Glansnúmer frá Dalvík

Eyþór okkar Ingi flaug áfram í þættinum hans Bubba á Stöð 2 í kvöld, þökk sé fyrst og fremst síðara laginu sem hann söng, frumsömdu í öllum litum regnbogans. Útsetningin á laginu hans var megaflott og rúmlega það, lagið klingir og flutningurinn klingir sömuleiðis. Þetta er eitthvað sem HLÝTUR að hljóma um götur og torg á næstunni!

Telma lenti í hremmingum í kvöld en spáin við eldhúsborðið er enn á þá lund að hún muni mæta Dalvíkingnum í úrslitum. Það er svo djöfull mikið og skemmtileg rokk í stelpunni.

Það er orðin lumma í þættinum að okkar maður er bara átján ára. Só vott? Svarfdælingar eru  bráðþroska í öllum skilningi og eins gott að landsmenn allir fari að átta sig því. Skiptir ekki máli hvort vér ræðum heilabúið, líkamshulstrið eða kynþroskann. Við erum á toppnum.

Eyþór Ingi er glitrandi flottur tónlistarmaður og ég myndi jafnvel segja það fullum fetum þó hann væri úr öðrum héruðum, meira að segja úr Þingeyjarsýslu. Hann er alveg rosalega hæfileikaríkur og flottur! Stressaður að vísu í flutningi á Trúbrotslaginu Starlight í kvöld en algjörlega pollrólegur og þéttur í síðara númerinu í þættinum, eigin smíð sem ég trúi að eigi eftir að koma út á safnplötu og hljóma grimmt í útvarpi.

Þessir þættir á Stöð 2 eru virkilega flottir og fast pallborð dómara er jafnan flott. Gestadómarar eru hins vegar upp og niður. Páll Rósinkranz var litlaus og leiðinlegur í kvöld.  Söngnúmerið hans var mislukkað líka. Hefði einhver stelpa á Dalvík hleypt þessum karakter í barneignarfæri við sig fyrir 18 árum????

 


Loksins ný flugstöð í Reykjavík

Ríkisstjórnin og borgarstjórnarmeirihlutinn í  Reykjavík ætla að reisa nýja flugstöð með hraði í Reykjavík. Það eru gleðileg tíðindi og sýna að fregnir um yfirvofandi andlát Vatnsmýrarflugvallar eru stórlega ýktar. Því styttist í að unnt verði að setja jarðýtur á hreysin sem farþegar í innanlands- og Færeyjaflugi hafa þurft að þola að nota þarna áratugum saman.  Og þó fyrr hefði verið.

Stjórnmálamennirnir kalla fyrirbærið að vísu „samgöngumiðstöð“ til að styggja ekki mussurnar. Flugstöð er þetta hins vegar og flugstöð skal hún heita.


Heimsendaspár og upplýst umræða

Þegar átti að byggja ráðhús í Reykjavík höfðu heimsendaspámenn sig í frammi í tilefni af því að fuglar lifðu ekki framkvæmdirnar af og húsið myndi í versta falli sökkva í drullu. Ráðhúsið hefur ekki haggast og fuglum hefur fjölgað frekar en fækkað.

Þegar Hvalfjarðargöng komust á dagskrá ruku heimsendaspámenn til og vöruðu við hrikalegum afglöpum sem kosta myndu mannslíf og þjóðina fúlgur fjár þegar bergið ofan þeirra rifnaði og Atlantshafið flæddi inn. Hrakspárskrif og ummæli þeirra urðu fljótlega skemmtiefni á þorrablótum.

Þegar átti að virkja við Kárahnjúka var dregin fram heimsendaspá í mörgum liðum landskjálfta, eldgosa, stíflurofs og hvers kyns hörmunga af völdum Hálslóns. Þar hefur hins vgar nákvæmlega ekkert gerst.

Heimsendaspár eru að sjálfsögðu grasserandi í tilefni af áformum um virkjanir í neðri Þjórsá.

Nýjasti kaflinn í þessum sagnaflokki varðar Sundagöng í Reykjavík. Þar skrifaði fyrrum forstjóri Jarðborana ríkisins grein í Morgunblaðið með heimsendaspá um ómögulegt berg og lek göng. Allt í góðu með það en stórdularfullt var að Moggi skyldi gera frétt um þessi sjónarmið líka og Kastljósið að eltast við þau sömuleiðis. Fjölmiðlar eiga að upplýsa en ekki rugla fólk í ríminu með þvælu.

Það var æpandi augljóst að maðurinn hafði engin efnisleg rök fram að færa heldur lagði út af gefnum forsendum og fór ekki einu sinni rétt með staðreyndir um kjarnaborun í rannsóknarskyni á svæðinu. Heimsendaspár eiga ágætlega heima í annálum á þorrablótum og í kjaftaklúbbum heitu pottanna í sundlaugunum en verða seint taldar efnilegt innlegg í upplýsta umræðu.


MA út með sæmd, Eyþór Ingi áfram með sæmd

Það var ekki tekið út með sældinni að fylgjast samtímis með æsispennandi spurningakeppni MA og MR á skjánum í eldhúsinu og Bandinu hans Bubba á stofuskjánum. Lífsbaráttan á hlaupum um hæðina varð samt léttbærari eftir að Eyþór Ingi hafði klárað númerið sitt, þá lá strax fyrir að hann myndi komast áfram með glans. Verr gekk hjá MA-ingum á köflum en liðið átti eitraðan lokakafla þegar það brúaði stigabilið milli liðanna og knúði fram bráðabana. Þar tapaðist slagurinn en ég segi nú bara: til hamingju MA, þetta var glæsileg frammistaða!

Dómnefndin við eldhúsborðið kvikar ekki frá fyrri yfirlýsingum um að Eyþór Ingi keppi til úrslita um að syngja í Bubbabandinu. Drengurinn er einfaldlega svo skínandi góður og í kvöld sýndi hann rúmlega atvinnumannstakta með því að halda fullum dampi til loka lags þó textinn skolaðist dálítið til. Minni spámenn hefðu auðvitað lent út í ræsi við slíkar aðstæður en sendiherra Dalvíkur skriplaði hvergi á hálu svelli gleymskunnar og söng sig í mark. Hann var mun betri í kvöld en fyrir viku. Drengurinn er með svo mögnuð rokkgen í sér að maður missir sig ósjálfrátt í eins manns sveiflu á stofuparketinu þegar hann treður upp. Og þarf meira að segja ekki dropa af Kalda af Árskógssandi til að missa sig.

Eldhúsdómnefndin er orðin efins um fyrri spádóm þess efnis að Telma keppi í úrslitum við okkar mann. Þó skal hún ekki afskrifuð. Birna Sif var mjög góð í kvöld og Arnar Már er sterkur sem fyrr. Nýjasta spáin er að annað hvort þeirra mæti Dalvík á ögurstundu. Þá verður nú þétt setinn Svarfaðardalur við skjáinn.


Einkaframkvæmd sem ríkið borgar??

Ég var að stauta mig fram úr fréttum dagblaðanna um blaðamannafund ráðaherra fjár- og samgöngumála um Vaðlaheiðargöng og Suðurlandsveg til að reyna að átta mig á hvernig að verkum yrði staðið. Blaðamennirir hafa greinilega ekki haft áhuga á að spyrja eða ráðherrar að svara, nema hvoru tveggja komi til. Ég las fréttatilkynningu um málið orð fyrir orð á heimasíðu samgönguráðuneytisins. Engin svör þar en textinn sá kallaði á enn fleiri spurningar - sem blaðamenn hafa ekki áhuga á að spyrja. Það er talað um í tilkynningunni að þetta eigi að vera einkaframkvæmdir en ríkið borgi svo sinn hlut á næsta aldarfjórðungi eftir að framkvæmdum lýkur. Sem sagt einkaframkvæmd sem ríkið borgar, að minnsta kosti að einhverju leyti eða hvað? Ekki orð um veggjald en Fréttablaðið greinir frá því að Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi upplýst á blaðamannafundinum að veggjald stæði líklega undir helmingi kostnaðar við Vaðlaheiðargöng. Af hverju upplýsti samgönguráðherra það ekki sjálfur?  Af hverju er ekki stafkrókur um veggjald í fréttatilkynningunni um málið? Hvernig á yfirleitt að standa að þessari framkvæmd? Hvernig í veröldinni stendur á að fjölmiðlar sitja heilan blaðamannafund með ráðherrum, alþingismönnum og embættismönnum og hafa ekki rænu á að skýra fyrir þeim er heima sitja hvað er í gangi?

Það skiptir auðvitað máli að einkarekstur fái að blíva í samgöngumálum, hann hefur sannað sig í Hvalfirði. Það skiptir auðvitað máli að einkarekstur sé þá einkarekstur en ekki pilsfaldakapítalismi eins og þokukenndar upplýsingar frá gærdeginum benda til. Og það skiptir máli að veggjald sé innheimt í Vaðlaheiðargöngum til að viðhalda þessu rekstrarformi til frambúðar. Verði veggjald nefnilega ekki innheimt víðar en í Hvalfirði á allra næstu árum fjarar hratt undan einkarekstri sem slíkum í samgöngukerfinu hérlendis og það væri afar slæmt. Gott er að vita að sjálfstæðismenn í ríkisstjórn vilja veggjald undir Vaðlaheiði - sem þýðir jafnframt að veggjald verður innheimt áfram í Hvalfirði í samræmi við samninga þar að lútandi. En hikstar hinn stjórnarflokkurinn á hugtakinu veggjald?


Eyþór Ingi á beinni braut

Dalvíkingurinn Eyþór Ingi fór í gegnum Bandið hans Bubba á Stöð tvö í kvöld eins og að drekka vatn. Spáin við eldhúsborðið í Álftalandi er að hann mæti Thelmu í úrslitum. Hún var drulluflott og söng gamla Flowers-slagarann Slappaðu af mikilli innlifun og öryggi.

Ég sá Flowers einu sinni á sviði í gamla daga og fannst bandið rífandi gott. Það spilaði á bakka Laugardalslaugar 17. júní og hvorki fyrr né síðar hefi ég komið í áhorfendastúku sundlaugarinnar í Laugardal. Þangað kemur reyndar yfirleitt ekki nokkur kjaftur -  nema japanskir túristar að rýna niður í heita potta og feimnar stelpur, sem hlaupa þangað upp þá sjaldan sólarglenna er, til að baka sig að ofan. Greyskinnin þora ekki að týna af sér brjóstpoka í almenningnum.

Það rifjaðist upp að kerlingar af báðum kynjum æstu sig yfir söngvara Flowers fyrir sviðsframkomuna forðum , einkum og sér í lagi þegar hann söng Slappaðu af. Þá dillaði hann bossanum úr hófi og kerlingar skrifuðu Velvakanda í sálarangist sinni. Svo hætti Jónas R. að syngja og gerðist hrossasendiherra fyrir Guðna Ágústsson síðar á lífsleiðinni. Það varð ekki sérlega farsælt dæmi, hvorki fyrir Guðna né Jónas. Helst að hrossin hafi haft ástæðu til að fagna, það er að segja þau sem frekar vildu vera í heimahögum en taka þátt í útrás landbúnaðarráðherrans og fyrrum blómabónda, Jónasar söngvara í Flowers.

Þetta var langur útúrdúr, eins og Össur lendir stundum í þegar hann skrifar á nóttunni. Sá er hins vegar munurinn að hér verður engum slátrað og engin blóðslóð rakin. Svarfdælskur friður og norðlensk ánægja. MA í úrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna í gær, Eyþór Ingi áfram í Bubbaþættinum í kvöld. Lagið sem hann söng, úr smiðju Jet Black Joe, var ekki sérlega merkilegt og drengur náði sér ekki almennilega á flug, í það minnsta ekki í líkingu við það sem gerðist á sama vettvangi fyrir viku. En hann er í úrvalsdeildinni í þættinum og fer langt, mjög langt, og helst í úrslit. Yngsti keppandinn en sá sem virðist sviðsvanastur, öruggastur og flottastur!

Sammála dómurum sem sögðu í kvöld að nú væri komið að því að drengur spreytti sig á rólegum nótum og léti reyna á breiddina sem hann býr að. Hann rokkaði feitt og ræður vel við þannig tjútt. Engin spurning. Nú er að gíra sig niður og koma óvart á lágri tíðni næst.

Unaður einn að sitja við eldhúsborðið, hlýða á þetta þroskaða ungstirni frá Dalvík + aðra í þessum þætti og lepja á meðan úr flösku af páskaöli frá Kalda á Ársskógsströnd. Þetta var sum sé kvöld þessa þá líka fína Dalvíkurbyggðarkokkteils: Eyþór Inga og páska-Kalda af stút. Burt séð frá bandinu hans Bubba: prófið Kalda! Þetta er unaðslegur drykkur. Bloggið samt ekki eftir fleiri en tvo páska-Ströndunga. Þá gæti blóð farið að fljóta, eins og dæmin sanna.


Niðurskorið morgunútvarp

Dularfull breyting átti sér stað í morgunútvarpi Rásar eitt í dag og ekki til bóta. Allt í einu vöknuðu landsmenn upp við að eiginlegt morgunútvarp byrjaði ekki fyrr en kl. 7:30 en fram að síðbúnum rismálum ríkisins var þanið klassískt diskótek í þularstofu. Þannig verður þetta víst hér eftir.

Útvarpshlustun að morgni er hluti af rútínu kvunndagsins og nú hafa tæknikratar í Efstaleiti hrært í morgunrútínu þúsunda manna með því að hræra í morgunútvarpinu, án fyrirvara eða skýringa. Hvergi hafði ég heyrt eða séð að þetta stæði til og hvergi hefi ég heyrt eða séð hvernig á breytingunni stendur. Það ættu nú að vera hæg heimatökin fyrir fjölmiðil að kynna breytingar á sjálfum sér í staðinn fyrir að lúskrast svona.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband