Föstudagur, 18. apríl 2008
Upplesari úr Húsabakkaskóla í Bubbabandið
Hið eina dapurlega í kvöld var að Arnar skyldi þurfa að lenda í öðru sæti í þættinum Bandið hans Bubba á Stöð tvö. Að öðru leyti er lífið dásamlegt og drengurinn, sem sigraði í upplestrarkeppni grunnskólanna forðum sem fulltrúi 7. bekkjar í Húsabakkaskóla sáluga í Svarfaðardal, hefur formlega fengið löggildingu sem rokkstjarna Íslands.
Við sem höfum séð hann á sviði áður nyrðra segjum auðvitað: Við vissum það, við vissum það! En við vissum raunar ekki að strákurinn væri svona andskoti og svakalega góður eins og hann sýndi í keppninni um söngvarasess í Bubbabandinu.
Nú er þessari föstudagsveislu lokið fyrir þá sem heima sitja en Eyþór Ingi á örugglega eftir að hlýja okkur meira og oftar. Strákurinn er perla og náttúrubarn, fágætt efni í söngvara, leikara og ég veit ekki hvað. Ég segi bara: Til hamingju Svarfdælingar með okkar mann (Dalvík er jú afar geðslegt þéttbýli í Svarfaðardal og Eyþór fyrrum nemandi í Húsabakkaskóla sáluga - sem auðvitað skilaði honum á tindinn nú....).
Það var gaman að sjá Stebba frá Tungufelli á skjánum í kvöld, á sínum stað í hesthúsinu, stoltan afa. Og hann var greinilega mættur ásamt ömmunni, Önnu Möggu, og fleiri góðum sveitungum sem létu vel til sín taka. Þetta var rosalegt kvöld og gleymist ekki í bráð. Meira að segja Júlla Fiskidagsforstjóra sást bregða fyrir í sjónvarpssalnum. Það verður nú ekkert slor hjá honum að hafa sveitungana á Fiskideginum mikla í sumar: Eyþór Inga og Friðrik Ómar, annan oddvita Bubbabandsins og hinn nýbúinn að leggja Evrópu að fótum sér í Evróvisjón. Rolling Stones hvað?
Það kemur þáttur á eftir þessum þætti í sjónvarpi. Ár og dagar líða hins vegar þar til kemur jafnoki Eyþórs Inga upp á stjörnuhimininn í svona keppni, alveg öruggt mál. Og ég myndi reyndar ekki hika við að segja þetta þó hann væri frá Grenivík, Grindavík eða Grundarvirði. En það er alveg sérlega sætt að geta sagt það af því drengurinn er Svarfdælingur.
Ég þvældist inn í matsal Húsabakkaskóla sáluga á sunnudaginn var, eftir fermingarveisluhöld á Grund. Haldið þið þá ekki að ég hafi rekist á verðlaunaspjaldið hans Eyþórs Inga úr upplestrarkeppninni forðum uppi á vegg í matsalnum? Upplesari númer eitt í den tid, rokkari númer eitt í kvöld. Hallelúja.
Mánudagur, 14. apríl 2008
Kappakstur niður Borgarfjörð
Aldrei hefi ég séð jafn marga aka jafn hratt og glæfralega á jafn skömmum tíma og á sunnanverðri Holtavörðuheiði og niður Borgarfjörð síðdegis í gær. Það var engu líkara en heilu hjarðirnar væru að flýja náttúruhamfarir eða stríðsástand norðan heiðar og vildu hætta lífinu til að komast í skjól fyrir sunnan. Þarna sáust allar tegundir af fíflagangi í umferðinni og í mörgum tilvikum ráðsett fjölskyldufólk á dýrindis jeppum í göfugum klassa. Því lá á. Meira að segja var einn hraðakstursbíllinn númeraður Pabbi og það var ekki sérlega notalegt að sjá hann þjóta fram hjá röð af bílum í lest sem var á milli 90 og 100 km hraða. Mörgum lá sem sagt á og hvergi löggu að sjá. Morgunblaðið greindi samt frá því í morgun að einn hefði verið hirtur í Borgarfirði á 150 km hraða í gærkvöld og aðrir tveir á yfir 120 km hraða. Það hefðu mörg ökuskírteini fokið ef hraðamyndavélum hefði verið beint að umferðinni á þjóðvegi 1 í Borgarfirði um kaffileytið en dólgarnir þá sluppu. Það eru auðvitað mannréttindi þeirra að drepa sig sjálfa með þessu hátterni en verra er að miklar líkur eru á að þeir drepi okkur líka í leiðinni. Annars vakti það athygli mína að hvergi sást til löggæslu landsmanna á för okkar um helgina, norður í Eyjafjörð á laugardag og til baka á sunnudag. Ætli það sé bara ekki í fyrsta sinn sem keyri í tvígang milli landshluta án þess að nokkur lögga verði á veginum. Þegar hraðadólgar taka völdin á vegunum saknar maður laganna varða, til dæmis þeirra sem gerðir eru út frá Borgarnesi í uppsveitum Borgarfjarðar í gær.
Föstudagur, 11. apríl 2008
Af himnum ofan í úrslit
Eyþór Ingi sýndi og sannaði í kvöld - enn einu sinni í Bandinu hans Bubba á Stöð tvö - að hann á heima í úrslitum keppninnar og þangað er hann nú kominn. Dómnefndin við eldhúsborðið hér á bæ hefur haldið því fram undanfarið að andstæðingur Dalvíkingsins í úrslitarimmunni yrði Telma en frammistaða hennar var sjónarmun lakari en drengjanna og á slíku falla menn þegar komið er svona langt. Bubbi kóngur ræður að lokum og hann sendi Telmu heim.
Þátturinn í heild var annars sá besti hingað til. Frammistaða allra þriggja þátttakenda mjög góð, dómnefndin fór á kostum og húshljómsveitin er auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Þetta er á allan hátt firnagott sjónvarpsefni!
Eyþór Ingi söng fyrst lag eftir Villa Naglbít, einn úr dómnefndinni (það er samt út af fyrir sig ekki skynsamlegt að flytja lag eftir aðaldómara eða gestadómara í svona þætti). Þokkalegt lag og fínn flutningur en það reyndi ekki sérlega mikið á okkar mann. Í seinni hluta þáttarins fór Dalvíkingurinn hins vegar til himna í öllum skilningi þegar hann brá sér í hlutverk sjálfs Ésúsar Maríusonar í lagi úr söngleiknum Jesus Christ Superstar. Flutningurinn og frammistaðan var í sérflokki, það lang lang besta sem sést hefur í þáttunum frá upphafi. Margfalt gæsahúðardæmi. Dómnefndin var svo gott sem kjaftstopp og Bubbi kóngur stóð upp klappandi með þeim orðum að svona söngvaraefni hefði hann ekki heyrt eða séð fyrr öll 28 árin í bransanum.
Arnar Már verður erfiður að eiga við í úrslitaþættinum. Hann hefur sótt í sig veðrið og hefur ekki verið betri en í kvöld, einkum í seinna laginu. Hann er mikil rokkaratýpa og Bubbi er einmitt að leita að rokkara í bandið sitt. Og ræður því einn og sjálfur hver verður valinn, hvað svo sem kjósendur heima segja. Dalvíkingurinn er hins vegar þrumufleygur keppninnar og auðvitað lýkur flugferðinni hans ekki fyrr en á toppnum! Næsta föstudagskvöld verður rafmagnað...
Föstudagur, 11. apríl 2008
Bull um bor II
Enginn starfshópur er jafn viðkvæmur fyrir gagnrýni og hvers kyns aðfinnslum um störf sín og fjölmiðlafólk. Fjölmiðlungar eiga eðli máls samkvæmt að vera í hlutverki gagnrýnandans og þess sem aðhald veitir en kunna mönnum sjaldnast miklar þakkir fyrir gagnrýni í sinn garð. Móðgast jafnvel fyrir hönd alls hópsins! Vikið er með nokkurri þykkju í kjaftadálki í 24 stundum í dag að skrifum mínum um borbullið hér á bloggsíðunni og tekið fram að ég væri almannatengill (vert að ,,halda því til haga" eins og skrifað stendur þar) og að hlutverk almannatengils væri að kynna mál fyrir fjölmiðlafólki en að vísu bara frá ,,einni hlið". Ég er að vísu ekki nógu greindur til að skilja hvað það kemur ófaglegri útvarpsfrétt við, nema þá að ég geti sjálfum mér um kennt af því ég hafi ekki staðið mig nóg vel í að skóla fjölmiðlamenn á sínu sviði! Hugsanlegt er að hugsunin á bak við klausuna hafi verið allt önnur, hvað veit ég. Alla vega var fréttin umrædda hvorki frá einni né neinni hlið...
PS.
Lífið getur verið dásamlegt í fjölmiðlaheimum. Á dögunum klóraði ég mér dálítið í kollinum yfir langri og ítarlegri kynningu í Kastljósi á nýjum kjaftaþætti sem var að fara að hefja göngu sína á Skjá einum. Endurtek: dagskrárkynning í sjónvarpi ríkisins á þætti einkastöðvar og meints keppinautar á markaðnum. Svo rak ég augun í það í dagblaði að gestur í næsta þætti Svalbarðaþáttarins á Skjá einum væri einn af umsjónarmönnum Kastljóss. Þetta nefni ég ekki sem gagnrýni heldur hrós. Það er lofsvert á samdráttartímum að fjölmiðlamenn skuli tala hverjir við aðra. Hlýtur að einfalda vinnudaginn og létta byrðar af öxlunum að fara ekki yfir lækinn til að sækja vatnið.
Fimmtudagur, 10. apríl 2008
Bull um bor
Aprílgabb fréttastofu Útvarpsins var aðeins of seint á ferðinni, ég leit samt til öryggis á dagatalið á meðan hádegisfréttirnar voru í loftinu í dag. Fréttamaður og talsmaður áhugafélags um jarðgöng fyrir austan töluðu um það eins og ekkert væri sjálfsagðara að það kæmi til greina að Austfirðingar rykju nú í að kaupa bor 2 í Jökulsárgöngum og nota þar til að tengja saman sveitarfélögin á Mið-Austurlandi frá Eskifirði til Seyðisfjarðar og þaðan til Fljótsdalshéraðs. Vonandi hefur hvorki vakað fyrir spyrli né viðmælanda að gera hlustendur sem heima sátu að fíflum en ég leyfi mér samt að halda að þetta teljist vel og alvarlega meint hjá mönnunum. Það kann vel að vera að viðmælandinn stand í þeirri trú að einhver glóra sé í þessu tali en þá er það af því að fjölmiðlarnir hafa óskaplega lítið skipt sér af því að fjalla um fjölda merkilegra tækni- og verkfræðilausna við framkvæmdirnar eystra, þar á meðal borana.
Ég spurði Impregilomenn um það síðast í gær fyrir austan hvort einhverjir fjölmiðlamenn hefðu talað við sérfræðinga þeirra um borinn til að glöggva sig á ýmsum staðreyndum mála, í tilefni af þessari undarlegu umræðu um kaupa bara borinn. Svar: Nei. Þeir hafa hins vegar svarað erlendum fjölmiðlamönnum um tæknilega hluti sem varðar borverkefnið hér en aldrei íslenskum. Forstjóri Robbins, bandaríska fyrirtækisins sem framleiddi Kárahnjúkaborana, flutti afar áhugavert erindi um borana og Íslandsverkefnið á opinni ráðstefnu í Reykjavík í september 2007. Enginn íslenskur fjölmiðlamaður hlýddi á en hins vegar var í salnum alla vega einn breskur blaðamaður.
Fjölmiðlar sem vinna ekki heimavinnuna sína geta seint orðið upplýsandi og ef íslenskir fjölmiðlamenn hefðu nú kynnt sér borana og borverkefnið, jafnvel hlýtt á forstjóra Robbins líka, ja þá væri engin umræða um að Austfirðingar ættu að kaupa borinn sem var að klára eystra í gær. Það er svo gjörsamlega út úr öllu korti, alveg glórulaust. Menn geta á hinn bóginn velt fyrir sér hvers eðlis jarðgangaverkefni þyrftu að vera til að gangaborar kæmu til greina, yrðu með öðrum orðum samkeppnisfærir við hefðbundna jarðgangagerð. Þá er að sjálfsögðu miðað við að fá bor til landsins með allri áhöfn og tilheyrandi til að vinna verkið og svo færi mannskapurinn aftur úr landi með græjurnar að verki loknu. Slíkar vangaveltur eru í það minnsta raunhæfar, svo langt sem þær ná, pælingin um að kaupa er hins vegar í besta falli síðbúið aprílgabb.
Hið eina sem reyndar vantaði í fréttina að austan í hádeginu vera hvort Austfirðingarnir ætluðu sér að kaupa líka Kínverjana sem stjórna bornum? Einhver verður jú að vinna verkið og ekki nokkur íslensk sála hefur komið nálægt því að stjórna svona tæki og það er aðeins meira en keyra Fíat á milli húsa.
Það má hins vegar segja sem svo að gott sé að eiga jarðgangabor á hlaðinu ef menn eiga á annað borð gras af seðlum og stóra drauma. Gaman væri líka að eignast geimfar og hafa í túninu heima fyrir vestan eða norðan. Það verður ábyggilega frétt morgundagsins.
Föstudagur, 4. apríl 2008
Glansnúmer frá Dalvík
Eyþór okkar Ingi flaug áfram í þættinum hans Bubba á Stöð 2 í kvöld, þökk sé fyrst og fremst síðara laginu sem hann söng, frumsömdu í öllum litum regnbogans. Útsetningin á laginu hans var megaflott og rúmlega það, lagið klingir og flutningurinn klingir sömuleiðis. Þetta er eitthvað sem HLÝTUR að hljóma um götur og torg á næstunni!
Telma lenti í hremmingum í kvöld en spáin við eldhúsborðið er enn á þá lund að hún muni mæta Dalvíkingnum í úrslitum. Það er svo djöfull mikið og skemmtileg rokk í stelpunni.
Það er orðin lumma í þættinum að okkar maður er bara átján ára. Só vott? Svarfdælingar eru bráðþroska í öllum skilningi og eins gott að landsmenn allir fari að átta sig því. Skiptir ekki máli hvort vér ræðum heilabúið, líkamshulstrið eða kynþroskann. Við erum á toppnum.
Eyþór Ingi er glitrandi flottur tónlistarmaður og ég myndi jafnvel segja það fullum fetum þó hann væri úr öðrum héruðum, meira að segja úr Þingeyjarsýslu. Hann er alveg rosalega hæfileikaríkur og flottur! Stressaður að vísu í flutningi á Trúbrotslaginu Starlight í kvöld en algjörlega pollrólegur og þéttur í síðara númerinu í þættinum, eigin smíð sem ég trúi að eigi eftir að koma út á safnplötu og hljóma grimmt í útvarpi.
Þessir þættir á Stöð 2 eru virkilega flottir og fast pallborð dómara er jafnan flott. Gestadómarar eru hins vegar upp og niður. Páll Rósinkranz var litlaus og leiðinlegur í kvöld. Söngnúmerið hans var mislukkað líka. Hefði einhver stelpa á Dalvík hleypt þessum karakter í barneignarfæri við sig fyrir 18 árum????
Miðvikudagur, 2. apríl 2008
Loksins ný flugstöð í Reykjavík
Ríkisstjórnin og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ætla að reisa nýja flugstöð með hraði í Reykjavík. Það eru gleðileg tíðindi og sýna að fregnir um yfirvofandi andlát Vatnsmýrarflugvallar eru stórlega ýktar. Því styttist í að unnt verði að setja jarðýtur á hreysin sem farþegar í innanlands- og Færeyjaflugi hafa þurft að þola að nota þarna áratugum saman. Og þó fyrr hefði verið.
Stjórnmálamennirnir kalla fyrirbærið að vísu samgöngumiðstöð til að styggja ekki mussurnar. Flugstöð er þetta hins vegar og flugstöð skal hún heita.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar