segir reyndar sína sögu um hófstillingu, hæversku og fullkomnunaráráttu svarfsdælskra kvenna að þær skuli hafa ákveðið að nefna félagsskapinn sinn Tilraun þegar til hans var stofnað fyrir hartnær öld eða guð má vita hvað.  

Höfðhverfingar taka hlutverk sitt og sauðfjárins alvarlega í réttum. Gljúfurárrétt er virðuleg og vinnusöm samkoma þar sem engin sýnileg lausatök eru á neinum hlut. Svarfdælskar konur ættu næsta haust að bjóðast til að mæta með hóp góðglaðra gangnamanna til að syngja þar í  réttinni, hafa líka rjómapönnukökur á diskum og blöndu í  pela. Svo myndu gestir og heimamenn ganga til laugar um kvöldið og allir skilja glaðir. Þetta gæti verið undir merkjum menningarsamskipta á vegum Kvenfélagasambandsins og væri meira en Tilraunar virði.


Endemisþvæla II

Seðlabankastjórinn Davíð Oddsson fór á kostum í morgunútvarpinu í dag og kallaði umræðuna um margumtalaða greinargerð Gríms Björnssonar, um sprungur og fleira á Kárahnjúkasvæði, dæmigerða þvælu stjórnmálamanna. Mikið er það nú satt og rétt. Og rifjast þá upp að sagan endurtekur sig gjarnan og marga þvæluna aðra mætti nú nefna í góðu tómi sem bendir eindregið til þess að íslensk stjórnmála séu alveg sér á parti í þessum heimshluta og þó víðar væri leitað. Davíð hefði til dæmis hæglega getað farið á enn meiri kostum og rifjað upp þvæluna sem gekk yfir höfuðborgarbúa og landslýð allan í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 1982. Þá vann Sjálfstæðisflokkurinn höfuðborgina á nýjan leik af tætingslegum meirihluta sem ríkti í eitt kjörtímabil og kenndur var við vinstrimennsku. Sjálfstæðisflokkurinn setti á oddinn í kosningabaráttunni að meirihlutinn vildi byggja nýtt hverfi Reykjavíkur á jarðsprungusvæði við Rauðavatn. Morgunblaðið spilaði með. Málatilbúnaðurinn var bull og þvæla frá upphafi til enda en góður til síns brúks. Sprunguþvælan lagði drjúgan skerf að sigri Sjálfstæðisflokksins og Davíð varð borgarstjóri. Eftirleikurinn er öllum kunnur. Enginn þorði að byggja við Rauðavatn lengi vel þar til stórhuga útgáfufyrirtæki náði sér þar í lóð og reisti hallir yfir sig og sína með útsýni yfir vatnið rauða og sprungusvæðið allt um kring. Sjálfur meginboðberi válegra tíðinda við Rauðavatn, Morgunblaðið, kúrir nú á sprungusvæðinu og unir hag sínum vel. Ef Moggamenn tryðu eigin málflutningi forðum daga væru hlutabréf í Árvakri minna en einskis virði, því hvaða bit er að reisa milljarðahallir þvers og langs yfir jarðsprungur? En svona geta ævintýrin fengið stundum óvæntan endi þó þvælin séu í byrjun. Þegar Davíð var orðinn borgarstjóri gekk hann í að byggja ljómandi  lagtlegt ráðhús við Tjarnarendann í höfuðborginni og þá þyrlaðist enn ein þvælan upp í þjóðmálaumræðunni. Hámenntaðir og vísir menn töldu meira en líklegt að ráðhúsið sykki eða í það minnsta snaraðist á hliðina í Tjarnarforinni. Eitt væri samt alveg víst, hvort sem borgarstjórnin sykki eða flyti: fuglarnir á Tjörninni dræpust úr fæðuskorti og skelfingu. Merkilegt nokk: Ráðhúsið er enn ofan jarðar og fuglarnir sprella út um alla Tjörn. Þokulúðrarnir hafa hins vegar snúið sér að öðrum heimsendaspám: jarðsprungum norðan Vatnajökuls með tilheyrandi dramatík. Eftir fáein misseri verða þeir orðnir að minnsta kosti jafn hlægilegir fyrir framgöngu sína nú og forðum daga fyrir að boð náttúruhamfarir við Rauðavatn og Reykjavíkurtjörn. Þannig þvælumst við nú úr einni þvælunni í aðra og verðum bara að búa við að það virðist gera sig stundum hvað best í pólitík að þvæla nógu andskoti mikið. Skondið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 210865

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband