Fimmtudagur, 27. apríl 2006
Af klof(nings)bragði hér og þar
Ef Samfylkingin á Akranesi hefði boðið Gísla Einarsson, fyrrum alþingismann sinn, fram sem bæjarstjóraefni í bæjarstjórnarkosningunum væru Skagamenn upp til hópa á því að flokksforystan hefði dottið á höfuðið á einu bretti eða tapað glórunni af öðrum ástæðum. En af því Gísli er nú óvænt orðinn bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins er allt eins víst að hann verði maður kosninganna á Akranesi. Kjósendur á Íslandi hafa nefnilega jafnan verið býsna ánægðir með allt sem lyktar af uppreisn og klofningi í stjórnmálaflokkum. Ef sjálfstæðismönnum og bæjarstjóraefninu þeirra tekst í kosningabaráttunni öðrum þræði að koma klofningsstimpli á Samfylkinguna í bænum getur það hæglega skilað viðbótarfylgi. Það sýnir reynslan - oft og mörgum sinnum. Ef Samfylkingunni hins vegar tekst vel upp getur útspil sjálfstæðismanna verið upphaf að floppi. Látum oss sjá hvað gerist.
Á Akureyri er Baddi kokkur orðinn oddviti vinstri-grænna til bæjarstjórnar eftir að hafa fellt bæjarfulltrúa flokksins í prófkjöri. Þetta kann að vera ávísun á þokkalegt fylgi í kosningum af því háttvirtir kjósendur hneigjast til að verðlauna þá sem leggja til atlögu gegn foringjum í eigin flokkum. Innkoma Badda á sviðið á Akureyri ber ýmis einkenni innanflokksuppreisnar og hann uppsker að líkindum atkvæði sem ekki hefðu að óbreyttu verið greidd flokknum VG. Baddi er óráðin gáta í kosningunum á Akureyri en vinstri-grænir hins vegar nokkuð þekkt stærð. Látum oss sjá hvað gerist.
Utar við Eyjafjörð, í Svarfaðardal og nágrenni, er kominn fram framboðslisti hóps fólks sem á sér/hefur átt bakland í Samfylkingunni, Sjálfstæðisflokknum og víðar. Þetta er ágæt uppskrift og hefur meðal annars ákveðin einkenni uppreisnar/klofnings í Sjálfstæðisflokknum. Það getur virkað á háttvirta kjósendur eins og dæmin sýna. Svo er bæjarstjóraefnið álitlegt, Svanfríður Jónasdóttir, sem sat um árabil á þingi fyrir Samfylkinguna og fór með vitið í sjávarútvegsmálum og fleiru úr þeim þingflokki þegar hún sneri sér að öðru. Ég hef enga stefnuskrá séð frá þessu framboði og þarf ekki að berja slíkt plagg augum til að spá að því muni farnast vel í kosningum. Þá ber jafnframt að gæta þess að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er pólitískt gjaldþrota og flestir bæjarfulltrúar hans flúnir til fjalla. Flóttamönnunum datt ekkert betra í hug áður en þeir hlupu frá rústunum en auglýsa Húsabakkaskóla til sölu korteri fyrir kosningar. Nær því er ekki hægt að komast að setja sjálft ráðhúsið á Dalvík á pólitískt nauðungaruppboð og Svanfríður á sannarlega verk að vinna þegar þar að kemur. Látum oss sjá hvað gerist.
Dægurmál | Breytt 28.4.2006 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 26. apríl 2006
Er það normal að vera svona oft sammála G.Birgissyni?
Ég sá haft eftir Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra í Kópavogi, að það væri glórulaus della með verðmiða upp á tugi milljarða króna að færa Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýri yfir á Löngusker. Ég sagði ekkert en hugsaði það samt, hefði Þorgils á Sökku sagt. Mig hefur lengi grunað að Lönguskerjahugmyndin væri einhvers konar poppúlísk flóttaleið þeirra sem þora ekki að standa á að hafa flugvöllinn þar sem hann er og þora ekki heldur að kveða dauðadóm yfir innanlandsfluginu með því að færa það upp upp á Miðnesheiði. Meira að segja minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur þorir nú ekki að standa á að hafa flugvöllinn á sínum stað og þorir reyndar heldur ekki að segja hvar vondir eigi þá að vera, þ.e. við sem viljum geta flogið innanlands án þess að þeytast langar leiðir til og frá flugvelli höfuðborgarsvæðisins. Aðeins frjálslyndir í borgarstjórn eru vinir Reykjavíkurflugvallar en þeir eru hins vegar úti í skurði í atvinnumálastefnu sinni. Og þar fór það. Nefndur Gunnar Birgisson var á sínum tíma með kjaft á Alþingi vegna þess að fjárveitingavaldið skæri við nögl framlög til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu en tæki fram stóru ausuna til að malbika jökla í öðrum héruðum, eins og ég held hann hafi orðað það. Rifjaði upp þessi ummæli á dögunum þegar sagt var í fréttum frá opnun tilboða í Héðinsfjarðargöng, eina allra vitlausustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar. Og reyndar eina vitlausustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda yfirleitt í háa herrans tíð. Hún jafnast reyndar ekki á við þá hugdettu að ætla að koma Íslandi inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, enda þarf talsvert til. Ég hef hlýtt þolinmóður á fulltrúa bæði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu færa rök fyrir þessu máli og botna sífellt minna í því hvað þeim gengur til sem vilja ganga þessa braut til enda. Þetta er alveg dæmalaust mál. Skyldi bæjarstjórinn í Kópavogi hafa skoðun á þessu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 5. apríl 2006
Stebbamyndum dreift um heimsbyggðina
Morgunblaðið á skilið fálkaorðuna og meira til fyrir að plægja þennan bloggakur. Í hann sáum vér nú gömlum fjölskyldumyndum sem kenna má við Ólafsfjörð eða Jarðbrú eftir atvikum. Þeir sem vilja geta borið sig eftir uppskerunni hvar í veröldinni sem þeir eru staddir. Heiðurinn á Stebbi frændi, Stefán Bergþórsson í Búðardal. Hann dustaði rykið af meira en hálfrar aldar gömlum myndum og filmum í geymslunni í vetur og fór að skanna í tölvunni sinni. Diskur með myndum barst Þóri föðurbróður á Ólafsfirði fyrir páska og ég vildi ólmur leggja á mig að koma gersemunum á Vefinn til að fleiri mættu njóta. Þá var höfuðverkurinn sá: Hvar á að finna vettvang? Auglýsing í Mogga leiddi mig að bloggakrinum og bingó! Taka ber fram, svo ekki fari nú á milli mála, að heimildar var að sjálfsögðu aflað hjá Stebba til að birta myndirnar á þessum vettvangi.
Vinir og fjölskylda | Breytt 27.4.2006 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 210969
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar