Föstudagur, 2. janúar 2009
Rófulausir hundar í Skagafirði og hreysi á Akureyri
Ævisaga Gríms Jónssonar amtmanns er unaðslegt lesefni og ófáum næturstundum yfir henni var vel varið núna um jól og áramót. Það hlýtur að segja ýmislegt um þá sem nefna bækur til bókmenntaverðlauna að bók Kristmundar Bjarnasonar, fræðimanns á Sjávarborg, skuli hvergi hafa komist þar á blað. Þegar frá líður er samt líklegra en hitt að Amtmaðurinn á einbúasetrinu verði talinn meðal bestu ævisagna á landi hér og sögu amtmannsins á Möðruvöllum í Hörgárdal verður örugglega minnst lengur en flestra bóka sem nefndar voru til verðlauna, hvað svo sem bókmenntaelítunni finnst um það.
Fyrst af öllu skal nefna að Amtmaðurinn á einbúasetrinu er óvenjulega vel skrifuð bók. Kristmundur skrifar texta sem er sjaldgæft að sjá í seinni tíð og hann hlýtur að hafa nostrað við hverja setningu. Í öðru lagi er saga Gríms amtmanns sérlega áhugaverð og dramatísk og í þriðja lagi er þarna fjallað um sjálfa Íslandssöguna undir lok danskrar einvaldsstjórnar og dregnar upp magnaðar mannlífs- og samfélagsmyndir, einkum af Norðurlandi.
Þegar Grímur amtmaður kemur ásamt fjölskyldu sinni í júnílok 1824 til Akureyrar í fyrsta sinn, siglandi með Herthu frá Kaupmannahöfn til að taka við embætti sínu á Möðruvöllum, er svo frá greint að dönsku farþegunum hafi brugðið í brún, enda ,,höfðu aldrei litið aðra eins bæjarboru og höfuðstað Norðurlands með nokkrum tugum tjargaðra timburkofa, jarðhúsa og torfkofa.
Skagfirskir góðbændur áttu yfirleitt ekki samleið með amtmanninum og vildu helst af öllu setja hann af. Átökum bændanna og embættismannsins á Möðruvöllum er þarna lýst í stórum og smáum atriðum og þarna kemur vel fram að Skagfirðingar voru ekki allir þar sem þeir voru séðir. Þeir þóttu ölhneigðir, kunnu vel við sig á hestbaki, voru ekki mjög bundnir búum sínum og kvenhollir í betra lagi (er þetta nokkuð breytt enn þann dag í dag??). Í Skagafjarðarsýslu voru oftast fleiri barneignarbrot en í öðrum héruðum og reyndar má draga þá ályktun af talnagögnum að stöku bændur þar í héraði hafi riðið flestu sem hreyfðist eins og rófulausir hundar. Það átti víst að einhverju leyti við um Húnvetninga líka. Þannig er greint frá bóndanum á Sæunnarstöðum í Austur-Húnavatnssýslu sem missti konu sína árið 1828. Sumarið 1829 fæddi systir hinnar látnu húsfreyju ekklinum barn og í apríl og nóvember 1830 urðu tvær vinnukonur á Sæunnarstöðum léttari eftir náin samskipti við bónda. Þriðju og síðustu barnmóður sína gekk bóndi að eiga. Þannig var nú lífið á Norðurlandi þá.
Föstudagur, 2. janúar 2009
Árið 2008 brennt og sungið út
Myndarlegur bálköstur var hlaðinn á Grund í Svarfaðardal og árið kvatt með
því að leggja eld að honum. Þar stigu logar til himins eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá brennustjóranum, Atla Friðrikssyni. Álftlendingar lögðu leið sína að héraðsbrennunni sinni, við Suðurhlíðar í Fossvogi. Þar stigu logar til himins eins og vera bar og fjöldi fólks fylgdist með. Svarfdælingar áttu stóran hlut í því að halda uppi fjöri á vettvangi. Sindri Heimisson Kristinssonar var mættur með harmóníku og Hjálmar Hjálmarsson leikari - Litli Bommi - var þar í hlutverki söngvara. Ásgeir H. Steingrímsson trompettleikari blés í lúður sinn og Gunnlaugur Kristjánsson hjá Björgun ehf. þandi raddbönd. Sindri og Ásgeir hafa oft komið áður með hljóðfæri að brennu við Suðurhlíðar og stuðlað að miklum söng og gleði. Í fyrra var brennu þarna aflýst vegna veðurs þannig að tvö ár eru liðin síðan síðast. Það gladdi því fastagesti við brennuna ákaflega að sjá kappana á sínum stað með nikku og lúður. Einn heimilisfaðirinn snaraðist að þeim með þeim orðum að gamlárskvöldið væri ekki fullkomið hjá sér nema hann heyrði þennan merka hóp spila og syngja við Suðurhlíðabrennu. Sá gat sum sé sofnað með bros á vör á nýársnótt.
Við Suðurhliðabrennu í Fossvogi á gamlárkvöld 2008. Sindri Heimisson er með nikkuna, Ásgeir H. Steingrímsson með trompett. Hjálmar Hjálmarsson og Gunnlaugur Kristjánsson eru forsöngvarar og allt í kring er sjálfskipaður brennukórinn.
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Um forseta, kryddsíld, siðleysi og óætt laufabrauð
Forsetinn lagði allt nýársávarpið sitt undir efnahagskreppuna og tengd mál og fór vel á því. Það var ekki hægt að skilja orð hans á annan veg en sem stuðningsyfirlýsingu við málstað Austurvallarhreyfingarinnar sem maður ársins á Rás tvö, Hörður Torfason söngvaskáld, hratt af stað í haust. Forseti bar fram sjálfsgagnrýni í maóískum anda vegna afskipta sinna af útrásarvíkingum en tók fram að embættið myndi áfram styðja við sókn íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi. Hann kallaði eftir víðtæku uppgjöri og einhvers konar skilmála í því sambandi. Tæpast hefur þessi ræða þjóðhöfðingjans fallið í sérlega frjóa jörð í Stjórnarráði Íslands enda slíkt uppgjör ekki á dagskrá þar á bæ svo vitað sé.
Ég lagði á mig að hlusta á nýársávörp Danmerkurdrottningar og Noregskóngs í sjónvarpi á gamlárskvöld. Umgjörð ávarpanna voru í báðum tilvikum mun lakari en gerðist með ávarp forseta Íslands í dag og ljóst að Ríkisútvarpið getur kennt ríkissjónvarpsstöðvunum í Danmörku og Noregi talsvert í þeim efnum. Ólafur Ragnar gæti svo tekið Margréti Þórhildi og Harald í kennslustund í að nota textavélar við flutning nýársboðskaparins og tala í stað þess að lesa upp. Bæði stautuðu þau af blöðum, mismæltu sig og voru ekki sérlega áheyrileg. Drottningin sat við borð en kóngur las standand upp á endann, sem var satt að segja ótrúlega hallærisleg umgjörð ávarpsins. Eftir ræðu drottningar mundi ég ekki eftir neinu sem hún sagði í innihaldslausu snakki sínu. Kóngur átti hins vegar ágætis sprett um innflytjendamál í sinni ræðu og lýsti áhyggjum af fordómum í þeirra garð í Noregi, fyrst og fremst meðal eldri kynslóðanna. Álitsgjafi í danska sjónvarpinu sagði reyndar fyrir ávarpið að drottning segði aldrei neitt við svona tækifæri sem skiptar skoðanir gætu verið um og við það stóð hún svo sannarlega. Sama á sjálfsagt við um norska kónginn en hins vegar vefst ekkert fyrir forseta Íslands að segja og aðhafast eitthvað sem kallar á umræður og deilur, eins og dæmin sanna. Foringjar ríkisstjórnarinnar hafa ekki og munu ekki tala við þjóðina á svipuðum nótum og forsetinn gerði í dag - hafi ég skilið nýársboðskapinn frá Bessastöðum eins og hann var hugsaður.
---ooo---
Áramótaskaupið Sjónvarpsins var fínt að þessu sinni, meira að segja mjög gott. Það fór vel í bæði börn og fullorðna á heimilinu. Menn héldu til dæmis að Spaugstofan hefði kreist úr kreppunni mest af því sem hægt væri að spauga með úr þeirri áttinni en aðstandendur Skaupsins höfðu hugmyndaflug og færni til að finna nýjar spaughliðar og gerðu það vel.
---ooo---
Kryddsíld Stöðvar tvö endaði með skelfingu í gær þegar óður skríll reyndi að ráðast inn á Hótel Borg þar sem stjórnmálaforingjar að forsætisráðherra undanskildum reyndu að ræða málin en öskrin af Austurvelli bergmáluðu gegnum veggi og út um land og mið í útsendingunni. Lögreglan réði augljóslega ekki skrílinn sem náði meira að segja að valda tjóni á græjum Stöðvar tvö og slasa einn starfsmann hennar. Það er með ólíkindum að lögreglan hafi ekki getað tryggt betur öryggi stjórnmálaforingjanna og aðstandenda Kryddsíldarþáttarins þegar fyrir lá sólarhring áður að efna ætti til mótmælaaðgerða við Hótel Borg í tilefni útsendingarinnar. Reyndar er það jafnframt óskiljanlegt að Stöð tvö hafi ekki ákveðið strax 30. desember að flytja útsendinguna af Hótel Borg til að tryggja betur öryggi þeirra sem þarna áttu að koma fram.
---ooo---
Var það ekki dæmigert fyrir árið 2008 að tveir ráðherrar skyldu fá á baukinn á síðustu sólarhringum þess fyrir að hafa gengið á svig við lög og reglur við mannaráðningar í opinberri stjórnsýslu? Fullyrða má að í öllum ríkjum, sem Íslendingar vilja helst líkja sér við, hefði fjármálaráðherra sagt af sér samdægurs og dómsmálaráðherra jafnvel þuft að taka pokann sinn líka vegna eðli málsins sem þeim tengist. Á Íslandi er slíkt bara ekki inni í myndinni. Gamall bekkjarbróðir minn úr blaðamannaskólanum í Osló er núna pólitískur fréttaskýrandi í norska ríkisútvarpinu og hringdir stundum þegar mikið liggur við til að fá skýringar á ýmsu sem hann ekki skilur, enda eru íslensk stjórnmál sér á báti og ýmislegt sem hér viðgengst að sjálfsögðu enn óskiljanlegra útlendingum en innfæddum. Daginn sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ákvað að veita íslenskum stjórnvöldum lánið mikla hringdi fréttaskýrandinn frá Osló. Erindið var eftirfarandi: Fréttamenn norska ríkisútvarpsins höfðu farið yfir lista allra hliðstæðra neyðarlána Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá stofnun hans og komist að þeirri niðurstöðu að í hverju einasta tilviki hafði ástandið í viðkomandi ríki orðið til þess að einstakir ráðherrar höfðu hrakist frá völdum eða ríkisstjórn í heild sinni, bankastjórar eða bankastjórnir, lykilembættismenn osfrv. Þar til kom að Íslandi árið 2008. Þar fór heilt viðskiptabankakerfi á hausinn og eftirlitsapparatið kom af fjöllum en allir sitja á sínum póstum eins og ekkert hafi í skorist. Allir. Norðmaðurinn spurði: Hvernigt í veröldinni stendur á því að menn komast upp með að skandalísera og setja heila þjóð á hausinn án þess að taka á því nokkra ábyrgð? Svarið fékk hann ekki hjá mér, ég viðurkenndi að standa þarna á gati eins og obbinn af hinni gjaldþrota íslensku þjóð.
---ooo---
Steikarfeiti frá Kristjánsbakaríi hjó skarð í jólagleðina á þessu heimili og fleirum. Þegar við sunnanangi Jarðbrúarfjölskyldunnar kom saman til laufabrauðsgerðar undir lok nóvember var notuð feiti frá þessu annars ágæta bakaríi á Akureyri til steikingar. Feitin hegðaði sér undarlega og freyddi heil ósköp. Í ljós kom að þetta hafði gerst víðar við svipuð tækifæri og Kristjánsbakarí innkallaði feitina. Nú hefur komið á daginn að sjálft laufabrauðið sem steikt var úr gölluðu feitinni er tæpast ætt. Það er fitustorkið og bragðið af brauðinu, eða öllu heldur af feitinni í því, er ekki geðslegt. Laufabrauðið vantaði því á veisluborðið í ár. Það þætti nú afleitur búskapur í Svarfaðardal að fagna jólum og áramótum laufabrauðslaust.
Mánudagur, 22. desember 2008
Forskot á skötusælu í faðmi Sægreifans
Sú var tíðin heima í sveitinni að skata var oft á borðum árið um kring en hins vegar aldrei á Þorláksmessu. Einfaldlega var litið á skötu sem kvundagssoðningu en ekki hátíðarfæðu af nokkru tagi. Við komumst hins vegar ekki hjá því að heyra í útvarpinu á Þorláksmessu ár hvert að Vestfirðingar stöppuðu þá í sig skötu og störtuðu þar með jólahaldi. Sá siður breiddist ekki út um Svarfaðardal svo ég muni. Við Jarðbrúarfólk létum grjónagraut duga á Lákanum. Fagnaðarerindi Vestfirðinga fór svo smám saman að flæða um landið og nú er svo komið að enginn er maður með mönnum nema narta í skötu á Þorláksmessu eða hafa í það minnsta skoðun á þessum matarsiðum að vestan því annað hvort eru menn fyrir þennan mat eða ekki.
Sjálfur fór ég að kaupa skötubarð í matinn fyrir þónokkrum árum og sjóða á
Þorláksmessukvöld, aðallega til að rifja upp kynnin af ljómandi góðum matfiski. Aðrir í fjölskyldunni leggja sér skötu ekki til munns nema með harmkvælum en þiggja frekar saltfisk á sína diska. Skötubarð verður að vanda sett í pott í Álftalandinu annað kvöld og tilhlökkunin er enn meiri en ella af því að við Jarðbrúarbræður tókum forskot á sæluna núna í vikunni og fengum okkur skötu í hádegismat hjá Kjartani Sægreifa Halldórssyni við Reykjavíkurhöfn. Það var eftirminnileg máltíð. Skatan var svo rækilega kæst að tár byrjuðu að renna við fyrstu bitana og bróðir Helgi Már, sem kom sárlega kvefaður og nefstíflaður að borðinu, fór albata út og leið eins og nýhreinsuðum hundi. Svona matur er sum sé flestra meina bót og ekki spillti fyrir að greifinn bauð upp á Steingrím á eftir; hrísgrjónagraut með rúsínum sem nefndur er í höfuð forsætisráðherrans fyrrverandi Hermannssonar.
Eitt er sjálfur maturinn á Sægreifanum, hvort heldur það er skata eða annað sjávarfang. Annað er staðurinn sem slíkur og umhverfið. Þetta er auðvitað engu öðru líkt. Og þeir sem fúlsa við skötu eða signum fiski ættu þá bara að halda sig við humarsúpuna en halda sig samt fjarri staðnum fram yfir jól. Andi heilags Þorláks er nefnilega pottum og híbýlum Sægreifans fram yfir Þorláksmessu í formi skötuilmsins sem matvandir kenna við ólykt eða ódaun. Skötuunnendur fara hins vegar glaðir í skötufýlu í það minnsta einu sinni á ári um leið og þeir hylla Þorlák hinn helga. Á morgun verða margir glaðir fýlustrákar yfir skötudiskum um allt land, ekki bara fyrir vestan. Ég óttast hins vegar að fá hvergi í fiskbúðum jafnkæsta skötu og Kjartan sægreifi bauð upp á. Sá verslunarleiðangur verður trúlega fýluferð að því leyti en skata verður það samt, heillin.
Sunnudagur, 21. desember 2008
Ólíkt höfumst vér að
Horfði á ítarlega og afar fróðlega fréttaskýringu á CNN í morgun um þetta stórfurðulega mál sem kom upp í ríkinu Illinois í Bandaríkjunum á dögunum. Barack Obama, verðandi forseti, sat á þingi fyrir þetta ríki og nú þegar sæti hans er autt er á valdi ríkisstjóra Illinois að fylla í skarðið, þ.e. að velja nýjan mann til að setjast á Bandaríkjaþing. Engar kosningar, engin fegurðarsamkeppni heldur alræði eins ríkisstjóra! Þessi tiltekni ríkisstjóri ákvað að hafa eitthvað upp úr krafsinu og selja þingmannssætið, því þar eins og víðar ganga margir með þingmann í kviðnum og eru reiðubúnir að borga vel fyrir sæti á löggjafarsamkomu. Þegar hins vegar lögregla og saksóknarar í Illinois fréttu af fégráðuga ríkisstjóranum var hann einfaldlega handtekinn og leiddur í járnum í gæsluvarðhald en látinn síðan laus gegn tryggingu. Fréttaskýringin fjallaði annars vegar um málstað og málflutning ríkisstjórans, Rod Blagojevich, og hins vegar um heitstengingar ákæruvaldsins að koma þessum gjörspillta þrjóti frá og í fangelsi til frambúðar.
Þarna er ekkert gefið eftir og fram kom að hann stæði fram fyrir því að vera samvinnuþýður og gera sér þá vonir um að sitja inni í bara fimm ár eða halda áfram siðspillingarrugli sínu og geta þá búist við að sitja handan við rimla í fjórðung aldar. Og afskipti eiginkonu ríkisstjórans af málinu geta orðið til þess að hún fái fangelsisdóm líka og sömuleiðis starfsmannastjóri ríkisstjórans.
Svona tekur réttarkerfið í Illinois á sjálfum ríkisstjóranum og þeir sem sjá til þess að lögum sé framfylgt þar í ríkinu ætla ekki að hvílast ærlega fyrr en hvítflibbaglæponinn fer að rotna í svartholi og fær þar með makleg málagjöld. Fréttaskýringin var allrar athygli verð út af fyrir sig en aðallega leitaði hugurinn af sjónvarpsskjánum til hins íslenska valdasamfélags. Nógu slæmt er að reyna að setja eitt þingsæti á uppboðsmarkað og ætla sér að græða á sölunni. Öllu verra er trúlega að veðsetja heila þjóð og keyra í gjaldþrot með stæl og dýfu. Hersingin öll sem að því stóð og vitorðsmenn hennar ganga lausir og munu ganga lausir. Það er 120% öruggt að enginn finnst sem óhætt þykir að draga til ábyrgðar, einfaldlega af því íslenska valdakerfið lifir ekki af aðra niðurstöðu en þá að sópa öllu undir teppið og smæla svo framan í heiminn.
Mánudagur, 15. desember 2008
Klassekampen og Selvstendighetspartiet
Dagblaðið Klassekampen í Noregi sló upp í dag ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að leið Íslendinga lægi til Brussel, inn í Evrópusambandið. Blaðið átti altsvo tal við ráðherrann og hafði þetta upp úr krafsinu. Þar með hefur ritstjórn málgagns norskra maóista trúlega talið sig hafa fengið staðfest að leiðir heyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í ESB-málum lægju ekki lengur saman. Það er af sem áður var.
Síðla árs 1994 komst Árni M. Mathiesen, þá óbreyttur þingmaður, á forsíðu Klassekampen í risauppslætti gegn ESB, með mikilli velþóknun maóistanna. Hann var á Norðurlandsráðsþingi í Tromsö þegar örfáir dagar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi um Evrópusambandsaðild og afar heitt í kolum í þjóðmálaumræðunni í landinu. Blaðamenn frá Klassekampen voru á ferli á fundarstað að krækja í norræna viðmælendur sem vildu ekkert með Evrópusambandið hafa og féllu því vel í kram lesendanna. Ég benti þeim umsvifalaust á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á svæðinu, þar væru sannfærðustu samherjar Arbeidernes kommunistparti marxistene-leninistene í ESB-málum á Íslandi, hægrimenn, langstærsti flokkurinn og forystuafl í ríkisstjórninni. Þetta þótti útsendara Klassekampen undarlegt og býsna lygilegt en hætti sér samt í að svífa á Árna Matthiesen sem kom þar aðvífandi. Svo kom blaðamaðurinn ljómandi af ánægju með afraksturinn og þakkaði mér fyrir ábendinguna. Árni fékk daginn eftir einn mesta uppslátt sinn í fjölmiðli fyrr og síðar og allir undu glaðir við sinn hlut, aðstandendur Klassekampen, lesendur blaðsins og Árni.
Undir kvöld missti málgagn norskra maóista - og yfirleitt allir fjölmiðlar sem höfðu útsendara á Norðurlandaráðsþinginu - af einstæðu myndefni í andófinu gegn Evrópusambandsaðild í Noregi. Nei-hreyfingin gegn ESB efndi til fjöldagöngu um götur Tromsö og leiðin lá meðal annars fram hjá hótelinu þar sem forsætisráðherra Íslands bjó. Þarna gengu menn í þúsundavís undir rauðum fánum og fjandsamlegum slagorðum gegn ESB, syngjandi og gólandi baráttusöngva.
Svo vildi til að Davíð Oddsson kom út af hótelinu á leið til kvöldverðar fyrirmenna einmitt þegar baráttugangan fór þar hjá. Hann hreifst með á augabragði, snaraðist út á götuna og gekk undir rauðum fánum og ydduðum slagorðum þónokkra metra, áður en ringlaðir öryggisverðir í fylgdarliðinu náðu áttum og vísuðu forsætisráðherranum veginn af byltingarvettvangi götunnar til veislusala fyrirfólksins.
Daginn eftir rakst ég á blaðamann Klassekampen í þinghúsinu og sagði frá því að leiðtogi Sjálfstæðisflokksins af Íslandi hefði toppað óbreyttan liðsmann sinn, Árna Matt, með því að sogast með velþóknun inn í Nei-gönguna og berast áfram með straumnum nokkur augnablik áður en norska leyniþjónustan tók í taumana. ,,Fjandinn sjálfur," svaraði Klassekampen að bragði. ,,Nú verðum við að setja vakt á þennan Sjálfstæðisflokk. Við hefðum lagt alla forsíðuna undir Oddsson og miðopnuna líka ef við hefðum staðið hann að verki. Við hefðum meira að segja átt góðan séns í fréttamynd ársins!"
Þar með kvaddi Klassekampen og gekk hryggur á braut. Enn raunamæddara er maóistablaðið væntanlega nú þegar það hefur sannreynt að staðfesta forystu sjálfstæðismanna af Íslandi í ESB-málum sé óðum að rakna upp. Klassekampen getur þá huggað sig við að í Seðlabankanum eigi Nei-hreyfingin í Norge ennþá staðfastan bandamann frá því í göngunni miklu í Tromsö 1994. Það er huggun harmi gegn á örlagatímum.
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Rubba af Ólympíuleikunum, bankinn bíður
Landsliðsþjálfari Íslendinga er bankastarfsmaður og þarf að flýta sér heim í vinnuna strax eftir Ólympíuleikana; bankinn bíður! Þetta var einn af mörgum fróðleiksmolum og gullkornum sem þulir sænska sjónvarpsins stráðu í útsendingunni af leik Íslendinga og Pólverja í morgun. Ég hafði byrjað að horfa á RUV en álpaðist til að tékka á hinum norrænu sjónvarpsstöðvunum í miðjum fyrri hálfleik. Svíarnir sendu beint frá leiknum en Danir og Norðmenn voru í róðri og kappreiðum á sama tíma. Ekki varð aftur snúið til RÚV. Þulurinn þar hafði fátt annað að segja en hver var með boltann, hver var í sókn og hver var rekinn út af - nokkuð sem hver einasti áhorfandi með þokkalega sjón vissi hvort eð var. Sænsku þulirnir unnu hins vegar fyrir sínu kaupi með því að greina leikinn fyrir þá á slíku þurftu að halda. Hvað klikkaði í sókn eða vörn? Hvað lukkaðist í sókn eða vörn. Hvað réði úrslitum yfirleitt þegar upp var staðið?
Sænsku þulirnir voru afskaplega hrifnir af íslenska liðinu, sérstaklega hlóðu þeir hóli á Björgvin Pál Gustavsson markvörð og sögðu að stutt væri í að hann yrði keyptur frá Fram í atvinnumennsku í Þýskalandi eða Danmörku. Þessi leikur myndi jafnframt tryggja Björgvin sæti aðalmarkmanns landsliðsins en hann hefði komið til móts sem varamarkvörður. Þeim fannst vörnin sérlega fín, hældu Sverre, Guðjóni Val og Ólaf Stef - með rökum en ekki blaðri.
Svíarnir færðu rök fyrir því að Íslendinganar ættu góða möguleika á móti Kóreumönnum eða Spánverjum í undanúrslitum og töldu meiri likur en minni á að Ísland spilaði til úrslita í handbolta á Ólympíuleikum í fyrsta sinn.
Það skulum vér og vona en hvað sem öðru líður vel ég útsendingu Sveriges Radio strax í upphafi undanúrslitaleiksins. Ef að líkum lætur fæ ég þá meira að vita um mína menn og leik þeirra en í ,,þjóðarsjónvarpinu" RUV! Merkilegt en satt.
PS. Ólafur Ragnar toppaði á réttum tíma eins og landsliðið. Var mættur á svæðið í morgun og baðaði sig í sviðljósunum að leik loknum en menntamálaráðherra illu heilli kominn heim til Íslands frá Beijing. Æ æ. Einboðið að ráðherrann hætti við að taka upp úr töskunum, fari til Kína á nýjan leik og vonandi ríkisstjórnin í heild og stjórnarandstaðan öll (enda fá sæti í flugi sem þarf fyrir hana), fráfarandi og verðandi borgarstjóri líka, biskupinn, ríkisskattstjóri, siglingamálastjóri og yfirdýralæknir. Elítan út, Íslandi allt.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar