Föstudagur, 19. maí 2006
Kjörleiði
Ég efast um að ég nenni á kjörstað um aðra helgi. Síðast kaus ég Ingibjörgu Sólrúnu til að vera áfram borgarstjóri og það lukkaðist ágætlega. Nú er hún komin á annan vettvang, pólitíska baklandið hennar sprungið í frumeindir sínar og ég orðinn munaðarlaus. Það verður þá svo að vera. Þessi svokallaða kosningabarátta í höfuðborginni er dularfull en eitt mega samt flokkarnir eiga, allir með tölu. Þeir hafa blessunarlega látið oss kjósendur í friði. Fyrsti bleðillinn datt til dæmis ekki inn um bréfalúguna hjá okkur fyrr í dag. Þar eru sjálfstæðismenn í hverfinu að gera hosur sínar grænar fyrir atkvæðum heimilisins.
Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík staðfestan uppmáluð og haggaðist ekki frekar en sólin sem rís og hnígur sæmilega reglubundið hvað sem dynur yfir heimsbyggðina. Allt í einu tóku sjálfstæðismenn í borgarstjórn upp á því að vilja pakka Reykjavíkurflugvelli saman og eltu þannig málflutning meirihlutans í borgarstjórn. Svo þegar vinstri-grænir fóru á dögunum að taka undir sérhagsmunatengd sjónarmið nokkurra lækna varðandi nýtt háskólasjúkrahús fóru sjálfstæðismenn líka að murra eitthvað um að endurskoða áform um nýjan spítala. Ég sem hélt að búið væri að lenda spítalamálinu og skil ekki hvað þessum flokkum gengur til.
Samfylkingin nær engu flugi í kosningabaráttunni og virkar leið á sjálfri sér. Framsókn rak upp á Löngusker og tommar ekki af strandstaðnum. Eina merkjanlega lífsmarkið þessa sólarhringana er í kringum þessa frjálslyndu, af öllum flokkum. Fari svo sem horfir mun fylgi þeirra sæta tíðindum á kosninganótt. Það þarf hins vegar meira að gerast til að sjálfstæðismenn nái meirihluta í borgarstjórn og hugsanlega fá þeir til sín nægilega sveiflu í næstu viku. Hver veit. Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt fengið betri útkomu í skoðanakönnunum en í kosningum og gangi það eftir núna líka þarf hann einfaldlega enn meira fylgi til að ná takmarki sínu annan laugardag.
Sjálfur hefði ég viljað að Steinunn frænka frá Göngustöðum yrði borgarstjóri áfram en af því verður víst ekki. Samfylkingunni hefði farnast betur með hana á toppnum en það er ekki mitt vandamál heldur flokksins.
Í þessum kjörleiða sækir að manni ákveðin heimþrá. Ég hefði helst viljað vera á kjörskrá í Svarfaðardal og nágrenni nú um stundir og taka þátt í að gera Svanfríði Jónasdóttur að bæjarstjóra. Hún hefði reyndar sómt sér vel líka í ráðhúsi Reykjavíkur en ekki verður nú á allt kosið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 19. maí 2006
Sylvíupestin-II
Ríkisútvarp vort, sem ber ábyrgð á útflutningi Sylvíu til Grikklands, hlýtur að draga lærdóm af útreið gærkvöldsins, og sjá til þess að gerpið verði kyrrsett um aldur og ævi þar suður frá svo hin íslenska þjóð geti snúið sér að einhverri annarri vitleysu. Þessi skrítna þjóð getur víst ekki svarið af sér gerpið, að minnsta kosti sá hluti hennar sem borgaði Símanum okurgjald forðum fyrir að greiða henni atkvæði. Það sem kórónaði vitleysuna á sviðinu í Grikklandi var að söngur gerpisins var afar slakur, atriðið illa æft og í raun enn skelfilegra en efni stóðu til. Enda var baulað meira á fyrirbærið en samanlagt í áratuga sögu Júróvísjon. Og dómgreind manna sem hrærast í þvælunni er orðin svo brengluð að helst var á þul sjónvarps íslenska ríkisins að það hefði getað staðið til að gerpið kæmist áfram. Alla vega tókst honum að töfra fram býsna trúverðuga grátstafi í kverkarnar. Evrópuþjóðum sé lof og prís að losa okkur við gerpið og nú ættu sæmilega viti bornir menn að sjá til þess að það heyri sögunni til. Alveg. Alla vega heyri ég að foreldrar barna sem gerpið plataði til að vera viðstaddir uppákomu við ESSO á Ártúnshöfða á dögunum hafa engu gleymt. Og sýni gerpið sig á nýjan leik hér heima gæti komið til þess að það þyrfti raunverulega lífverði....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. maí 2006
Hálfkák í Árborg
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 13. maí 2006
Sylvíupestin
Óskaplegur léttir verður það nú þegar Evrópusöngvakeppnin verður afstaðin og fjölmiðlar snúa sér að einhverju öðru en þessu mígandi ruglaða fyrirbæri sem gengur undir heitinu Sylvía Nótt. Að vísu kallaði þjóðin þetta yfir sig í atkvæðagreiðslu en þá hefur líklega komið á daginn að eitthvað er til í því sem einn olíumafíósinn sagði í tölvupósti forðum, í samráðsbissness olíufélaganna gegn viðskiptavinum sínum: fólk er fífl! Lagið klingir svo sem þokkalega en fyrirbærið sem syngur er einnota og alls ekki til útflutnings - alla vega ekki á vegum ríkisins.
Það birti reyndar til um stund þegar þær fréttir bárust frá Grikklandi að stjórnendur söngvakeppninnar væru að spá í að gefa fyrirbærinu vænt drag í afturendann og senda það út úr keppninni. Því miður virðast vonir hafa dvínað um að þessum ósköpum lykti á þann veg sem hefði reyndar verið eina leiðin til að þjóðin og Ríkisútvarpið héldu andliti. Nú er eina vonin sú að fyrirbærið fái á trýnið í keppninni sjálfri og verði sent heim stigalaust.
Það segir reyndar sína sögu um veruleikafirringu fjölmiðlafólks að það heldur að fólk flest hreinlega titri af spenningi yfir að fá yfir sig alla þessa þvælu og dónaskap sem upp úr fyrirbærinu vellur. Staðreyndin er nefnilegla sú að flestir eru búnir að fá upp í kok af ruglinu.
Toppurinn á markaðssetningu fyrirbærisins var reyndar þegar börn fjölmenntu að ESSO-stöð til að berja það augum en svo mætti engin Sylvía Nótt og hafði alltaf ætlað sér að gera ESSO og börnin að fíflum með því að mæta ekki. Fari Silvía Nótt norður og niður......
Bloggar | Breytt 15.5.2006 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. maí 2006
Reykjavíkurmeistaratitill í sjónmáli
Markvörðurinn á heimilinu stóð í ströngu í Egilshöll í dag þegar Víkingar og Fjölnismenn áttust við í Reykjavíkurmóti 5. flokks í fótbolta. Þetta var hörkuleikur og í járnum framan af. Markalaust að loknum fyrri hálfleik en í þeim síðari gáfu Víkingar í. Skoruðu fyrst beint úr aukaspyrnu og síðan í tvígang til viðbótar. Þrjú mörk gegn engu, sem kannski var ríflegur sigur miðað við gang leiksins en um slíkt er ekki spurt í fótboltaleik. Víkingar eru nú jafnir Fylki að stigum í riðli A-liða á Reykjavíkurmótinu en eiga leik til góða. Lyktir mótsins ráðast því í næstu tveimur leikjum, gegn Þrótti á laugardaginn kemur og gegn Fram annan laugardag. Engin fagnaðarlæti fyrirfram í Fossvogsdal en vissulega er staðan vænleg í augnablikinu....
Mánudagur, 8. maí 2006
Blað sem kemur óorði á blaðamennsku
Fleygt var þegar Vilmundur Gylfason notaði hugtakið skítapakk yfir ákveðna menn sem honum var í nöp við innan Alþýðuflokksins sáluga. Það myndi hins vegar jafnast á við hrós að brúka slíkt heiti yfir þá sem skrifa DV. Í vetur sá ritstjórnin til þess að maður á Vestfjörðum svipti sig lífi,. Núna um helgina dæmdi hún blásaklausa stúlku á Ólafsfirði fyrir fíkniefnainnflutning með því að birta af henni mynd. Ritstjórinn kvaðst að vísu vera sorrí en helst er að skilja á honum að Vefnum væri um að kenna! DV stal myndinni umræddu af heimasíðu skíðafélagsins á Ólafsfirði og fór mannavillt. Fólk með snefil af dómgreind og þokkalegri siðferðisvitund hefði á svipstundu getað fengið staðfest hvort rétt fórnarlamb væri komið í gapastokk opinberrar myndbirtingar. En ekki sóðarnir á DV. Vinnubrögðin þar eru að skjóta fyrst og spyrja svo eða kannski öllu heldur að skjóta og spyrja alls ekki. Baugsveldið hefur sjálfsagt sín rök fyrir því að gefa út blað sem kemur óorði á blaðamennsku. Við hin þurfum að rökstyðja fyrir sjálfum okkur að kaupa og lesa DV og auglýsa í því. Mér varð á að kaupa fyrsta helgarblað eftir meinta siðbót. Það voru mikil mistök. Ritstjórnin hefur ekkert lært og engu gleymt. Hún mun áfram bjóða upp á úrval faglegra skandala þar til Baugsveldið fær nóg af því að borga með útgáfunni og lokar sjoppunni.
Dægurmál | Breytt 9.5.2006 kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. maí 2006
Hinn árlegi vorfíflagangur á Alþingi
Það þótti tilefni fyrstu frétta ljósvakamiðla í kvöld að Alþingi kæmi saman að nýju eftir sveitarstjórnakosningar og yrði við störf um óákveðinn tíma fram á sumar. Í öllum grannríkjum vorum hefði það verið frétt ef þjóðþingið hefði ákveðið að starfa EKKI í júní, Hér er því hins vegar slegið upp með látum að alþingismenn vinni eins og annað fólk. Ekki að furða að löggjafarsamkoman skori ekki í viðhorfskönnunum hjá Gallup. Sjálfur starfaði ég í návígi við alþingismenn í hátt í tvo áratugi og spurði þá stundum af hverju það væri ekki regla að þingið sæti til dæmis út júní og kæmi saman að nýju í september frekar en að hætta í maí eða jafnvel í apríl á stundum og byrja ekki aftur fyrr en í október. Þá voru settar yfir mér ræður um tímafrek ferðalög þingmanna um landið til að heilsa upp á kjósendur, sveitarstjórnir og flokksfélög eða út um heim í opinberum erindagjörðum fyrir þing og þjóð. Þess vegna þyrfti Alþingi að hætta snemma og byrja seint. Þetta gat ég aldrei skilið og skil ekki enn. Einhvern veginn tekst þingmönnum í öðrum löndum að rækta samband við bakland sitt og sinna hvers kys skyldum án þess að þjóðþing þeirra leggist í dvala í fjóra til fimm mánuði á ári. Starfshættir Alþingis eru að þessu leyti frá þeim tíma þegar þinglausnir miðuðust við að bændur kæmust heim fyrir sauðburð og þingsetning miðuðst við að bændur væru þá að minnsta kosti búnir að smala heiðarnar heima fyrir, gott ef ekki slátra líka lömbunum og koma lærum og bringukollum upp í rjáfur í reykhúsunum. Þetta fyrirkomulag er langþreytt tímaskekkja og árlegt málæði dag og nótt á vordögum er bara fíflagangur og skilar því einu að hin svokallaða virðing Alþingis rýrnar enn frekar. En fyrst þingmönnum er skítsama um ímynd löggjafarsamkomunnar, því skyldi okkur hinum þá ekki standa á sama?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar