Sparisjóðurinn bakaði Orkuveituna

Ég var að skoða myndir frá Fiskideginum mikla á Dalvík á dögunum og þessari óskaplegu og ekta hamingju og gleði sem ríkir á þeirri samkomu. Við Álftlendingar fórum svo í bæinn um síðustu helgi til að lykta aðeins af Menningarnóttinni. Niðurstaðan: Megum við þá frekar biðja um Fiskidaginn. Það er ekki sérlega gaman að vera sardína í dós í miðborg Reykjavíkur og vita oftar en ekki hvort maður er að koma eða fara í straumi mannhafsins. Svo er þetta eiginlega dálítið uppskrúfað og yfirgengilegt. Bissnessinn hefur tekið völdin og Glitnir gleypti maraþonið. Við stöldruðum við á Klambratúni og hlustuðum á klassíska tónleika. Það var gaman. Svo fórum við niður í bæ og vorum þar um stund. Þar var aðallega troðningur og ekki gaman. Meira að segja flugeldasýningin á Dalvík í boði Sparisjóðs Svarfdæla var flottari en flugeldasýningin við Reykjavíkurhöfn í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Sparisjóðurinn bakaði Orkuveituna og fór létt með það.

Gleymið þessari uppskrúfuðu Menningarnótt og farið til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla. Hitið upp með því að skoða myndirnar sem þar voru teknar um daginn.... 


Naktir keisarar

Verkstjórar á ritstjórn Morgunblaðsins hljóta að hafa sofið laust og fundið fyrir bakþankaverkjum eftir að framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen fletti ofan af meintum prófessor frá Bandaríkjunum sem Mogginn lagði heila síðu undir á miðvikudaginn var, 16. ágúst. Þessi fulltrúi Oregon háskóla vtjáði sig fjálglega út og suður um framkvæmdirnar við Kárahnjúka og gaf lítið fyrir hönnun stóru stíflunnar og verkefnið yfirleitt. Morgunblaðsmenn hefðu nú átt að staldra aðeins við þegar viðmælandinn lét þá hafa eftir sér að stífla ein í virkjun í Brasilíu hefði gefið sig í sumar og lón þar tæmst af vatni. Í staðinn lét blaðið fylgja með mynd af Kárahnjúkastíflu og undir stendur: Stífla sem er eins uppbyggð og Kárahnjúkastífla brast nýlega í Brasilíu.

Ætli CNN hefði nú ekki rofið útsendingu ef stíflan hefði brostið í raun og veru? Ætli hefði nú ekki verið fjallað um málið fram og til baka í fjölmiðlum veraldar, þar á meðal hérlendis, ef þetta hefði gerst í raun og veru? Auðvitað! Þetta gerðist bara alls ekki, heldur gaf sig botnloka í hliðargöngum við brasilísku stífluna - sem vissulega er nógu slæmt - en stíflan hélt. Það hlýtur að skipta máli að fara rétt með staðreyndir í frásögnum eða hvað?

Enginn kippir sér lengur upp við að formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fari með svona þvælu, hann fær jú borgað fyrir að umgangast sannleikann frjálslega ef það gagnast málstaðnum sbr. það þegar hann sællar minningar birti grein um Kárahnjúkavirkjun í erlendu blaði og birti með mynd af Dettifossi sem myndi hverfa vegna virkjunar við Kárahnjúka! Blaðið hefur eftir þessum sama framkvæmdastjóra um suður-amerísku stífluna 12. ágúst: ,,Sú brasilíska hrundi fljótlega eftir að hún var tekin í notkun."  Ekkert verið að skafa af hlutunum þarna, skítt með sannleikann!

Málflutningur Árna Finnssonar er fyrir löngu orðin þekkt stærð og fyrirsjáanleg og meira að segja fjölmiðlarnir taka ekki mark á honum lengur - annars hefði nú Blaðið auðvitað lagt alla forsíðuna undir þau stórbrotnu tíðindi að heil stífla í Brasilíu hefði hrunið! Uppákoman með hinn meinta prófessor frá Oregon er hins vegar öllu verra mál - ekki síst fyrir Moggann. Það þurfti nefnilega framkvæmdastjóra VST til að tékka af hluti sem ritstjórnin sjálf átti auðvitað að gera áður en lengra var haldið í vinnslu viðtalsins. Niðurstaða framkvæmdastjórans er þessi:

  1. Disiree D. Tullos, viðmælandi Morgunblaðsins um virkjanamál um víða veröld, er ekki prófessor í Oregon heldur lektor.
  2. Tullos er ekki vatnsaflsfræðingur heldur með ,,bakgrunn í vistfræði áa, river engineering, sem er annar hlutur".
  3. Tullos segist hafa rannsakað vistfræðileg málefni vatnsaflsvirkjana víða um heim í áratug en lauk samt verkfræðiprófi fyrir aðeins fjórum árum.
  4. Tullos segir að ekkert bandarískt fyrirtæki myndi láta sér detta í hug að koma að gerð Kárahnjúkavirkjunar en samt er það svo að einmitt bandarískt fyrirtæki er í aðalhlutverki við hönnun sjálfrar Kárahnjúkastíflu.
  5. Tullos segir að hliðstæð stífla og við Kárahnjúka hafi brostið í sumar í Brasilíu, sem er hrein og klár þvæla.

Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa fólk og skapa þannig forsendur vitrænna skoðanaskipta. Á dögunum var norskur blaðamaður staðinn að því að skáldaðupp heilt viðtal við tölvugúrúinn Bill Gates og í Beirút var líbanskur ljósmyndari staðinn að því að lagfæra myndir af loftárásum Ísraelsmanna til að auka áhrifamátt myndanna enn frekar. Skáldskapur hins meinta prófessors er af sama meiði og er beinlínis ætlað að afvegaleiða upplýsta umræðu í ákveðnum tilgangi. Það má búa við að Náttúruverndarsamtök Íslands segi skröksögur en æskilegt er að háskólinn í Oregon finni sér göfugra hlutverk.

 


Fiskidagurinn á Dalvík

Dalvíkingar fóru á kostum í gestrisni á Fiskidaginn mikla. Oft hefur verið gaman en aldrei sem nú. Súpukvöldið mikla á föstudaginn, skilgetið afkvæmi samkomunnar, er einstaklega velheppnað uppátæki og eiginlega með ólíkindum að fólki skyldi detta þetta í hug, hvað þá að hrinda slíku í framkvæmd. Fiskideginum mikla er ekki hægt að lýsa, hann verður bara að upplifa. Myndir segja heldur ekki nema hálfa sögu og tæplega það. Hér til vinstri (undir Ýmsar myndir) eru nokkur skot frá Dalvík. Þar á meðal fylgdi Álftlendingur Bessastaðahjónum, Ólafi og Dottit, eftir um hríð þegar þau röltu um hafnarsvæðið í fylgd Hilmars Daníelssonar.

Ofstækisflón í hinu hvíta húsi

Dýrkeyptar fyrir Ameríkana og heimsbyggðina urðu þessar talningarvélar á Flórída sem komu Bush þessum inn í Hvíta húsið forðum daga. Jafnvel þó að  Gore sé dauðyflislegur - og kona hans hati Frank Zappa manna mest - sjá allir nema harðlífismenn í pólitík að  það hann var illskrárri kostur en Bush og þessir dæmalausu ofstækismenn og drullusokkar sem hann hefur raðað að kringum sig í bandaríska stjórnkerfinu. Maðurinn sem lætur drepa fólk um allar jarðir, og styður heilshugar hryðjuverkastjórn Ísraels, hafnar nú lögum frá Bandaríkjaþingi á þeirri forsendu að ,,saklausar manneskjur yrðu teknar af lífi" með stofnfrumurannsóknum!!!
mbl.is Bush neitar að skrifa undir lög um aukin framlög til stofnfrumurannsókna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðalmyndir frá Keflavík

Enn berast bloggsíðunni skemmtilegar myndir úr fortíðinni, nú frá Keflavík, úr safni Harðar Guðmundssonar og Rósu Helgadóttur (tvíburasystur Ingibjargar ættmóður frá Jarðbrú). Þetta eru aðallega myndir frá Jarðbrú, hátt í hálfrar aldar gamlar sumar hverjar!

Sjá Albúmin mín eða Ýmsar myndir til vinstri á síðunni.


Afmælisveislur í báðum fjölskylduvængjum

Álftlendingar hafa setið tvær merkar afmælisveislur á þremur dögum, sem gerð eru skil í myndum á Vefnum. Þetta byrjaði allt í Sambýlinu Blesugróf á sunnudaginn þegar Jóhanna, föðursystir Guðrúnar, fagnaði 82 ára afmæli í góðra vina hópi. Svo barst leikurinn til Keflavíkur í gærkvöld, í fimmtugsafmæli Höllu Harðardóttur, frænku húsbóndans í Álftalandi. Eins og gefur að skilja náði Helga, tvíburasystir Höllu, nákvæmlega sama áfanga líka en hún var fjarri góðu gamni hérna megin hafsins og hélt upp á daginn við Mexíkóflóa.

Myndasöfn úr afmælisveislunum tveimur eru undir Ýmsar myndir neðst til vinstri á síðunni!


Þarf slys svo stjórnvöld rumski?

Það er alveg með ólíkindum að stjórnvöld skuldi ekkert aðhafast til að stórherða viðurlög vegna brota af þessu tagi. Einhverjir þúsundkallar í sekt stoppa ekki þessa flutningabrotamenn. Í grannlöndum væru menn sem gera sig seka um svona sviptir ökuréttindum í verstu tilvikum og flutningafyrirtækin fengju á baukinn líka. Hér rumska stjórnvöld ekki einu sinni þó hver flutningabílstjórinn á fætur öðrum stofni lífi og limum vegfarenda í Hvalfjarðargöngum í hættu dag eftir dag! Þarf slys að koma þarna til svo ráðuneytismenn losi svefn?
mbl.is Lífshætta skapast sé ekið með of háan farm í göngin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband