GCD frekar en FLD

Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins væri fokinn. Formaður flokksins, varaformaðurinn og leiðtoginn í Reykjavíkurkjördæmi  suður væru annað hvort foknir líka eða ættu í vök að verjast. Heitt væri undir fleirum úr forystusveitinni og þeir sem hlut ættu  að máli fengju heldur betur að gjalda fyrir það ef rannsókn leiddi í ljós tengsl milli tugmilljónastyrkjanna og tiltekinna pólitískra ákvarðana.

Þannig væri staðan í hvaða grannlandi sem er ef styrkjahneyklsið hefði komið upp þar. Sjálfsagt þætti þar að krefjast rannsóknar á skandalnum öllum og kanna bæði flokksfjármálin og einkafjármál þeirra sem stóðu í ævintýralegum peningamokstri úr fyrirtækjum inn á flokkskontórinn. Ekkert er hins vegar sjálfgefið í þessum efnum hérlendis því Íslendingar eru í öðru siðferðissólkerfi viðskipta og stjórnmála en grannþjóðirnar.

Sjálfsagt verður látið gott heita að Geir Haarde taki á sig bæði ábyrgðina og skömmina þó trúlega finnst ekki sála á landinu þveru og endilöngu sem trúir því að hneykslið skrifist á hann einan. 

Staðreyndin er sú að eftir að FL-hneykslið, sem ætti líklega frekar að kalla FLD-hneyksli, er ekkert eins og var. Það sem menn héldu að gæti gerst, ef til vill og kannski, ER blákaldur veruleiki. Og fólki er verulega brugðið.

FL-hneykslið æpir á að ekki aðeins viðskiptahlið efnahagshrunsins  verði rannsökuð heldur líka sú pólítíska. Allt upp á borðið, takk fyrir. Öll fjárhagstengsl allra flokka og fyrirtækja skulu rannsökuð og gerð opinber. Nú fæst staðfest að dularfullir þræðir liggja á milli viðskipta og stjórnmála í aðdraganda efnahagshrunsins. Meira að segja dúkkar nú upp á nýjan leik sjálfur holdgervingur og helsti hugmyndafræðingur Icesave-reikninganna í Landsbankastjórn. Sá batt íslenskri þjóð skuldabagga sem hún burðast með næstu árin. Nú bætist á afrekalistann þessa fyrrum bankastjóra styrkjahneykslið sem skekur Valhöll. Þeir eru víða sigurjónarnir og marka sér sérstök og dýrkeypt.


PS. Svo vildi til að ég fiskaði blindandi úr safninu disk með Bubba og Rúnari til að sjá mér fyrir eðalrokki nú á síðdegisskírdegi. GCD er að öllu leyti gæfulegri grúppa en FLD.


Búsáhöldin kvödd

Framboðsþáttur RÚV á Ísafirði í gærkvöld var ekki jafn yfirþyrmandi leiðinlegt sjónvarpsefni og leiðtogafundurinn á föstudagskvöldið. Ég hélt reyndar út til allt til loka á föstudaginn en með herkjum. Hef heyrt í mörgum á förnum vegi sem byrjuðu að horfa en gáfust upp. Sumir reyndar strax í þessari óralöngu og óskiljanlegu samantekt á klippimyndum úr gömlum fréttum sem virtist aðallega ætlað að minna áheyrendur og áhorfendur á að kreppa hefði skollið á í haust og eitt og annað gengið á eftir það. Eins og það hefði nú farið fram hjá þeim sem heima sátu. Þátturinn í gærkvöld var mun bærilegri á að horfa og hlýða.

 

Sjálft formið sem Ísafjarðarþátturinn byggist á er ávísun á að umræða skapast tæplega eða alls ekki. Svona uppstilling hefur sárasjaldan virkað í sjónvarpi, oftar hins vegar í útvarpi þegar menn hafa ekki á sér kastljós og myndavélar úr öllum áttum. Þátttakendur verða stífir i fljóðljósunum og þetta verður oftar en ekki stirður spurningaleikur en ekki umræða af nokkru tagi. Allt annar bragur var til dæmis stjórnmálaspjalli í Bylgjuþættinum Sprengisandi á sunnudaginn var þegar þrír frambjóðendur glímdu og létu gamminn geysa:  Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Gunnlaugsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Þar gafst rúm til að ræða afmörkuð mál og takast á. Engin spenna skapaðist í salnum á Ísafirði og upp úr stóð reyndar í lokin stór spurning: Hvað gekk þessum jaðarframboðum, sem kenna sig við lýðræði og borgara á hreyfingu, til að bjóða yfirleitt fram? Fulltrúar þeirra skiluðu auðu frá upphafi til enda og sátu þarna í fullkomnu tilgangsleysi. Meira að segja kjafthákurinn sem  var fundarstjóri á Háskólabíósfundum búsáhaldabyltingarinnar sálugu, og sló ótt og títt um sig á kostnað valdakerfisins í landinu, hafði nákvæmlega ekkert að fram að færa. Ekki baun. Þarna kom í ljós að tunnan sem buldi í forðum var galgóm. Búsáhöldin kvödd. Byltingin át barnið sitt og fylgjuna með. Þetta er alveg sérlega eftirtektarvert búast hefði mátt við að tíðarandinn og atburðir vetrarins kölluðu fram nýja strauma í pólítík. Ný framboð geystust fersk fram á völlinn og hefðu eitthvað að segja sem menn væru ekki vanir að heyra á framboðsfundum. Nei, vissulega eru ný framboð en þau fæddust með hrukkur og lognast sjálfkrafa út vegna skorts á súrefni frá kjósendum. Enn eitt  nýtt framboðið var á meðgöngutíma á dögunum og kenndi sig við fullveldi en aðstandendur þess eyddu fóstrinu af ástæðum sem þeim tókst aldrei að útskýra þannig að skildist. Ómar Ragnarsson laumaði Íslandshreyfingunni upp í hillu hjá Samfylkingunni, svo lítið bar á, til að komast hjá því að leggja hana í dóm kjósenda með fyrirsjáanlegum  afleiðingum. Þar fór hún. Frjálslyndir eiga aðeins eftir dagana fram að kostningum og þá heyra þeir líka sögunni til.

 

Hinn mektugi fjórflokkur blívur sem fyrr og þarf ekkert fyrir lífinu að hafa. Mætir til leiks með kunnugar klisjur og almenna frasa eins og ekkert hafi gerst frá því í gær. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur í tilvistarkreppu og finna ekki fjölina sína, Samfylking og Vinstri grænir hins vegar í unaðssemdum landstjórnarvaldsins og ráða sér tæpast. Það mega ríkisstjórnarflokkarnir reyndar eiga að þeir lýsa umbúðalaust yfir aftur og aftur að þeir hyggist starfa áfram, fái þeir umboð til þess. Þeir ætla þessutan að punda skattahækkunum á fyrirtæki og heimili og hjóla í sjávarútvegsfyrirtækin með fyrningarleið aflaheimilda að vopni.

 

 Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og allir flokkar, bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar + Framsókn, virðast sum sé í reynd sammála um að farsælast sé að hér hrynji allt sem hrunið getur og það sem fyrst, áður en eitthvað sé hægt að gera af viti. Þess vegna er rétt að halda sig fjarri kjörklefanum. Sjórnmálakerfið sjálft á ekki skilið að fá atkvæði þegar það sjálft skilar auðu gagnvart almenningi.

Hvað er einn Landspítali milli vina?

Egill Helgason er áhrifamikill fréttaskýrandi og álitsgjafi á framfæri skattgreiða, á margföldum mánaðarlaunum ráðherra með frían bíl, frítt bensín, dekk til aksturs sumar og vetur og keðjur í skottinu til brúks í sköflum á Holtavörðuheiði. Á hann er lagt að stýra bókmenntaþætti í sjónvarpi í hverri viku, fjalla um fréttir vikunnar á hverjum föstudagsmorgni á Rás tvö af meiri yfirsýn en nokkrum öðrum manni er fært (sbr. umsögn umsjónarmanns morgunútvarps í tvígang), blogga heil ósksköp og síðast en ekki síst stýra Silfri Egils - sem kannski væri réttara að kenna frekar við gull og demanta en silfur í ljósi starfskjaranna. Meira um þau mál síðar, fyrir þá sem nenna að lesa áfram.

Ég er ekki fréttaskýrandi sjálfur en mér skilst að í þeim fræðum sé talið frekar til bóta að halda sig einhvers staðar í grennd við staðreyndir og veruleika, eftir því sem unnt er. Æskilegt er, í nafni upplýstrar þjóðmálaumræðu að frumkvæði atvinnumanna í álitsgjöf, að  fótur sé fyrir fullyrðingum sem slegið er fram áður en farið er að leggja út af þeim á alla kanta. Látum nú vera með allt sem sagt er um blessaða lífeyrissjóðina nú um stundir. Þar reyna álitsgjafar að toppa hvern annan í dramatískum gífuryrða- og fullyrðingaflaumi af öllu tagi. Á þessum vettvangi hefur fyrr í vikunni verið vikið nokkuð að Sölva þætti Tryggvasonar hins sannsögula sem vaknaði upp við það nú í aðdraganda páskahátíðar að ég hefði gengið skrokk á sér sem andlegur terroristi fyrrí vetur og sömuleiðis Arnar Sigurmundsson, annálað ljúfmenni úr Eyjum sem ég efast um að hafi drepið flugu um dagana. Arnar er hins vegar formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og átti sjálfgefið erindi við Sölva í tilefni ummæla í sjónvarpsþætti en uppsker nú að vera kominn í flokk talíbana á listann sem Sölvi, Bush og Brown halda yfir hryðjuverkamenn. Ég hef að vísu ekki enn heyrt Egil Helgason jafna því við terrorisma að koma nálægt lífeyrissjóðum á Íslandi en sjálfsagt er ekki spurning um hvort heldur hvenær  það gerist til að hann sé  með á nótum. Egill sagði hins vegart hiklaust á Rás tvö á dögunum að lífeyrissjóðirnir fölsuðu bókhaldið sitt. Ég endurtek: fölsuðu bókhald. Ekkert minna, takk fyrir. Spyrillinn hló við létt og góðlátlega og spurði ekki frekar. Ég beið spenntur eftir næsta fréttatíma og næsta Silfri Egils, fylgdist grannt með heimasíðum Fjármálaeftirlitsins, embættis ríkissaksóknara og fleiri apparata sem eðlilegt væri að hefðu nú eitthvað um að tala þegar heilt lífeyriskerfi er rekið á fölsuðu bókhaldi! En það hefur bara ekkert meira um málið heyrst og ég bíð áfram. Skrítið. Og þó. Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin, áður var það ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn. Núna lífeyrissjóðirnir. Álitsgjafarnir keppa í yfirboðum á lýsingarorðamarkaðinum og sú keppni hefur út af fyrir sig ákveðið gildi til afþreyingar svona rétt eins og pissukeppni strákpjakka í grunnskólaporti. Það er ákveðið innlegg í karlmennskuna að eiga met í að míga lengst upp á skólavegginn.

Eiginlega var allt hér að framan útúrdúr. Tilefni skrifanna er fullyrðing Egils á bloggi sínu fyrir helgi um að íslenskur sjávarútvegur skuldi 500-800 milljarða króna. Hvorki meira né minna. Engin rök, engar sannanir, engar tilvísanir í heimildir af nokkru tagi. Ekkert nema fullyrðingin ein. Nú taldi Seðlabankinn okkar að vísu að sjávarútvegurinn  hefði „bara“ skuldað um 500 milljarða króna um síðustu áramót. Egill Helgason veit sum sé betur og bætir við allt að 300 milljörðum. Hvaðan kemur honum vitneskja um alla þá viðbótarskuldasúpu? Kannski  afhjúpar hann falsað bókhald sjálfs Seðlabankans í Silfrinu á morgun? Þá stæði nú þátturinn fyrst undir nafni.

Nei, auðvitað er þessi fullyrðing um skuldirnar bull og blaður, kjaftæði og þvaður. Vita skulum við samt að fjöldi fólks treystir Agli betur en Seðlabankanum og talar nú fullum fetum um að sjávarútvegurinn skuldi 800 milljarða króna. Jafnvel meira því það klingir auðvitað betur.

Nú er það meira að  svo að Sigurgeir B. Kristgeirsson í Eyjum, Binni í Vinnslustöðinni, hefur rök fyrir því að sjávarútvegurinn skuldi minna en Seðlabankinn gefur upp. Skuldirnar hafi frekar verið nær 400 milljörðum í lok síðasta árs.  Binni sökkti sér niður í ársreikninga allra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna hér á landi og er orðin gangandi þjóðhagsstofnun í þeim fræðum. Ég bað kappann um að útskýra fyrir mér í hverju það lægi að hann teldi sjávarútveginn skulda minna en tölur Seðlabankans benda til. Það gerði Binni og  nú trúi ég honum frekar en Seðlabankanum. Binni nefndi reyndar við mig í framhjáhlaupi að hann hefði boðið Agli Helgasyni upp á korters námskeið í afkomu sjávarútvegsins í tilefni af blogginu um skuldir upp á 500-800 milljarða en álitsgjafinn sýndi viðbrögð við góðu boði. Enda lá fyrir að Binni bauð upp einungis á rök fyrir því að skuldirnar væru tugum milljarða króna minni en Seðlabankinn reiknaði út í lok árs 2008 en það hentar víst betur í Silfri Egils hafa skuldirnar mun meiri en þær raunverulega eru. Umræðurnar þar verða vissulega meira krassandi fyrir vikið.

Meðal annarra orða: þeir 300 milljarðar króna sem Egill skrökvar upp á sjávarútveginn að greinin skuldi svara til 35 Hvalfjarðarganga á núvirði eða þriggja nýrra Landspítala, miðað við tölur Seðlabankans. Og ef við nú gefum okkur að skuldir sjávarútvegsins séu nálægt því sem Binni í Vinnslustöðinni færir rök fyrir þá munar fjórum nýjum Landspítölum og nær fimmtíu Hvalfjarðargöngum á skuldatölu Binna og ítrustu skuldatölu álitsgjafans í Silfrinu. Það er nú upplýst þjóðmálaumræða í lagi sem sækir undirstöður sínar í svona nokkuð eða hitt þá heldur.

 

Eftirmáli:
Þeir sem nenntu ekki að lesa alla leið hingað fara nú í fermingarveislur um páskana og hafa mig fyrir því að Egill Helgason sé á margföldum mánaðarlaunum ráðherra hjá RÚV og keyri um á bíl í boði ríkisins. Það er í góðu lagi og telst nú ekki mikið skot yfir markið í samanburði við fullyrðingar Egils sjálfs um að lífeyrissjóðir falsi bókhald og Seðlabankinn vanreikni skuldir sjávarútvegsins um jafnvirði margra nýrra Landspítala. Ég veit ekkert um launamál Egils og hef engan áhuga á þeim yfirleitt. Hins vegar hefi ég nokkurn áhuga á þjóðmálaumræðunni og þykir verra þegar álitsgjafar leiða hana út í þvælu með blaðri og fullyrðingum sem eiga sér ekki nokkra stoð í veruleikanum.


Að sækja vatn beint í fjölskyldulækinn

Óþarfi er að fara yfir lækinn til að ná í vatn og allra síst ef í boði er bæjarlækur í túninu heima. Í helgarblaði DV sé ég að Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður er í viðtali og spyrillinn er Illugi blaðamaður Jökulsson, sonur hennar. Á Bylgjunni heyrði ég á dögunum að annar umsjónarmaður þáttar var með pabba sinn í viðtali og á sömu útvarpsstöð var Sigurjón M. Egilsson fjölmiðlamaður með Gunnar Smára, bróður sinn og fjölmiðlamann í sunnudagsviðtali. Það mega bræðurnir eiga að  þeir héldu bærilegri fjarlægð í fjölskyldunni nálægt opnum hljóðnema, næstum því eins og þegar maður hittir stöðumælavörð við gangstéttarbrún í miðbænum og staldrar við eitt andartak í eilífðinni til að skiptast á tveimur til fjórum setningum við hann um lífsins gang og tilveruna.

 

Það er hvimleitt til lengdar þegar fjölmiðlamenn sjá ekki út fyrir túngarðinn sinn í leit að viðmælendum og tala allra helst við aðra fjölmiðlamenn. Kærkomin tilbreyting er hins vegar að tala frekar við pabba, mömmu, bróa eða systu. Og þótt það kunni að henda að ættingjarnir séu líka fjölmiðlafólk þá ber nú að horfa fram hjá því til hátíðarbrigða.

 

 Ég sé mest eftir að hafa ekki fattað upp á að taka viðtal við mömmu þegar tækifæri gafst til í Alþýðublaðið og Dagblaðið, sálugu, og Ríkisútvarpið, sem líklega verður sálugt líka fyrr en síðar. Hún getur sagt frá ýmsu merkilegu þegar sá gállinn er á henni, eins og til dæmis þegar þær Rósa tvíburasystir voru staddar í beitingarskúr í Ólafsfirði á hernámsdaginn, 10. maí 1940. Tíðindin bárust frá höfuðborginni norður fyrir Múlakollu í gegnum Ríkisútvarpið. Þá brast nú á ítarleg þögn í beitningarskúrnum. Ég hefði meira að segja getað látið mömmu bæði tala og þegja í útvarpsviðtali til að ná hughrifunum og senunni allri til fulls. En það er of seint. Ég öfunda fjölmiðlafólk nútímans sem er í þeirri stöðu að geta talað um pabba, mömmu, börn og bíl með því að tala við pabba, mömmu og börnin um bílinn og fleira. Súkk.

 Eftirmáli  - tölvupóstur:

Sæll Atli:

Varðandi athyglisverð tengsl í viðtölum bendi ég til gamans á  opnuviðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Egil Helgason í Mogganum  fyrir skemmstu. Einsog alþjóð veit er Kolbrún vikulegur gestur hjá  Agli í þeim góða þætti Kiljunni. Nú bíður maður spennntur eftir því  hvort Páll Baldvin taki viðtal við Kolbrúnu sem gæti svo á móti tekið  viðtal við Pál sem gæti síðan tekið annað viðtal við Egil sem gæti  svo …. Þannig ætti skoðunum þessa ágæta fólks að vera komið nokkuð  vel á framfæri til heilla fyrir land og þjóð.

Terroristi svarar skreytinni sjónvarpsstjörnu

Sölvi nokkur Tryggvason, fastráðinn morgunfréttaskýrandi Rásar tvö og fyrrum fréttamaður Stöðvar tvö, greindi þjóðinni í morgun frá skelfilegum hremmingum sem hann lenti í fyrir jólin í kjölfar viðtals sem hann átti við Geir H. Haarde forsætisráðherra og sent var út á Stöð tvö. Nærstatt fólk í hljóðstofu saup hveljur enda þykir nú flestum nægur skammtur að frá yfir sig heimskreppu, Icesave-súpuna og hríðfallandi krónugrey á einum og sama ársfjórðungnum þótt ekki bætist nú við hörmungar á borð við hótanir óvandaðra manna í garð vammlausrar fjölmiðlastjörnu. Stjarnan sú fékk sum sé tölvupósta litlu fyrir jólahátíðina og síðar upphringingu frá ónafngreindum mönnum úr „valdaklíku“ sem vildu víst hóta henni, stoppa hana og afvegaleiða i störfum sínum og þar fram eftir götum.

Ég sperrti eyru og hallaðist að því að taka til mín hluta morgunkveðju fréttaskýrandans, enda mundi ég eftir tölvupóstsendingum til nefnds Sölva í tilefni spurningar sem hann lagði fyrir Haarde og varðaði lífeyrissjóði og mútumál. Mig rámaði hins vegar í að þessi tölvupótssamskipti hefðu verið á heldur vinsamlegum og eðlilegum nótum en það gat auðvitað gerst hjá vönduðum mönnum að fjarlægðin gerði fjöllin blá og sveitamenn að terroristum.

Vissulega vinn ég af og til fyrir Landssamtök lífeyrissjóða og sperrti því eyrum þegar mútur voru nefndar í sömu andrá og lífeyrissjóðirnir en í öðru lagi var ég bara forvitinn: Hafði ég misst af einhverju í fréttum?? Ég fór á mbl.is og visir.is, leitaði í gagnasöfnum og gúgglaði í djöfulmóð. Allt kom fyrir ekki. Ákvað að senda spyrlinum Sölva einfaldlega tölvupóst og spyrja. Hann svaraði og ég kvittaði fyrir svarið. Málið dautt og ég beið átekta eftir að mútumenn yrðu afhjúpaðir og bíð enn.

Nú á tímum alþjóðlegrar baráttu gegn hryðjuverkum er rétt að leggja spilin á borðið og birta bara tölvupóstana umræddu svo öllu sé nú til haga haldið. Hér er því sagan öll: fyrst er blogg sjónvarpsstjörnunnar sem hún lagði með sér á borð í morgunfréttaskýringum Rásar tvö, svo fyrra bréf terrorista, síðan svar stjörnunnar og loks seinna terroristabréf.

Eitt blasir við eymingjanum mér eftir að hafa hlýtt á morgunstjörnu Rásar tvö og það er auðvitað að ég hefi verið í meiri hryðjuverkahasar en ég gerði mér grein fyrir í öll þessi hartnær tuttugu ár sem ég starfaði sem blaða- og fréttamaður og þurfti að svara sífellt fyrir verk mín, inn á við og út á við. Með útvarpsráð á bakinu, stjórnmálamenn, embættismenn, hagsmunasamtakafólk og ég veit ekki hvað. Meira að segja lífeyrissjóðakóngar og -drottningar hringdu stundum með ábendingar, athugasemdir, spurningarog jafnvel skammir. Ég gæti skrifað heila bók eða bækur um alla þessa skelfilegu hryðjuverkastarfsemi en áttaði mig ekki á efninu sem ég á í þann texta - fyrr en bersöglismál skreytinnar sjónvarpsstjörnu opnuðu mér nýja sýn. Henni sé lof og prís.


Mán 30. mars 2009

Hótanir lífeyrissjóðsmanna

í kjölfar frétta Morgunblaðsins af sukkinu sem virðist hafa viðgengist hjá yfirmönnum lífeyrissjóðanna er líklega rétt af mér að upplýsa núna um samskipti mín við þessa valdaklíku.Í viðtali við Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra í Íslandi í dag 22. desember spurði ég hann hvort hann vissi til þess að lífeyrissjóðsmönnum hefði verið mútað. Sjá hér: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=0d9951ac-6680-451a-8b3b-9e0e8a6d5d77.Eftir þetta viðtal fóru alls konar varðhundar af stað. Ég fékk fleiri en einn tölvupóst frá almannatengslaskrifstofu, þar sem reynt var að ,,terrorisera" mig og fá mig til að hætta að fjalla um þessi mál. Daginn eftir viðtalið fékk ég símtal frá ónefndum yfirmanni í lífeyrissjóði sem spurði mig orðrétt: ,,hvernig ætlar þú að koma þér út úr þessu?". Ég svaraði því til að ég þyrfti ekki að koma mér út úr neinu, enda væri það mitt hlutverk að spyrja spurninga. Eftir smástund var samtal mitt við þennan mann farið að snúast um skilgreiningu á mútum. Í hans huga var það í góðu lagi að þiggja utanlandsferðir, hótelgistingar á lúxushótelum, laxveiðiferðir og annað í þeim dúr. Þetta eru mennirnir sem sáu um að geyma lífeyri landsins.Því miður náði ég ekki að fylgja þessu máli eftir, enda var ég rekinn af Stöð2 rúmri viku síðar.

 -----Original Message-----
From: Atli Rúnar Halldórsson - Athygli [mailto:atli@athygli.is]
Sent: Mon 12/22/2008 8:37 PM
To: Sölvi Tryggvason
Subject: um mútuþægni og lífeyrissjóði

Blessaður og sæll:

Ég var að hlusta á ljómandi gott viðtal þitt við forsætisráðherra þar sem
m.a. kom fram að hann ætlaði ekki að stokka upp ráðherraliðinu - sem er þá
skúbb og til hamingju með það! Ekki minni tíðindi komu fram í spurningu frá
þér um að einhverjir lífeyrissjóðamenn hefðu þegið mútur og það væri meira
að segja altalað. Kann vel að vera að þetta sé altalað en ég hef ekki heyrt
þetta fyrr og finn í fljótu bragði ekki umfjöllun þar að lútandi í
fjölmiðlum. Er þetta ákveðið mál og hefur verið fjallað um það einhvers
staðar?? Ég hef aðeins komið nálægt verkum fyrir Landssamtök lífeyrissjóða
frá því í sumar og kíkt undanfarið inn á kynningarfundi einstakra sjóða
vegna tjóns þeirra í bankahruninu. Hvergi hefur þetta mútumál borið á góma
og því varð mér einfaldlega á að hugsa í kvöld: Hef ég misst af einhverju í
umræðunni undanfarið og hvar er þann þráð að finna? Ekki trúi ég að þú berir
spurningu af þessu tagi fram án þess að hafa býsna skotheldar heimildir
fyrir því sem er ,,altalað" eða hvað?
 Með kveðju,
-arh
  

Sæll og bless

Spurningin var mjög klaufalega orðuð og ég var ósáttur við hana...
Ég hef mjög öruggar heimildir fyrir þessu. Hins vegar hefur ekki verið gerð
frétt um þetta og þess vegna átti ég alls ekki að segja það altalað. Spurningin
var þar af leiðandi klúðursleg, en eftir stendur að ég hef fleiri en einn og fleiri en
tvo mjög góða heimildamenn fyrir þessu, sem gengdu þannig störfum að ég verð
að hlusta á þá, auk þess sem allt sem komið hefur úr einni af þessum áttum til mín
um bankahrunið hefur reynst rétt. Semsagt heimildirnar eru mjög góðar, en spurngin
var mjög léleg.


með bestu kveðju
Sölvi
 

Sæll aftur og takk: 

Þá veit ég það! Nú bíð ég bara í vaxandi spennu eftir að viðkomandi verði leiddir fram á völlinn og ef mútuþægni sannastá einhverja í slíkum trúnaðarstörfum eiga þeir auðvitað að fá málagjöld í samræmi við  eins og aðrir sem brjóta af sér. Það er ekki flókið. Ég tók eftir því að í spurningu til Geirs H. kom fram að lífeyrissjóðaforingjar hefðu sloppið of billega við gagnrýni og skammir eftir bankahrunið. Það kann að virðast svo en þá er við fjölmiðlafólk að sakast en ekki lífeyrissjóðamenn!  Fulltrúar þeirra sátu til dæmis fyrir svörum á baráttufundi í Háskólabíói á dögunum og áttu orðaskipti við fundarmenn sem skiluðu sér lítið sem ekki neitt til almennings. Svo hafa flestir ef ekki allir stóru lífeyrissjóðirnir efnt til kynningarfundar undanfarnar vikur og þar hefur á sumum verið afar heitt í kolum. Ég veit að Mogginn var á fundi fyrsta sjóðsins sem var með svona kynningu en fjölmiðlarnir hafa annars af einhverjum stórdularfullum ástæðum látið þessar samkomur fram hjá sér fara. Þarna vantar ekki fréttirnar heldur fólk til að flytja þær! -arh

 Líffræðilegur og orðfræðilegur eftirmáli:

Sveitungi minn hafði samband og rifjaði upp að í Svarfaðardal hafi skrökgjarnir menn um aldir verið flokkaðir í lygna og hraðlygna. Lygnir væru þeir sem skrökvuðu meðvitað en hraðlygnir þeir sem skrökvuðu án þess að vita af því sjálfir og kynnu engin skil á því hvenær þeir segðu satt og hvenær ekki. Sveitunginn bætti því við að jafnan væri mest mark takandi á þeim hraðlygnu á morgnana en þegar liði á daginn færu þeir að skreyta frásagnir sínar æ meira og við náttmál drægist tæpast upp úr þeim satt orð. Hann velti fyrir sér af því tilefni hvernig þeir, sem hraðljúga fyrir klukkan átta að morgni og það í sjálfu útvarpi allra landsmanna, verða þegar komið er fram yfir hádegi, hvað þá fram á kvöld. Ekki fær hann svar við spurningunni hjá mér en vissulega gæti verið áhugavert fyrir Kára hjá Íslenskri erfðagreiningu að fara í málið og kortleggja skrökgenaflóruna á landi hér. Lygarannsóknir eru ekki vitlausari hugmynd en ýmislegt sem brallað er í heimi vísindanna. Þær gætu meira að segja beintengst rannsóknum á bankahruninu og tilheyrandi skandölum. Þar hljóta nefnilega margir að koma við sögu sem hraðljúga eða kríta liðugt líkt og morgunstjarnan okkar.


1-0 fyrir íhaldið í áróðursstríðinu

Sjálfstæðisflokkurinn hafði betur í fyrstu lotu áróðursstríðs í eftiráskýringum á því að ríkisstjórnin sprakk í gær. Sjálfstæðisforystunni tókst að gera það býsna trúverðugt út á við að Samfylkingin hefði sett sér kosti sem hún vissi fyrirfram að ekki yrði gengið að og því hafi farið sem fór - sum sé að heimta forsætisráðuneytið. Samfylkingin segir á móti að íhaldið hafi ekki viljað fórna Davíð og samstarfið því farið til fjandans.  Menn spyrja sig hins vegar unnvörpum um land og mið: Lá nú ekki fyrir strax í október að einhverjir þyrftu að hirða pokana sína vegna bankahrunsins, í Seðlabankanum og við sjálft ríkisstjórnarborðið? Skárra hefði nú verið að fráfarandi stjórn hefði lafað til kosninga en fyrst hún hékk ekki saman á límingunum er ekki um slíkt að tala. Nú virðist blasa við að tími Jóhönnu Sig. sé loksins kominn og það svo um munar. 


Í morgunfréttum Útvarpsins var talað  um að næsta skref Bessastaðahöfðingjans yrði að kalla á Ingibjörgu Sólrúnu til að veita henni umboð til stjórnarmyndunar. Það væri nú einkennilegur framgangsmáti í ljósi þess að Samfylkingarformaðurinn hefur bæði opinberlega og í viðtali við forsetann einmitt sagst ekki ætla að mynda ríkisstjórn. Ætli sé ekki sennilegra að á ákveðnum tímapunkti hafi formenn Samfylkingar, VG og Framsóknar tal af forseta og ,,bendi á" Jóhönnu, sem þá fái formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Kristján Eldjárn bjó á sínum tíma til stjórnmálaformannasirkus með því að veita þeim öllum samviskusamlega umboð til stjórnarmyndunar - líka foringjum sem fyrir lá að engum árangri myndu ná í þeim efnum. Núverandi forseti hefur ekki beinlínis lagt sig eftir að tileinka sér vinnulag fyrirrennara sinna og litlar líkur eru því á að hann fari að veita stjórnmálaforingja umboð til stjórnarmyndunar sem lýst hefur því skilmerkilega yfir að vilji ekki fá slíkt umboð!

 Eins og staðan er núna blasir helst við minnihlutastjórn Jóhönnu.  Stjórnarflokkarnir og verndarar þeirra (Framsókn og ef til vill frjálslyndir líka) stuðla þar með í leiðinni að því að sjálfstæðismenn nái vopnum sínum, auki eitthvað við fylgið og komist með færri skrámur gegnum þingkosningarnar en í stefndi áður. Framsókn bætir við fylgið frá því í síðustu kosningum en Samfylkingin lendir í basli. Ný framboð Austurvallar- og Háskólabíóshreyfinga taka kúfinn af fylginu sem VG mælist nú í könnunum. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda ríkisstjórn eftir kosningar og Már Guðmundsson verður þá orðinn Seðlabankastjóri.  Trúbadorinn á Austurvelli byrjar að undirbúa næstu plötu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn minnir á að niðurskurður fjárlaga ríkisins árið 2010 verði að vera lágmark 36 milljarðar króna en ekki 26 milljarðar, eins og sjóðurinn hafði mælt fyrir um í janúar 2009.

Hafís verður landfastur við Norðurland sumarið 2010. Amen.


Davíð dýrkeypti

Geir H. Haarde valdi of ódýra leið í skýringum falli ríkisstjórnarinnar á fréttamannafundi í Alþingishúsinu áðan. Vissulega má til sanns vegar færa að Samfylkingin hafi verið í tætlum, eins og forsætisráðherra orðaði það, og vísaði til uppreisnar innanbúðar í samstarfsflokknum í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar í síðustu viku. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort forysta sjálfstæðismanna hefði ekki staðið í öðrum sporum nú ef hún hefði lesið betur í stöðu og strauma í október og nóvember. Fyrir lá nefnilega strax í október að enginn friður yrði í landinu fyrr en að minnsta kosti lykilráðherrar segðu af sér og hreinsað yrði til í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Mótmælin á Austurvelli frá því Alþingi kom saman úr jólapásunni og óróinn í Samfylkingunni urðu til að hraða óumflýjanlegri atburðarás. Foringjar sjálfstæðismanna vildu upp til hópa horfa fram hjá því að drastískar aðgerðir þyrftu til að koma, ekki síst að Davíð og Seðlabankaforystan yrði að fjúka til að róa liðið. Kannski lögðu þeir einfaldlega ekki í að hrófla við foringja sínum fyrrverandi á Seðlabankakontórnum. Davíð varð flokknum sínum dýrkeyptur.

Hvað tekur nú við? Samfylkingin virðist hafa sett sjálfstæðismönnum kosti sem fyrir fram var vitað að þeir myndu ekki ganga að. Samfylkingin vildi því komast úr þessu pólitíska hjónabandi. Trúlegt er að hún og vinstri-grænir komi sér saman um minnihlutaríkisstjórn fram að kosningum og Framsókn verji hana vantrausti.

Fráleitt er að stjórn allra flokka, svokölluð þjóðstjórn, sé nærtæk hugmynd nú og reyndar ætti kalt vatn að renna á milli skinns og hörund landsmanna þegar stjórnmálamenn tala um eitthvað sem þeir ætli sér að gera í nafni allrar þjóðarinnar. Sama hvaða stjórnarandstaða er máttlaus og lánlaus þá er mun geðslegri hugsun að hafa þó einhverja stjórnarandstöðu en alls enga á Alþingi, hvort heldur væri til skemmri eða lengri tíma. Minnihlutastjórn er miklu álitlegri kostur og raunar hefðu íslenskir stjórnmálamenn afar gott af því að búa við minnihlutastjórnarfar næstu árin þar sem ríkisstjórn semdi til hægri og vinstri um framgang stefnumála sinna. Sterk minnihlutastjórn er mun ákjósanlegri kostur en veik meirihlutastjórn. Fráfarandi ríkisstjórn skorti ekki meirihluta á Alþingi en samt kom á daginn að hún var máttfarin og veikburða þegar á reyndi til að fást við risavaxið verkefni: þjóðargjaldþrot í kjölfar bankahruns - hvorki meira né minna. 

Utanþingsstjórn er fráleitasta og vitlausasta hugmyndin af öllum sem heyrst hafa undanfarna daga en meira að segja sprenglærðir spekingar í stjórnmálafræði ræða samt fjálglega, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að nærtækt sé ífyrir forseta Íslands að setja Alþingi í raun af með því að lyfta einhverjum embættisjálkum upp í ráðsterrastóla. Utanþingsstjórn er nokkuð sem tala um ef allt stjórnmálakerfi landsins er í klessu og Alþingi reynist með öllu ófært um að koma saman ríkisstjórn af einhverju tagi. Stjórnmálafræðispekingarnir voru hins vegar byrjaðir að tala um slíkt embættismannaveldi í Stjórnarráðinu löngu áður en ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá í dag og töluðu af furðumikilli léttúð um þennan möguleika. Ætli sé nú ekki best að láta reyna fyrst á þá kosti sem í stöðunni eru áður en þingræðisstjórnarfyrirkomulaginu verður varpað fyrir borð?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband