Þriðjudagur, 27. janúar 2009
1-0 fyrir íhaldið í áróðursstríðinu
Sjálfstæðisflokkurinn hafði betur í fyrstu lotu áróðursstríðs í eftiráskýringum á því að ríkisstjórnin sprakk í gær. Sjálfstæðisforystunni tókst að gera það býsna trúverðugt út á við að Samfylkingin hefði sett sér kosti sem hún vissi fyrirfram að ekki yrði gengið að og því hafi farið sem fór - sum sé að heimta forsætisráðuneytið. Samfylkingin segir á móti að íhaldið hafi ekki viljað fórna Davíð og samstarfið því farið til fjandans. Menn spyrja sig hins vegar unnvörpum um land og mið: Lá nú ekki fyrir strax í október að einhverjir þyrftu að hirða pokana sína vegna bankahrunsins, í Seðlabankanum og við sjálft ríkisstjórnarborðið? Skárra hefði nú verið að fráfarandi stjórn hefði lafað til kosninga en fyrst hún hékk ekki saman á límingunum er ekki um slíkt að tala. Nú virðist blasa við að tími Jóhönnu Sig. sé loksins kominn og það svo um munar.
Í morgunfréttum Útvarpsins var talað um að næsta skref Bessastaðahöfðingjans yrði að kalla á Ingibjörgu Sólrúnu til að veita henni umboð til stjórnarmyndunar. Það væri nú einkennilegur framgangsmáti í ljósi þess að Samfylkingarformaðurinn hefur bæði opinberlega og í viðtali við forsetann einmitt sagst ekki ætla að mynda ríkisstjórn. Ætli sé ekki sennilegra að á ákveðnum tímapunkti hafi formenn Samfylkingar, VG og Framsóknar tal af forseta og ,,bendi á" Jóhönnu, sem þá fái formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Kristján Eldjárn bjó á sínum tíma til stjórnmálaformannasirkus með því að veita þeim öllum samviskusamlega umboð til stjórnarmyndunar - líka foringjum sem fyrir lá að engum árangri myndu ná í þeim efnum. Núverandi forseti hefur ekki beinlínis lagt sig eftir að tileinka sér vinnulag fyrirrennara sinna og litlar líkur eru því á að hann fari að veita stjórnmálaforingja umboð til stjórnarmyndunar sem lýst hefur því skilmerkilega yfir að vilji ekki fá slíkt umboð!
Eins og staðan er núna blasir helst við minnihlutastjórn Jóhönnu. Stjórnarflokkarnir og verndarar þeirra (Framsókn og ef til vill frjálslyndir líka) stuðla þar með í leiðinni að því að sjálfstæðismenn nái vopnum sínum, auki eitthvað við fylgið og komist með færri skrámur gegnum þingkosningarnar en í stefndi áður. Framsókn bætir við fylgið frá því í síðustu kosningum en Samfylkingin lendir í basli. Ný framboð Austurvallar- og Háskólabíóshreyfinga taka kúfinn af fylginu sem VG mælist nú í könnunum. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda ríkisstjórn eftir kosningar og Már Guðmundsson verður þá orðinn Seðlabankastjóri. Trúbadorinn á Austurvelli byrjar að undirbúa næstu plötu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn minnir á að niðurskurður fjárlaga ríkisins árið 2010 verði að vera lágmark 36 milljarðar króna en ekki 26 milljarðar, eins og sjóðurinn hafði mælt fyrir um í janúar 2009.
Hafís verður landfastur við Norðurland sumarið 2010. Amen.
Mánudagur, 26. janúar 2009
Davíð dýrkeypti
Geir H. Haarde valdi of ódýra leið í skýringum falli ríkisstjórnarinnar á fréttamannafundi í Alþingishúsinu áðan. Vissulega má til sanns vegar færa að Samfylkingin hafi verið í tætlum, eins og forsætisráðherra orðaði það, og vísaði til uppreisnar innanbúðar í samstarfsflokknum í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar í síðustu viku. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort forysta sjálfstæðismanna hefði ekki staðið í öðrum sporum nú ef hún hefði lesið betur í stöðu og strauma í október og nóvember. Fyrir lá nefnilega strax í október að enginn friður yrði í landinu fyrr en að minnsta kosti lykilráðherrar segðu af sér og hreinsað yrði til í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Mótmælin á Austurvelli frá því Alþingi kom saman úr jólapásunni og óróinn í Samfylkingunni urðu til að hraða óumflýjanlegri atburðarás. Foringjar sjálfstæðismanna vildu upp til hópa horfa fram hjá því að drastískar aðgerðir þyrftu til að koma, ekki síst að Davíð og Seðlabankaforystan yrði að fjúka til að róa liðið. Kannski lögðu þeir einfaldlega ekki í að hrófla við foringja sínum fyrrverandi á Seðlabankakontórnum. Davíð varð flokknum sínum dýrkeyptur.
Hvað tekur nú við? Samfylkingin virðist hafa sett sjálfstæðismönnum kosti sem fyrir fram var vitað að þeir myndu ekki ganga að. Samfylkingin vildi því komast úr þessu pólitíska hjónabandi. Trúlegt er að hún og vinstri-grænir komi sér saman um minnihlutaríkisstjórn fram að kosningum og Framsókn verji hana vantrausti.
Fráleitt er að stjórn allra flokka, svokölluð þjóðstjórn, sé nærtæk hugmynd nú og reyndar ætti kalt vatn að renna á milli skinns og hörund landsmanna þegar stjórnmálamenn tala um eitthvað sem þeir ætli sér að gera í nafni allrar þjóðarinnar. Sama hvaða stjórnarandstaða er máttlaus og lánlaus þá er mun geðslegri hugsun að hafa þó einhverja stjórnarandstöðu en alls enga á Alþingi, hvort heldur væri til skemmri eða lengri tíma. Minnihlutastjórn er miklu álitlegri kostur og raunar hefðu íslenskir stjórnmálamenn afar gott af því að búa við minnihlutastjórnarfar næstu árin þar sem ríkisstjórn semdi til hægri og vinstri um framgang stefnumála sinna. Sterk minnihlutastjórn er mun ákjósanlegri kostur en veik meirihlutastjórn. Fráfarandi ríkisstjórn skorti ekki meirihluta á Alþingi en samt kom á daginn að hún var máttfarin og veikburða þegar á reyndi til að fást við risavaxið verkefni: þjóðargjaldþrot í kjölfar bankahruns - hvorki meira né minna.
Utanþingsstjórn er fráleitasta og vitlausasta hugmyndin af öllum sem heyrst hafa undanfarna daga en meira að segja sprenglærðir spekingar í stjórnmálafræði ræða samt fjálglega, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að nærtækt sé ífyrir forseta Íslands að setja Alþingi í raun af með því að lyfta einhverjum embættisjálkum upp í ráðsterrastóla. Utanþingsstjórn er nokkuð sem tala um ef allt stjórnmálakerfi landsins er í klessu og Alþingi reynist með öllu ófært um að koma saman ríkisstjórn af einhverju tagi. Stjórnmálafræðispekingarnir voru hins vegar byrjaðir að tala um slíkt embættismannaveldi í Stjórnarráðinu löngu áður en ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá í dag og töluðu af furðumikilli léttúð um þennan möguleika. Ætli sé nú ekki best að láta reyna fyrst á þá kosti sem í stöðunni eru áður en þingræðisstjórnarfyrirkomulaginu verður varpað fyrir borð?
Föstudagur, 23. janúar 2009
Sagði hann hvað...?
![]() |
Hænuskref í rétta átt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Að drepa tímann
Alþingi kom saman í dag eftir margra vikna jólaleyfi og fyrir hafði legið dögum saman að efnt yrði til mótmælaaðgerða á Austurvelli af því tilefni. Þá hefði nú mátt ætla að ríkisstjórnin kæmi galvösk til leiks og hefði frumkvæði að umræðum um ástandið, spilaði einhverju bitastæðu til handa lýðnum í landinu og reyndi í það minnsta að látast sem hún hefði áhyggjur af því sem bullar og kraumar í samfélaginu.
Nei, góðir hálsar. Þingið kom saman eins og ekkert hefði í skorist. Sjáið bara dagskrá þingfundarins í dag. Ótrúlegt! Þetta er svona álíka út úr veruleikakortinu og ef prestur hæfi minningarorð í útfararathöfn með því að gala yfir kistuna hvítu og syrgjendur: Eru ekki allir í stuði?
- Vátryggingastarfsemi, stjfrv., 225. mál, þskj. 304. --- 1. umr.
- Greiðslur til líffæragjafa, stjfrv., 259. mál, þskj. 419. --- 1. umr.
- Sala áfengis og tóbaks, frv., 37. mál, þskj. 37. --- 1. umr.
- Olíugjald og kílómetragjald, frv., 40. mál, þskj. 40. --- 1. umr.
- Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu, þáltill., 49. mál, þskj. 49. --- Fyrri umr.
- Tóbaksvarnir, frv., 57. mál, þskj. 57. --- 1. umr.
- Stjórnarskipunarlög, frv., 58. mál, þskj. 58. --- 1. umr.
- Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða, þáltill., 59. mál, þskj. 59. --- Fyrri umr.
- Skipafriðunarsjóður, þáltill., 60. mál, þskj. 60. --- Fyrri umr.
- Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu, þáltill., 66. mál, þskj. 66. --- Fyrri umr.
- Umferðarlög, frv., 93. mál, þskj. 100. --- 1. umr.
- Fjármálafyrirtæki, frv., 111. mál, þskj. 120. --- 1. umr.
Um aðra helgi verður landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll og fyrir liggur að mótmælaaðgerðirnar í miðborginni í dag voru eins konar generalprufa fyrir þá samkomu. Það þykist lögreglan í það minnsta vita. Á sama hátt og alþingismenn og ráðherrar hófu vorönnina við Austurvöll líkt og ártalið 2007 væri enn í fullu gildi hlýtur landsfundarsetningin að verða með hefðbundnum brag í góðærisanda: lúðrablæstri, áferðarfallegum ávörpum og tilvitnunum í Hannes Hafstein og höfuðskáldin öll. Úti regnið grætur.
Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Að stjórna með boxhönskum
Fjörlegt var og líflegt um að litast í Víkinni, félagssvæði Víkinga, á sunnudaginn var: iðandi mannlíf og athafnasemi jafnt innan dyra sem utan og hefðbundið sprikl að auki í sjálfum íþróttasalnum. Í svokallaðri tengibyggingu var opinn markaður á vegum skíðadeildar félagsins og þangað streymdi fólk allan daginn til að kaupa og selja notaðar skíðagræjur, fá fagmenn í að skerpa stálkanta eða
breyta stillingum á bindingum eða bara sýna sig og sjá aðra. Á bílastæðinu var heil hersing krakka að flokka og telja alls 39.000 dósir og flöskur sem safnað var í húsum í hverfinu! Þannig söfnuðu Víkingskrakkar til styrktar barna- og unglingastarfi handknattleiks- og knattspyrnudeilda félagsins og stuðluðu í leiðinni að tiltekt í geymslum og bílskúrum í hverfinu þar sem safnast höfðu fyrir drykkjarvöruumbúðir eftir veisluhöld hátíðanna.
Þetta var félagsstarf í hnotskurn eins og best gerist og uppskeran eftir því. Iðkendur og aðstandendur þeirra eru hjartað sem slær í svona félagsskap og mynda, ásamt velunnurum Víkings að fornu og nýju, forystumönnum og starfsliði, gangverk starfseminnar og sjálfa félagssálina. Ég hef sjálfur dúllað dálítið í kringum yngri flokkana í fótboltanum, þar sem synirnir tveir koma við sögu, og haft ómælda ánægju af í blíðu og stríðu. Jafnframt hefi ég kynnst fjöldamörgum Víkingum á öllum aldri, ótal vinnuhestum í þágu félagsins fyrr og síðar, þjálfurum og síðast en ekki síst starfsmönnum í Víkinni. Nú síðast kynntist ég framkvæmdastjóranum sem þáverandi aðalstjórn Víkings réði til starfa frá og með 1. maí 2008 eftir að hafa auglýst starfið og valið viðkomandi úr hópi umsækjenda. Þá mat stjórnin umsóknirnar, ræddi við heitustu kandídatana og valdi svo; viðhafði með öðrum orðum opið, gegnsætt og eðlilegt ferli og traustvekjandi starfsmannapólítík. Þáverandi aðalstjórn kaus síðan í starfið mann sem reyndist vera áhugasamur og drífandi, léttur í lundu með góða nærveru, hugmyndaríkur og vinsæll í hópi gesta og gangandi í Víkinni.
Fáeinum vikum síðar var ný aðalstjórn kjörin í Víkingi og með nýjum herrum komu nýir siðir eins og gjarnan gerist. Æskilegt er þá að hinir nýju siðir rúmist jafnan innan þeirra marka sem viðtekin háttvísi og venjur í mannlegum samskiptum setja í starfsemi af þessu tagi. Þarna skipuðust mál hins vegar með nokkuð öðrum hætti. Í byrjun nóvember sagði aðalstjórnin bókara félagsins upp störfum eftir farsæla þjónstu um árabil. Í fyrirtækjum og félögum heyrir starfsmannahald yfirleitt undir framkvæmdastjóra og þannig var það líka hjá Víkingi að því er best var vitað. Aðalstjórnin rak hins vegar bókarann milliliðalaust.
Um miðjan nóvember rak aðalstjórn svo nýlega ráðinn framkvæmdastjóra Víkings, sem út af fyrir sig voru tíðindi. Enn meiri tíðindum sætti þó að hálfum öðrum sólarhring síðar var nýr framkvæmdastjóri kominn til starfa í Víkinni. Sá hafði því augljóslega verið ráðinn áður en fyrirrennaranum var sparkað. Gengið var því á svig við þá eðlilegu og sjálfsögðu stjórnsýsluhætti að auglýsa viðkomandi starf, fjalla um umsóknir og ráða síðan í það á tilteknum forsendum.
Vinnulagið við við framkvæmdastjóraskiptin er sennilega löglegt í bak og fyrir eða það skyldi maður ætla og vona. Hins vegar er framgangsmátinn siðlaus og ekki boðlegur. Enga þekkingu í lögspeki þarf til að fullyrða slíkt. Nýja framkvæmdastjórann þekki ég ekki neitt, hvorki í sjón né raun, en Víkings vegna er hann vonandi hinn mætasti maður, drengur góður og hæfur vel til starfs síns. Athugasemd mín snýr enda ekki að honum heldur að aðalstjórninni sem kallar yfir sig innanfélagspískur um einkavinavæðingu og spillingu í kjölfar ósæmilegrar framkomu gagnvart starfsmönnum félagsins. Með ólíkindum er að fíflast svona á foraðið með opin augu á tímum þegar þjóðfélagið allt logar stafna á milli í kröfum um skítmokstur í spillingargrenjum, siðvæðingu og opið samfélag.
Það er reyndar eftirtektarvert nú, þegar heilir tveir mánuðir eru liðnir frá því framkvæmdastjóranum var sparkað og nýr maður kom í hans stað, að enn hefur ekki verið birtur stafkrókur um mannaskipti í sjálfum framkvæmdastjórastóli Víkings í fréttum á heimasíðu félagsins! Hins vegar var strax greint frá því hve margar dósir söfnuðust þegar kulnað hafði í þrettándabrennum og sömuleiðis var birt forsíðufrétt um hvernig 5. flokki í fótbolta hefði gengið að búa til snjókarla og -kerlingar eftir hret sem gekk yfir Fossvogsdal á dögunum, sem er bara fínt mál. Svo öllu sé til skila haldið er nýr framkvæmdastjóri skráður á lista yfir starfsfólk Víkings á heimasíðunni en hvergi vakin athygli í fréttum á þessum óvæntu hræringum á félagskontórnum. Svo tóku glöggir Víkingar líka eftir því að það fækkaði um einn í aðalstjórn á lista yfir stjórnarmenn á heimasíðunni strax eftir brottrekstur framkvæmdastjórans. Engin frétt hefur heldur verið skrifuð um hverju sætti að stjórnarmaðurinn gufaði upp rétt si-svona.
Aðalstjórn Víkings ræður auðvitað sínum næturstað og hverja hún vill hafa í vinnu og hverja ekki. Hún skaðar hins vegar ímynd og orðspor félagsins með fautalegri framkomu gagnvart starfsmönnum sem þjónað hafa félaginu af trúmennsku og dugnaði. Mörg dæmi eru um einkafélög af ýmsu tagi þar sem eigendur og stjórnendur haga sér eins og fílahjörð í kristalsfabrikku og nota boxhanska í samskiptum við starfsmenn sína. Víkingur er hvorki einkafyrirtæki, kristalsfabrikka né boxhringur heldur heilbrigt og skemmtlegt íþróttafélag, meira að segja með bevís frá Íþróttasambandi Íslands upp á að vera fyrirmyndarfélag. Hvorki meira né minna.
Íþróttafélög gera, eðli máls samkvæmt, ríkar kröfur til samfélagsins og fá mikla opinbera fjármuni til ráðstöfunar auk fjárstyrkja og annars konars stuðnings frá fyrirtækjum og einstaklingum. Það er beinlínis forsenda fyrir því að standa undir nafnbótinni fyrirmyndarfélag ÍSÍ að viðkomandi félagsskapur standist sjálfsagðar gæðakröfur í starfsemi sinni, ekki síst í æðstu stjórnsýslu. Fyrirmyndarfélag í orði verður líka að vera fyrirmyndarfélag á borði. Starfsmannapólitíkin sem æðsta forysta Víkings hefur tileinkað sér er víðsfjærri því að teljast boðleg í yfirlýstu fyrirmyndarfélagi.
Óskrifuð siðaregla í vefheimum er sú að blogga hvorki reiður né fullur. Til þess eru vítin að varast og koma upp í hugann dæmisögur af þingmönnum tveimur sem sendu forðum frá sér svo svæsin skeyti á bloggsíðum sínum að næturþeli að augljóst mátti telja að þeir væru í það minnsta með skerta dómgreind sakir illsku og jafnvel slompaðir í ofanálag. Í næstu kosningum datt annar út af þingi en hinn datt að vísu upp í ráðherrastól þrátt fyrir að hafa skandalíserað á blogginu. Álykti svo hver fyrir sig.
Ég hélt mig meðvitað langt frá bloggskrifum á meðan reiðin sauð og kraumaði vegna atburðanna í Víkinni, annars hefði þessi pistill verið í það minnsta jafn svæsinn og froðufellandi skeytasendingar þingmannanna forðum. Nú er ég ekki reiður og því síður fullur, reyndar alveg pollrólegur en áfram leiður og svekktur. Sjálfsagt er ég að skipta mér af einhverju sem mér kemur ekki við en það verður þá svo að vera. Þetta er þá bara svanasöngurinn minn í Víkinni og farið hefur fé betra. Sumt getur nefnilega ekki legið í þagnargildi og má ekki liggja í þagnargildi. Allra síst í svokölluðum fyrirmyndarfélögum.
Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Willoch og blóðbaðið í Gaza
Kåre Willoch, fyrrum forsætisráðherra Hægri flokksins í Noregi, kallar framferði Ísraelshers gegn Palestínumönnum í Gaza stríðsglæpi. Hann kallar hlutina réttum nöfnum og talar tæpitungulaust. Íslenska ríkisstjórnin er hins vegar í loðmullunni, aðallega upptekin af því hvort hún megi eða geti yfirleitt ályktað um nokkurn skapaðan hlut!
Willoch var forsætisráðherra í Noregi þegar ég bjó í Osló forðum daga. Hann var skarpur og eldklár málflytjandi, eitraður í kappræðum og fylginn sér, með hugmyndafræði og skýra sýn. Svo gátu menn verið sammála eða ósammála karlinum en það er önnur saga. Oft spurði ég sjálfan mig: Af hverju er enginn svona skörungur í íslenskri pólitík? Og spyr mig enn.
Willoch er nýorðinn áttræður en er enn þann dag í dag á fartinni í þjóðmálaumræðunni. Ég sé hann hvað eftir annað í fréttatímum eða umræðuþáttum norska ríkissjónvarpsins að fjalla um blóðbaðið í Gaza, þökk sé gervihnattatengingu við Norge gegnum Fjölvarpið.
Svo sé ég að Kåre Willoch skrifar grein í Aftenposten í dag þar sem hann setur framferði Ísraelsmanna inn í víðtækara sögulegt samhengi á þann hátt sem honum er lagið. Þetta er skýrt og skorinort, aðgengilegt og auðskilið. Þetta er grein sem Ísraelsvinir ættu að lesa vel og loðmullumenn líka.
Hann bendir meðal annars á að Hamas hafi hlotið meirihlutafylgi í frjálsum kosningum en stjórnir á Vesturlöndum samt krafist þess að Fatah, hreyfingin sem tapaði í sömu kosningum, væru engu að síður við völd í Palestínu og við Fatah væri talað en ekki við sigurvegara kosninganna! Þannig birtast viðhorf Vesturlanda til lýðræðisins, skrifar Willoch.
Niðurstaða hans er sú að þeir fylgi stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum styðji um leið pólitík sem skapi hatur og leiði til ófara og hörmuna fyrir Ísrael:
De som forsvarer den israelske politikken overfor palestinerne støtter en politikk som skaper et hat som kan føre til katastrofe for Israel. De gjør det enda vanskeligere for de israelerne som ønsker en annen politikk, å få sitt land til å snu kursen bort fra katastrofen. Venner av Israel bør arbeide for at Israel godtar det arabiske fredsforslaget. Det krever bl.a. grenser som før krigen i 1967, bare med slike justeringer som partene blir enige om, og garantier for Israels sikkerhet.
Miðvikudagur, 7. janúar 2009
Heimspressan gerð að fíflum
Norsku læknarnir Erik Fosse og Mads Gilbert fóru eftir krókaleiðum frá Egyptalandi inn á Gazasvæðið á gamlársdag og hafa síðan þá staðið vaktina dag og nótt við að sinna særðum fórnarlömbum villimannlegs hernaðar Ísraelsmanna gegn Palestínu við skelfilegar aðstæður. Norðmennirnir eru sjálfboðaliðar og hafa vakið heimsathygli fyrir framlag sitt til stuðnings Palestínumönnum. Þeir eru hvað eftir annað í viðtölum í mörgum af áhrifamestu fjölmiðlum veraldar og lýsa því sem fyrir augu ber, við litla hrifningu hernámsliðsins. Lýsingar þeirra eru hryllilegri en orð fá lýst. Læknarnir tveir hafa því í raun verið samtímis í faglegum hlutverkum sínum í heilbrigðisþjónustu og í hlutverkum kynningarfulltrúa fyrir Palestínumenn gagnvart heimsbyggðinni, einfaldlega af því að enginn einasti blaða- eða fréttamaður erlends fjölmiðils er fyrirfinnanlegur á Gazasvæðinu!
Ísraelsmenn hleypa ekki útlendum fjölmiðlum inn á Gaza og heimspressan virðist annað hvort ekki kæra sig um að styggja hernámsöflin né hafa sambönd til að koma sér eftir krókaleiðum inn á styrjaldarsvæðið á sama hátt og norsku læknarnir gerðu. Ísraelsmenn gera sitt til að halda blóðbaðinu á Gaza utan við sviðsljós alþjóðafjölmiðla með því að veita ekki erlendum fjölmiðlamönnum aðgang og ekki síður með því að sprengja mikilvæga pósta í síma-, fjarskipta- og í raforkukerfinu á svæðinu í loft upp til að tryggja einangrun Gaza frá umheiminum. Norsku læknarnir hafa hins vegar verið í sambandi við erlenda fjölmiðla með gerfihnattagræjum sem smyglað var inn á Gaza frá Noregi, eftir því sem næst verður komist.
Fosse og Gilbert eru hetjur hvernig á það sem litið er en lítið leggst að sama skapi fyrir hreysti heimspressunnar. Áfram heldur árásarstyrjöldin og áfram flýtur blóðið um Gaza, með velþóknun Bandaríkjastjórnar. Ýmsir binda vonir við að breytt viðhorf skapist í Washington með nýjum herra í Hvíta húsinu og friðvænlegra verði fyrir botni Miðjarðarhafs. Margir fréttaskýrendur bandarískra sjónvarpsstöðva eru hins vegar þeirrar skoðunar að Obama muni ekki dekra minna við gyðinga og Ísraelsríki en Bush. Og ekki þarf að spyrja um Hillary Clinton. Hún er þingmaður gyðingaveldisins í New York og verður líka utanríkisráðherra í þágu þess og banvænnar útþenslustefnu Ísraelsríkis.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 210860
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar