Mánudagur, 18. september 2006
Efst á Baugi
Róbert Marshall, forstöðumaður fréttastöðvarinnar NFS, kom ágætlega fyrir í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld og komst í sjálfu sér vel frá því að útskýra hvað fyrir honum hafi vakað með því að senda Jóni Ásgeiri, Baugsforingja og aðaleigenda NFS, eitt opið lettersbréf í dagblöðunum í morgun: Kæri Jón....! En mikið óskaplega er langt frá því að hægt sé að sjá og skilja að hvernig svona uppátæki á að gagnast málstað Róberts, NFS og starfsmanna stöðvarinnar. Í raun og veru tók Marshall að sér að kasta rekunum og taka þar með hið formlega ómak af framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Eða halda menn nú að auglýsendur, sem komust ekki hjá því að lesa opinberan innanhússpóst 365 miðla í morgun, hafi látið hvarfla að sér að kaupa sýningartíma hjá sjónvarpsstöð sem orðin var þannig stödd að forstöðumaðurinn varð að biðja Moggann, af öllum miðlum, um aðstoð við að ná augum og eyrum yfirhluthafans í fyrirtækinu!? Ekki einu sinni Spaugstofan hefði haft hugarflug til að sviðsetja farsa af þessu tagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. september 2006
Fadderí og faddera
Samfylkingin kom út úr skápnum í dag og lýsti því yfir í raun að vænlegast væri til vinnings í pólitík að spila vinstri-græna stóriðjuplötu fram yfir fengitíð og sauðburð. Þess má þá trúlega vænta líka að flokksforingjarnir fari að strunsa á dyr og skella hurðum á nefndarfundum Alþingis líkt og hann Ögmundur. Þingmaðurinn Þórunn Sveinbjarnardóttir var að vonum glaðhlakkaleg í fréttatímum í kvöld með gang mála en félagi hennar Kristján Möller var hins vegar vandræðalegur. Hann hreyfði samt varirnar í takt, svona rétt eins og áhorfendur á Laugardalsvelli gera þegar þjóðsöngur Íslands er á dagskrá fyrir landsleiki. Öll stúkan lætur eins og hún syngi hástöfum með en umlar bara undir. Samfylkingin hefur átt í basli með að staðsetja sig í pólitík og ekki virðist sjá fyrir enda á því. Nú hafa menn tekið mið af góðu gengi vinstri-grænna í skoðanakönnunum og ákveðið að taka slaginn um kjósendur þeim megin á vellinum. Það hlýtur þá í leiðinni að kalla á ákveðið uppgjör við fortíð Samfylkingarinnar í stóriðjumálum á landsvísu og á vettvangi Reykjavíkurborgar. Vér bíðum spennt.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.9.2006 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. september 2006
Nóttin ljósa og myndlist
Vinir og fjölskylda | Breytt 13.9.2006 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. september 2006
Sauðfé, Tilraun, fleygar og fólk
Álftlendingar stúderuðu félagsfræði sauðfjárrétta við Eyjafjörð á dögunum. Það er ung vísindagrein og vandmeðfarin. Á laugardegi lá leiðin í Gljúfurárréttir í Höfðahverfi/Grýtubakkahreppi en daginn eftir í Tungurétt í Svarfaðardal. Í fyrrnefndu réttinni var hellingur sauðfjár, líklega á sjötta þúsund. Í þeirri síðarnefndu var allt fjársafnið í réttinni á við heimarekstur meðalheimilis í Höfðahverfi. Í Gljúfurárrétt taka menn hlutverk sín alvarlega. Gangnamenn komu af fjalli þreyttir og sveittir eins og hlauparar á marklínu Reykjavíkurmaraþonsins, fengu kaffi og samlokur til hressingar og fóru svo að draga fé í dilka eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Vín sást á einum einasta manni í Gljúfurárrétt og sá hafði sig ekki mikið í frammi til að skaða ekki ímynd byggðarlagsins á meðal ljósmyndari Morgunblaðsins staldraði við. Það telst nefnilega til haustverka Moggans að mynda fjárdrátt í Gljúfurárrétt til birtingar. Moggamaðurinn passaði sig á að láta hvergi sjást í bjórkassann við Lómatjarnardilkinn þegar hann mundaði tól sín. Lómtirningar svöluðu nefnilega þorsta sínum í réttinni með Víkingsöli en létu þar við sitja. Á Tungurétt brá bjór hins vegar einungis fyrir á árum áður, þegar hann var bannaður með lögum á Íslandi. Eftir að bjórinn var leyfður hefur sá drykkur nánast verið óskrifuð bannvara í réttinni og sveitarsamstaða um að hafa frekar sterkt á fleygum. Gangnamenn í Svarfaðardal vilja hvorki sjá né heyra sauðfé þegar á réttina er komið. Þeir bara syngja, tralla og skiptast á pelum líkt og krakkar á fótboltamyndum. Börn og eldri borgarar eru aðallega í því að draga fé í dilka ásamt þeim sem hvorki hafa tök á né nennu til að detta íða upp úr hádegi á sunnudegi.
- Myndir frá Tungurétt
- Myndir af hressum gangnamönnum í Svarfaðardal
- Myndir frá Gljúfurárrétt í Höfðahverfi
Fjárbændur í Höfðahverfi og viðhengi þeirra voru að í réttinni fram undir kvöldmat og síðasti rekstur kom í heimahagana þar um níuleytið, þegar myrkur var skollið á. Þá voru margir klukkutímar liðnir frá því hefðbundnum réttarstörfum lauk á Tungurétt og bændur byrjaðir að lauga sig til undirbúnings réttarballinu. Það gerist nú sífellt útbreiddara í Svarfaðardal að menn fjárfesti í heitum pottum og gangi til laugar á kvöldin, rétt eins og Snorri gerði í Reykholti jafnan eða allt þar til hann var drepinn. Eftir það þvoði hann sér víst sjaldnar, af skiljanlegum ástæðum.
Enginn kaffiskúr er við Gljúfurárrétt og ekkert kvenfélag sjáanlegt. Þar hafði hins vegar verið bakkað Landflutningabíl að vegkanti og uppi á honum voru Lionskarlar í samfestingum að velta Goðapylsum á grasgrillum og selja. Ekki stafaði nú mikill kynþokki af þeirri starfsemi. Í Svarfaðardal ganga Lionskarlar í hús og selja ljósaperur fyrir jólin en láta sér ekki detta í hug að blanda sér í veitingarekstur á Tungurétt. Þar er kvenfélaginu Tilraun að mæta og segir reyndar sína sögu um hófstillingu, hæversku og fullkomnunaráráttu svarfsdælskra kvenna að þær skuli hafa ákveðið að nefna félagsskapinn sinn Tilraun þegar til hans var stofnað fyrir hartnær öld eða guð má vita hvað.Höfðhverfingar taka hlutverk sitt og sauðfjárins alvarlega í réttum. Gljúfurárrétt er virðuleg og vinnusöm samkoma þar sem engin sýnileg lausatök eru á neinum hlut. Svarfdælskar konur ættu næsta haust að bjóðast til að mæta með hóp góðglaðra gangnamanna til að syngja þar í réttinni, hafa líka rjómapönnukökur á diskum og blöndu í pela. Svo myndu gestir og heimamenn ganga til laugar um kvöldið og allir skilja glaðir. Þetta gæti verið undir merkjum menningarsamskipta á vegum Kvenfélagasambandsins og væri meira en Tilraunar virði.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. september 2006
Endemisþvæla II
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 28. ágúst 2006
Skammarleg framkoma þjálfara
Atvik á knattspyrnuvelli Eskfirðinga í gærmorgun situr í mér. Þar var ég staddur sem fylgifiskur Víkingsdrengja í úrslitarimmu Íslandsmóts 5. flokks drengja í fótbolta. Í fjórðungsúrslitum áttust samtímis við Víkingur og Völsungur á Húsavík á helmingi vallarins en við hliðina HK úr Kópavogi og Þór á Akureyri. Það fór ekki fram hjá okkur við hliðarlínuna að talsvert gekk á strax á upphafsmínútu leiks HK og Þórs. Strákur úr HK fékk boltann langt úti á velli strax í upphafi leiksins, þrumaði yfir völlinn og skoraði. Þá var komið að þætti þjálfara Þórs. Sá náungi hafði reyndar vakið athygli annarra á sérkennilegum skapsmunum sínum fyrir leikina með því að heimta að fá að spila hinum megin á vellinum en þjálfarar annarra liða sáu enga ástæðu til að taka þátt í slíkum sálfræðihernaði og þar við sat. Þegar hins vegar HK hafði skorað gekk Þórsþjálfarinn af göflunum og kenndi öskrandi einum liðsmanni sínum um að bera ábyrgð á að liðið fékk á sig mark. Hann tók drenginn út af og setti ekki inn á aftur það sem eftir lifði leiks! Aumingja drengurinn mátti því dúsa utan vallar allan leikinn og leið auðsjáanlega afar illa.
Mig varðar ekkert um hverjir þjálfa hjá Þór, hvernig þeir haga sér og hvernig þeir eru andlega innréttaðir. Hins vegar var þetta atvik umtalað fyrir austan í gær, enda sem betur fer einsdæmi að menn verði vitni að slíkum skepnuskap þjálfara í barna- og unglingastarfi í íþróttum. En þegar mannýg naut ganga laus innan um börn og unglinga ber að segja frá og vara við - einkum og sér í lagi nú á haustdögum þegar félögin eru að festa sér þjálfara til næstu leiktíðar.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. ágúst 2006
Endemisþvælan
Engin göng væru til undir Hvalfirði ef efnt hefði verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eins og ýmsir predikuðu um á sínum tíma. Jónas Kristjánsson, Dagblaðsritstjóri, var manna kjaftforastur í þeim efnum, eins og oftar, og hvatti til stofnunar almannasamtaka gegn Hvalfjarðargöngum. Meira að segja menn úr hópi verkfræðinga voru daglegir gestir á sjónvarpsskjánum og sögðu þjóðinni að gangagerðin væri hreint glapræði, þau myndu fyllast af sjó og fólk farast. Í besta falli myndi mannvirkið aldrei borga sig. Slíkur málflutningur var auðvitað hrein þvæla á sínum tíma og dómur sögunnar um allt þetta holtaþokuvæl er að vonum ekki blíðlegur. Gjörningaveðrið sem sífellt er verið að magna gegn Kárahnjúkavirkjun minnir um margt á það sem talað var og skrifað gegn Hvalfjarðargöngum. Því er nánast haldið blákalt fram að heill her sérfræðinga hafi dundað sér við að búa til stíflur sem fyrirfram sé vitað að muni bresta og vatn flæða yfir Austurland og Austfirðinga. Stíflurnar eru byggðar á sprungum og hver étur upp eftir öðrum: misgengi, meira að segja VIRKT misgengi. Ég man ekki til þess að Jónas Kristjánsson og hinir þokulúðrarnir hafi verið búnir að læra þetta jarðfræðilega hugtak á sínum tíma. Kannski hafa þeir haldið að þetta væri eitthvað gengi sem varðaði meira Seðlabankann en Hvalfjörð. Ef ef þeir hefðu nú getað bætt misgenginu við í umræðuna hjá sér á sínum tíma, Drottinn minn dýri. Það hefði nú orðið tilefni nokkurra forystugreina í viðbót í Dagblaðinu og enn fleiri hasarviðtala við verkfræðinginn Hansen í Sjónvarpinu. Hvalfjarðargöng voru nefnilega grafin í gegnum á annað hundrað misgengissprungur af ýmsu tagi og á kafla að sunnanverðu voru misgengin virk svo um munaði. Hiti í berginu og vatni sem úr sprungum lak fór upp í 57 stig á celsíus. Samt urðu göngin til og mér er sagt að þó nokkrir aki um þau daglega - keyri með öðrum orðum í gegnum heilt safn af misgengjum með bros á vör. Ég spái því að dómur sögunnar yfir þeim sem hæst hafa um Kárahnjúkavirkjun verði afskaplega líkur og dómurinn yfir þeim sem andskotuðust gegn Hvalfjarðargöngum forðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.9.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 210966
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar