Símanúmer Styrmis undir ráðherrasíma

Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 23. apríl 1995. Þann dag tók ég viðtal við hann fyrir Útvarpið skömmu eftir að hann hafði fengið lyklavöldin í ráðuneytinu. Það var ekki pappírssnifsi á borðum og bekkjum og bókahillur biðu galtómar eftir að nýr húsbóndi raðaði þar í skruddum og gögnum sem hann vildi hafa nálægt sér í vinnunni. Þegar viðtalinu var lokið og ég á leið út úr skrifstofunni kallaði ráðherrann í mig og sagði mér að kíkja að gamni undir símtækið sem stóð við hlið tölvunnar á vinnuborðinu hans. Það var sími með beinni fastlínu út úr húsinu. Mér þótti ósk ráðherrans undarleg en gekk að símtækinu og lyfti því upp. Undir símanum blasti við lítill miði, límdur fastur á borðið. Á honum stóð: Styrmir - bein lína og símanúmer skráð þar hjá. ,,Ræstingaliðið hefur auðvitað haldið að beina línan til Styrmis tilheyrði ráðherraembættinu en ekki Jóni Baldvin og ekki þorað að hrófla við miðanum þegar skrifstofan var þrifin í tilefni stjórnarskipta!" sagði utanríkisráðherrann. 

Þessi litla saga rifjaðist upp þegar ég gluggaði í dagbækur Matthíasar Johannessens Morgunblaðsritstjóra á Vefnum í dag. Þar er margt fróðlegt að finna um samskipti þáverandi ritstjóra og stjórnmálaforingja og óspart vitnað í nokkurra ára gömul trúnaðarsamtöl og alls kyns palladóma viðmælenda ritstjóranna um samherja og andstæðinga í pólitík. Flestir viðmælendanna hefðu nú annað hvort látið vera að hitta ritstjórana yfir hádegissúpu eða þá þegið súpuna og bitið í tunguna á sér oft og lengi yfir diskunum hefðu þeir haft hugarflug til að ætla að í samtölin yrði vitnað á opinberum vettvangi 2008.

Ég held að vísu að Davíð Oddssyni sé nokk sama þó Matthías vitni í bréf frá DO til Morgunblaðsritstjórans frá í mars 1995 (í aðdraganda þingkosninga) þar sem segir m.a.:

Það verður ekki við því gert, Matthías minn, þótt ég og fjöldi annarra manna og kvenna í þessu landi hafi þá skoðun að misnotkun Morgunblaðsins í þágu kratanna sé auðmýkingarefni fyrir blaðið og kannski ekki síst fyrst að blaðið hefur ekki einu sinni burði til að kannast við það sem allir sjá.

Hins vegar er ég ekki alveg sannfærður um að Svavar Gestsson hafi haft opinbera dagbók í huga þegar hann ræddi við Matthías 2. apríl 1965:

Þegar Svavar talaði um að hann væri undrandi á því hvað fjölmiðlar hefðu þyrmt Ólafi Ragnari þótt þeir hafi vitað undan og ofan af þessu ósiðlega fjármálabraski hans sagði ég við hann að ég hefði ekki fyrr heyrt orð af því sem hann hefði sagt.

Á þessum trúnaðarfundum var greinilega oft rætt um fjármál Alþýðubandalagsins, um fjármál Ólafs Ragnars Grímssonar og fleiri manna. Þar var farið í frumheimildir, beint úr Landsbankanum:

Styrmir er kominn heim frá Ameríku. Setti hann inn í öll mál í morgun. Sverrir Hermannsson kom rétt fyrir hádegi og sagði að hann væri með skjöl úr Landsbankanum sem ákveðnir menn vildu ná af honum upp á líf og dauða. Við hlustuðum. Hann tók upp skjöl úr pússi sínu, yfirlit um fyrirgreiðslu bankans við pólitíkusa og skuldir stjórnmálaflokka við bankann. Þetta var allt með ólíkindum.

Um sama leyti voru forsetahjónin í ,,opinberri heimsókn" á Seltjarnesi, í sveitarfélaginu þar sem þau  höfðu búið um árabil. Þessa heimsókn bar á góma á trúnaðarfundinum með Sverri Hermannssyni, sem og það að hús Ólafs Ragnars og Guðrúnar Katrínar væri veðsett vegna áhvílandi skulda við Landsbankann. Matthías hefur eftir Sverri í dagbókinni:

Við hefðum átt að halda uppboð á húsinu hans á Nesinu í tilefni dagsins. Það hefði kórónað þessa opinberu heimsókn!

Það gerist margt - eða gerist ekki - yfir glasi. Enn og aftur er það staðfest í dagbók Morgunblaðsritstjórans fyrrverandi. Þeir Steingrímur Hermannsson hittust á Þingvöllum vorið 1987 og Matthías hefur meðal annnars eftir viðmælandanum:

Flestir teldu að hann ætti að hafa stjórnarforystu á hendi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna, það og útvíkkun með þriðja flokki væri að hans mati niðurstaða kosninganna. Saknaði þess að geta ekki talað við Þorstein eins og hann kysi, hann gæti fengið sér í staupinu með Svavari Gestssyni og líkaði það vel, en ekki Þorsteini! Hann hringdi varla nokkurn tíma af fyrra bragði. Það væri þá frekar að aðrir sjálfstæðismenn hringdu til að ræða málin.

Staup og stjórnmál koma líka við sögu í dagbókarfærslu 17. október 1998:

Styrmir sagði mér eftir Jóni Baldvini sem drakk kahlúa-líkjör með Halldóri Ásgrímssyni í Washington um daginn (hann getur víst drukkið ótæpilega af honum), að Halldór ætli sér forsætisráðherraembættið, þótt hann láti líta svo út sem hann hafi ekki áhuga á því. Davíð telur víst að Halldór hafi ekki þennan metnað,  en hann þarf kannski að horfast í augu við hann, ef Framsókn fær oddastöðu eftir næstu kosningar.


Borgarblús

Það vantar í fjölmiðlaumfjöllun hingað til um hræringar í Ráðhúsi Reykjavíkur að varpa ljósi á kulnunina sem hefur átt sér stað í minnihlutanum í borgarstjórn frá því allir voru vinir í þar í skóginum þar til nú að Óskar Bergsson og stuðningsmenn hans í Framsókn ganga til meirihlutamyndunar með sjálfstæðismönnum.  Samstaðan í borgarstjórnarmeirihlutanum var ekki sú sem menn vildu vera láta en samstaðan í minnihlutanum var heldur ekki sú sem menn vildu vera láta. Þar eru rætur þess sem nú er að gerast. Óskar og hans menn hafa til dæmis aldrei fyrirgefið Samfylkingunni að kaupa spurningu í vagni hjá Gallup og leita álits svarenda á frammistöðu foringja Framsóknar í borgarstjórn, þ.e. Óskars Bergssonar. Framsókn er á öndverðum meiði við hina minnihlutaflokkana Bitruvirkjunarmálinu og fleira mætti nefna.

Fyrir liggur að skelfileg útreið fráfarandi borgarstjórnarmeirihluta í nýlegri fylgiskönnun herti á og flýtti atburðarásinni sem fór í gang núna í vikunni. Stjórnarskiptin geta út af fyrir sig lagað stöðuna eitthvað gagnvart kjósendum en það er ekki gefið að næsta Gallupkönnun verði skárri en sú síðasta. Vandinn sem nýi meirihlutinn stendur nefnilega frammi fyrir er að borgarbúar, hvar í flokki sem standa eða flokksleysingjar, eru upp til hópa löngu búnir að fá nóg af pexi, væringum og pólitískum skyndikynnum út og suður í borgarstjórninni. Ætla má að kjósendur láti þann pirring bitna á stjórnarflokkunum hverju sinni frekar en minnihlutanum.

Fráfarandi meirihluti lenti á dramatískum tímamótum í lífi sínu þegar hann ákvað að brúka meira en hálfan milljarð króna til að kaupa húsræskni við Laugaveginn í Reykjavík. Þetta mál skaðaði meirihlutann miklu meira en ráðamenn hans virtust gera sér grein fyrir, tætti af þeim atkvæði í höfuðborginni og gerði sjálfstæðismenn um land allt rasandi og reiða. Ég hef sjálfur farið víða um land undanfarna mánuði og alls staðar hitti ég sjálfstæðismenn á förnum vegi sem voru afskaplega óhressir með samstarfið við Ólaf F. í borgarstjórn og nefndu kaupin á kofabrakinu í miðborginni sem nærtækasta dæmið um hve dýrkeypt meirihlutamyndunin hefði verið í meira en einum skilningi. Síðar bættist fleira við, sumt býsna skrautlegt. Eins og til dæmis það þegar varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur lýsti í sumar yfir samúð með málstað Saving Iceland-safnaðarins! Þá stirðnaði nú bros á ýmsum.

Í lokin vinsamleg tilmæli til fjölmiðla og stjórnmálamanna í höfuðborginni: Hættið nú í öllum bænum að kenna einhvern hóp manna í Ráðhúsinu við sönghópinn góða úr Svarfaðardal. Að blanda Tjarnarkvartettinum inn í pólitíska ruglið í höfuðborginni er ekki einu sinni fyndið.


Fréttaleysisraunir í Ráðhúsi

Miklar eru raunir fjölmiðlamanna orðnar þegar það er orðið fréttaefni út af fyrir sig að blaða- og fréttamenn sitji í Ráðhúsinu, við þá vilji enginn tala og þar með sé ekkert að frétta! Ef miklar hræringar eru á annað borð í og við Ráðhúsið, og hafa verið í allan dag, er ansi aumt að skila auðu í fréttatíma eftir fréttatíma og hafa fátt annað fram að færa en endurteknar speglasjónir um málmþreytu í núverandi meirihluta. Það er nú ekki beinlínis nýjabrum á þeim tíðindum. En er ekki hugsanlegt að málmþreytu sé líka að finna í minnihlutanum og þar sé komin skýring á óróanum? Einn nánasti samverkamaður Óskars Bergssonar borgarfulltrúa um árabil skrifaði á bloggsíðu sína kl. 13:43 í dag (miðvikudag) eftirfarandi klausu sem segir öllu meira en ekki-fréttir hefðbundinna fréttamiðla:

Dagur Eggertsson segir í fréttum í morgun að samstaða minnihlutaflokkana í borgarstjórn sé mikil.  Þar hefur þó borðið nokkurn skugga á.   VG og Samfylking stukku til við úrskurð Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun og fögnuðu niðurstöðunni og stóðu að frestun framkvæmda.   Þetta var gert án nokkurs samráðs í minnihlutanum og ekki öllum framsóknarmönnum að skapi.   Eftir þetta fagn er ljóst að málefnaleg samstaða minnihlutans í atvinnumálum er ekki til staðar.  Atvinnumál eru brýnustu málin í dag.   Fulltrúar Samfylkingar í nefndum og ráðum titla sig síðan sem talsmenn minnihlutans í hinum ýmsu málaflokkum án nokkurs samráðs og taka sér völd og áhrif á nokkurs umboðs.   Svo má auðvitað minna á dæmalausa skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Samfylkingu og lét vera að spyrja um frammistöðu Óskars Bergssonar.   Félagsvísindastofnun skuldar framsóknarmönnum afsökun á arfaslökum vinnubrögðum við gerð þessarar könnunar.

 

 


Gestir Dalvíkinga borgi fyrir tjaldstæðin

Umgjörð Fiskidagsins mikla er orðin hefðbundin og skipulagið öruggt enda vanir menn við stjórnvölinn. Við vorum á tjaldstæði Dalvíkur núna um Fiskidagshelgina sjötta árið í röð. Að vera á tjaldstæðinu er að minnsta kosti helmingurinn af Fiskidagsfjörinu og nánast óhugsandi að breyta út af því.

Auðveldara er um að tala en í að komast að taka á móti öllum gestaflaumi Dalvíkinga svo vel fari. Nú sem fyrr var gisting á tjaldstæðum Dalvíkur ókeypis frá miðvikudegi til sunnudags um Fiskidagshelgina en gestir sem notuðu rafmagn borguðu 200 krónur á sólarhhring - ef þeir á annað borð höfðu fyrir því sjálfir að rölta inn í afgreiðslu sundlaugarinnar og gera grein fyrir sínum málum. Við vorum á tjaldstæðinu í tíu daga samfleytt, borguðum fyrir dvöl og rafmagn en urðum aldrei vör við að tékkað væri á því hvort gestir hefðu greitt fyrir þjónustuna eður ei. Ég skil ekki og hef aldrei skilið af hverju ekki eru innheimt gjöld af Fiskidagsgestum á tjaldstæðinu og tekjurnar meðal annars notaðar til að efla gæslu og þjónustu. Fólk er að fá ókeypis súpu í heimahúsum, fisk og fínerí við höfnina og skemmtidagskrá eins og best gerist. Að bæta fríu tjaldstæði ofan á allt saman er absúrd. 

Rafmagnsmálin á tjaldstæðinu voru sérkapítuli í fyrra og aftur í ár og verða það að óbreyttu líka næsta sumar. Færri en vilja geta stungið í samband og fengið rafmagn í farhýsin sín og álagið er langt yfir mörkum í kerfinu. Þess vegna sló út aftur og aftur og rafmagnslaust var tvær nætur
í röð. Lofthiti á Dalvík fór niður fyrir þrjár gráður um tvöleytið aðfararnótt laugardagsins og þá var nú heldur svalt í svefnstæðum fellihýsins Fengsæls GK úr Álftlandi þar sem rafmagn þurfti til að ræsa gasmiðstöðina!

Skýrum stöfum stóð á upplýsingatöflu tjaldstæðanna að bannað væri að brúka þar rafmagnsofna af því þeir tækju svo mikinn straum. Gott og vel. Vandinn er bara sá að rafmagnsofnar eru orðnir útbreiddir í þessum bransa og meira að segja komst ég að því að í það minnsta tvær tjaldvagnaleigur láta rafmagnsofna fylgja með vögnum sem þær leigja út.  Slíkar græjur eru sum sé orðnar standardbúnaður með tjaldvögnum! Og lái nú hver sem vill fólki sem gengur til hvílu í innan við þriggja stiga hita að það reyni að fá hita í kroppinn með ofni sem það hefur leigt með vagninum sínum. Sjálfur hefði ég borgað tíu þúsund kall fyrir rafmagn nóttina köldu ef einhver orkusveinn hefði bankað upp á og boðið slíka munaðarvöru þá stundina. En raforka var bara ekki föl þá fyrir nokkurn pening og því glömruðu tennur fram undir morgun. 

Þetta rafmagnsástand var verra nú en áður og verður að óbreyttu enn verra að ári. Það er fyrirsjáanlegt með öllu! Aðeins ein leið er til út úr ógöngunum og hún er að sjálfsögðu sú að bæta orkukerfið á tjaldstæðunum og láta notendur borga fyrir þjónustuna. Dalvíkingar eiga núna að horfa á tekjurnar sem þeir neita sér um ár eftir ár, innheimt þær frá og með næsta Fiskidegi og bæta í staðinn þjónustuna, fyrst og fremst varðandi rafmagnið.

Bílakraðak IEitt verður svo að nefna varðandi tjaldstæðin og varðar öryggismál. Hingað til hafa menn verið í þokkalega þéttri kös á aðaltjaldstæðinu og næsta nágrenni á Dalvík, lögreglu og slökkviliði til skiljanlegrar skelfingar, enda ekki hlaupið að því að koma til aðstoðar ef kviknar í eða eitthvað annað alvarlegt gerist í kösinni miðri. Nú gerðist það að menn með málningargræjur birtust á tjaldstæðinu strax eftir verslunarmannahelgi og bjuggu til akreinar um tjaldstæðið fyrir slökkvibíla, sjúkrabíla eða lögreglu, ef á þyrfti að halda. Aðalleiðin gegnum þvert svæðið var hins vegar ríflega lögð, hátt í álíka breið og þjóðvegur eitt, hvernig svo sem menn hafa fundið út að þörf væri á slíku bruðli með dýrmæta landspilduna. Sem betur fer gerðist þess ekki þörf að fara með neyðarbíla um þessar rásir í gegnum farhýsaflóruna. Gestir á tjaldstæðinu óku hins vegar bílum sínum ótæpilega fram og aftur um svæðið dag og nótt og lögðu bílum við tjaldvagna og fellihýsi út um allt, bílum sem áttu auðvitað þar engan veginn heima. Meira að segja dunduðu menn við að girða af bílastæði fyrir sig og sína og koma þannig jafnframt í veg fyrir að aðrir gætu tjaldað á staðnum. Nýtingin á aðaltjaldsvæðinu var því afar slök í ár og þá komum við aftur að því sem nefnt var í upphafi:
Dalvíkingar eiga auðvitað að innheimta gjald af gestum tjaldstæðanna og herða þar gæslu! Vísa mönnum út af svæðinu með bílana sína og þar fram eftir götum, eins og gerist og gengur á öllum öðrum tjaldstæðum á stórhátíðum.


Bílakraðak IITil sanns vegar má færa að auðveldara var að komast um svæðið með slökkvibíla eða sjúkrabíla ef á hefði þurft að halda en þá þurfti líka að passa upp á að aðrir væru ekki á rúntinum á þessum öryggisleiðum. Ég varð vitni að litlu barni sem skaust út á milli tjaldvagna og mátti ekki miklu muna að það anaði undir fjallajeppa sem brunaði í tilgangsleysi þar fram hjá. Ég þykist nokkuð viss um hvaða umfjöllun Fiskidagurinn mikli hefði fengið í fjölmiðlum núna eftir helgina ef barnið hefði verið örlítið fljótara að hlaupa. Öryggisráðstafanirnar í ár (akstursleiðir til neyðaraðstoðar) sköpuðu þannig óbeint nýja hættu á tjaldstæðinu og urðu til þess að dreifa farhúsabyggðinnni meira um bæjarlandið en ástæða var til.


Geir H. Haarde af himnum ofan

IMG_6123Forsætisráðherra landsins kom af himnum ofan til Dalvíkur um Fiskidagshelgina og lenti við hafnargarðinn í sjóflugvél. Við stjórnvölinn var Svarfdælingur af Göngustaðaætt: Arngrímur Jóhannsson, lengi kenndur við flugfélagið Atlanta. Þeir sem voru á gangi niður við Dalvíkurhöfn að kvöldi föstudagsins ráku upp stór augu þegar flugvél kom í sveigju yfir bæinn, hlammaði sér niður á sjóinn og sigldi svo upp að bryggju eins og ekkert væri sjálfsagðara. Enn meira undrandi varð liðið þegar út úr vélinni komu forsætisráðherrahjónin Geir H. Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir áleiðis í súpurölt um Dalvíkina í fylgd Svanfríðar bæjarstjóra Jónasdóttur og Jóhanns Antonssonar. En það gerist svo margt á Fiskidögum Dalvíkinga....


Rokk, flugeldar og súpa

Fiskidagurinn mikli á Dalvík var sá best heppnaði sem við höfum upplifað og Álftlendingar segja því að lengi geti gott batnað. Aðstandendur hans geta því enn og aftur verið býsna roggnir með sig, fjandakornið að hægt sé með nokkru móti að finna veikan blett á nokkrum hlut í skipulagi, undirbúningi og framkvæmd þessarar gríðarlega umfangsmiklu samkomu. Þetta var unaðurinn einn frá upphafi til enda. Bæjaryfirvöld ættu hins vegar að verja tíma í að fara yfir ýmislegt sem að þeim snýr (sjá annan pistil hér á blogginu um tjaldstæðamálin).

IMG_6434Skemmtidagskráin við höfnina á laugardaginn var þéttari en áður með vaxandi spennu í lokin eins og vera ber. Auðvitað var við hæfi að slá botn í samkomuna með Eyþóri Inga og félögum. Og þvílíkur endapunktur hjá drengnum. Ég segi enn og aftur: Þessi drengur er hreint fyrirbæri, stútfullur af tónlist með ótrúlegt raddsvið og fágæta útgeislun. Svo sýndi hann og sannaði þarna að hann kann líka að semja ágætis lög. Ef sýnishornin við Dalvíkurhöfn eru dæmigerð fyrir væntanlega plötu frá kappanum er ástæða til að hlakka til. Hressilegt og hrátt rokk, ekkert fjandans píkupopp. Nóg er nú komið af vælukjóum í þá deild. Með sér á sviðinu hafði Eyþór Ingi fína músikanta úr heimabyggð og þar skal fyrstan nefna Örn á Tjörn, afskaplega skemmtilegan og færan gítarista.

Strákarnir náðu upp rífandi stemningu og lífi á hafnarsvæðinu en það gerðu fleiri. Nokkru áður birtust nefnilega senuþjófar dagsins og fóru á kostum, kennarar í Tónlistarskóla Dalvíkur. Lokanúmerið þeirra var Queen-lagið magnaða, Bohemian Rhapsody. Sá flutningur var einfaldlega í heimsklassa, hreint gæsahúðardæmi. Breski sendiherrann í Reykjavík hlýtur að láta Betu drottningu vita af þessum nýútsprungnu Queen-söngstjörnum á Dalvík. Hún býður þeim þá væntanlega í höllu sína, rennir sér í það minnsta tvöfaldan gin og tónik í kristalkrús, lyngnir augum og hlýðir á dalvískan drottningarsöng.

Hápunktar skemmtidagskrárinnar við höfnina voru sem sagt heimatilbúnir að þessu sinni og ekki einu sinni Rúni Júl skákaði þeim þó í góðum gír væri. Óþarfi að flytja að skemmtikrafta þegar það besta er að finna í eigin ranni og ekki einu sinni allt notað sem tiltækt er. Ég hefði til að mynda þegið í þetta sinn að hlýða frekar á Hund í óskilum en Hvanndalsbræður enn einu sinni. Það kann hins vegar að hafa áhrif þá skoðun að fyrr í sumar eignaðist ég illu  heilli nýju plötuna með þeim bræðrum. Sú var spiluð einu sinni og síðan ekki söguna meir. Subbuskapurinn þar er  Hvanndælingum til lítils sóma.

Og þegar talað er um hápunkta Fiskidagsins í ár verður ekki horft fram hjá tvennum frábærum tónleikum í Bárubúð á miðvikudags- og fimmtudagskvöldið. Á þeim fyrri var Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í aðalhlutverki og hafði sér til samsöngs og trausts dóttur sína, Sigríði Ívu. Sú er nemi í klassískum söng í Osló. Hún kom til landsins deginum áður svo ekki vannst mikill tími til æfinga en óhætt er að segja að framlag hennar hafi fallið áheyrendum vel í geð og rúmlega það. Þórarinn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og auðvitað heiður skilinn fyrir að endurnýja kynni þjóðarinnar við skáldið góða Pál Ólafsson. 

Síðari kvöldið stóð heil familía frá Tjörn á sviðinu: Kristjana Argrímsdóttir, Ösp Kristjánsdóttir, Örn Kristjánsson og Kristján Hjartarson. Verður að segjast að þetta var fyrst og fremst kvöld Aspar. Hún er í djasssöngnámi hjá FÍH í Reykjavík og er þegar orðin miklu meira en efnileg. Svarfdælingar hafa þar með eignast djasssöngkonu í úrvalsflokki og hana nú! Undirleikari á píanó var frænka hennar, Matthildur Anna (dóttir Önnu Kristínar Arngrímsdóttur, leikkonu frá Ásbyrgi). Hún er í námi í píanóleik í Lundúnum og tilhlökkunarefni að heyra meira frá þeim frænkum saman í framtíðinni. 

Örn bróðir Aspar sýndi þarna og svo á sviðinu við höfnina á sjálfan Fiskidaginn að hann er flottur tónlistarmaður og nú nemur hann tónsmíðar í Listaháskóla Íslands svo enginn vafi er á að hann á eftir að láta að sér kveða enn frekar.  Um frammistöðu foreldranna, Kristjönu og Kristjáns, þarf ekki að fara mörgum orðum. Þau stóðu undir væntinum og rúmlega það og auðheyrt var í salnum að áheyrendur hefðu þegið að heyra ögn meira í Kristjönu; hún er bara svo mögnuð söngkona.

Þetta var mikil og góð upplifun bæði kvöldin en það verður að segjast að Bárubúð er ekki salur við hæfi slíkum samkomum. Þarna yfirfullt, einkum síðara kvöldið, og eilíft ráp fólks í gegnum miðjan sal á leið til og frá barnum. Og handan barborðsins var ofan á allt saman hávaðasöm kaffivél sem yfirgnæfði söng og spil þegar áheyrendur voru svo óheppnir að viðskiptavinir pöntuðu frekar ítalskt kaffi en kollu af öli. Kannski má láta sig dreyma um að þessir tónleikar að ári verði komnir í fína menningarhúsið sem lokið var við að glerja fyrir helgina handan götunnar, gegnt Bárubúð?

Þegar öllu var á botninn hvolft var raunverulegur hápunktur Fiskidagsins í ár var hins vegar bryggjusöngur og flugeldasýning við höfnina undir miðnætti á laugardagskvöldið. Þar var blankalogn, léttskýjað, meiri mannfjöldi í brekkum en sést hefur áður, söngur, stuð og alveg listilega vel útfærð og flott flugeldaskothríð á vegum  Sparisjóðs Svarfdæla og björgunarsveitarinnar.

IMG_6269Fiskidagurinn snýst auðvitað um fisk, ekki bara um söng, flugelda, hopp og hí. Nýjungin á matseðlinum var pítsan mikla sem bökuð var í ofni hjá Sæplasti. Ljómandi góður matur og í fyrsta flokki eins og allt annað sem við smökkuðum. Í úrvalsdeildinni voru hins vegar kræklingssúpa Vallabænda, saltsíld í bás Kollu og félaga og svo plokkfiskur Gríms kokks úr Eyjum. Allt unaðslegar vörur sem nægja til að draga matgæðinga til Dalvíkur af öðrum landshornum. Með fullri virðingu fyrir öllu og öllum; þetta þrennt kemur aftur og aftur upp í hugann, ekki síst þessi unaðslega súpa frá Völlum. Er ekki næst á dagskrá að byrja að framleiða austurríska kræklingasúpu a la Bjarni & Hrafnhildur á Dalvík og selja um land allt?


Tíminn vinnur MEÐ flugvellinum!

 Flugvallarmálið bar á góma í símtali við vin á landsbyggðinni um helgina og ég sagðist þá hafa á tilfinningunni að stuðningur við flugvöll í Vatnsmýrinni hefði aukist umtalsvert meðal Reykvíkinga. Niðurstaða þessarar könnunar bendir til að svo sé og er auðvitað ánægjulegt. Enn ánægjulegra er að nú hafa stjórnvöld loksins ákveðið að reisa flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og dagar hinna óboðlegu stríðsárakumbalda fyrir farþega verða þar með senn taldir. Í opinberu orðfæri heitir nýbyggingin að vísu ,,samgöngumiðstöð". Mín vegna mega landspólitíkusar kalla fyrirbærið musteri, minkabú eða hvað sem er annað, ef þeir eru feimnir við réttnefnið gagnvart borgarfulltrúum og öðrum sem vilja flugvöllinn burt, hvað sem það kostar. Flugstöð er þetta hins vegar og verður; langþráð og velkomin framkvæmd. Andstæðingar flugvallarins hafa alltaf sagt: Tíminn vinnur gegn flugvelli í Vatnsmýri. Nú er komið á daginn að tíminn vinnur MEÐ flugvellinum og það er í sjálfu sér merkilegasta niðurstaða könnunar Fréttablaðsins.
mbl.is Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband