Hvað eru þrenn Hvalfjarðargöng á milli vina?

Mér brá eins og fleirum þegar Stöð tvö flutti þær fréttir í gærkvöld að einn af stærstu lífeyrissjóðunum í landinu hefði tapað 60 milljörðum króna á síðasta ári. Það voru að sönnu ekki ný tíðindi að lífeyrissjóður hefði tapað miklum fjármunum í efnahagshruninu en þessi tala var himinhátt fyrir ofan allt sem áður hafði heyrst í þeim efnum frá einum sjóði á árinu 2008.

Þegar að var gáð kom í ljós að hér var ekki allt sem sýndist. Í nýjum ársreikningi  Gildis kemur nefnilega skýrt fram að hrein eign sjóðsins hafi rýrnað um ríflega 29,3 milljarða króna árið 2008 og að tap af fjárfestingum hafi verið 34, 2 milljarðar króna. Þetta var með öðrum orðum tapið á Gildi, 34,2 milljarðar króna, og býsna sennilegt að öllum sem málið varðar þar á bæ þyki afkoman nógu slæm í veruleikanum þó ekki sé nú bætt við heilum 26 milljörðum króna til að koma tölunni alla leið  upp í 60 milljarða króna! Þarna er með öðrum orðum skrökvað tapi upp á Gildi sem svarar til meira en þriggja Hvalfjarðarganga á núvirði og munar um minna –  jafnvel nú á síðustu og verstu Icesave-tímum.

Nú veit ég ekki hvernig þessi 60 milljarða króna taptala er tilkomin í fréttinni umræddu en leyfi mér að giska á að svar við þeirri spurningu sé að finna á blaðsíðu 19 í ársreikningi Gildis. Þar er birt tryggingafræðileg úttekt á Gildi og heildarstaða sjóðsins er þar metin neikvæð um 59,6 milljarða króna. Líkast til eru þarna komnir 60 milljarðirnir sem var efni í fréttauppsláttinn um aðalfundinn. Tryggingafræðileg staða er hins vegar allt önnur Ella en rekstrartap.

Þarna er með öðrum orðum verið að meta núverandi stöðu sjóðsins til framtíðar miðað við að honum hefði verið lokað um síðustu áramót og engir nýir sjóðfélgar teknir inn eftir það. Þeir sem í sjóðnum væru greiddu hins vegar áfram iðgjöld sín og raunávöxtun fjármunanna væri að meðaltali 3,5% á ári, eins og lög kveða á um.  Sjóðurinn myndi síðan standa undir því sem honum er ætlað að standa gagnvart sjóðfélögum þar til yfir lyki.

Þetta er þannig reiknuð framtíðarþróun eftir formúlu tryggingarstærðfræðinnar og aldeilis fráleitt að slá heildarskuldbindingu upp í frétt sem rekstrarniðurstöðu á síðasta ári! Hins vegar hefði Stöð tvö getað notað 60 milljarðana í mínus til að skýra ástæðuna fyrir því að þessi tiltekni lífeyrissjóður ætlar að skerða lífeyrisréttindi um 10% vegna þess að eignir hans hafa rýrnað. Staða sjóðsins er þannig sú að 13% vantar upp á að eignirnar standi undir heildarskuldbindingum og samþykktir sjóðsins og landslög mæla fyrir um að ef 10% vanti þar upp á verði að bregðast við. Þau vikmörk voru að vísu hækkuð til bráðabirgða upp í 15% vegna ársins 2009 en stjórn Gildis taldi hins vegar eðlilegt að lækka réttindin strax frekar en að bíða með það fram á næsta ár. Fleiri sjóðsstjórnir eru sama sinnis.


Vel má vera að viðmælandi Stöðvar 2, sjóðfélagi á ársfundinum, hafi misskilið ársreikninginn sinn svona svakalega og vitleysan ratað áfram út á öldur ljósvakans. Ágæt vinnuregla í fréttamennsku er hins vegar að „tékka sig af“ og sannreyna í sjálfum aðalfundargögnunum að rétt sé farið með grundvallaratriði af þessu tagi. Nóg er nú af erfiðleikum og fári í umhverfinu og í fréttum þótt  tap á ágætum lífeyrissjóði sé ekki aukið út í loftið um 75%!


Ég hugsa að Ari Edwald, forstjóri 365, myndi ekki þakka fréttastofunni sinni fyrir að nota sömu formúlu til að segja þjóðinni frá afkomu hins geðþekka fjölmiðlafyrirtækis sem rekur Stöð 2. Meira segja þar á bæ hlýtur að muna um keppi upp á meira en hálfan þriðja tug milljarða króna í sláturtíðinni.


Skrítnar skepnur í pólítík

Eitthvað meira en lítið þarf að gerast á næstu sólarhringum til að breyta því pólítíska landslagi sem við blasir: að kjósendur dubbi núverandi minnihlutastjórn upp í meirihlutastjórn á laugardaginn kemur.  Spurningin er frekar sú hvor flokkurinn verður stærri þegar upp er staðið. Hluti þess fólks sem kýs stjórnarflokkana er á móti stefnu þeirra í veigamiklum atriðum en kýs þá samt. Þetta er þverstæða en  stafar annars vegar af því að kjósendur eru á stundum skrítnar skepnur en hins vegar af sérstæðum aðstæðum í þjóðlífinu nú. Ég hefi til dæmis hitt á förnum vegi fólk sem veltir fyrir sér að kjósa vinstri græna en er fylgjandi álverum í Helguvík og Húsavík. Það gerir sér grein fyrir því að flokkurinn er þversum í stóriðjumálum en spáir samt í að greiða honum atkvæði! Ég hef líka hitt fólk á förnum vegi sem getur hugsað sér að kjósa annan hvorn stjórnarflokkinn þó það sé algjörlega andvígt yfirlýstri stefnu flokkanna um að ríkisvæða sjávarútveginn með fyrningu aflaheimilda en spáir samt í að greiða þeim atkvæði!


Þetta er birtingarmynd fyrirbæris sem kalla má stemningu og oft verður vart við í kosningabaráttu. Nú um stundir njóta Samfylkingin og vinstri grænir góðs af stemningu, einkum síðarnefndi flokkurinn. Enn ein mótsögnin er reyndar sú að ríkisstjórnarflokkar búi við stemningu í aðdraganda kosninga, oftar er stjórnarandstaða í slíkri stöðu eðli máls samkvæmt.


Samfylkingunni virðist, merkilegt nokk, ekki vera refsað fyrir að vera í ríkisstjórn í efnahagshruninu. Framsóknarflokkurinn virðist, merkilegt nokk, ekki njóta þess að hafa ekki verið í ríkisstjórn í hruninu og hann nýtur þess heldur ekki að hafa haldið á ríkisstjórninni undir skírn. Það stefnir í að Sjálfstæðisflokkurinn einn taki út refsingu fyrir hrunið og stóra spurningin er hve stór skellurinn verði. 


Hvers vegna kýs fólk flokka sem það er jafnvel ósammála í meginatriðum þegar flett er upp í stefnuskrám þeirra?  Núna er nærtækt að nefna formenn ríkisstjórnarflokkanna til að skýra fylgið sem flokkunum þeirra mælist núna. Jóhanna og Steingrímur J. hafa lengsta stjórnmálareynslu allra á Alþingi og það skilar þeim greinilega fylgi langt út fyrir raðir kjósenda sem í hjarta sínu eru hugmyndafræðilegir samherjar foringjanna tveggja í pólítík!  Þetta er svo sem vel þekkt. Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsta sigra í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík forðum undir forystu Davíðs Oddssonar og víst er að drjúgur stokkur af atkvæðum var dreiddur D-listanum fyrst og fremst út á Davíð en ekki pólitík flokksins. Mikil stemning skapaðist í kringum Reykjavíkurlistann þegar hann kom fyrst fram í borgarstjórnarkosninum og hafði áhrif á kjósendur sem annars hefðu kosið D-listann. Steingrímur Hermannsson höfðaði til kjósenda langt út fyrir Framsóknarflokkinn, Jón Baldvin Hannibalsson og Vilmundur Gylfason höfðu að sama skapi persónuleg áhrif langt út fyrir raðir yfirlýsra jafnaðarmanna.

Steingrímur J. Sigfússon hefur náð á undraskömmum tíma að skapa sér landsföðurímynd sem dregur vagn vinstri grænna í þessum kosningum langt umfram stefnu og starf flokksins. Ímyndin er sterkt afl og þau Jóhanna mynda pólítískt par sem sankar „nýjum“ atkvæðum að Samfylkingunni og vinstri grænum. Yfirgnæfandi líkur eru á að fjöldi þessara „nýju “ atkvæða komi frá fólki sem treystir forystumönnum flokkanna en er á móti sumum eða jafnvel flestum af helstu stefnumálum flokkanna þeirra! Þannig er það nú bara.

Pólítík er skrítin skepna.


Gjaldeyrissjóðurinn lúrir á láni vegna ,,óróa í stjórnmálum"!

Sjónvarpið birti í kvöld frétt sem staðfestir þann orðróm sem uppi er í Stjórnarráði Íslands og vikið var að á þessum vettvangi fyrir helgina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lúrir sum sé á láni sem hefði að öllu eðlilegu átt að vera búið að skila sér til íslenska ríkisins. Fulltrúi sjóðsins talaði annars vegar um það hefði dregist af „tæknilegum ástæðum“ að koma peningunum til skila, sem út af fyrir sig er forvitnilegt að heyra. Tækni hvað? Bilun í heimabanka? Hins vegar var nefndur til sögunnar „órói í stjórnmálum“. Halló! Stjórnmálaórói?! Hvað skyldi það nú nákvæmlega þýða?

Fréttastofu Ríkisútvarpsins þótti yfirlýsing talsmanns Gjaldeyrissjóðsins ekki merkilegri en svo að hún komst ekki í yfirlit kvöldfréttanna. Gott fyrir stjórnmálaflokkana. Þeir vilja örugglega tala um eitthvað skemmtilegra en aðfinnslur og þrýsting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar til háttvirtir kjósendur eru komnir og farnir úr kjörklefanum á laugardaginn.

Einhvern tíma hefði nú orðið hvellur af minna tilefni en ummælum Franeks þessa Rozwadowskis. Hann var að vísu ekki sérlega orðmargur en ófáar voru þær semt spurningarnar sem hrúguðust upp við að hlýða á.


Af 20% leiðréttum bröns

Komin er mynd af manni á strætóskýlið efst á Grensási og flenniskilaboð með: 20% leiðrétting.  Þaut þar fram hjá áðan á heimleið úr Egilshöll og þarf að kanna málið betur vikð tækifæri á hægri ferð eða fótgangandi. Grunar að þarna sé Framsóknarflokkurinn á ferð með undarlegasta slagorð kosningabaráttunnar. Í framsóknarblaði sem borið var í hús í Fossvogi á dögunum, var mikið leiðréttingatal. Það á víst bæði að leiðrétta lán og skuldir. Leiðrétta?? Leiðrétta hvurn andskotann? Lán eru bara lán og skuldir eru bara skuldir. Skuldir aukast eða minnka eftir atvikum. Ef menn vilja minnka skuldir með einhverjum kúnstum á bara að segja það þannig. Hugtakið „leiðrétting“ kemur málinu ekkert við. Ekki nokkurn skapaðan hlut.


Verkalýðs foringja og fjölmiðlafólk með rýra máltilfinningu hafa oft og lengi tuðað um „leiðréttingu“ launa og kjara hópa á vinnumarkaði og á þá við það sem venjulegt fólk talar um sem kjarabót eða kauphækkun.  Meira að setja forseti Alþýðusambandsins talar um að „leiðrétta“  þurfi hitt og þetta þegar ég held hann eigi við að bæta þurfi kjör eða hækka kaup. Og nú kemur Framsóknarflokkuri nn og vill „leiðrétta“ heimilisskuldir landsmanna! Hvað kemur næst? 


Eina leiðréttingin sem þörf er á er að setja forystusveitir verkalýðsins og Framsóknar  á móðurmálsnámskeið og það sem fyrst. Þá er von um að frá þeim geti komið sæmilega skiljanleg og skýr skilaboð.


Á dögunum blasti við mér auglýsing í Morgunblaðinu þar sem mér var boðið í „bröns“ hjá Sjálfstæðisflokknum.  Bröns?? Ég hafði satt að segja ekki græna glóru um hvað þarna bauðst. Þarna var greinilega eitthvað sem allir áttu að þekkja og kunna. Allir nema ég en ég þorði ekki að spyrjast fyrir. Maður gerir sig nú ekki að fífli að þarflausu. Nóg er nú samt.


Mér flaug reyndar fyrst í hug að þarna væri prentvilla og ætti að vera brons, málmblandan úr kopari og tini sem notuð er í verðlaunapeninga fyrir þriðja sæti í íþróttum. Daginn áður hafði nefnilega verið birt niðurstaða skoðanakönnunar um pólítíska landslagið á landinu og Sjálfstæðisflokkurinn var þar í þriðja sæti. Sem sagt:  Má bjóða þér í brons(verðlaunaveislu)? Hljómaði þokkalega en að mér settist samt innri beygur, eðlislægur úr sveitinni.  Þetta gat svo sem verið bröns eftir allt saman.

Svo horfði ég betur á auglýsinguna. Gestgjafarnir voru þrír virðulegir forystumenn sjálfstæðismanna: Illugi og Guðlaugur Þór, framboðsleiðtogar í Reykjavíkurkjördæmunum (og ég sem man aldrei hvort ég er kjósandi í suður eða norður). Svo var með þeim Bjarni Ben, leiðtoginn fyrir landið og miðin. Bara karlar, sum sé. Var þarna komin kynjavísbending til að ráða gátuna? Var þetta einhvers konar samkunda ætluð körlum eingöngu og þá af kynþætti brönsmanna?


Samstundist laust ljóslifandi niður í kollinn l minnismiðanum sem sonurinn Helgi Hannes kom með heim úr Fossvogsskóla daginn áður:  Feðgafræðsla fyrir 11-12 ára drengi og feður þeirra, afa eða karlkyns forráðamenn, „afar mikilvægt námskeið fyrir unga drengi sem bráðum verða menn“ stóð þar. Ennfremur: „Námskeiðið er stranglega bannað stúlkum olg er alls ekki fyrir mömmur nema í undantekningartilvikum.“ Að vísu þótti mér ekki sennilegt að sjálfstæðismenn væru að bjóða körlum á kosningaaldri til sín að velta vöngum yfir typpum og kynþroska, ekki nema þá að flokkurinn teldi sig svo illa farinn að byrja þyrfti alveg á byrjuninni í uppbyggingarstarfinu og pæla í  gegnum kviknun lífs á jörðu, neðanmittisföndur Adams og Evu í aldingarðinum og samskipti kynja í höfuðborg Íslands að fornu og nýju. Líklegra var að Bjarni, Illugi og Guðlaugur Þór vildu frekar ræða kjörþroska en kynþroska karlmanna án þess að hafa konur í kallfæri á meðan. Innri beygurinn gerði samt enn vart við sig.


Neyðarúrræðið í brönsraunum var að hefja leit í orðabókasafni heimilisins. Sjaldan bregðast orðabækur þegar á reynir. Viti menn, fljótlega fann ég hugtakið bröns í skruddu sem hefur að geyma skýringar á ýmsum torkennilegum orðum og hugtökum í bókum eftir Laxness:  árdegisverður. Það var og. Sjálfstæðismenn voru að bjóða kjósendum í hádegissnarl! Og ég sem hafði lagt svo hart að mér við að brjóta heilann yfir brönsinum í Moggaauglýsingunni að kallaði á vel útilátinn hádegismat til að hafa áfram orku til rannsóknanna.

Ég var sum sé vel haldinn og bærilega saddur þegar lausnin datt yfir mig úr orðabókinni.  Þess vegna mætti ég ekki í bröns hjá sjálfstæðismönnum. Í staðinn ætla ég að mæta á feðganámskeiðið í Fossvogsskóla og læra að brúka typpið til annarra hluta en pissa. Það er nú kominn tími til að fræðast um sjálf grunngildi lífsins. Sjálfstæðisforingjar vita örugglega allt um typpi sem þörf er á að vita en þegar þeir bjóða mér næst í mat er einfaldast að fara bara einföldu leiðina og tala íslensku. Til þess er hún. Ég mæti í það minnsta hvorki í bröns né brons.


Hin æpandi þögn um Gjaldeyrissjóðinn

Í Stjórnarráði Íslands er orðrómur uppi um að hinn almáttugi Alþjóðagjaldeyrissjóður hafi tilkynnt ríkisstjórninni, í það minnsta óformlega, að stjórnvöld fylgi ekki nægilega vel eftir endurreisnaráætluninni sem þau voru tilneydd að samþykkja í vetur og því verði haldið eftir lánum þar til úr hafi verið bætt. Það fylgir sögu að Gjaldeyrissjóðsmönnum lítist ekki á blikuna í fjármálum ríkisins og vilji að stjórnvöld þjarmi ögn betur að þegnum sínum með því að setja á og herða mjög niðurskurðar- og skattheimtuskrúfur og það strax.

Ég spurði þá sem orðróminn bergmála hverju það sætti að slíkt stórmál væri ekki dregið fram í dagsljósið í pólitískri umræðu, ef satt væri á annað borð, og fékk efnisleg svör:

,,Pólitíska kerfið í heild ber ábyrgð á samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og áætlanir honum tengdum. Pólitíska kerfið hefur ekki hag af því að ræða þetta fyrir kosningar, hvorki stjórnarflokkarnir né stjórnarandstaðan. Flokkarnir vilja ekki rugga bátum háttvirtra kjósenda með því að ræða kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvernig bregðast skuli við. Þegjandi samkomulag eru um að ýta slíkum leiðindum á undan sér þar til kjörklefunum hefur verið lokað og kastljós kynningarfunda í sjónvarpssal hafa verið slökkt. Aðgerðirnar sem grípa þarf til, svo fullnægt verið hákörlum sjóðsins, eru svo rosalegar að stjórnmálamennirnir voga ser ekki út í að viðra þær fyrr en þingkosningar eru afstaðnar. Þess vegna er ríkir þessi æpandi þögn um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í kosningabaráttunni."

Í Morgunblaðinu í dag, 18. apríl, er frétt á blaðsíðu 31 sem kannski skýrir þögnina. Fyrirsögn: Gjaldþrot vofir yfir Lettlandi - hefur ekki uppfyllt kröfur AGS. Í fréttinni stendur m.a. um stjórnina í Lettlandi og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn:

Stjórnin hefur þegar fengið 269 milljarða króna af láninu en fékk hins vegar ekki 33,5 milljarða  milljarða króna lán afgreitt frá sjóðnum nýverið með þeim rökum að hún hefði ekki fylgt áætlun hans nægjanlega vel eftir.

Meginkröfur sjóðsins er að skorðið verði verulega niður í ríkisútgjöldum og greindi Einars Repse, fjármálaráðherra landsins, frá því í fyrradag að flest benti til að stjórninni myndi ekki takast að uppfylla skilyrði fyrir 285 milljarða króna væntanlegu láni frá sjóðnum nema henni tækist að draga úr útgjöldum um 40 prósent til viðbótar frá fyrri niðurskurði.

 


Bláfjallapáskar

2009_blafjoll2.jpgPáskafríið er samfelld sælutíð fyrir þá sem vilja og geta notið dýrðarinnar í skíðalöndum Reykvíkinga, Bláfjöllum. Aldrei verður gengið að því sem gefnum hlut að veður og færi séu eins og best verður á kosið alla þessa frídaga en þannig verður það í ár.

2009_blafjoll1.jpgHið eina sem klikkar eru lyfturnar einmitt þegar mest á reynir. Sú nýjasta, stólfalyftan fína í Kóngsgili,  bilaði í gær og var aldveg úr leik í dag. Önnur diskalyftan ofan við Ármannsskálann var úr leik stóran hluta dags í dag vegna bilunar og tengilyftan við Framsvæðið hreyfðist hvorki í gær né í dag. Þegar mannmargt er í fjallinu verða biðraðir að vonum langar við þær lyftur sem brúkhæfar þegar sú afkastamesta í Kóngsgili biluð. Samt gekk lífið sinn gang en vitaskuld er skemmtilegra að verja tímanum í brekkum en í biðröðum niðri á jafnsléttu.

Séra Pálmi Matthíasson hélt uppteknum hætti og efndi til helgistundar við Bláfjallaskálann kl. 13 eins og hann hefur gert alla páskadaga frá árinu 1990. Hann var með söngfólk og undirleikara með sér og þessi samverustund er orðin hluti af tilveru margra Bláfjallagesta um páska. Reyndar er það svo að sumir koma eingöngu í Bláfjöllin á páskadegi til að hlýða á séra Pálma og dæmi reyndar um fólk sem sækir þessa helgu stund um langan veg. Þannig var þarna kona í dag sem kvaðst hafa komið alla leið frá Kaliforníu til að fá andlega páskaupplyftingu þarna við skíðaskálann. Bláfjallasókn er því farin að teygja sig um lönd og álfur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hádegissnarl við Bláfjallaskála á föstudaginn langa og viðgerð á diskalyftu á páskadag (efri mynd)


Upprisa Vinnslustöðvarinnar í Eyjum

Það rifjaðist upp fyrir mér í lyftu á leið upp í skíðabrekkurnar í Bláfjöllum í morgun að fyrir réttum tíu árum, á föstudaginn langa 1999, skrifaði ég drög að fréttatilkynningu fyrir Geir Magnússon, þáverandi stjórnarformann Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þeim texta gleymi ég ekki því þar var var sagt að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að segja upp öllum starfsmönnum þess í Eyjum og í Þorlákshöfn, alls 320 manns, endurráða hluta þeirra í Eyjum en hætta allri starfsemi í Þorlákshöfn.

Vinnslustöðin var með öðrum orðum komin á hliðina vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika. Stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækisins réðu ráðum sínum frá morgni til kvölds í páskafríinu 1999 og höfðu aðsetur í fundarsal á efstu hæðinni að Suðurlandsbraut 14 í Reykjavík, þar sem voru höfuðstöðvar Olíufélagsins ESSO. Olíufélagið var á þeim tíma stór hluthafi í Vinnslustöðinni. Þarna hitti ég Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í fyrsta sinn, þá nýtekinn við starfi framkvæmdastjóra í þessu gamalgróna sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum sem í reynd var í andarslitrunum.  Mér kom nýi framkvæmdastjórinn fyrir sjónir sem hálfgerður stráklingur og fannst hann býsna svalur að taka við fyrirtæki á hausnum og byrja á að segja þar upp hverjum einasta manni! Hann virtist hins vegar hafa á hreinu hvað bæri að gera og hvernig og svo sannfærður var hann um að hægt væri að bjarga Vinnslustöðinni að það fór smám saman að virka sennilegt mitt í öllu svartnættinu. Geir stjórnarformaður hafði  áður sagt mér í símtali að hann treysti engum betur en Binna til að rétta fyrirtækið af og það fljótt. Nýi framkvæmdastjórinn fengi stuttan tíma til að sanna sig, ella yrði hann látinn taka pokann sinn!

Þegar á hólminn var komið ákváðu Vinnslustöðvarmenn að segja „bara“ upp 180 manns af alls 320 en nóg var nú höggið samt fyrir Eyjasamfélagið. Hefði nú heldur betur heyrst hljóð úr horni á höfuðborgarsvæðinu ef álíka margir hefðu misst vinnuna þar hlutfallslega á einu bretti.
 

Nú eru sum sé liðin tíu ár og Vinnslustöðin orðin eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Viðsnúningur í rekstrinum hefur verið ævintýri líkastur. Þar er mikið sagt en engu að síður bæði satt og rétt. Ég hef notið þeirra forréttinda að fylgjast nokkuð með Binna og öðrum í vaskri stjórnendasveit fyrirtækisins reisa fyrirtækið úr rústum og koma því í fremstu röð fyrirtækja í sinni grein og þó víðar væri leitað. Mér var nefnilega falið að sjá um að gefa nokkrum sinnum út ársreikninga Vinnslustöðvarinnar og þegar fyrirtækið varð sextugt í árslok 2006 tók ég þátt í að skrá og gefa út sögulega samantekt um það til dreifingar í hvert hús í Eyjum. Þegar afmælisins var minnst með veislu og myndasýningu Sigurgeirs Jónassonar varð ég sem betur fer veðurtepptur og skemmti mér með „fólkinu á gólfinu“ í VSV langt fram eftir nóttu. Minnisstæðust úr því samkvæmi eru ummæli starfsmanna sem sögðust áður hafa skammast sín fyrir að vinna hjá Vinnslustöðinni og logið til um vinnustað ef viðmælendur þeirra  spurðu hvað þeir gerðu. Nú var öldin hins vegar önnur og sama fólk sagðist vera stolt af vinnustaðnum sínum.

Oft hefur flogið að mér að viðskiptafræðideildir háskólanna ættu að fá Binna og aðra úr stjórnendateymi Vinnslustöðvarinnar til að fjalla um það í fyrirlestrum hvernig yfirleitt tókst að láta fyrirtækið rísa svo rækilega upp úr öskustónni á tiltölulega skömmum tíma. Og reyndar ætti sjálf ríkisstjórnin að panta námskeið hjá Vinnslustöðvarstjórunum og tileinka sér þá hugmyndafræði, áræðni, útsjónarsemi og agaðar rekstrarformúlur sem dugðu til að reisa fyrirtækið við. Ég treysti Binna miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að ráða Jóhönnu og Steingrími J. heilt í kreppulífróðrinum. Verkefnið sem menn stóðu frammi fyrir í Eyjum fyrir tíu árum var nefnilega ekkert minna en efnahagshrun á mælikvarða samfélagsins þar og kallaði á hreinræktaðar neyðarráðstafanir. 

Vinnslustöðin er sterkt fyrirtæki og ég sé í opnuviðtali sem Fréttir í Eyjum birtu við kappanm Binna í gær að fyrirtækið muni standa af sér kreppu og áföll í síld og loðnu en VSV og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum standi mun meiri ógn af svokallaðri fyrningarleið sem ríkisstjórnarflokkarnir aðhyllast (gert ráð fyrir að ríkið hirði ákveðið hlutfall aflaheimilda á ári og útdeili eftir einhverjum reglum enginn hvernig hvernig líta muni út).

Freistandi er að birta hér drjúgan kaafla úr viðtalinu í Fréttum því þar tekur framkvæmdastjórinn lesendur í kennslustund í fyrningarfræðum og vísar meðal annars til sauðfjárbúskaparins á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, æskuheimili fjármálaráðherrans, máli sínu til stuðnings!


Binni sér fáar eða engar jákvæðar hliðar við fyrningarleiðina og tekur sem dæmi vísindaverkefni sem Vinnslustöðin stendur að um veiðar og vinnslu á humri. Þar er takmarkið að ná sem mestri arðsemi út úr þeim 2.200 tonnum sem úthlutað er árlega.  „Sérstök skattlagning á sjávarútveg líkt ,og veiðigjaldið, dregur kraftinn úr sjávarútveginum og getu fyrirtækjanna til þróunar. Þau munu samt  hafa áhuga á að byggja upp verðmæta fiskistofna og bæta umgengni við fiskimiðin því mestu verðmæti sjávarútvegsins felast í stórum og heilbrigðum fiskistofnum.  Á því er enginn vafi. 

En fyrningarleiðin, þar sem ríkið tekur til sín aflaheimildir og býður upp eða ráðstafar til annarra en fyrir eru í greininni í nafni nýliðunnar, felur í sér skelfilegar og ófyrirséðar afleiðingar.  Tökum sem dæmi humarrannsóknir okkar þar sem við höfum ráðið skoskan doktorsnema, Heather Philp, til að skoða umgengni okkar við búsvæði humars, aldursgreina humar, ástæður skyr- eða mjölhumars og fleira.  Hún er þegar  búin að finna aðferð við aldursgreiningu humars, nokkuð sem enginn kunni hér á landi áður en er gríðarlega mikilvægt við stofnstærðarmat.  

Svo er annað. Veiðisvæðin humars eru mörg og aðskilin, allt frá Eldey austur að Hornafirði og er mjög misjafnt hvað þau gefa af sér á hverju ári.  Enginn veit hvort humarinn berst frá einu svæði til annars eða hvort humarinn er staðbundinn á sínum svæðum.  Þetta er Heather að rannsaka líka.  En eðlilega er mest sótt á þau svæði sem best gefa hverju sinni og þannig er er til vill allt of mikil sókn og óskipulögð á einstaka veiðisvæði sem leiðir til þess að afraksturinn er minni en annars gæti verið.  Heather hefur hugmyndir um að koma upp kerfi þar sem gefinn er út kvóti fyrir hvert svæði og að nýtingin verði eitthvað í líkingu við það hvernig bændur nýta slægjulönd sín af skynsemi og nærfærni.  Með því  móti náum við bestri nýtingu út úr stofninum, ekki bara nú heldur um alla framtíð.   

Um leið og við fáum þau skilaboð að hlutdeild í humarkvótanum sé ekki okkar til framtíðar  höfum við að sjálfsögðu ekki áhuga á rannsóknum sem varða framtíð humarstofnsins.  Ef við höfum humarkvótann einungis til 5 – 10 ára hugsum við um hvernig við fiskum sem mest á þeim tíma og náum okkar peningum sem hraðast til baka.  Um leið og fyrningarleið yrði tekin upp yrðu rofin tengsl framtíðarhagsmuna útgerðarfyrirtækjanna við stærð og heilbrigði humarstofnsins.  Engin ástæða  er til að leggja orku og fjármuni í þessar rannsóknir verði fyrningarleiðin farin.  Þá verður humarkvótinn tekinn af okkur í skömmtum sem verður til þess að stúta öllu sem heitir langtímasjónarmiðum í rekstri.  Þessi sjónarmið eru líka gríðarlega mikilvæg þegar kemur að því að markaðssetja afurðir eins og t.d. humar.  Það er einfaldlega þannig að langtímasjónarmiðin eru söluvara og auka  verðmæti. 

Þegar ég útskýri þetta fyrir kaupendum að humri svara allir einum rómi: „Þetta er auðvitað eina vitið!“   Í mínum huga er hér engin pólitík á ferðinni heldur nokkuð sem ég kalla heilbrigða skynsemi.  Allir sjá að skynsöm nýting fiskistofnanna er mikilvægasta mál sjávarútvegsins og um leið náttúrunnar og alls umhverfisins.  Hér fléttast því saman hagsmunir náttúrunnar, markaðarins, atvinnulífsins og þar með afkoma samfélaga á borð við Vestmannaeyjar.“


Binni tók annað dæmi sem ætti að standa Vinstri grænum  nærri en það eru Gunnarsstaðir í Þistilfirði þar semsegir að  fjölskylda flokksformannsins, Steingríms J. Sigfússonar, rekur eitt myndarlegasta fjárbú landsins. Og Binni ætti að vera nokkuð dómbær hvað teljist myndarbúskapur og hvað ekki, menntaður búfræðingur sjálfur! „Fjölskyldan á Gunnarsstöðum stendur mjög framarlega í kynbótum en ef fulltrúi ríkisins kæmi þar árlega í hlað,  tæki með sér 5- 10% fjárstofnsins af bæ og úthlutaði öðrum með rökum um réttlæti og auðveldari nýliðun í bændastétt, hvernig færi þá fyrir kynbótunum sem eru ætlaðar til langtíma í rekstrinum á Gunnarsstöðum? Með þessu móti væri auðvitað verið að búa til allt aðra hvata en þá sem miða að því að koma upp góðum sauðfjárstofni í Þistilfirði. Það er nefnilega eins í landbúnaði og sjávarútvegi að umhverfisvernd og eignarréttur fara saman.“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband