Laugardagur, 10. júní 2006
Djúpa lægðin gengin yfir í Framsókn
Eftir allan vandræðaganginn og vitleysuna undangengna sólarhringa verður að segjast að forystu Framsóknarflokksins tókst býsna vel upp með andlitslyftinguna á ríkisstjórninni. Það var skynsamlegt að stokka spilin meira en beinlínis var nauðsynlegt og Jón Sigurðsson er öflugur náungi - auk þess sem hann vinnur sér prik í flokknum með því að ganga úr rúmi í Seðlabankanum fyrir Halldór. Dagurinn varð því öllu tíðindameiri en gærdagurinn, þegar framsóknarmenn gengu til miðstjórnarfundar og ljósvakamiðlar hömuðust við að senda út ræðu forsætisráðherrans fráfarandi þar sem ekkert bitastætt kom fram. Ekki nokkur skapaður hlutur. Morgunblaðið hafði að morgni dags tekið að sér að kæla nokkuð glóandi hraunstrauma í flokksforystunni með því að birta forsíðumynd af Halldóri og Guðna í vinaleik. Strákarnir mínir taka stundum þátt í hliðstæðum gjörningi í Fossvogsskóla. Þá er búnir til svokallaðir vinahópar í bekkjum og markvisst reynt að skipta upp raunverulegum vinahópum til að skapa ný tengsl. Svo hittast skipulögðu hóparnir hingað og þangað um hverfið, leika sér saman, borða kannski saman líka og foreldrarnir mynda þá fyrir fjölskyldualbúmin sín. Svo skilja leiðir og krakkarnir flýta sér að hafa upp á vinunum sem þeir sjálfir velja og vilja eiga. Hugsanlega rista vinaleikirnir í Framsókn dýpra. Kannski eru Halldór og Valgerður eru orðin umskiptingar í skoðunum á einum sólarhring og telja að Guðni verði sameiningartákn flokksins í haust? Blaða- og fréttamennirnir hafa ekkert spurt um það. Þeir spurðu reyndar Halldór ekki einu sinni að því í dag hvort hann væri á leið í Seðlabankann! Svona eru menn nú orðnir miklir vinir. Lægðin gekk yfir í Framsókn og brostið er á logn. Jamm og jæja, hefði Jónsi afi á Jarðbrú sagt af þessu tilefni.
Nú verður Geir H. Haarde forsætisráðherra. Það mun ekki laga ástandið fyrir Framsókn og stjórnarandstöðuna, nema síður sé. Haarde er mildur og viðfelldinn leiðtogi sem dregið hefur íhaldið inn að miðju stjórnmálanna á þeim skamma tíma sem hann hefur verið í forystunni eftir að Davíð fór í Seðlabankann. Sjálfstæðisflokkurinn uppskar enda afar vel viðunandi úrslit í sveitarstjórnarkosningunum, sem skrifast fyrst og fremst á mjög svo geðslega uppstokkun í forystusveitinni. Stóru pólitísku tíðindin nú um stundir eru raunar þau að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að festa sig í sessi nær miðju stjórnmálanna undir forystu Geirs og Þorgerðar Katrínar. Á miðjunni eru fyrir Framsókn, Samfylkingin og frjálslyndir. Þar er því að verða þröng á þingi og mér segir svo hugur um að sjálfstæðismenn muni uppskera þar drjúgt í þingkosningunum að ári - á kostnað annarra miðjuflokkanna.
Svo ber auðvitað að taka fram að vegamót eru hjá tveimur pólitíkusum úr Jarðbrúarfamilíunni þessa dagana. Sigríður Anna, frænka frá Siglufirði, hverfur úr umhverfisráðuneytinu. Þar hefur hún staðið sig vel, bara afskaplega vel. Svo er það frænkan úr hinni ættinni, Steinunn Valdís. Hún er að hætta sem borgarstjóri og betur hefði nú Samfylkingin teflt henni fram sem oddvita sínum í kosningunum á dögunum. Hún Steinunn, með ættarsvipinn sterka frá Göngustöðum, hefur nefnilega vaxið hratt og örugglega sem stjórnmálamaður. Mér sagði sjálfstæðismaður úr borgarstjórnarflokknum að þar á bæ hefðu menn óttast mest Dag B. sem oddvita Samfylkingarinnar þegar kom að prófkjöri þess flokks forðum en eftir á að hyggja hefði Steinunn Valdís geta orðið sjálfstæðismönnum mun erfiðari í kosningabaráttunni. Þetta vissi auðvitað Göngustaðaættin allan tímann en Samfylkingin hefur ekki pólitískt nef á við hana. Langt frá því.
Dægurmál | Breytt 25.6.2006 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. júní 2006
Starfskynning bæjarstjóra
Það spurðist út um heimsbyggðina í dag að tekist hefði að mynda meirihluta í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar, hartnær hálfum mánuði eftir kosningar. Svarfdælingar og nærsveitamenn eru síðastir landsmanna til að berja saman meirihluta í sveitarstjórninni í þetta sinn og hafa oft verið skjótari til verka. Skýringin er hins vegar dularfullar innantökur ýmissa leiðtoga í kjölfar kosninga en þær virðast nú blessunarlega hafa liðið hjá. Sennilega verður það frekar landlæknisembættisins en stjórnmálafræðinga að rannsaka upptök og eðli þessarar þrálátu eftirákosningasýki. Dalvíkurbyggð fær nú Svanfríði Jónasdóttur af J-lista óháðra sem bæjarstjóra, sem er afar góður kostur. Sérkennilegt er hins vegar að sjá að í meirihlutasamningi J-lista og Framsóknarflokks er gert ráð fyrir að hún sitji bara hálft kjörtímabilið og síðan auglýsi Framsókn eftir nýjum bæjarstjóra!! Þetta er ekki sérkennilegt vegna þess að Dalvíkurbyggð og Svanfríður eiga hér í hlut heldur vegna viðhorfs til sjálfs bæjarstjórastarfsins sem óbeint birtist svona í málamiðlun meirihlutaflokka.
Ætli það taki ekki nýliða á bæjarstjórastóli hálft kjörtímabil að komast þokkalega vel inn í starfið og ná tökum á því? Með öðrum orðum: Þegar Svanfríður verður komin inn á völlinn eftir góða upphitun á að taka henni út af fyrir leikmann sem ekki er til í liðinu! Svona þvæla er ekki nýmæli. Nærtækt er að nefna Kópavog í upphafi nýliðins kjörtímabils þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sömdu um að Sigurður Geirdal yrði bæjarstjóri í þrjú ár en Gunnar I. Birgisson tæki svo fjórða og síðasta árið í bæjarstjórastólnum. Á Akureyri er nú talað um að samningar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar geti leitt til þess að þrír bæjarstjórar starfi þar á næstu fjórum árum! Enn fleiri dæmi mætti nefna en kjarni málsins er einfaldlega sá að samningar af þessu tagi stuðla ekki að festu í stjórnsýslu og pólitík í sveitarfélagi heldur hinu gagnstæða. Bæjarstjórastaða er mikilvægari og merkilegri en svo að stjórnmálaflokkar eigi að nota hana sem einhvers konar starfskynningarvettvang til að ná saman um meirihluta í sveitarfélögum. Heilt kjörtímabil er lágmark til að bæjarstjóri geti sannað sig af einhverju viti í starfi gagnvart sveitarstjórn og háttvirtum kjósendum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. júní 2006
Á sömu leið og Kolbeinsey?
Einu sinni líkti Framsóknarflokkurinn sér við klettinn í hafinu í auglýsingum fyrir þingkosningar - með góðum árangri. Nú verður ekki betur séð að flokksins bíði sömu örlög og Kolbeinseyjar og það af svipuðum ástæðum. Kolbeinsey er að molna niður undan sjálfri sér og þannig er að fara líka fyrir Framsókn. Fróðlegt væri annars að vera fluga á vegg í herbúðum sjálfstæðismanna nú um stundir. Þeir hljóta að klóra sér í höfuð yfir atburðum undangenginna sólarhringa í forystu samstarfsflokks síns í ríkisstjórn og hugsa margt. Aðrir landsmenn fylgjast auðvitað með líka, af mismiklum áhuga og spenningi. Sumir eru fegnir að fá óvænt skemmtiefni til að fylla upp í sumarleyfisskarð Spaugstofunnar í Sjónvarpinu, aðrir líta á hnotabit milli framsóknarforingjanna sem tragedíu án leikstjórnar og enn aðrir sjá þarna eitthvað sem helst minnir á uppákomu eftir handriti frá Hrafni Gunnlaugssyni.
Auðheyrilega vex þeirri skoðun fylgi í Sjálfstæðisflokknum að taka af skarið og snúa sér til háttvirtra kjósenda fyrr en ráð var fyrir gert, sem er afskaplega skiljanlegt. Það væri einfaldlega skynsamlegasta niðurstaðan að kjósa til Alþingis síðar í sumar eða í síðasta lagi í haust; samt ekki fyrr en heimsmeistarakeppninni í fótbolta er örugglega lokið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. júní 2006
Dapurlegur mórall
Dómur yfir formanni Sjómannafélags Reykjavíkur í gær varpar ljósi á siðferðisbresti í forystusveit þess félagsskapar. Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi með stórfelldri vanrækslu og ófyrirleitnum brotum á almennum skipsstjórnarskyldum sem leiddu til þess að tvennt fórst í sjóslysi á Viðeyjarsundi í september í fyrra. Verkalýðsforinginn var drukkinn við stýrið á skemmtibátnum sínum og reyndi að koma ábyrgð af eigin gjörðum yfir á þá sem létust. Dómurum svelgdist greinilega á af undrun og skelfingu ef marka má dóminn, sem lesa má í heild sinni á mbl.is. Hann er sannarlega hrollvekjandi texti.
Það hlýtur svo að vekja sérstaka athygli og undrun að Sjómannafélag Reykjavíkur skuli ætla að hafa þennan dæmda mann í forystu sinni áfram eins og ekkert hafi í skorist! Í einum fjölmiðli var haft eftir einhverjum forystumanni félagsins að ekki hefði einu sinni verið rætt um að hrófla við stjórnarformanninum. Í öðrum miðli var haft eftir Sjómannafélagsmanni að ekkert væri hægt að gera fyrr en í fyrsta lagi á einhverri samkundu í haust.
Hvers konar skilaboð er Sjómannafélag Reykjavíkur að senda sjómönnum og þjóðinni allri? Ganga menn ekki á öllum kertum á þeim bæ? Auðvitað átti stjórnarformaðurinn að víkja strax í september og enn frekar nú þegar dómarar hafa talað jafn skýrt og raun ber vitni um. Aðgerðaleysi Sjómannafélagsins er því til skammar og þess vegna hljóta einhver apparöt í verkalýðshreyfingunni að nudda augu forystu þess svo siðblindir fái sýn. Það getur bara ekki verið að verkalýðsbatteríð láti þess ósköp yfir sig ganga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. maí 2006
Sumarkveðja úr Svarfaðardal
Það eru ekki alltaf jólin við Eyjafjörð og ekki heldur alltaf vor þegar á að vera vor samkvæmt dagatalinu. Kalli búfræðingur Grund í Svarfaðardal bjóst ekki við að geta þeyst á vélsleða um dal og hóla nú þegar maímánuður er senn á enda. En svo blasir við nógur snjórinn fyrir vélfákana eftir hretið á dögunum. Kalli fór upp á Böggvistaðadal í gær og tók þessar myndir sem segja margfalt meira en nokkur orð um fannfergið til fjalla við Eyjafjörð!
Og svo þetta:
ískyggileg þögn mun svo ríkja hér á bloggsíðunni næstu dagana. Ekki vegna þess að skrifari verði í kjaftstoppi og sjokki yfir kosningaúrslitum, hver sem þau verða, heldur vegna fjarveru og meðvitaðrar ákvörðunar um að hafa hugann við allt annað í eina viku en þennan skrítna sandkassaleik sem kallast íslensk sveitarstjórnamál.
Þegar úrslitin dynja yfir þjóðina í kvöld verð ég sem sagt í tugþúsunda feta hæð yfir Bandaríkjunum áleiðis til Kaliforníu. Og þá ég sný aftur verður Svanfríður líklega kominn langleiðina í bæjarstjórastól í Dalvíkurbyggð og Villi langleiðina í borgarstjórastól í Reykjavíkurbyggð. Jörðin snýst nú samt áfram hvað sem gerist og hvernig sem fer. Og hana nú.
Dægurmál | Breytt 7.6.2006 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. maí 2006
Kosningavaðallinn kvaddur - með litlum söknuði
Morgunblaðið gerði okkur, dyggum lesendum og velunnurum, þann greiða undanfarnar vikur að birta greinaflóð frambjóðenda og atkvæðasmala með lúsarletri sem aðrir frambjóðendur og aðrir kosningasmalar reyndu að stauta sig fram úr gegnum stækkunargler til að geta svo sest niður og svarað með greinum sem Mogginn birti líka með lúsarletri. Þannig sparaði blað flestra landsmanna helling af pappír og flýtti fyrir þeim lesendum á morgnana sem vildu gjóa augum yfir annað aðsent efni en kjörprumpið. Og nú lýkur þessari smáleturstíð Morgunblaðsins á morgun og hörðustu áhugamenn um stjórnmál stinga stækkunarglerjunum upp í eldhússkáp og geyma þar til hallar að þingkosningum vorið 2007. Þá fer að blómstra á nýjan leik lýðræðisleg umræða með letri í lúsarstærð á síðum Morgunblaðsins. Þetta var settleg og pen kosningabarátta, fjandakornið að bærðist hár á höfði nokkurs staðar. Enda eru allir svo sammála inn við beinið um allt og alla að enginn útilokar samstarf við neinn annan að kosningum loknum frekar en í landsstjórninni og vesalings liðið sem kýs flokkinn sinn hefur ekki glóru um upp á hverju flokksforystan tekur þegar rennur af henni (móðurinn) á sunnudagsmorguninn. Þetta er eina landið í veröldinni þar sem kjósendur eru hafðir að fíflum alltaf og endalaust. Flokkarnir eru bara stoltir af því að vera innilega sammála um að gera það sem þeim sýnist að kosningum loknum! Það eru til dæmis afskaplega miklar líkur á að mynduð verði samsteypustjórn í höfuðborginni í næstu viku. Kjósendur hafa hins vegar ekki græna glóru um það hvaða flokkar koma þar við sögu og hvaða hnoðmör verður á borð borinn sem stefnuyfirlýsing nýs meirihluta í borgarstjórn - ekki frekar en þegar ríkisstjórnir eru myndaðar. Enda botnar ekki nokkur erlendur fréttaskýrandi eða pólitískur áhugamaður í útlöndum í íslenskri pólitík. Ekki nokkur maður ef marka má það sem ég hef séð og heyrt í dagana í erlendum fjölmiðlum um íslensk stjórnmál. Kjósendur í öðrum löndum vita yfirleitt nokkurn veginn hvers má vænta að kosningum lokum, hverjir starfa saman og hverjir ekki. Á Íslandi er hins vegar kjósendum boðið upp á svipuð býti og ef Þjóðleikhúsið færi einfaldlega að auglýsa: sýning í kvöld! Aðgangseyrir væri hirtur af áhorfendum og svo létu þeir sig hafa það þolinmóðir að bíða þar til dregið væri frá. Þá fyrst kæmi í ljós hvort á sviðinu væri að hefjast Íslandsklukkan, Skuggasveinn, Dýrin í Hálsaskógi eða Hryllingsbúðin. Ætli Hart í bak verði á fjölunum þegar dregið verður frá í Ráðhúsinu við Tjörnina í næstu viku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 24. maí 2006
Pólitískar taugar bresta
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 210866
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar