Sunnudagur, 2. mars 2008
Fréttablaðið svaf á morðingjaverðinum
Botn er fenginn í danska glæpinn í sjónvarpinu og framundan eru að óbreyttu tómleg sunnudagskvöld við skjáinn. Danirnir höfðu vit á að enda tuttugu vikna seríu þannig að framhald blasir við í það minnsta í tuttugu vikur í viðbót þegar þar að kemur. Í ráðhúsinu í Köben grasserar spillingin og fnyk leggur líka af löggunni langar leiðir. Þetta kann danskurinn og nógur efniviður bíður framhaldsins.
Reyndar var við því búist hér á heimilinu að málið yrði upplýst strax í morgun í Fréttablaðinu til að taka ómakið af Sjónvarpinu og flýta fyrir. Rannsóknarblaðamenn þar á bæ voru í það minnsta snarir í snúingum að kynna morðingja Pressuþáttanna á Stöð tvö á dögunum og aðstoðuðu þannig óbeðnir þá sem höfðu misst af lokaþættinum en hugðust bíða endursýningar. Fallega hugsað. Það er nefnilega búið að sýna danska glæpaþáttinn í danska, sænska og norska sjónvarpinu, sem þúsundir Íslendinga hafa aðgang að gegnum Fjölvarp og gervihetti. Ritstjóri Fréttablaðsins meira að segja búinn að vera sendiherra í Köben, kann sjálfsagt sitthvað fyrir sér í dönsku og allt það. En einhverra hluta vegna virðist Fréttablaðið hafa farist á mis við lausn danskaglæps. Þar með hlýtur nú ritstjórnin að þurfa að taka sig á til að eiga séns í verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku að ári. Engin ástæða samt til að örvænta. Árið er nefnilega ungt og margir margir glæpir eftir sem hægt er að leysa fyrir sjónvarpsáhorfendur áður en sjónvarpið sjálft gerir það.
Laugardagur, 1. mars 2008
Dalvíkingar syngja sig upp á tindinn (Stólinn)
Tveir af betri sonum Dalvíkur gera garðinn frægan, svo um munar. Friðrik Ómar söng sig inn í Evróvisjón um síðustu helgi, ásamt dívunni Regínu Ósk, og nú er Eyþór Ingi Gunnlaugsson á blússandi siglingu inn í bandið hans Bubba.
Eyþór Ingi er hreint náttúrubarn og með ólíkindum hæfileikaríkur söngvari, hljóðfæraleikari, eftirherma og ég veit ekki hvað. Hann gerði það afar gott á stóra sviði Fiskidagsins mikla á Dalvík í fyrra en frammistaða drengsins á lokasamkomu Íslandsmótsins í hestaíþróttum í Hringsholti um miðjan júlí stendur hins vegar upp úr. Hann fór á þvílíkum kostum að áheyrendur og áhorfendur göptu. Örn Árnason, leikari og Spaugstofuróni, var tróð þarna upp líka og eftir atriðið með Eyþóri Inga kom Örn upp á svið og spurði aðstandendur samkomunnar einfaldlega: Hvað kemur ykkur til að kaupa rándýra skemmtikrafta úr öðrum byggðarlögum þegar þið eigið svona snillinga í heimabyggðinni? Von að spurt væri.
Sagan segir að Eyþór Ingi hafi ekki ætlað sér í prófun hjá Bubba, þegar kóngurinn fór um landið að leita að keppendum um söngvaraembætti í bandinu sínu. Bubbi hafi hins vegar heyrt upp þennan undramann út með Eyjafirði, skálmað inn í Sundlaug Dalvíkur og náð í hann. Eyþór komst í úrvalshóp tíu manna sem keppir til úrslita. Í fyrsta úrslitaþættinum, á föstudaginn fyrir viku, fann hann ekki fjölina sína fullkomlega en sýndi vel hvað í honum bjó. Í gærkvöldi rúllaði hann hins vegar yfir keppinauta sína, alla með tölu. Sex stjörnur af fimm mögulegum. Næstu föstudagskvöld verða tilhlökkunarefni því þátturinn Bandið hans Bubba á Stöð tvö gerir sig ljómandi vel og ekki spillir nú að hafa þetta magnaða tundurskeyti frá Dalvík með í bardaganum.
Og góðir hálsar: Framtíðarsýnin er auðvitað þessi:
- Bandið hans Bubba, með Eyþór Inga í broddi fylkingar, kemur fram á hafnarsviði Fiskidagsins mikla í ár.
- Friðrik Ómar kemur mætir til fiskihátíðar, sjóðheitur frá Serbíu, og endurtekur götusönginn sinn frá því í fyrra þegar hann stóð á bílpalli og tryllti þúsundir manna sem troðfylltu götu og nærliggjandi garða. Þetta var ein magnaðasta upplifun Fiskidagsins mikla í fyrra og voru þær þó margar býsna magnaðar.....
Laugardagur, 1. mars 2008
Veggjald í Vaðlaheiðargöngum
Jarðgöng verða grafin undir Vaðlaheiði og gott er nú það. Veggjald á að standa undir framkvæmdakostnaði að hluta og gott er það nú líka. Samfylkingin hafði á stefnuskrá fyrir þingkosningarnar í fyrra að Hvalfjarðargöngin skyldu þjóðnýtt, þ.e.a.s. segja að ríkið tæki yfir rekstur ganganna og veggjaldið yrði þar með lagt af. Slíkt ráðlag hefði auðvitað gengið að þeirri hugmyndafræði dauðri að einkafyrirtæki taki að sér framkvæmd og rekstur samgöngumannvirkja, sem komast ekki á dagskrá hins pólitíska valds í landinu, og fjármagni með gjöldum vegfarenda.
Nú berast fréttir af því að Vaðlaheiðargöng séu komin á dagskrá og ætlunin sé að fjármagna þau að miklu leyti með veggjöldum. Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn gerðu það að skilyrði fyrir stuðningi við framgöngu málsins að veggjöld yrðu í Vaðlaheiðargöngum og þannig verður það. Vissulega eru það pólitísk tíðindi að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar skuli þannig staðfesta pólítískt prinsipp um einkaframkvæmdir í samgöngumálum sem þýðir um leið að veggjaldið blívur í Hvalfirði, Vaðlaheiði og trúlega víðar. Gott er nú það.
Auðvitað væri hið besta mál að losna við að borga veggjald en án þess væru engin Hvalfjarðargöng í dag og án veggjalds kæmu heldur ekki Vaðlaheiðargöng innan tíðar. Ég borga heilar 230 krónur fyrir ferðina undir Hvalfjörð, sem er álíka og 2 bensínlítrar kosta, ef ég dæli sjálfur á geyminn. Ég vil borga gjald fyrir að aka undir Hvalfjörð, undir Vaðlaheiði og um Sundabraut því þannig komast nauðsynleg verkefni á dagskrá fyrr en ella.
Miðvikudagur, 30. janúar 2008
Þorri blótaður að svarfdælskum sið
Það var þess virði að berjast um hríð, fjúki og hálku um heiðar og hæðir til að komast á þorrablót Svarfdælinga um helgina og heima aftur, þó svo heimilisbíllinn héldist ekki á veginum á Holtavörðuheiði á norðurleið. Betur fór þar en á horfðist en giska ljúft var að stinga úr brennivínsstaupinu, sem þorrablótsnefndin skenkir gestum við komuna á samkomuna, þegar komið var á áfangastað með millilendingu í heita pottinum á Grund. Ómögulegt er að lýsa þorrablóti í Svarfaðardal fyrir ókunnugum þannig að allt komist til skila sem nauðsynlegt er að halda til haga í frásögninni. Þetta er bara nokkuð sem verður að upplifa til að njóta og skilja.
Þegar þorrablótsnefndin var skipuð fyrir einu ári mátti augljóst vera að söngatriði blótsins í ár yrðu í góðu lagi og rúmlega það. Ekki þurfti nú annað en horfa til þess að þarna var hinn stórbrotni kórstjóri og tónskáld Guðmundur Óli og þarna var helmingur Tjarnarkvartettsins sáluga, Kristjana og Kristján á Tjörn (þvílíkt og annað eins að nú skuli pólitíkusar í Ráðhúsi Reykjavíkur hafa stolið þessum svarfdælska merkimiða og þykist vera tjarnarkvartett! Það er svona álíka og að Árni Johnsen færi að kalla sig The Beatles). Söngurinn á blótinu var í fullu samræmi við væntingar og eina aðfinnsluefnið er að hafa ekki fengið tónlistaratriðin á geisladiski við útganginn til að geta notið þeirra aftur og aftur.
Sölvi á Hreiðarsstöðum er hinn ódauðlegi fréttaþulur Svarfdælinga og þylur annál ársins yfir samkomunni. Síðastliðið ár var hreint ekki viðburðasnautt frekar en þau hin fyrri og helstu viðburðir voru túlkaðir með leikrænum tilþrifum. Þar bar hæst frásögnina af miðilsfundi kvenfélagskvenna þegar rödd að handan leiðbeindi bændum á Hóli um hvar byggja skyldi nýtt fjós á landareigninni. Mögnuð var líka frásögn af vinnuferð starfsmanna Steypustöðvar Dalvíkur fram í Steindyr þar sem þeir söguðu dyragat á steyptan fjósvegg og afhausuðu í leiðinni mjólkurkú sem múlbundin var við vegginn hinum megin. Ef rétt reynist er þetta fyrsti stórgripurinn á Evrópska efnahagssvæðinu sem felldur er með steinsög og jafnvel hefur verið orðað að skrá dauðdaga kýrinnar á Steindyrum í sjálfa heimsmetabók Guinnes. Steypustöðin yrði þá víðfræg og trekkti jafnvel að túrista. Auðvitað mætti hugsa sér að fara með hugmyndina alla leið og stofna til slátrunar með steinsög fyrir ferðafólk. Gestir Dalvíkinga á Fiskideginum mikla hafa séð með eigin augum mannhafið í kringum Reimar frá Hofsá þegar hann sveiflar sveðju og ristir hákarla í ræmur á bryggjunni eftir reglum kúnstarinnar. Færri kæmust líka að en vildu ef Hjörtur og félagar á Steypustöðinni tækju áskorun um að sýna heimaslátrun að hætti hússins á kaupfélagstúninu. Fjöldatúrismi malar gull og skapar umsvif. Hér væri komin búbót, vel þegin í hvaða byggðarlagi sem er og í raun ígildi mótvægisaðgerðar vegna samdráttar í þorskveiðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Guðsmildi og spaug
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 25. janúar 2008
Sofandi embættismenn
![]() |
Óljós tilmæli varðandi skólahald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 12. október 2007
Nóbelsnefndin úti í skurði
Norska Nóbelsnefndin fer langt með að gera friðarverðlaun Nóbels að marklausu gríni með því að gauka þeim að fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum. Viðurkenningin á heima hjá þeim sem eru í forystu í baráttu fyrir friði og mannréttindum í heiminum en ekki hjá atvinnumönnum í pólitísku froðusnakki - þó þeir séu milljarðamæringar og hafi haft kontór í Hvíta húsinu. Ákvörðun Nóbelsnefndarinnar er niðurlægjandi fyrir þá raunverulegu baráttumenn fyrir friði sem áður hafa fengið friðarverðlaun.
Hvað skyldi koma næst hjá liðinu í Nóbelsnefndinni? Tony Blair? Condi Rice? Angela Merkel? Yes - eða bara sjálfur friðflytjandinn George W. Bush? Það hafði hreint ekki verið vitlausara að velja einhvern úr þeim hópi en Al Gore.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar